09.02.1961
Neðri deild: 58. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 705 í B-deild Alþingistíðinda. (425)

112. mál, ríkisreikningurinn 1959

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það voru einkum tvö atriði; sem komu fram í ræðu hv. 3. þm. Vesturl., sem ekki má lengur láta ómótmælt. Það hefur að vísu verið margendurtekið hér af hv. Framsóknarþingmönnum og þeir treysta því að sjálfsögðu, að enginn nenni að vera að mótmæla þeirri rökleysu og vilji láta það standa ómótmælt í þingtíðindum, en ég tel ekki rétt, að því sé ekki mótmælt hér í hv. Alþingi.

Fyrra atriðið var það, að hæstv. ríkisstj. hefði sent heim stuðningsmenn sína 1959, svo að þeir fengju ekki aðgang að þeim tillögum, sem verið var að útbúa í sambandi við viðreisnina, og þeir mundu aldrei hafa stutt ríkisstj., ef þessi háttur hefði ekki verið á hafður. Þetta eru þau orð, sem hv. þm. hafði um okkur, sem styðjum ríkisstj., og sumir hverjir. hv. þm. Framsfl. hafa hvað eftir annað haldið því fram. En ég skal segja hv. þm. það, hver var aðalástæðan fyrir því, að þingið var sent heim. Það var málæði frá hv. þm. Framsfl., sem var aðalástæðan fyrir því, að það varð að senda þingið heim. Hefur hv. þm. alveg gleymt því, að það var varla hægt að taka fyrir hér í þessari hv. d. eða hv. Ed. eða í Sþ. nokkurt mál, að ekki væri kvatt sér hljóðs utan dagskrár og haldið uppi sífelldu málæði — allan fundinn út, svo að ómögulegt var að taka nokkurt mál fyrir? Ég get upplýst hv. þm. um það, að allt þetta málæði — tekur hvorki meira né minna en 500 þéttskrifaðar blaðsíður í þingtíðindunum. Og þar á Framsfl. mikinn meiri hluta. Ég hélt þó, að það væri ekki auðvelt að slá það met út hjá Sósíalistaflokknum eða Alþb., en það tókst Framsóknarþm. í þessum umr. Þar eru þeir með allmiklu fleiri blaðsíður en samstarfsflokkur þeirra, Alþb. Það var útilokað þá að hafa hér nokkurt starf í þinginu, og það var sannarlega til smánar, bæði einum og öðrum af hv. þm. Framsfl., sem tóku þátt í þeim umr. Og ég verð að segja það, að ég varð undrandi yfir því, þegar jafngamall og reyndur og stilltur þm. eins —og hv. 1. þm. Norðurl. v. lét hafa sig til þess hér að ræða á fjórða klukkutíma ekkert annað en tómt bull bókstaflega til þess að halda hér uppi málæði, svo að ekki væri hægt að koma fram. þingstörfum. Hann komst svo langt að lýsa hér, hvað bændur á Reykhólum fyrir nokkur hundruð árum hefðu haft sér til matar og hvernig þeir hefðu aflað þeirra matvæla o.fl., o.fl., og þetta var allt í sambandi við umr. um framlengingu á lögum um skemmtanaskatt á Íslandi, sem aldrei hefur verið sagt eitt einasta orð um öll þau ár, sem ég hef setið á þingi.

Þetta var eina og. aleina ástæðan fyrir því, að það varð að senda þingið heim. Það var ekki hægt fyrir forseta að neita um þann rétt í þingi að ræða mál. Ég álít hins vegar, að hann hafi gengið of langt í því að leyfa að ræða mál utan dagskrár, eins og gert var hér dag eftir dag.

En það var útilokað að koma á nokkurri þingreglu hér í þinginu allt árið 1959, fyrr en búið var að senda heim suma af þeim, sem aldrei áttu neitt erindi inn á þingið 1959. Þetta var aðalástæðan fyrir því, að þinginu var frestað, en engan veginn hin. Og hv. 3. þm. Vesturl. veit það ósköp vel, að þann þótta eigum við sumir hverjir þm., sem styðjum núv. ríkisstj., að við mundum alls ekki láta bjóða okkur að reka okkur heim til þess að hafa engin afskipti af málunum. Það get ég fullvissað hann um. Hann ætti því ekki að halda svona ræðu einu sinni enn hér í Alþ. og bera fram svona fjarstæður í málfærslunni.

Hitt, sem hann hélt fram og er líka rétt að mótmæla, er, að hér hefði ekki allt verið komið í þrot í atvinnumálum og fjármálum landsins. Það sannar ekki neitt, þó að einhver ögn væri til enn þá í ríkissjóðnum, af því að svo og svo djúpt hafði verið farið ofan í vasa þegnanna. En ef það er rétt, að aldrei hafi verið blómlegra atvinnulíf, aldrei meiri þróun hér og gróska í atvinnulífinu og aldrei meiri peningar til þess að greiða með en þegar vinstri stjórnin fór frá, hvers vegna fór þá vinstri stjórnin frá, því að þau rök, sem voru borin fram áðan, eru algerlega röng? Hæstv. þáv. forsrh., Hermann Jónasson, sá einmitt, hvert stefndi, og hann var ekkert myrkur í máli að láta bæði sinn eigin flokk, samstarfsflokkana, andstöðuflokkana og alla þjóðina vita um það, að ef hann héldi einu spori lengra áfram í þessa átt, þá færi hann fram af björgunum. Það er ekki við, sem höfum búið það til. Á þeirri stundu var Hermann Jónasson raunsær. Og á þeirri stundu bjargaði hann Framsfl. frá að fara í glötunina, og þessi hv. þm. ætti að vera feginn þeirri ráðstöfun, en ekki að vera að gaspra um það nú hér, að allt hafi verið í blóma og það væri engin ástæða til þess að halda ekki áfram þeirri stefnu. Hermann Jónasson vildi nefnilega ekki taka á sig þá áhættu að fara lengra inn í eyðimörkina en hann var kominn með flokkinn og samstarfsmennina, og þess vegna sneri hann við. Hitt hefði auðvitað verið miklu betra, að hann hefði snúið við miklu fyrr. Ef það væri nokkur hæfa í því, að ástandið í atvinnumálum þjóðarinnar og fjármálum hafi verið nokkuð svipað því, sem hv. þm. sagði hér áðan, þá voru það hrein svík við þjóðina, að Framsfl., Alþb. og Alþfl. skyldu ekki halda samstarfinu áfram. Nýlega sagði einn af okkar ágætu þm. hér, — 3. þm. Reykv., að hann væri verkalýðshreyfingin á Íslandi, hann réði alveg yfir allri verkalýðshreyfingunni, það væri hann einn, sem réði þar öllu, hann þyrfti ekki að spyrja neinn annan. Hvers vegna féllst þá ekki verkalýðshreyfingin á Íslandi á tillögur Hermanns Jónassonar um að snúa við? Veit ekki þessi hv. þm., að erlendis voru öll sund lokuð fyrir Íslendinga til þess að fá frekari lán, nema snúið yrði við? Er honum það alveg óljóst? Er honum alveg óljóst, að allir þeir menn erlendis, sem þekktu þessi mái, vildu ekkert orðið gefa fyrir ábyrgðir ríkissjóðs á Íslandi, nema því aðeins að það yrði snúið við í efnahagsmálunum? Ég hef ekki haft mikið að gera við viðskiptamál erlendis og ekkert fyrir hæstv. ríkisstj., en ég hef haft svo mikið að gera við þau mál og þekki svo mikið, að ég veit, að það var ekki hægt að stiga þar nokkurt fet nema reka sig á þessar staðreyndir, að menn erlendis vildu ekki treysta orðið íslenzkri ríkisstj., nema snúið yrði við í efnahagsmálum, utan stórveldið Rússland. Og þetta kallar hv. þm., að sé ákaflega blómlegt æviskeið í voru landi.

Ég hef nú setið lengur á þingi en hv. þm. og get sagt honum það, að raunverulegasta uppbyggingarstarfið var einmitt á árunum, sem Framsfl. var ekki í stjórn. Það var á árunum 1944–47. Það var raunhæfasta starfið. En þá sviku hálfbræður Framsfl. það samstarf, og þeir sviku það vegna þess, að þeir mátu meira áhuga og umhyggju fyrir stórveldinu Rússlandi en þegnum Íslands.

Og nú vildi ég gjarnan spyrja hv. þm.: Hvers vegna hefur það fallið í skaut Framsfl. þessi ár síðan 1940 að svíkja alla þá samstarfsmenn, sem flokkurinn hefur verið með í ríkisstj.? Hverjir voru þessir seku, er hlupu frá stjórninni 1940, þegar Hermann Jónasson gat ekki lengur setið þá? Hverjir voru það, sem vildu ekki taka þátt í uppbyggingunni 1944–47 vegna reiði við sumpart andstöðuflokkana og sumpart við þjóðina, að þeir skyldu ekki kunna að meta forustu Framsfl. í landinu? Og hverjir voru það, sem sviku samstarfið 1949? Það voru ekki sjálfstæðismenn, og það var ekki heldur Alþfl. Nei, það var Framsfl. Þá þóttist hann hafa hag af því að rjúfa þá stjórn og svíkja hana. Hverjir voru það, sem stóðu á móti því, að hingað kæmu til landsins 32 togarar 1947, sem samið var um 1945? Hverjir börðust á móti því? Hvaða þm. var það, sem þá sagði, að þetta yrði allt saman tómt rusl, þegar það kæmi til landsins, og lýsti því með þessum orðum, eins og einhver karl, sem hefði komið í vatnsmyllu og sagt: Fyrst var spýta, svo var önnur spýta í kross og þriðja spýta í kross og svo fór allt í ganginn, — en þessi uppbygging sjálfstæðismanna mundi aldrei fara í ganginn? Þetta voru spádómarnir þá, og frá hverjum kom svona spádómur? Var það ekki frá einum hv. þm. Framsfl.? Þeir voru þá ekki með að byggja upp. En hverjir voru það þá, sem fyrst og fremst vildu halda áfram þessari uppbyggingu undir miklu óhagstæðara fjárhagskerfi 1947–49 og vildu þá ólmir kaupa 10 togara í viðbót með margfalt dýrara verði og margfalt erfiðari lánskjörum? Það voru framsóknarmennirnir, sem svo hlupu frá vandanum 1949. Og hverjir hlupu frá 1953? Það var enn Framsfl. Og hverjir hlupu frá 1956? Og hvaða maður var það þá, sem mest át ofan í sig af öllum ummælum um kommúnistana? Það var Eysteinn Jónsson. Hann gleypti öll þau ummæli, sem hann hafði haft öll þessi ár um kommúnista, mörg góð, mörg rétt, — hann gleypti það allt saman á einni stundu til þess að komast í sæng með þeim til að stjórna landinu. Aldrei hefur Eysteinn Jónsson smækkað sig eins mikið og á þeirri stundu. Og hverjir voru það, sem gengu hér um salina í þinginu 1955—56 til þess að eyðileggja það samstarf, sem var verið að byggja upp hér í landinu með Framsfl.? Það var foringi flokksins, Hermann Jónasson. En hann fékk launin fyrir þau störf sín seinna meir.

Nei, hv. 3. þm. Vesturl. þarf ekki að segja okkur það, sem höfum setið hér á þingi og haft samstarf við þennan flokk, hann þarf ekkert að segja okkur frá því, hvernig það samstarf hefur verið og hvernig þau loforð hafa verið haldin. Að það sé hann, sem sé driffjöðurin í allri uppbyggingu hér á Íslandi, það þarf hann að segja einhverjum öðrum en okkur hér. Ég vildi hins vegar óska þess, að augu Framsóknarþm. opnuðust nægilega snemma til þess að sjá, á hvaða hroðaleið þeir eru í landsmálum með því að falla í faðma við þann flokkinn, sem fyrst og fremst hugsar um hagsmuni annarrar þjóðar en Íslendinga. Og ég vildi óska þess, að formaður Framsfl. bæri gæfu til að snúa við með flokkinn á björgunum, áður en þeir falla alveg niður, eins og honum tókst að láta þá snúa við um haustið 1958 út úr þeirri villu, sem þeir þá voru búnir að leiða sjálfa sig í og alla þjóðina.