09.02.1961
Efri deild: 55. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 726 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

55. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. um breyt, á l. um Fiskveiðasjóð Íslands er komið hingað til þessarar hv. d. frá hv. Nd., þar sem það hefur verið samþ., að vísu ekki fyllilega shlj., en þó með yfirgnæfandi meiri hl. atkv.

Í frv. eru aðeins tvö efnisatriði. Hið fyrra er, að heimild ríkissjóðs til að ábyrgjast lántökur fyrir fiskveiðasjóð verði hækkuð úr 50 millj. í 150 millj. kr. eða jafngildi þeirra í erlendri mynt. Það er nú svo komið fyrir fiskveiðasjóði eftir síðustu gengisbreytingu, að erlendar skuldir hans eru komnar yfir þetta mark eða upp í 641/2 millj. kr., en þörf sjóðsins fyrir lánsfé er mjög brýn og vart í önnur hús að venda en að leita að því erlendis. Þess vegna er nauðsynlegt fyrir sjóðinn að fá ríkisábyrgðina hækkaða til þess að auðvelda þessar lántökur: Það hefur þegar verið gerð ráðstöfun til þess, að hann fái nokkurt viðbótarfé af svokölluðum ICA-peningum, sem fengnir voru hingað á árinu 1959 og samtals námu um 6 millj. dollurum, og verður væntanlega þess ekki langt að bíða, að fiskveiðasjóður geti fengið allverulega háa upphæð af því fé, eða á milli 30 og 40 millj. kr. Þetta er nauðsynlegt, vegna þess að þörf sjóðsins fyrir aukið fé er mjög brýn.

Til dæmis um, hversu gífurlegar lánveitingar sjóðsins eru, má geta þess, að lán á s.l. ári, 1960, voru fyrir innflutt skip 122 millj. og fyrir skip smíðuð hér á landi um 16 millj. Þar við er þó að athuga, að upphæðin, sem greiða þurfti fyrir erlendu skipin, verður ekki greidd öll í einu, heldur er á verulegum hluta hennar nokkur gjaldfrestur. En það er þó greinilegt, að starfsfé sjóðsins þarf að aukast. Það er ekki í önnur hús að venda en að fá erlent lán til starfseminnar og þess vegna nauðsynlegt að hækka ríkisábyrgðina úr 50 millj., sem hún hefur verið bundin við og er bundin við í núgildandi lögum, eitthvað, og hefur hér markið verið sett 150 millj. kr.

Hitt efnisatriðið, sem í frv. felst, er það, að fiskveiðasjóðnum verði heimilað að áskilja sér, að þegar ný lán eru veitt úr sjóðnum, þá endurgreiðist þau með breytilegri fjárhæð, sem nemi gengisbreytingu ísl. krónu á lánstímanum.

Fiskveiðasjóður varð á árinu 1960, í sambandi við gengisbreyt. þá, fyrir mjög tilfinnanlegu gengistapi, sem nam 21.9 millj. kr., og það er ekki eðlilegt, að sjóðurinn beri þessar byrðar og þessa áhættu, heldur séu það þeir, sem lánin taka, sem verði að gera sér ljóst, að um leið og þeir taka þessi erlendu lán, verði þeir að bera þá áhættu, sem slíku fylgir, og borga gengisbreytinguna, ef hún verður á einhverju síðara tímabili, sem lánið stendur.

Fjárhagur fiskveiðasjóðs er að vísu góður og tekjur hans eru óvenjulega miklar á íslenzkan mælikvarða. Hann hefur veitt lán til skipabygginga einna um 230 millj. kr. rúmar, en skuldbundið sig til að greiða í viðbót 100 millj., sem fengizt hafa að láni hjá erlendum skipasmíðastöðvum. Eignir hans eru taldar í árslok 1960, að skuldunum frádregnum, í kringum 224 millj. kr., og er það geysifé á íslenzkan mælikvarða, og er þá búið að draga frá það tap, sem hann varð fyrir á árinu. Árlegar tekjur hans eru líka miklar og hafa á árinu 1960 orðið sem hér segir: Ríkissjóður hefur lagt fram 2 millj. Útflutningsgjald frá 1959, móttekið á árinu 1960, var um 5.4 millj., útflutningsgjaldið 1960 32 millj., og auk þess eru svo vaxtatekjur sjóðsins, 11 millj. árlega og þó rúmlega það, þannig að segja má, að sjóðurinn standi föstum fótum. En svo bezt gerir hann það til lengdar, að hann verði ekki fyrir skakkaföllum eins og þeim, sem hann varð fyrir á árinu 1960, og til þess að koma í veg fyrir það eru ákvæðin í 2. gr. frv. sett.

Ég skal geta þess að, lokum, að bæði Landssamband ísl. útvegsmanna og stjórn fiskveiðasjóðsins sjálfs hafa sent hv. Nd. umsagnir sínar um frv, og mælt eindregið með því, að það yrði samþ., enda er óskin um, að frv. yrði flutt, frá fiskveiðasjóði sjálfum komin.

Ég leyfi mér svo, herra forseti, að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.