14.12.1960
Neðri deild: 38. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

4. mál, ríkisreikningurinn 1958

Frsm. (Birgir Kjaran):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, frv. til laga um samþykkt á ríkisreikningnum fyrir árið 1958, hefur verið til athugunar hjá fjhn. hv. d., og hafa tölurnar verið bornar saman við ríkisreikninginn. Sjálfar niðurstöðutölur ríkisreikningsins gætu sjálfsagt gefið tilefni til einhverra hugleiðinga, en ég mun ekki víkja að því að þessu sinni. Hins vegar hefur fjhn. séð ástæðu til þess að vekja athygli á tveim till. yfirskoðunarmanna ríkisreikninganna. Hin fyrri er við 17.–22. gr., sem varða rekstur ríkisútvarpsins og viðtækjaverzlunar ríkisins, en hliðstæðar athugasemdir þessu hafa birzt í ríkisreikningunum frá yfirskoðunarmönnunum um langt árabil. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að fyrst hafi eitthvað hliðstætt þessu komið fram árið 1948 og siðan árlega. Önnur athugasemdin er varðandi greinarnar 48–51 og snertir Tryggingastofnun ríkisins, atvinnuleysistryggingasjóð og lífeyrissjóð togarasjómanna. Þessar eða hliðstæðar athugasemdir hafa einnig um alllangt árabil verið í ríkisreikningnum, að vísu ekki jafnlengi og hinar fyrri, en þó mjög lengi, og hefur fjhn. talið rétt að beina því til ríkisstj. að taka þessi atriði sérstaklega til athugunar.

Fjhn. hefur annars orðið sammála um að mæla með því við hina háu deild, að þetta frv. verði samþ. óbreytt.