10.03.1961
Neðri deild: 73. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 804 í B-deild Alþingistíðinda. (803)

184. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Frv. það til laga um lánasjóð íslenzkra námsmanna, sem er 184. mál, er í stórum dráttum þess efnis, að breytt er mjög skipulagi lánamála námsmanna, tveir lánasjóðir sameinaðir, aflað er allmikils aukins lánsfjár til þeirra mála og loks gert ráð fyrir því í frv., eins og það var fram lagt í upphafi, að námsstyrkir legðust að mestu leyti niður, en fé, sem til þeirra hefur verið varið, rynni inn í þennan nýja og eflda sjóð til þess að veita námslán. Eins og frv. var fram lagt, gerði það ráð fyrir, að hægt yrði á þennan hátt að tryggja námsmönnum miklu meira fé en áður hafði verið, þó að sú breyting yrði, að það yrði nú allt lánsfé, í stað þess að verið hefur hvort tveggja, styrkveiting og lán.

Síðan frv. þetta kom fram, hafa orðið um það allmiklar umr., bæði hér á þingi og utan þings. Hafa komið fram skoðanir í þá átt, að það sé ekki æskilegt að leggja námsstyrki niður að svo miklu leyti, sem frv. gerir ráð fyrir.

Menntmn. leitaði álits ýmissa aðila um þetta frv. Bæði háskólaráð og stúdentar við Háskóla Íslands mæltu eindregið með því, að það yrði samþykkt, eins og það var fram lagt. Hins vegar komu fram raddir frá stúdentum á nokkrum stöðum erlendis, þar sem eindregið var mælzt til, að styrkjum yrði haldið áfram í ríkara mæli en frv. gerir ráð fyrir. Þetta atriði var því tekið til nýrrar íhugunar, og menntmrh. ákvað að flytja sjálfur brtt. við frv., eftir að hann hafði heyrt þessar raddir og athugað þau rök, sem fram komu. Brtt. þessi er á þskj. 439 og er þess efnis, að þeim námsstyrkjum, sem verið hafa, verði haldið áfram óbreyttum. Þrátt fyrir þessa breytingu er sjálfsagt að gera þá skipulagsbreytingu á lánasjóðnum, sem frv. gerir ráð fyrir, og eftir stendur það, að hægt verður að efla þennan lánasjóð stórkostlega og auka mjög aðstoð við íslenzka námsmenn.

Í áliti menntmn. á þskj. 458 eru prentaðar tvær ýtarlegar töflur, sem sýna, hvaða áhrif það hefur á fjárhag og lánagetu þessa fyrirhugaða sjóðs, ef þeim námsstyrkjum verður haldið, sem hingað til hafa verið. Í dálki 2 á töflu nr. 1 á annarri blaðsíðu álitsins eru taldar upp þær upphæðir eða þær tekjur, sem sjóðurinn missir alls á árabilinu frá 1961–85, og er þar um liðlega 40 millj. að ræða. Ég vil þó sérstaklega beina athyglinni að dálki nr. 6 í þessari töflu, en þar er sýnt, hver líklegt er að verði sú meðalupphæð, sem hægt er að tryggja námsmönnum bæði með styrk og lánum, ef námsstyrkjum verður haldið áfram og þær 40 millj., sem taldar eru í dálki 2, verða óendurkræfar í stað þess að velta inn í lánakerfið. Þá kemur í ljós, að þessi breyting hefur þær afleiðingar, að í stað þess að geta veitt hverjum námsmanni um 25 þús. kr. lán, en það var höfuðtilgangur með þessu frv., verður heildarupphæð styrkja og lána, sem þeir geta átt von á, nokkru lægri, en fer þó aldrei á tímabilinu niður fyrir 20 þús. kr., þannig að hér verður eftir sem áður um stórfellda bót að ræða fyrir námsmenn. Menntmn. er sammála um að mæla með samþykkt brtt. menntmrh., og ef sú brtt. nær samþykki, eru það meðmæli nefndarinnar, að frv. svo breytt hljóti samþykkt hv. deildar.