10.03.1961
Neðri deild: 73. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

184. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég vil aðeins taka fram út af því, sem kom fram hjá hv. 7. þm. Reykv., að meðferð þessa máls hefur algerlega byggzt á þeim fjárupphæðum, sem vitað er í dag að eru fyrirliggjandi sem lán, og í sambandi við fjárframlög ríkissjóðs við þær upphæðir, sem standa í síðustu fjárlögum. Afgreiðsla þessa máls þýðir að minni hyggju engan veginn, að neinn þm. bindi sig við þessar upphæðir sem hámarksupphæðir. Eðlilegast væri, ef leitazt er við að tryggja enn meira fé til þess að hjálpa lánsmönnum, þá komi það til afgreiðslu á sínum stað við fjárlagaafgreiðslu í haust. En að þessu sinni hefur ekki verið sérstaklega rætt um aðrar upphæðir en þær, sem fyrir liggur að hægt er að ráðstafa í þessum tilgangi nú.