10.03.1961
Neðri deild: 73. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

184. mál, Lánasjóður íslenskra námsmanna

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Við meðferð þessa frv., sem hér liggur fyrir um lánasjóð íslenzkra námsmanna, hefur það gerzt í hv. menntmn., að n. hefur lagt til, að samþ. verði brtt. frá hæstv. menntmrh. Þessi breyting er nýlega fram komin, og ég hef ekki athugað hana til hlítar, en mér skilst á hv. frsm. og hæstv. ráðh., að hún eigi að vera i því fólgin, að íslenzkir stúdentar við nám erlendis skuli eiga kost á því eftirleiðis að fá námsstyrki og framlagið til lánasjóðs íslenzkra námsmanna skuli lækka sem þessu svarar eða um nálega þriðjung. Hæstv. ráðh. lýsti því þó jafnframt yfir, að hann skildi þessa breyt. svo, að hún skyldi ekki að neinu leyti koma niður á möguleikum stúdenta hér við háskólann til þess að fá lán úr sjóðnum. Hv. menntmn. segir í áliti sínu, að um það atriði, að námsstyrkir falli að mestu niður, en stóraukin lán komi i þeirra stað, hafi reynzt vera mjög skiptar skoðanir. Það var út af þessu, sem ég kvaddi mér hljóðs til þess að óska eftir upplýsingum. Hv. n. segir, að bæði háskólaráð og stúdentar við Háskóla Íslands hafi mælt með samþykkt frv. óbreytts, en stúdentar á nokkrum stöðum erlendis hafi eindregið mælzt til, að „styrkjunum verði haldið“, eins og það er orðað í nál. Nú veit ég ekki nánar um það, hvaða gögn hafa legið fyrir hv. n. um álit þeirra aðila, sem hér eru nefndir. Ég vildi leyfa mér að spyrja hv. frsm. menntmn. um það, hvað sé átt við með þessu orðalagi: „stúdentar við Háskóla Íslands hafa mælt með því, að frv. verði samþykkt óbreytt“, hvort það séu einstakir stúdentar eða sameiginleg afstaða stúdenta við Háskóla Íslands og þá á hvern hátt sameiginleg. Og á sama hátt vil ég spyrja, hvað það orðalag þýði, sem kemur fyrir siðar í álitinu, að stúdentar á nokkrum stöðum erlendis hafi eindregið mælzt til, að styrkjunum verði haldið, hvort hér sé átt við einstaklinga, sem hafi sent erindi til n. um málið eða hvort um sé að ræða samtök íslenzkra stúdenta erlendis „á nokkrum stöðum,“ eins og það er orðað, og þá hvort ætla megi, að þetta erindi megi skoða sem álit íslenzkra stúdenta erlendis almennt, hvort það sé þannig fram komið. Ég vildi leyfa mér að spyrjast fyrir um þessi tvö atriði hjá hv. frsm.