14.12.1960
Neðri deild: 38. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 56 í B-deild Alþingistíðinda. (84)

4. mál, ríkisreikningurinn 1958

Garðar Halldórsson:

Herra forseti. Ég læt mér í léttu rúmi liggja um mitt upprok, eins og hv. síðasti ræðumaður orðaði það. En það er eitthvað bogið við meðferð talna hjá hv. ræðumanni, þar sem hann segir, að allar tekjur vélasjóðs fyrir skurðgröft hafi verið á þessu ári 4.8 millj., því að samkvæmt ríkisreikningnum fyrir þetta ár er framlag til framræslu rétt við 10 1/2 millj. Að vísu kemur þarna til, hvað gröfur vélasjóðs hafa grafið og hvað aðrar gröfur. En það er vitað mál, að vélasjóðsgröfurnar eru meiri hlutinn af gröfum landsins. Því miður hef ég þetta ekki sundurliðað. En það er furðulegt, ef það getur átt sér stað, að gröfur vélasjóðs grafi innan við helming, því að óumdeilanlegt er það, að rekstur á gröfum vélasjóðs og afköst hafa verið með ágætum og meira en staðizt samanburð við gröfur, sem hafa verið í eigu einstakra ræktunarsambanda yfirleitt. Auðvitað eru undantekningarfrá þessu á báða vegu.

Ég skal bæta einu orði við, út af þessu, sem hv: þm. sagði. Það hefur nefnilega borið nokkuð mikið á áhuga hans fyrir bændunum, þegar hann hefur verið hér staddur á þingi, m.a. í fyrravetur. Hann hefur þá og raunar löngum fyrr verið harður kröfumaður fyrir hönd bænda, jafnvel allra manna kröfuharðastur hér á hv. Alþ., talað um, að hlutur þeirra væri lágur og lítill og að þeim þyrfti að hlynna. En hann má gera sér það ljóst, að ef á að afnema þetta, að bændurnir megi geyma greiðslu á skurðgreftinum, þangað til ríkisframlagið kemur, þá er það ekki leið til að hlynna að bændum eða styðja þá í framfarabaráttunni. Einhvers staðar yrðu þeir að taka peninga til þess, og vitanlega væri ekki hægt að kippa þessu í lag á annan hátt en að bændurnir væru keyrðir út með það fé, sem þessi vinna kostár, áður en ríkisframlagið kemur.