17.10.1960
Efri deild: 5. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 851 í B-deild Alþingistíðinda. (874)

9. mál, verkstjóranámskeið

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég hef síður en svo á móti því, að hv. n. athugi það, sem hv. þm. hér hreyfði. Þetta er að sjálfsögðu álitamál, eins og kemur fram í mismunandi tillögum um það. Ég vil aðeins benda á, að mjög fjölmennir skólar, eins og verzlunarskólinn hér, ég hygg einnig Samvinnuskólinn, hafa starfað áratugum saman og orðið að miklu gagni, þó að próf frá þeim hafi ekki veitt nein sérstök forréttindi lögskipuð, og eru þeir þó ólíkt fastmótaðri en sú fræðsla, sem hér er ætlazt til. Það er vegna þess, að þeir hafa orðið að verulegu gagni, sem menn sækja þá og sótzt er eftir mönnum, sem á skólunum hafa verið, umfram aðra, en ekki vegna þess, að það sé lagaskylda. Verkstjórn er svo ákaflega misjöfn og í svo mörgum ólíkum samböndum, sem á það mundi reyna, hvort forréttindi ætti að veita eða ekki, að ég óttast, að það sé mjög erfitt að semja um það tæmandi reglur, þannig að það kæmi að nokkru verulegu gagni. En ég bendi á þetta einungis hv. n. og d. til athugunar, en ekki vegna þess, að ég hafi neitt á móti því, að þetta sé athugað, því að það tel ég alveg sjálfsagt.