15.12.1960
Neðri deild: 39. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

4. mál, ríkisreikningurinn 1958

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég ætla ekki að blanda mér í þær deilur, sem eru á milli þessara hv. tveggja þm. Það má undarlegt virðast, að hv. 4. þm. Norðurl. e. skuli vera að reyna að mæla því bót, að svo mikið er útistandandi úr vélasjóði hjá bæjarfyrirtækjum og öðrum aðilum, alveg óskyldum landbúnaðinum.

Ég vil aðeins árétta það, sem ég sagði hér áðan, að ekki hefur staðið á því að greiða jarðræktarstyrk í neinu formi á þessu ári, og það er ekki rétt, sem hv. þm. sagði hér áðan, að ég hefði átt í erfiðleikum með að fá þennan styrk frá fjmrn. Það hefur ekki verið komið til mín með aðfinnslur um, að þar hafi verið tregða á greiðslum, enda er það fullvíst, að jarðræktarstyrkurinn hefur ekkí verið greiddur seinna á þessu ári en undanfarin ár og ég ætla nokkru fyrr. Og hvers vegna er þá hv. þm. að halda þessu fram hér? Hefði ekki stjórn Búnaðarfélagsins komið til mín og óskað eftir aðstoð, ef á því hefði staðið að fá þessar greiðslur? Það er ég alveg viss um.

Um það, að búið sé að taka út verkin fyrir áramót, þá er það rétt. Það er venjulega mælt á haustin, áður en snjóar koma, en úttekt er raunverulega ekki búin, fyrr en skýrslugerð er lokið og útreikningum, sem byggjast á úttektinni. Þess vegna er það ekki tilbúið fyrr en seinni hluta vetrar, — sjaldnast. Búnaðarfélagið verður að ganga eftir styrknum til þess að fá hann greiddan. Og það hefur ekki verið komið til mín og óskað eftir aðstoð að fá hann, fyrr en hann hefur verið hafinn. Þess vegna er það út í hött að segja, að það hafi verið tregða á þessu og að ég hafi átt í erfiðleikum hvað þetta snertir.

Ég vildi aðeins taka þetta fram til þess að fyrirbyggja misskilning. sem gæti hlotizt af þeirri fullyrðingu, sem hv. þm. viðhafði hér áðan.