20.01.1961
Neðri deild: 47. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 916 í B-deild Alþingistíðinda. (959)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það eru nokkur orð í tilefni af því, sem hæstv. viðskmrh. sagði. Það var ekki hægt að segja, að hæstv. ráðh. gæfi miklar viðbótarupplýsingar um þetta mál, sem fyrir liggur. En á hinn bóginn gaf hann ýmsar talsvert þýðingarmiklar upplýsingar um önnur atriði og þá sérstaklega um afkomuna út á við á árunum 1959 og 1960. Hæstv. ráðh. sagðist vilja leggja sitt lóð á þá vogarskál, að mynd af þeim efnum gæti orðið sem skýrust í hugum sem flestra landsmanna og sem sönnust, og skildist manni, að þetta hefði að hans skilningi alltaf verið tilætlun hæstv. ríkisstj. En aftur á móti hefðu verið aðrir menn, þ. á m. sumir fyrrv. ráðh., sem væru mjög ámælisverðir, því að þeir hefðu reynt að flækja þessi mál og villa fyrir mönnum og borið brigður á það, sem hinir betri menn úr stjórnarliðinu hefðu haft um þessi efni að greina landsfólkinu.

Ég verð að segja, að þessar bollaleggingar sóma sér heldur illa í munni hæstv. ráðh., þegar tekið er tillit til þess, að hann talar hér fyrir munn ríkisstj., því að einn hinn allra mesti ljóður á ráði hæstv. ríkisstj. hefur verið sá, hvernig hún hefur umgengizt skýrslur þær, sem gerðar eru af opinberum stofnunum í landinu einmitt um þessi efni. En hámarki sínu náði þessi starfsemi hæstv. ríkisstj. einmitt í grg. sjálfs viðreisnarfrv. og þó alveg sérstaklega í þeirri útleggingu, sem á þeirri skýrslu var viðhöfð, og stóð þar fremstur í flokki hæstv. forsrh. og hefur haldið þeirri starfsemi áfram fram á þennan dag. En sú skýrsla, sem gerð var um þessi efni og hét Yfirlit um greiðsluhallann við útlönd 1955–1958 og birt var í grg., fjallaði um það í útleggingu hæstv. ríkisstj., að það hefði orðið greiðsluhalli við útlönd, og það stendur orðrétt í þessu yfirliti: greiðsluhalli samtals á árunum 1955–1958 1050 millj. Og í útleggingunni hét, að þetta sýndi, — og það var alveg sérstaklega hæstv. forsrh., sem lagði sig fram um að greina þjóðinni frá þeirri gæsalappastaðreynd, — að þetta sýndi, að þjóðin hefði lifað um efni fram og á fimm árum hefði þjóðin eytt 1050 millj. meira en hún hefði aflað. Þetta var ekki neinn hégómi, því að á þessu var það byggt fyrst og fremst að leggja á þjóðina gífurlega kjaraskerðingu, sem ríkisstj. hefur verið að bisa við að koma í framkvæmd síðan.

En við leyfðum okkur að benda á og ætlum ekki að biðja hæstv. viðskmrh. afsökunar á því, hvorki í dag né endranær, að þessi tala og þessi málflutningur allur væri hrein fölsun, — hrein fölsun frá rótum á því, hvernig raunverulega væri ástatt um þjóðarhaginn og hvað raunverulega hefði skeð, ekki fyrir það, að tölur væru falsaðar, heldur hitt, að tölur væru settar rangt upp í því skyni að láta þær gefa rangar upplýsingar og leggja út af þeim með blekkingum. Og þetta lá einfaldlega í því, sem nú kemur eins greinilega fram og hægt er að óska sér, að í þessum tölum var talið til útgjalda á þjóðarbúinu og til eyðslu allt það, sem þjóðin lagði á þessum árum í nýjungar, í nýjar framkvæmdir, eins og t.d. Sogsvirkjunina, áburðarverksmiðjuna og sementsverksmiðjuna, og einnig það, sem þjóðin lagði út eða tók að láni fyrir báta og skip og hvers konar önnur tæki. Þetta leyfði hæstv. ríkisstj. sér að kalla eyðslu þjóðarbúsins og bera vott um, að Íslendingar hefðu lifað um efni fram sem þessu nam.

Það var ekki nægilegt fyrir ríkisstj. í þessum blekkingaáróðri að nota niðurstöður þeirrar skýrslu, sem sýndi halla á vörum og þjónustu og ekki heldur hefði verið hægt að nota réttilega með þessu móti, því að þar var líka talið með það, sem flutt var inn til þessara stórframkvæmda, og skip og bátar og annað slíkt, — það var ekki einu sinni nóg að nota þá tölu í þessum áróðri, heldur varð að setja upp enn aðra tölu og kalla hana greiðsluhalla við útlönd, þar sem bætt var við ýmsum öðrum liðum, sem voru enn óskyldari eyðslu en jafnvel þessi tækjaöflun og stórframkvæmdir, og er þá mikið sagt, svo sem afborgunum af skuldum við útlönd, þ.e.a.s. lækkunum á erlendum skuldum. Slíkum liðum var bætt við, og allt var þetta kallað eyðsla og vottur þess, að þjóðin lifði um efni fram. Og niðurstaðan varð þannig 1050 millj. á 5 árum. Og nú leyfi ég mér að spyrja hæstv. viðskmrh.: Vill hann mæla í móti því, að það hafi verið þessi tala, sem kölluð var vottur þess, að Íslendingar hefðu lifað um efni fram, og að það væri einmitt þessi niðurstaða, sem sýndi, að hér hefði verið stórkostlegur halli á viðskiptunum við útlönd?

Ég held, að það sé ekki til neins fyrir einn eða annan að mótmæla því, að þannig var þetta mál flutt, og því kemur það úr hörðustu átt, þegar hæstv. ráðh. er að vara menn við því nú að fara ógætilega með tölur og áminna um að byggja samvizkusamlega á þeim staðreyndum, sem fyrir liggja. Hann ætti að beina þeim ábendingum í aðra stefnu en til stjórnarandstöðunnar.

Hvað hefur svo komið í ljós hér í dag? Hæstv. viðskmrh. hefur upplýst hér í dag, og það er mjög merkilegt, að eftir þessari uppgjörsaðferð, — og ég bið menn að taka eftir því, — eftir þessari uppgjörsaðferð, sem ríkisstj. notaði um greiðsluafkomuna við útlönd á árunum 1955–58, eftir þeirri sömu aðferð, sem hún hafði við að gera upp þetta tímabil, var greiðsluhallinn 1959 730 millj. og greiðsluhallinn á þessu ári, sem nú var að líða, 704 millj. Eftir uppgjörsaðferð ríkisstj. sjálfrar, eins og hún vildi hafa hana, hefur greiðsluhallinn orðið með núverandi gengi 1434 millj. á tveimur árum. Hvað segir hæstv. ríkisstj. um þetta? Er það þá þetta, sem þjóðin hefur eytt um efni fram á þessum tveimur árum undir forustu hinnar nýju valdasamsteypu? Vafalaust, að þeirra skilningi.

En nú hefur mönnunum orðið meira en lítið bilt við, og er það ekkert einkennilegt. Hér um má segja, að það kemur mönnum ævinlega í koll að haga sér í málflutningi eins og hæstv. ríkisstj. hefur leyft sér í þessu sambandi. Nú verður þetta eins skýrt og verða má, því að nú kemur hæstv. viðskmrh. og segir: Það má ekki undir nokkrum kringumstæðum ske það ódæði, að nokkur maður leyfi sér að nota þessa tölu í umræðum um afkomu þjóðarinnar út á við. Nei, það verður að draga alveg stórkostlega liði frá. Það verður að draga frá innflutning á skipum og flugvélum, segir ráðh., ekki hefur því verið kastað út i eyðslu. Það verður að draga það frá. — En hvenær dró núv. ríkisstj. frá innflutning á skipum og flugvélum, þegar hún var að segja þjóðinni frá því, að á fimm árunum, áður en hún tók við, hefði verið eytt 1050 millj. um efni fram? Hvenær var þá dreginn frá innflutningur á skipum og flugvélum? Og eru það aðeins skip og flugvélar, sem skipta máli í þessu sambandi? Það er fleira matur en feitt kjöt, þó að það sé gott. Það er líka þýðingarmikið, að þjóðin eignist orkuver eins og Sogið og framkvæmdir eins og áburðarverksmiðjuna og sementsverksmiðjuna, og ef nokkur glóra á að vera í því að nota þessar tölur á þann hátt, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert, þá á vitanlega líka, eins og við margsinnis bentum á, að taka þessar framkvæmdir og fleiri til greina.

Með þessu hefur verið svo rækilega flett ofan af blekkingum hæstv. ríkisstj., sem hún hefur flutt þjóðinni í þessum efnum, sem frekast verður á kosið. Og það sem bezt er, hæstv. ríkisstj. hefur gert það sjálf, og það var auðvitað æskilegast, að hún gerði það sjálf. Það hlaut að koma að því, að hún gerði það. Þetta hlaut að koma í koll, vegna þess að það hlaut að verða hægt að stilla upp dæmi fyrir árin 1959 og 1960 alveg hliðstæðu við það, sem ríkisstj. gerði fyrir árin 1957 og 1958 og misnotaði svo freklega, að alræmt er orðið og vitanlega til vanvirðu fyrir þá, sem þannig hafa á haldið.

Ég tek fullkomlega undir þau ummæli hæstv. viðskmrh., að menn umgangist þessi mál af háttvísi og greini rétt frá. En eins og ég hef margsinnis tekið fram og augljóst er af því, sem ég hef sagt, fer ekki á milli mála, hvar misbrestur hefur orðið í því sambandi.

Og þessum leik er haldið áfram, því að það eru nefnilega fleiri uppgjör, sem koma til greina í þessu sambandi, en uppgjör á vörum og þjónustu og svo greiðslujafnaðaruppgjörið hliðstætt því, sem hæstv. ríkisstj. lét setja í fyrra í grg. efnahagsmálafrv. Það er líka til uppgjör, sem sýnir gjaldeyrisstöðu bankanna út af fyrir sig. Sú tala segir ekki ákaflega mikið um afkomu þjóðarinnar út á við. Og það veit ég, að hæstv. viðskmrh. viðurkennir hreinlega, að hún segir ekki mikið um það, því að þar er eftir að taka til greina lántökurnar og marga aðra liði, sem koma smátt og smátt inn í uppgjörið eftir því, hversu það er ýtarlega gert og hversu margir liðir eru teknir með. En nú er samt byrjaður sá leikur í herbúðum hæstv. ríkisstj., ég hef ekki mikið orðið var við, að hæstv. viðskmrh. hafi leikið hann, — en það er byrjaður sá leikur að slá því fram, að gjaldeyrisstaða bankanna hafi batnað um svo og svo marga milljónatugi, og nefna það sem einhvers konar sönnun fyrir því, að afkoma þjóðarinnar út á við hafi farið stórkostlega batnandi árið 1960, þó að sú tala út af fyrir sig segi ekki neitt um þau efni. M.ö.o.: það er blekkingaleikur leikinn enn eins og var í fyrra. Nú er bara gripið annað atriði, af því að það hentar betur, og notað í þessu skyni.

Þetta er ekki fallegur leikur, og hæstv. viðskmrh. ætti að beita sér fyrir því, að þessu væri hætt og að hver tala væri látin innihalda í málflutningi það, sem hún raunverulega inniheldur, en ekki eitthvað allt annað, eins og gert hefur verið. Hér er náttúrlega sannast að segja um grundvallaratriði að ræða, því að það er hreint siðleysi að misnota tölur og uppgjör frá stofnunum eins og hagstofunni á þann hátt, sem gert hefur verið. Og svo er óskammfeilnin svo stórkostleg, að þegar bent er á, hvernig niðurstöðurnar eru notaðar og ranglega út af þeim lagt, þá er sagt: Hvað er verið að tala um þetta? Þetta er frá hagstofunni. — Jú, tölurnar eru frá hagstofunni, en það er bara lagt allt annað inn í þær en nokkur maður hefur leyfi til og allt annað en í þeim felst, og svo eru svörin: Þær eru frá hagstofunni. — Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan aðalmálgagn ríkisstj. leyfði sér að viðhafa þessa málsmeðferð í umr., sem urðu um áramótaboðskap núv. forsrh., þar sem þessi tala um gjaldeyrisstöðu bankanna var notuð á villandi hátt, — áreiðanlega af ásettu ráði á villandi hátt, - því að sá sami ráðh., sem breiddi sig út yfir það í fyrra í hliðstæðum nýársboðskap, að þjóðin hefði eytt um efni fram 1050 millj. á fimm árum, og byggði það á þessari þokkalegu stefnu í málflutningi, sem ég lýsti hér áðan, að telja með í eyðslunni allt, sem hafði farið til skipa- og bátakaupa og til Sogsvirkjunarinnar, áburðarverksmiðjunnar og sementsverksmiðjunnar, sá hinn sami ráðh., sem breiddi sig út yfir þetta þá, var ekkert að segja þjóðinni það núna um áramótin, að eftir sams konar reikningsmáta hefði hallinn orðið 1434 millj. á árunum 1959 og 1960. Hvers vegna sagði hæstv. forsrh. ekki þjóðinni það núna á nýársdag, sem er nákvæmlega hliðstæð tala og hliðstæðir útreikningar og þeir, sem hann flutti í fyrra? Og af því að hæstv. forsrh. fór héðan út rétt í þessu, þá skora ég á hæstv. viðskmrh. að hrekja þetta, ef það er hægt.

Þegar hæstv. viðskmrh. ræddi um afkomuna út á við, minntist hann talsvert mikið á, að afborganir af lánum hefðu farið vaxandi og orðið hærri fjárhæð í hlutfalli við hallann á vörum og þjónustu en áður hefði verið. Ég held, að þetta sé ekki neitt einkennileg þróun, þegar þess er gætt, að landsmenn hafa komið sér upp fyrirtækjum eins og áburðarverksmiðju og sementsverksmiðju og öðrum slíkum fyrirtækjum, sem verða til þess, að innflutningur minnkar stórkostlega, því að vörurnar eru framleiddar í landinu sjálfu, og í staðinn fyrir innflutninginn koma svo greiðslur af lánunum, sem tekin voru til að koma fyrirtækjunum upp. Ég held þess vegna, að þessar hugleiðingar hæstv. ráðh. hafi ákaflega litla þýðingu til að sýna mönnum, hvernig þjóðarbúið stendur eða hvernig horfir um þessi mál. Það er stórkostlegur ávinningur að því að byggja áburðarverksmiðju og sementsverksmiðju, þó að afleiðingin af því verði sú, að afborganir og vextir til útlanda hækki frá því, sem áður hefur verið, því að að öllu öðru óbreyttu minnkar við það hallinn á vörum og þjónustu. Hér þarf líka margt fleira að taka til greina, t.d. eins og það, að keypt hefur verið talsvert mikið af skipum og bátum og tekin lán til stutts tíma í því skyni, og þá koma þar þungar greiðslur stutta stund. Það er svo margt í þessu, sem kemur til greina, að einfaldur samanburður eins og ráðherra gerði hefur ekki mikla þýðingu.

Að lokum vil ég svo segja varðandi þennan þátt í málinu, að ég sé ekki betur en að af upplýsingum ráðherrans megi ráða, að afkoma þjóðarinnar út á við árið 1960 hafi verið mjög slæm og allt öðruvísi en þeir, sem fyrir þessari svokölluðu viðreisn stóðu, töldu að mundi verða. Er það sannast að segja hörmuleg niðurstaða af þessu öllu saman, þegar það kemur nú í ljós til viðbótar við allt annað, að niðurskurðurinn á framkvæmdunum og hin mikla kjararýrnun hefur ekki einu sinni náð að verða þess valdandi, að það skapist jafnvægi i bili út á við. Þvert á móti, þrátt fyrir þennan stórkostlega samdrátt í framkvæmdum og niðurskurð á neyzlu verður stórkostlegur halli út á við. Þetta er hörmuleg niðurstaða.

Þá mun ég víkja að hinu atriðinu, sem hæstv. ráðherra gerði að umtalsefni, vaxtabyrði útgerðarinnar. Hann sagði, að vaxtabyrðin væri mjög lítil og hækkun á vöxtum hefði sáralitla þýðingu fyrir útgerðina. Þetta væri auðséð á því, að 2% vaxtahækkun hefði lítil áhrif á rekstrarútgjöld togara, eins og áætlanir hefðu verið lagðar fyrir hann, og einnig á rekstrarreikning fyrir fiskibát. En hæstv. ráðherra hefur náttúrlega aldrei dottið í hug, að fiskverðið kynni að vera lægra til bátanna og togaranna vegna þess, hve vextirnir voru hækkaðir stórkostlega, og þegar þess er gætt, að það eru fiskiðjuverin, sem taka yfirleitt mest af lánunum, sem hvíla á fiskinum, og verða að borga vextina. Hæstv. ráðherra hefur náttúrlega aldrei dottið það í hug, og niðurstaðan af því verður svo sú, að þessi dæmi hafa sáralitla þýðingu eða nánast enga þýðingu eða kannske öllu heldur eru mjög villandi í sambandi við allt málið. Það er staðreynd, að mörg fiskiðjuver i landinu hafa orðið fyrir svo þungum áföllum vegna vaxtahækkunarinnar, að það nemur a.m.k. 15–20% af því kaupgjaldi, sem þau verða að greiða. Er hægt að færa dæmi fyrir þessu, eins og hér hefur verið upplýst, enda er í þessu sambandi skemmst að minnast, að einn merkur athafnamaður hefur gefið um þetta þýðingarmiklar upplýsingar í einu af aðalstjórnarblöðunum, Haraldur Böðvarsson á Akranesi. Þar upplýsti hann, að aðeins nokkur fyrirtæki í einni veiðistöð greiddu 8 millj. kr. í vexti, og það er ekki lágt áætlað, að áður en stjórnin kom til skjalanna, hefur vaxtabyrði þessara fyrirtækja ekki verið yfir 51/2 millj. Það er alveg áreiðanlegt, að stjórnin hefur hækkað með sínum ráðstöfunum vexti þessara örfáu fyrirtækja í einum fiskibæ á landinu um a.m.k. 2.5 millj. kr.

Hæstv. ráðherra nefndi hér tölu um útlán bankanna í útgerðina. Í fyrsta lagi veit maður ekki, hvað er þá talið til útgerðar, hvort öll vinnslufyrirtæki eru þar talin með og öll lán, sem þar eiga að vera, t.d. eins og síldarverksmiðjur og annað slíkt. Í annan stað vantar þarna inn í allt það lánsfé, sem útgerðin hefur frá öðrum aðilum en bönkunum og er stórkostlega mikið fjármagn, enn fremur þau lán, sem útgerðin hefur frá sparisjóðum, sem eru allstórar stofnanir víða í landinu. Þá vantar inn í þetta dæmi öll stofnlánin. Þessi málflutningur hæstv. ráðherra fær því alls ekki staðizt á nokkra lund. Ber það ekki vott um mikla rannsókn eða að djúpt sé kafað, þegar þess er gætt, að hæstv. ráðherra notaði hér til rökstuðnings þessari fullyrðingu sinni um, að vextirnir hefðu litla þýðingu fyrir útveginn, þær upplýsingar, sem Morgunblaðið hefur flutt um þetta undanfarna daga og er orðið að athlægi fyrir um gervallt landið. Einmitt þann málflutning tók hæstv. ráðherra upp í sinni ræðu. Ég gat ekki fundið annað en að hann fylgdi efnislega öllu því, sem þar hefur verið haldið fram um þetta. Þennan kafla ræðu sinnar endaði hæstv. ráðherra með því að halda því fram, að það væri fjarstæða, sem stjórnarandstæðingar hefðu stagazt á, að vextir þeir, sem hæstv. ríkisstj. innleiddi, væru óbærilegir fyrir íslenzkt atvinnulíf. Þá sjáum við, að við höfum fengið viðskiptamálaráðherra, sem heldur því fram, að íslenzku atvinnulífi hafi ekki verið ofgert með 111/2 % vöxtum. Allir, sem til þekkja, vita þó, að það er gersamlega óhugsandi, að íslenzkt atvinnulif geti borið slíka vexti, eins og líka hæstv. ráðh. hefur fengið að reyna, þó að hann vilji ekki játa það, því að hæstv. ríkisstj, hefur neyðzt til þess að lækka vextina nú þegar talsvert, þó að ekki hafi hún gert það nóg.

Þeir, sem standa fyrir atvinnurekstri, vita betur en hæstv. ráðh. um þetta. Það er vafalaust ekki mikið sagt, að það þyrfti að tvöfalda og vel það þá fjárhæð, sem hæstv. ráðh. vildi telja að sjávarútvegurinn í heild þyrfti að gjalda i vöxtum. Svo fjarri lagi voru fullyrðingar hans um það efni.

Hæstv. ráðh. vék hér dálítið að útlánunum. Við höfðum bent á, að hæstv. ríkisstj. hefði lýst því yfir í grg. fyrir viðreisnarfrv., að útlánin mættu ekki fara yfir 200 millj. Síðan benti ég á, hvílík fjarstæða þetta hefði reynzt í framkvæmdinni og fjarri öllu lagi og barnalegt að hugsa sér, að það væri hægt að draga svo stórkostlega saman lánin til framleiðslunnar á sama tíma sem allur rekstrarkostnaður væri hækkaður svo gífurlega og vaxtabyrðin einnig. Reynslan hefur líka sýnt þetta, því að ríkisstj. hefur alls ekkert getað farið eftír þessum hugleiðingum. Það hefur auðvitað orðið að auka útlánin langt fram yfir þessa fjárhæð, og svo endar það með því, að þegar ríkisstj. er búin að keyra framleiðsluna í kút með því að rembast við að komast sem næst þessari fjarstæðu, sem hún hafði einsett sér í byrjun að stefna að, þá verður hún að koma hér með frv. um að auka útlánin til útgerðarinnar og auka útlánin yfirleitt. Það er vitað mál, að þótt hæstv. ríkisstj. sé að láta í veðri vaka núna, að það sé hægt að gera þessi skuldaskil fyrir útgerðina og hjálpa henni, án þess að nokkurt nýtt lánsfé fari í umferð, þá er slíkt hin mesta fjarstæða. Ef þau lán, sem bankakerfið hefur látið út upp á síðkastið út á afurðir, verða að einhverju leyti gerð að löngum lánum í staðinn fyrir að koma inn á næstu mánuðum, þá verður það í reyndinni til þess að auka það fé, sem í heild verður í útlánum, því að vitanlega kemst hæstv. ríkisstj. ekki hjá því að láta bankana lána fyrirtækjunum rekstrarlán framvegis eins og verið hefur. Eða er það meiningin, eins og ég spurði hér um í gær, er það meiningin að draga úr rekstrarlánunum á þessu ári stórkostlega frá því, sem var í fyrra, og lána miklu minna út á afurðirnar en áður hefur verið gert? Þessu svaraði hæstv. ráðh. ekki neitt.

Hæstv. ráðh. var að tala um, hvað það væri ákaflega þýðingarmikið að setja sér markmið. Hann var að tala um það i sambandi við þessar 200 millj. Það hafi eiginlega vantað hér undanfarið, að menn settu sér markmið. Menn ættu að setja markmið og svo ættu menn að keppa einlæglega að því að ná þeim markmiðum. Ég sé nú ekki, hvaða þýðingu það hefur haft í þessu sambandi, þó að ríkisstj. væri að nefna þessa fjarstæðu í fyrra, 200 millj., sem útlánaaukningin ætti að verða. Og hvaða gagn hefur það gert? Ég sé það ekki. Í framkvæmdinni hefur ekkert farið nálægt þessu markmiði, sem kastað var þarna fram, og gagnið get ég ómögulega séð. En ógagnið kem ég auga á, sem liggur í því, að það var verið að rembast við að reyna að halda sér í þessa fjarstæðu, þangað til búið var að gera framleiðslunni stórtjón. Það eru þau einu áhrif, sem ég hef getað komið auga á af þessu „markmiði“, sem hæstv. ríkisstj. setti sér alveg út í bláinn. Ef það á að vera gagn að því að setja sér markmið, verða þær fyrirætlanir að vera byggðar á einhverju raunsæi og einhverri þekkingu um það, hvað hugsanlegt er að gera. Annars verður þetta að stórtjóni, eins og nú liggur fyrir.

Ég spurði hæstv. viðskmrh. að því í gær, hvernig á því stæði, að það hefði verið ráðizt í að gefa út bráðabirgðalöggjöf um þetta mál. Honum hlyti að vera kunnugt um, að slíkt ætti ekki að eiga sér stað, nema alveg sérstaklega brýna nauðsyn bæri til. En hæstv. ráðh. vísaði bara til grg. í þessu efni. En þar segir ekkert, sem hægt er að kalla rök fyrir því, að þurft hafi að gefa út brbl. um þetta. Það er eitthvað á þá lund, sem hæstv. ráðh. endurtók, að um leið og vertíð hæfist, væri nauðsynlegt, að gerðar væru ráðstafanir til að breyta lausaskuldum í föst lán. Hvaða lausaskuldum hefur verið breytt í föst lán? Ég veit ekki um, að einni einustu lausaskuld hafi verið breytt í fast lán. Ég hef rekizt á útgerðarmenn síðustu daga, sem alls ekki hafa hugmynd um, hvort þeir koma til greina í þessu skuldauppgjöri, sem hér er stofnað til, hvort þeir fái nokkra minnstu aðstoð í þessu sambandi. Og það er einfaldlega af þeirri ástæðu, að það hefur ekkert komið út annað en þessi brbl: rammi, og reglugerðin var ekki komin hingað til Alþ., þegar ég fór inn í þennan sal á fund kl. hálftvö í dag. Þá var Lögbirtingablaðið með reglugerðinni ekki komið hingað til Alþingis. Það er því ekkert búið að starfa samkv. þessari löggjöf. Það hefur ekki einn einasti útgerðarmaður á landinu fengið lausaskuld sinni enn þá breytt í fast lán samkv. þessu, og a.m.k. fram að þessu hefur mönnum alls ekki verið ljóst, hvort þeir gætu komið til greina í þessu skuldauppgjöri. Það hefði því verið hægt að ná sama árangri með einhvers konar viljayfirlýsingu af hendi hæstv. ríkisstj. um það, hvað hún ætlaðist fyrir. Og það er algert brot að mínu viti á þeirri reglu, sem að réttu á að hafa um útgáfu brbl., að grípa til þess að þessu sinni varðandi þetta mái.

Hitt er svo annað mál, að maður veit, hvers vegna brbl. voru gefin út. Það liggja til þess pólitískar ástæður. Það liggja til þess þær ástæður, að hæstv. ríkisstj. er alltaf að reyna að finna alls konar aðferðir til þess að ná sjávarútveginum út af því skeri, sem hún hefur siglt honum á, og koma flotanum af stað á vertíðina án þess að gera beina samninga við útgerðarmenn að formi til. Það má ekki vera það form á því, vegna þess að það átti að vera einn liður í hinni nýju efnahagsmálastefnu, að slíkt kæmi ekki til mála og þyrfti alls ekki að koma til mála, því að þetta átti allt að vigta sig sjálft og allt að ganga af sjálfu sér. Og það er þessi þrái hjá hæstv. ríkisstj., þó að hún sjái, að stefnan er farin út um þúfur, og það er farið að gera alls konar ráðstafanir til þess að ýta á flot, — opinberar ráðstafanir margvíslegar, heila keðju, sem við höfum verið að lýsa við umr., bæði fyrir jól og nú í gær. En þó að þetta liggi allt saman fyrir, verður þetta helzt að vera þannig, að það séu ekki að forminu til gerðir neinir samningar. Samt sem áður á að spila spilunum út, og það þarf að spila þeim út nægilega snemma, þannig að það hafi áhrif í þá átt að leysa atvinnuvegina úr læðingi. Stjórnarráðstafanirnar eru gerðar til þess, að flotinn fari af stað, og það er þess vegna, sem gripið er til þess að gefa út þessi brbl. Það er einn liðurinn í því að blóta á laun,- ef svo mætti segja, — það er einn liðurinn í því að blóta á laun. Það er einn liðurinn í því að brjóta þá stefnu um afskiptaleysi í þessum málum, sem hæstv. ríkisstj. var búin að marglýsa yfir að hún mundi hafa. Það er einn liðurinn í því að semja við forustulið útgerðarinnar á bak við tjöldin. Það er einn liðurinn í því að gera opinberar ráðstafanir með samningum bak við tjöldin við forustumenn útgerðarinnar um það, hvað ríkisstj. og ríkisvaldið geri, til þess að útgerðin geti gengið. Þessi útgáfa brbl. út af fyrir sig er þess vegna eins og ein málsgrein í þrotabúsyfirlýsingu viðreisnarinnar, ein málsgrein, ein setning.

Hæstv. ráðh. sagði í þessu sambandi, að hann furðaði sig á því, að okkur skyldi ekki vera kunnugt um, að reglugerðin var undirrituð 14. jan. Hann sagðist furða sig á því. Hvernig áttum við að vita það? Það hefur ekkert verið tilkynnt um það. Ég hef hvergi séð það. Ég hef þó alltaf verið að horfa eftir því í blöðunum, hvort reglugerðin væri komin, en ekki séð neitt um, að reglugerðin hafi verið gefin út, því siður reglugerðina sjálfa. Það er ekki hægt að furða sig á því, að mönnum er það ekki kunnugt, sem voru ekki þar til kvaddir á nokkurn hátt, að reglugerðin var út gefin 14. jan.

Ég hef frétt, að það sé staðfest í þessari reglugerð, sem ég hef ekki séð eða lesið, að ekki eigi að koma til greina, að menn geti fengið stuðning, ef þeir skulda meira en 70% af matsverði eignanna. Þetta ákvæði tel ég ófært. Með þessu móti verða öll þau fyrirtæki, sem skulda meira en 70% af eðlilegu matsverði eigna sinna, útilokuð frá því að fá nokkurn stuðning. Það vil ég ekki fyrir mitt leyti með nokkru móti fallast á. Það geta verið fullkomlega heilbrigð fyrirtæki og átt fullan rétt á sér, þó að þau skuldi meira en þetta. Og hér er um algera stefnubreytingu að ræða frá því, sem áður hefur verið. Stefnan hefur einmitt verið sú að reyna að greiða fyrir því, að ýmis fyrirtæki víðs vegar um landið gætu starfað, þótt þau þyrftu að fá að láni meira en 70% af verði eigna, jafnvel upp í 90% af stofnverði þeirra tækja, sem þau þurftu að afla sér. Ég hef að vísu séð, að annar stjórnarflokkurinn telur, að það hafi verið rangt að styðja þessi fyrirtæki og stuðla að því, að svona atvinnurekstur gæti komizt upp. En ég tel, að þetta hafi í mörgum dæmum átt fullan rétt á sér og það nái ekki nokkurri átt að breyta hér gersamlega um stefnu og útiloka alla frá stuðningi og lánum, sem geta ekki lagt fram 30% af verði eigna af eigin fé. Hér er um grundvallarstefnubreytingu að ræða í uppbyggingu atvinnulífsins, ef þessu verður haldið til streitu. Ég vil biðja menn að skoða þetta. Ég vil biðja menn að gera sér þetta ljóst. Ég vil biðja menn að gera sér ljóst, hvað skeður, ef þessi stefna verður tekin upp og verður haldið við hana. Og það er gleggst í því efni að benda á, að ef þessi stefna hefði verið höfð á undanförnum áratugum, hefði meginhluti þess atvinnurekstrar, sem byggður hefur verið upp víðs vegar um landið, aldrei komið til greina, vegna þess að ekki hefur verið mögulegt í mörgum byggðarlögum að ná saman 30% af stofnverði þeirra tækja, sem fyrirtækin hafa þurft á að halda.

En ég sé eyrnamarkið á þessu. Það er eyrnamark þeirra, sem með þessu öllu saman, sem nú er verið að gera, vilja koma i veg fyrir, að atvinnureksturinn geti orðið byggður upp á þann hátt, sem gert hefur verið á undanförnum áratugum, vilja fyrst og fremst, að atvinnureksturinn sé í höndum þeirra, sem hafa nóg eigið fé, eins og það er orðað á máli Morgunblaðsins, nægilegt eigið fjármagn. Þannig er það orðað. Það hefur alveg sérstaklega veríð fundið að því einmitt í þessu málgagni, að á undanförnum árum hafi menn átt allt of greiðan aðgang að lánum, þeir sem hafi ekki haft nægilegt fjármagn handa á milli. En það er einmitt lífæðin i okkar uppbyggingu, að ríkisvaldið hefur hreinlega verið notað, líka vald ríkisins yfir bönkunum, til þess að stuðla að uppbyggingu þeirra, sem höfðu lítið eigið fjármagn, voru fátækir, þannig að uppbyggingin yrði ekki eingöngu á vegum þeirra tiltölulega fáu, sem með einhverjum ráðum höfðu komizt yfir mikið fjármagn.

Ég vil spyrja hæstv. viðskmrh., hvort það sé stefna Alþfl. að breyta nú algerlega til á þennan hátt og hvort flokkurinn hafi gert sér grein fyrir því, hvað af þessu leiðir, ef þessi regla, sem þarna er sett í þessa löggjöf, á að útfærast einnig í bankapólitíkinni yfirleitt og ríkisábyrgðarpólitíkinni og í sambandi við aðra þá fyrirgreiðslu, sem tíðkazt hefur að láta í té við uppbyggingu atvinnulífsins. Við sjáum, hvað núna er verið að gera í ríkisábyrgðarmálunum, á því frv., sem liggur fyrir um ríkisábyrgðirnar, og við sjáum alls staðar þetta sama. Þetta er allt angi af þeim sama hugsunarhætti, sem lýst var í forustugrein aðalstjórnarblaðsins skilmerkilega á s.l. hausti.

Í þessu sambandi vil ég spyrja hæstv. viðskmrh.: Hvernig verður t.d. litið á atvinnuaukningarféð í þessu sambandi? Atvinnuaukningarféð hefur verið skoðað sem stuðningsfé af ríkísvaldsins hendi til þess að greiða fyrir uppbyggingunni víðs vegar um landið. Er ætlunin að telja þetta fé, atvinnuaukningarfé, með skuldum í sambandi við þessi skuldaskil fyrirtækjanna, og er þá ætlunin að loka þessari fyrirgreiðsluleið fyrir öllum fyrirtækjum á landinu, sem skulda meira en 70% af andvirði eigna, að atvinnuaukningarfénu meðtöldu? Slíkri framkvæmd mótmæli ég gersamlega, eins og yfir höfuð þessari nýju stefnu, sem þarna er upp tekin og ég hef lýst.

Þá hefur verið spurt, hvort þessi aðstoð, þessi lánabreyting eða hvað við eigum að kalla það, væri miðuð við ákveðna heildarfjárhæð. En þessu hefur ekki verið svarað af hæstv. ráðh.

Hæstv. ráðh. hlýtur samt að geta svarað þessu, fyrst hann getur reiknað út, hve mikil vaxtahlunnindi útgerðin fær vegna þessara lána. Er það ekki?

Hæstv. ráðh. sagðist vera búinn að reikna það út, að vaxtahlunnindi útgerðarinnar af þessum lánum yrðu 10 millj. Hann hlýtur þá að geta sagt okkur, hvað hárri fjárhæð í heild hann reiknaði með, þegar hann fékk út þessar 10 millj. Hæstv. ráðh. hefur líka verið spurður að því hér, hvaða vextir mundu verða á þessum lánum, og því hefur hann ekki heldur svarað. En hæstv. ráðh. hlýtur að vita það, því að ekki gæti hann fundið það út, að vaxtahlunnindi þau, sem útvegurinn fær af þessu, verði 10 millj., nema það sé búið að hugsa sér, hvað vextirnir verða. Mér finnst ekki rétt af hæstv. ráðh. að vera að halda þessum upplýsingum, þar sem hann hefur þær, og vildi taka undir þær óskir, sem hér hafa komið fram, að ráðh. gæfi þessar upplýsingar.

Loks er svo eitt atriði enn í sambandi við málið, sem mig langar til að minnast á. Eftir því, sem hæstv. ráðh. hefur talað, og því, sem í frv. stendur, sýnist þetta allt vera byggt á því, að öll lánin verði afgreidd i gegnum viðskiptabankana og upp í skuldir við þá. Hvað verður þá um þau fyrirtæki, sem eru æði mörg í landinu, sem skulda öðrum stofnunum en bönkunum? Eiga þau ekki að koma til greina í þessu sambandi? Getur það staðizt, að þau komi ekki til greina? Þau hljóta að eiga rétt á sér, alveg eins og þau fyrirtæki, sem skipta við bankana. Og ef þetta hefur ekki verið skoðað ofan í kjölinn, vil ég biðja hæstv. ráðh. að athuga það gaumgæfilega, að það eru vafalaust til fyrirtæki í landinu, sem eiga alveg jafnmikinn rétt á aðstoð og önnur, sem skulda öðrum stofnunum en bönkunum, og það er alls ekki víst, að þær stofnanir, sem þau skulda, skuldi bönkunum. Ég vil vona, að hæstv. ráðh. athugi þetta atriði, og má vera, að í reglugerðinni sé eitthvert ákvæði um þetta.

Hæstv. ráðh. kvartaði yfir því, að hann hefði ekki heyrt það á því, sem menn sögðu, hvort menn væru með eða móti frv. Ég lýsti því þó mjög greinilega yfir, að því er mér fannst, að ég teldi frv. stefna í rétta átt að því leyti, sem hér væri gert ráð fyrir að bæta lánakjör útgerðarinnar og lækka vextina. Þessu er ég :hvoru tveggja mjög fylgjandi og fylgjandi meginstefnu frv. að því leyti. En á hinn bóginn sé ég ekki betur en á frv. séu stórkostlegir ágallar, sem verði að leggja áherzlu á að fá lagaða.