24.01.1961
Neðri deild: 49. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 972 í B-deild Alþingistíðinda. (966)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Það hefði sannarlega verið ástæða til að ræða þá furðulegu ræðu, sem hæstv. viðskmrh. flutti hér í gær, í nokkru máli, en til þess hef ég ekki möguleika nú og má ekki misnota, að ég hef aðeins athugasemdartíma, og verð því að láta fáein orð duga að þessu sinni.

Eins og við vitum, var því haldið fram af ríkisstj., að greiðsluhallinn á undanförnum 5 árum hefði verið 1050 millj. og að þetta væri halli á þjóðarbúskapnum. Það er beinlínis tekið þannig til orða í grg. frv., sem viðskmrh. sjálfur talaði fyrir þá, að þetta væri halli á þjóðarbúskapnum, og ekkert dregið frá, hvorki stórvirki á landi né skipa- og flugvélakaup. Á þessum grundvelli var þjóðinni sagt, að Íslendingar hefðu eytt um efni fram 1050 millj. á 5 árum. Nú kemur það fram, að greiðsluhalli, reiknaður á sama hátt, á síðasta ári er meiri en nokkru sinni fyrr á síðari árum, nema aðeins 1959, árið sem Alþfl. stjórnaði með stuðningi sjálfstæðismanna, eða 704 millj. um það bil með nýja genginu. Þá kemur talsmaður ríkisstj. hér, sá eini, sem talar úr þeim herbúðum, og segir: Menn mega ekki byggja of mikið á þessari tölu, því að greiðsluhallinn sýnir út af fyrir sig ekkert um, hvort þjóðin lifir um efni fram.

Hvað segja menn um svona lagaða framkomu? Auðvitað er þetta rétt. Greiðsluhallinn út af fyrir sig segir lítið um þetta. Þar kemur margt annað til greina. En þetta er sagt úr þeim sömu herbúðum sem við fengum hinn málflutninginn. Með þessu er sleginn botninn úr öllum áróðri ríkisstj. um greiðsluhallann 1955–58 og fullyrðingunum um, að lifað hafi verið um efni fram.

Nú segir hæstv. viðskmrh., að það þurfi að draga frá innkaup á skipum og bátum, til þess að hægt sé að dæma afkomuna út á við eftir greiðsluhallanum. Hvers vegna skip og báta? Jú, hann hefur fundið það út, hæstv. ráðh., að það sé svo misjafnlega mikið keypt frá ári til árs af skipum og bátum. En á þá að skilja þennan furðulega hugsanagang þannig, að það sé árlegur viðburður, að keypt sé sementsverksmiðja, áburðarverksmiðja og komið upp virkjun á borð við nýju Sogsvirkjunina t.d., og þess vegna hafi aldrei verið nein ástæða til að draga slíkt frá eða taka til greina við athuganir á afkomu þjóðarbúsins?

Hvað á svona málflutningur að þýða, sem hæstv. ráðh. er farinn að temja sér í þessu efni? Ef á að leita að réttri niðurstöðu í þessu, þá þarf vitaskuld að íhuga, hversu mikið hefur verið gert af óvenjulegum framkvæmdum, en þá eru það kannske sízt skipakaup, sem eiga að dragast frá að fullu, vegna þess að það þarf að kaupa mörg skip og marga báta á hverju ári aðeins til að halda skipaflotanum við.

Það er að vísu æskilegt að fá þessar athugasemdir hæstv. ráðh. fram og játningar, og því vildi ég nota þessar örfáu mínútur til að undirstrika þær.

Þá sagði hæstv. ráðh., að auknar afborganir þyngdu alltaf þjóðarbúskapinn og stundum alveg óhæfilega og að það sýni þjóðartap, það sé höfuðreglan, ef greiðslur af lánum hækki í hlutfalli við útflutningstekjur. Þetta var sú speki, sem hæstv. ráðh. flutti nú þm. og þjóðinni. En allir sjá í hendi sér, að þetta geta verið hinar verstu blekkingar, eins og dæmi, t.d. um sements- og áburðarverksmiðjurnar, bókstaflega sanna. Innflutningur, sem sparast á áburði og sementi, gerir nefnilega miklu meira en vega á móti greiðslunum af þeim lánum, sem tekin voru til þessara framkvæmda. Það hækka greiðslur af lánum, en lækka sennilega tvöfalt eða meira útgjöld vegna innflutnings á sementi og áburði.

En ráðherrann, prófessor í hagfræði, segir okkur, að það sé sönnun fyrir versnandi afkomu þjóðarbúsins og stórkostleg hætta, ef afborganir aukast í hlutfalli við gjaldeyristekjur þjóðarinnar.

Það getur verið hættulegt, ef slíkt á sér stað, en það þarf ekki að vera það.

Einn af hagfræðingum landsins, Benjamín Eiríksson, skýrði frá niðurstöðu sinni í fyrra, þegar þessi mál bar á góma, á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Þjóðin er í alla staði miklu betur fær um að standa undir greiðslu 51/2 millj. dollara árið 1958 en 2 millj. dollara árið 1951, einmitt vegna þess, hve miklar framkvæmdir hafa verið unnar fyrir hið erlenda lánsfé.“

Þetta sagði hagfræðingurinn Benjamín Eiríksson, enda er margathugað mál, að afkoman út á við hafði sízt versnað á þessum árum, og verður það rætt nánar síðar.

Þá var sagt, að allt þetta, sem á þjóðina væri nú lagt, væri gert til þess að bæta greiðslujöfnuðinn við útlönd. En nú upplýsir hæstv. ráðh., að hallinn á viðskiptunum við útlönd er meiri en nokkru sinni fyrr á síðari árum.

Þá var sagt, að þetta ætti að gera til þess að fara að grynna á skuldunum. Var það ekki það, sem sagt var, að það ætti að fara að grynna á skuldunum við útlönd? En upplýst er af einum höfuðhagfræðingi ríkisstj. og augljóst af því, sem hæstv. ráðh. hefur sjálfur upplýst um aðra liði viðskiptanna, að skuldaaukning við útlönd hefur orðið miklu meiri en nokkru sinni áður.

Þá var sagt, að umfram allt ætti að forðast lán til stutts tíma og að auka greiðslubyrðina á næstu árum, það ætti að snúa við í þessum efnum. En nú er upplýst, að ný lán til stutts tíma, nýjar lántökur til stutts tíma eru meiri en nokkru sinni fyrr, þar á meðal einn liður, að búið er að taka á sjötta hundrað millj. kr. lán, sem á að greiða á 3 árum. Vill ekki hæstv. ráðh. leggja fram útreikninga um greiðslubyrðina á næstu árum, til þess að þetta geti orðið skoðað? Greiðslubyrðin hefur verið stóraukin með ráðstöfunum núverandi hæstv. ríkisstj., og það nær skammt, þó að hæstv. ráðh. vilji halda því fram, að þetta jafni sig vegna þess, að yfirdrættir bankanna hafa lækkað, þegar þess er gætt, að jafnhliða þessum stuttu lántökum hafa heildarskuldir, þ.e.a.s. skuldafjárhæð þjóðarinnar í heild, stórhækkað. Ef lækkað hefðu skuldir þjóðarinnar á móti þessum nýju lánum, mátti deila um, hvað var að gerast, en nú hefur skuldaupphæðin í heild stórhækkað.

Loks sagði hæstv. ráðh., að hann og ríkisstj. hefðu aldrei farið dult með, að ráðstafanir ríkisstj. drægju verulega úr neyzlu og framkvæmdum. En er það ekki einmitt það, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að halda að fólki, að það standi jafnvel að vígi og áður að framfleyta sér og sínum? Hafa ekki þeir útreikningar, sem hæstv. fjmrh. hefur verið að leggja hér fram fyrir okkur og birtir hafa verið í blöðum, átt að sýna fram á, að í raun og veru hafi afkomumöguleikar meðalfjölskyldu í landinu ekkert versnað? Það er svo fjarri því, að hæstv. ríkisstj. hafi sagt þjóðinni eins og var um þessi efni.

Að lokum vil ég aðeins endurnýja þá fyrirspurn, sem ég hef komið hér fram með: Hvað hyggst stjórnin fyrir um skuldamál landbúnaðarins?