24.01.1961
Neðri deild: 49. fundur, 81. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (971)

152. mál, stofnlánadeild sjávarútvegsins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég skil það vel, að hæstv. viðskmrh. sé orðinn dálitíð þreyttur. Nú eru búnar að standa hér í eina þrjá daga umr., sem eru orðnar eins og hálfgerðar eldhúsumr., um stefnu ríkisstj., og það er ekki einn einasti ráðh., sem treystir sér til þess að verja stefnu ríkisstj. nema hæstv. viðskmrh. Hann er látinn standa einn í þessu öllu saman, svo að það er svo sem von, að hann sé farinn að þreytast dálítið á þessu, enda fundust mér þreytumerkin auðsæ í síðustu ræðu hans áðan. Ég hafði spurt hann um ýmislegt, og hann vék sér undan flestu af því. Ég spurði hann t.d. að, hvernig það væri með þetta spánnýja, endurreista lánstraust, sem ríkisstj. væri búin að ávinna sér hjá auðdrottnum erlendis með sinni hyggilegu pólitík, hvernig það kæmi út fyrir bæjarútgerð Hafnarfjarðar í sambandi við lánið, sem Benjamín Eiríksson lofaði á fundi Framkvæmdabankans 15. des. s.l. Ég veit, að fyrir utan að vera viðskmrh., þá á, held ég, hæstv. viðskmrh. enn þá sæti í stjórn Framkvæmdabankans. Og nú heyri ég sagt, en veit samt ekki fyrir víst, og því spurði ég, að lánið sé ekki komið enn þá og það sé meira að segja ekki alveg víst, að það komi. Það skyldi þó aldrei vera, að vinur vor Adenauer og kumpánar þar í VesturÞýzkalandi væru farnir að hafa eitthvað minna traust á ríkisstj., að vonir, sem menn gerðu sér fyrir áramót, rættust ekki núna? Ég er hræddur um, að hann hafi sleppt því að svara þessu með lánstraustið, af því að hann sé eitthvað smeykur um, að staðreyndirnar kynnu að verða eitthvað öðruvísi en fullyrðingarnar.

Ég spurði hann líka, hvernig það ætti að vera með 70 prósentin, sem hann minntist á í sambandi við lánin, og ég spurði hann m.a. um tiltekinn félagsskap í því sambandi, eins og Samvinnufélag Ísfirðinga, hvort það væri meiningin að fara að setja gömul, gróin fyrirtæki, sem hafa bjargað sínum bæjum á sínum tíma, jafnvel á hausinn, af því að þau kæmust ekki undir einhverja formúlu, sem einhverjir bankastjórar og það í ríkisbönkum ættu allt í einu að fara eftir. Hann hliðrar sér hjá að svara.

Ég ræddi hér mjög mikið um það, sem mest hefur verið talað um og hæstv. viðskmrh. hefur talið eina af höfuðorsökunum annars vegar fyrir því, að vinstri stjórnin hafi farið frá, og hins vegar fyrir því, að orðið hafi að grípa til þeirrar stefnu, sem núv. ríkisstj. fylgir, sem sé útlitið um hlutfallið milli vaxta og afborgana við gjaldeyristekjur ríkisins og þjóðarbúsins á árunum 1959–63, að þetta ægilega útlit þessara fjögurra ára hefði átt að réttlæta ekki aðeins, að vinstri stjórnin fór frá, heldur líka öll þau ráð, sem gripið hefur verið til. Ég rakti þetta mjög ýtarlega og sýndi fram á, á hve röngum grundvelli þetta hefði verið byggt, og að orsakirnar til þess, að viss vandræði voru þó þarna fram undan, hefðu ekki verið brott numdar, heldur þvert á móti aukið á það, sem skapaði þann halla, sem sé of mikil viðskipti við vesturlönd. Hæstv. viðskmrh. kom ekki inn á neitt af þessu.

Sannleikurinn er, að það er ákaflega erfitt að rökræða mikið með þessu móti. Það er eins og finnist hvergi vettvangur, þar sem hægt sé að ræðast saman um þessi mál. Og hæstv. viðskmrh. ver það að koma ekki inn á þetta með því, að hann segist ómögulega geta verið að karpa um augljósa hluti. Má ég nú biðja hæstv. viðskmrh. að gera þessa hluti a.m.k. augljósa fyrir ritstjóra Alþýðublaðsins, fyrir hans eigin blaði? Hans eigið blað er að kvarta yfir því, að það sé yfirleitt þannig með upplýsingarnar, með tölurnar, að þeim sé fleygt þannig fram og aftur hér í þingsölunum, að ekki einu sinni ritstjóri Alþýðublaðsins, hvað þá almenningur, geti áttað sig á því. Þetta er hárrétt hjá honum. Það er hart, það er ein gjaldþrotayfirlýsing allra þessara sérfræðinga ríkisstj., að maður skuli ekki geta fengið eina einustu rétta tölu frá þeim. Það er þó a.m.k. það, sem þessir menn ættu að geta útvegað, þó að þeir geti ekki komið neinu viti í nein stjórnmál, og þess eiga menn ekki heldur að ætlast til af þeim, en að þeir geti útvegað réttar tölur, t.d. um vaxtabyrði sjávarútvegsins og aðra þess háttar hluti, og ef þeir eru beðnir um áætlanir um slíkt, að þeir hagræði þeim ekki til þess að fá einhverja ákveðna, fyrir fram óskaða niðurstöðu.

Hæstv. viðskmrh. minntist á lánin til Sogsvirkjunarinnar, lánin til slíkra fyrirtækja, hvað það væri lítið, minntist á vélarnar. En man ég ekki rétt, var ekki tekið lán til meira en vélanna? Var ekki tekið lán fyrir innlenda kostnaðinum? Hefur það lán ekki allt saman hækkað núna? Erum við ekki að skella á, eða er ekki búið að skella á núna á móti okkar vilja rafmagnshækkunum, sem að sumu leyti eru ívitnaðar með því, að nú hafi þessi lán eftir gengislækkunina aukizt og vextir og afborganir af þeim? Ætli reikningar Sogsvirkjunarinnar einnar út af fyrir sig fari ekki úr t.d. 22 millj. kr. upp í 66 millj. kr. eingöngu vegna þessara ákvarðana? Ætli gjöld Sogsvirkjunarinnar séu ekki að 2/3 orðin vextir og afborganir? Ráðstafanir eins og þessar lántökur allar saman með þeim forsendum að eiga svo á eftir að fara að hlýða fyrirskipunum frá Washington og París um gengisskráningar á Íslandi, það er háskalegur hlutur.

Hæstv. viðskmrh. leggur allmikla áherzlu á venjuleg lán, þegar hann er að tala. Ég skaut því hér inn í áðan, hvernig ég skildi þetta hjá honum. En gerir hæstv, viðskmrh. sér ljóst, að þetta, sem hann kallar venjuleg lán, ég skil það svo, að hann eigi við lán tekin á hreinum viðskiptalegum grundvelli, á þeim algenga kapítalistíska grundvelli, — gerir hann sér um leið ljóst, að slík lán hafa venjulega þýtt fyrir okkur Íslendinga meiri eða minni afskipti erlendra ríkisstjórna eða erlendra banka um okkar innanlandspólitík og ráðstöfun á málum hér innanlands? Man hann eftir, að meira að segja þegar við stóðum í vissum lánasamningum við Breta 1934, þegar stjórn alþýðustéttanna, eins og það þá var kallað, tók við eða stjórn vinnandi stéttanna, Framsóknar- og Alþýðuflokksstjórnin, þá er það Hambrosbanki, sem setur þeirri stjórn stólinn fyrir dyrnar um, hvers konar pólitík hún megi reka á Íslandi, í hve miklar ríkisábyrgðir ríkisstj. megi ganga? Man hann, að það var þá fyrirætlunin að hindra bæði fyrstu Sogsvirkjunina, Ljósafossvirkjunina og hitaveituna af hálfu Breta og að það tókst með miklum herkjum á löngum tíma að útvega þau lán annars staðar, í Svíþjóð mestmegnis, til að standa undir því? Þetta, sem hann kallar venjuleg lán, eru venjulega lán, sem erlendir, voldugir auðvaldsbankar veita okkur, sem nota sína aðstöðu til þess að ætla að fyrirskipa okkur vissa hluti. Við þurfum ekki að fara lengra en þegar Alþjóðabankinn fór að skipta sér af því og setti þau skilyrði í sambandi við lán til Sogsvirkjunarinnar, til Írafossvirkjunarinnar, að Sogsvirkjunin yrði að gera ákveðinn samning við áburðarverksmiðjuna, með ákveðnu verði til ákveðins langs tíma, yrði að gera þann samning, ella yrði ekki lánað. Við skulum þess vegna ekki fara að kalla þessi lán og allar þær fyrirskipanir, sem í sambandi við það standa, venjuleg lán. Við skulum ganga út frá því, að þetta sé í raun og veru það, sem ætti að vera það óvenjulega, það ætti að vera mögulegt fyrir menn að taka lán til nýtilegra framkvæmda, eins og við gerum, án þess að verða meira eða minna undirorpnir afskiptum erlendra auðdrottna þess vegna.

Svo sagði hæstv. viðskmrh., þegar hann var að tala um, hvað afborganirnar hefðu aukizt 1960, að það hefði ekki verið þessi stjórn, sem stofnaði til skuldanna, skildist mér. Stjórnin, sem stofnaði til skuldanna, var einhver vond stjórn, fyrirhyggjulaus stjórn, sem hugsaði víst ekki mikið, þegar hún stofnaði til skulda. Mér fannst það liggja í orðunum. Þessi stjórn er hrein. Og hver var stjórnin sem stofnaði til skuldanna? Alþýðuflokksstjórnin 1958. Var ekki hæstv. viðskmrh. líka viðskmrh. þá? Var það at því, að það voru kosningar á því ári, að ráðizt var í mikil lán til togara og annað slíkt, — jafnvel tvennar kosningar? Mér finnst, að hæstv. viðskmrh. núv. stjórnar Ólafs Thors eigi ekki að deila svona hart á viðskmrh. ríkisstj. Emils Jónssonar. Ég held, að það sé fullmikið að finna sig orðinn sjálfstæðismann og fara að deila á Alþfl.- stjórnina fyrir það, sem hún hafi gert á árinu 1959, og afsaka þessa stjórn með því. Ég held, að hvor tveggja verknaðurinn hafi verið á ábyrgð sömu stjórnar. Þá finnst mér satt að segja skörin vera farin að færast upp í bekkinn, ef farið er að verja núv. stjórn með því að skamma Alþfl.- stjórnina frá því árinu áður, og sízt af öllu hefði það þó átt að koma úr sjálfum Alþýðuflokksherbúðunum. En það er skiljanlegt, að til margs verði að grípa, þegar menn eru komnir í slíkt öngþveiti sem þessi ríkisstj. er og þegar þessi hæstv. ráðh. sýnir einn saman það hugrekki af öllum stjórnarherrunum að sitja áfram á ráðherrabekkjunum, þegar allir hinir eru flúnir og hafa þó aldrei reynt að berjast.

Svo svaraði hæstv. viðskmrh. mér um endurkaupsverðið. Jú, hann sagði, að raunverulega ætti þetta að þýða sama og söluverð. Og ég vil spyrja: Gerir þá nokkuð til, þótt við í fjhn. breytum þessu í söluverð? Hann sagðist vera mér sammála um, að það væri alveg rétt, að raunverulegt söluverð væri ekki til í íslenzka þjóðfélaginu, markaðurinn væri svo lítill. Markaðsverði gæti maður ekki reiknað með á hlutum eins og togurum, notagildið eitt fyrir þjóðfélagið væri þar. Hann virtist sem sé alveg fallast á, að það væri a.m.k. ekki enn þá hægt að fara að meðhöndla Ísland eins og væri búið að koma hérna á einkaauðvaldsskipulagi. Ég held þess vegna, að það væri rétt i fjhn., að við breyttum þessu þannig, að við settum þarna söluverð. Það er aðeins eitt, sem gæti verið því til fyrirstöðu eftir þeim skilningi, sem mér virtist nú hæstv. ráðh. leggja í þetta, og það er, hvort bankastjórarnir mundu misskilja þetta. En ég held, að það ætti ekki að vera ofverk hæstv. ríkisstj. nú og kannske okkar allra að koma bankastjórunum í skilning um, að þeir haldi áfram þeirri sömu merkingu, sem þeir hafa lagt í orðið söluverð í sambandi við eignir allan þann tíma, sem Landsbankinn hefur starfað. Það hefur alltaf verið regla þessara banka, t.d. hvað togarana snertir, að þeir hafa ekki verið boðnir upp eins og hver önnur húseign. Ég held þess vegna, að við eigum ekki að fara inn á að fara þarna að taka upp nýtt hugtak í sambandi við þetta fjármálalega mat.

Svo svaraði hæstv. viðskmrh. því, hvað mundi verða um aðra atvinnuvegi. Ef Seðlabankinn eflist og ef vel tekst með þetta lánabreytingakerfi, sagði hann hér, mundi kannske koma röðin að öðrum atvinnuvegum. Ég verð nú að segja hæstv. ráðh., að ég lít ekki á þetta sem neitt stórkostlegt nýtt kerfi, sem hér sé verið að innleiða, og ég held, að enginn bindi þær vonir við það, sem hann gerir ráð fyrir. Ég held, að það líti hver einasti maður og sérstaklega öll hæstv. ríkisstj. á þetta sem augnablikssamninga við útgerðarmennina um að koma flotanum af stað. Einu sinni var gripið til bátagjaldeyris. Stundum er gripið til skuldaskilasjóðs. Það er gripið til alls konar ráða til þess að dylja hlutina fyrir almenningi og það skírt einhverjum fallegum nöfnum og ég held, að allir hæstv. ráðherrar geri sér þetta alveg ljóst, nema máske hæstv. viðskmrh. Hann tekur þetta alvarlega. Ég verð að segja: Mikil er trú þín, kona! Það er sannarlega lofsvert af hæstv. viðskmrh. að hafa svona mikla trú á annarri eins bölvaðri vitleysu og ríkisstj. er að gera. En hitt skal ég ekki lá honum, af því að hann reynir að verja þetta, þó að hann sé nú farinn að þreytast. Ég held þess vegna, að það sé alveg eins rétt fyrir okkur að gera okkur ljóst, að Seðlabankinn kemur aldrei til með að eflast þannig, að hann hrúgi til sín slíkum auði, að það verði farið að hafa einhvern svipaðan hátt á um allar aðrar atvinnugreinar á Íslandi. Það stendur þannig núna, að það er gerður samningur við útvegsmennina, af því að það þarf að koma útveginum einhvern veginn af stað. Það er verið að reyna að gera þetta sem fallegast, mála yfir sprungurnar, sem hafa myndazt í höll ríkisstj., svo að hún líti fallegar út, áður en hún hrynur.

Þá sagði að lokum hæstv. viðskmrh., að hann hefði aldrei sagt, að vextir hefðu enga þýðingu. Ég held, að ég hafi ekki heldur sagt það. En ég man ég sagði, að hann hefði einu sinni sagt í þessu sambandi, að þeir hefðu litla þýðingu. Ég vil minna hæstv. viðskmrh. á dæmið, sem var tekið hér af 4. þm. Austf. um vinnulaunagreiðslur í einu hraðfrystihúsi, sem voru 1959 3.3 millj. og vaxtagreiðslurnar tæp 1 millj. 1960 hækkuðu vextirnir um 700 þús. kr., upp í 1 millj. og 700 þús. Það samsvarar því, að vinnulaun hefðu hækkað um 22%. Hæstv. viðskmrh. sagði, að þessar vaxtahækkanir hefðu sem sé enga úrslitaþýðingu. Ég vil leyfa mér að skoða þetta sem yfirlýsingu frá hans hálfu um, að 22% kauphækkun hafi enga úrslitaþýðingu. Og ég mun, að svo miklu leyti sem ég get haft einhver áhrif, beita mér fyrir því, að slík kauphækkun fari fram og að ríkisstj. standi undir því, að það hafi enga úrslitaþýðingu.