06.04.1962
Efri deild: 80. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1326 í B-deild Alþingistíðinda. (1049)

13. mál, ráðstafanir vegna ákvörðunar um nýtt gengi

Frsm. 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Þetta frv. er annað frv., sem flutt er til staðfestingar á gengisfellingaraðgerðum hæstv. ríkisstj. á s.l. sumri.

Efni frv. er, eins og fram hefur komið, það aðallega að lögfesta mjög stórfelldar nýjar álögur á sjávarútveginn og ákveða, hvernig því fé, sem þannig er af þessari atvinnugrein tekið, skuli varið.

Í fyrsta lagi er hér um að ræða Það, að verðhækkun vegna gengisfellingarinnar á útfluttum sjávarafurðum, sem framleiddar voru á tímabilinu frá fyrri gengisfellingunni til 31. júlí s.l., sem talin er munu nema 150,4 millj. kr. eftir áætlunum, sem Seðlabankinn hefur gert, skuli gerð upptæk til ríkissjóðs. Af Þessu fé eiga 13 millj. kr. að renna til greiðslu á þeim hluta tryggimgargjalda af fiskiskipum, sem ríkisstj. hafði áður lofað útvegsmönnum að þeim yrðu greiddar, en fé útflutningssjóðs hrökk ekki til að greiða, en eftirstöðvum þessarar upphæðar, a.m.k. 137 millj. kr., á samkv. frv. að verja til þeirra ríkisþarfa, sem leiðir af ábyrgðartöpum, og renna í svokallaðan ríkisábyrgðasjóð, sem fyrirhugað er að stofna.

Í öðru lagi er svo um það að ræða, að samanlögð útflutningsgjöld af sjávarafurðum eru hækkuð úr 2.9% í 7.4% af útflutningsverðmæti, og nemur sú gjaldahækkun, sem af þessu leiðir, 130–140 millj. kr. á ári, en þessari upphæð á að skipta eftir þar að lútandi reglum milli lánastarfsemi í þágu útvegsins og vátryggingarstarfsemi og hluta- og aflatryggingasjóðs.

Þessar ráðstafanir í kjölfar gengisfellingarinnar verða að sjálfsögðu að skoðast í ljósi þeirra fullyrðinga þeirra, sem stóðu að gengisfellingunni, að hún hafi verið gerð til þess að bjarga sjávarútveginum frá fyrirsjáanlegum hallarekstri og jafnvel rekstrarstöðvun, sem aftur hefði leitt af sér atvinnuleysi og jafnvel neyðarástand, því að þetta hefur verið frá upphafi sögð önnur aðalástæðan fyrir gengisfellingunni og sú, sem jafnan hefur fyrst verið nefnd. En hin ástæðan hefur aftur á móti verið talin sú, að ef verkafólk hefði fengið að halda því kaupgjaldi, sem Það samdi um við atvinnurekendur á s.l. sumri, hefði af því leitt hallarekstur í utanríkisviðskiptum og gjaldeyrisskort.

Ég vil reyna að taka ofur lítið til meðferðar, hvernig gengisfellingin að viðbættum nýju álögunum hefur verkað á afkomu sjávarútvegsins og hvernig fullyrðingarnar um það, að verið sé að bjarga afkomu hans, fá staðizt.

Það er öllum kunnugt, að rekstur bátaflatans er ein aðalundirstaðan undir gjaldeyrisöflun okkar, og mikilvægi þessa rekstrar í heildarframleiðslunni hefur stöðugt farið vaxandi með hverju ári, sem liðið hefur. Það er því ákaflega þýðingarmikið að gera sér grein fyrir áhrifum gengisfellingarinnar á rekstur þessarar starfsgreinar, og maður hlýtur þá fyrst að spyrja: Hvaða hagnað hefur bátaútvegurinn haft af þessum aðgerðum? Afkoma bátaflotans er að sjálfsögðu annars vegar komin undir fiskverðinu og hins vegar undir rekstrarkostnaðinum. Og hvað skyldi líða áhrifum gengisfellingarinnar á þessa tvenna undirstöðu afkomunnar? Hefur fiskverðið hækkað meira en rekstrarkostnaðurinn? Ef svo reynist ekki, þá er líka útilokað, að afkoman hafi batnað vegna aðgerðanna. Þegar gengisfellingunni var skellt yfir, var fiskverði til bátanna og um leið sjómanna haldið algerlega óbreyttu þar til nú í byrjun vetrarvertíðar eða í fast að því hálft ár, frá því að gengisfellingin gekk í gildi. Tekjur útgerðarmanna og sjómanna uxu því ekkert á þessu tímabili vegna gengisfellingarinnar. En á sama tíma urðu útgerðarmena að bera algerlega bótalausa alla þá gífurlegu hækkun á rekstrarkostnaði, sem gengisfellingin hafði orsakað. í byrjun vetrarvertíðar var fiskverðið svo hækkað um 9.2% að meðaltali skv. útreikningum verðlagsráðs sjávarútvegsins.

Málin standa því þannig, að bátaflotinn fékk engar bætur eða hagnað í neinu formi á árinu 1961 vegna gengisfellingarinnar, en varð hins vegar að þola algerlega bótalausan þann kostnaðarauka, sem á rekstrinum varð á því ári. Það er því ekki fyrr en á þessu ári, sem fiskverðið er hækkað og þá aðeins um þessi áður nefndu 9.2%, og enn er þess að gæta, að aðeins hluta af þessari fiskverðshækkun er að rekja til gengisfellingarinnar, því að mjög verulegar verðhækkanir á útfluttum sjávarafurðum hafa þar einnig komið til, og er það öllum kunnara en frá þurfi að segja. En það er samt fróðlegt að reyna að gera sér grein fyrir því, hver útkoman verður úr því reikningsdæmi, hvaða hagsbætur bátaflotinn fengi á heilu ári, sem þessi verðhækkun öll væri í gildi, jafnvel þó að hún væri öll rakin til gengisfellingarinnar.

Miðað við aðgengilega útreikninga, sem fyrir hendi eru frá 1959 og færðir hafa verið til verðlags og gengis 1960, var verðmæti bátaaflans það ár komins að landi 819.3 millj. kr. Af því er hlutur sjómanna og kostnaður vegna mannahalds 316.2 millj. kr., og verður þá eftir hlutur útgerðarinnar af afla, sem dreginn er að landi, 503.1 millj. kr. Þessar tölur ætla ég, að ekki verði vefengdar. Eftir upplýsingum Fiskifélags Íslands eru 27% af öllum útgerðarkostnaði báta, sem gerðir eru út bæði á linu og net, algerlega háð gengi, ef ekki er reiknað með afskriftum og vöxtum af stofnfé, en sé það reiknað með, eru það 38% af heildarútgerðarkostnaðinum, sem eru algerlega háð genginu. Samsvarandi tölur fyrir báta, sem gerðir eru eingöngu út á línu, eru 24.8% og 36.5%, ef reiknað er með afskriftum af stofnfé og vöxtum. En fyrir togara eru samsvarandi tölur 36.5% og 46.5%, eða nær því helmingur af öllum útgerðarkostnaði, sem er algerlega háður genginu.

Við gengisfellinguna hækkar þess vegna útgerðarkostnaður bátaflotans, eins og hann var 1959, en auðvitað meira nú, þar sem skipin eru mun fleiri, um rúmar 40 millj., ef reiknað er með útgerð bæði á net og línu og afskriftir og vextir af stofnfé reiknaðir með. Þá hækkar heildarútgerðarkostnaðurinn um þetta. En fiskverðshækkunin um 9.2% sem reiknuð væri yfir heilt ár, mundi hins vegar nema 46 millj. kr. miðað við sömu tölu frá 1959. 9.2% hækkunin og hækkunin á útgerðarkostnaðinum mundi sem næst algerlega standa í járnum, og þá væri reiknað með, að öll fiskverðshækkunin væri vegna gengisfellingarinnar. En þegar þess er gætt í fyrsta lagi, að vinna þarf upp það tjón, sem bátaflotinn varð fyrir, vegna þess að hann fékk engar hækkanir á árinu 1961 þrátt fyrir gengisfellinguna, og hins vegar þess, að fiskverðshækkunin er ekki nema að nokkru leyti og jafnvel litlu leyti til komin vegna gengisfellingarinnar, sést glöggt, að þótt aðeins sé tekinn hinn beini rekstrarkostnaður, þá er um stórtjón að ræða fyrir bátaflotann.

Niðurstaða og athugun á rekstri svokallaðs vísitölubáts, sem verðlagsráð sjávarútvegsins byggir á, gefur sízt glæsilegri mynd af þessu. Þar kemur í ljós, að ef borinn er saman rekstur þessa báts 1962 og 1961, miðað við sama afla, hækkar rekstrarkostnaðurinn um 292 þús. kr., en fiskverðshækkunin gefur aðeins 255 þús. kr., þ.e.a.s. afkoman versnar um milli 30 og 40 þús. á hvern bát. En í aðalatriðum ber útkomunni samart, hvor leiðin sem valin er til að reikna þetta dæmi.

En hér er ekki sögð öll sagan. Það hefur ekki verið tekið nema að nokkru leyti og að litlu leyti tillit til þeirra miklu erlendu lána, sem á útgerðinni hvíla og hafa stórhækkað við gengisfellinguna. Aðeins fyrsta veðréttar lán ein, sem hvíla á bátaflotanum, eru 800–900 millj. kr., og mikill hluti þessara lána er háður gengisákvæðum. Sérstaklega kemur þetta hart niður á þeim, sem hafa nýlega keypt skip, en ætla má, að skuldaraukning af þessum sökum sé ekki undir 60–70 millj. kr. Ekki hefur heldur verið reiknað með nema broti af þeim birgðum, sem aukinn endurnýjunarkostnaður hefur í för með sér. Allur fiskiskipafloti okkar er nú um 75 þús. lestir eða jafnvel þar yfir, og hefur endurnýjunarverð hans miðað við ný skip verið áætlað að vera um 3.5 milljarðar fyrir gengisfellinguna. Við gengisfellinguna hækkar endurnýjunarverðið um nálægt 450 millj. kr. Algert lágmark aðeins til þess að halda þessum flota við er að reikna með fullri endurnýjun á 15 árum á skipum og vélum, og er það þó trúlega of lítið, þegar þess er gætt, að meðalaldur skipanna er 17–18 ár. Árlegur kostnaðarauki vegna skipastólsins í heild til endurnýjunar er því varla undir 30–40 millj. kr. á ári vegna gengisfellingarinnar, þó að ekki sé reiknað með neinni aukningu eða nauðsyn þess að kaupa dýrari tæki í samræmi við nýjar tæknikröfur, og allan þennan aukna kostnað verður bátaútvegurinn í raun réttri að bera einn, þar sem um enga endurnýjun er að ræða í togaraflotanum og hefur ekki verið um mörg ár.

Ég ætla, að samkvæmt því, sem ég hef nú sagt, sé mjög varlega reiknað, að óhjákvæmilegur árlegur kostnaðarauki bátaflotans eins vegna gengisfellingarinnar sé 70–90 millj. kr. eða 14–18% af því aflaverðmæti, sem til útgerðarinnar sjálfrar fellur, og er þá miðað við fyrirliggjandi tölur frá 1959. En þessi kostnaðarauki er vafalaust meiri nú vegna stækkunar flotans og sífellt aukinna krafna tímans í tækniútbúnaði og endurnýjun.

Þegar þess er gætt, að kostnaður bátaflotans hefur Þannig vaxið um 14–18% af aflaverðmæti sjálfrar útgerðarinnar, en fiskverðið hins vegar aðeins hækkað um 9.2%, fer sú staðreynd að verða skiljanleg, að útvegsmenn hafa yfirleitt fordæmt gengisfellinguna og talið hana hafa stórskaðað bátaútveginn. Kom þetta t.d. mjög greinilega fram á aðalfundi Landssambands ísl. útvegsmanna á s.l. vetri, þegar yfirgnæfandi meiri hluti bátaútvegsmanna felldi tillögu um Það að lýsa að nokkru samþykki sínu við gengisfellinguna og þær ráðstafanir, sem í sambandi við hana voru gerðar.

Ef litið er svo á útveginn í heild, þ.e.a.s. bæði rekstur báta- og togaraflotans og fiskvinnslustöðvanna, sjáum við að vísu, að í krónutölu hefur verðhækkun orðið, sem þessar atvinnugreinar samanlagt hafa fengið, 320–350 millj. kr., miðað við heilt ár og aflaverðmæti eins og það var á s.l. ári. En Það blasir líka við, að frá Þessari hækkun verður að draga í fyrsta lagi upptöku gengishagnaðarins, 150 millj. í öðru lagi ný útflutningsgjöld upp á 130–140 millj. kr. á hverju ári, í þriðja lagi rúmlega 13% hækkun á öllum erlendum rekstrarkostnaði, olíu, veiðarfærum, salti, hafnargjöldum í erlendum höfnum, farmgjöldum, vélaviðhaldi o.s.frv., eða á a.m.k. 25–30% af öllum útgerðarkostnaði, í fjórða lagi um Það bil 25% hækkun á rekstrarkostnaði vinnslustöðvanna og á allri endurnýjun í fiskiðnaði og útgerð og á erlendum lánum, sem á útgerðinni og fiskiðnaðinum hvíla. Ég álít, að þegar Þetta allt er réttilega vegið á móti krónutöluhækkuninni á útflutningsverðmætinu, komi í ljós, að sjávarútvegurinn í heild haldi litlu eða jafnvel minna en engu eftir af þeirri hækkun, sem orðið hefur á útflutningsverðmætinu vegna gengisfellingarinnar. Og það er a.m.k. mjög athyglisvert, að hæstv. ríkisstj. hefur enga minnstu tilraun gert til að sýna tölulega fram á, að gengisfellingin hafi bætt að nokkru fyrir sjávarútveginum í heild. Ég minnist þess ekki, og ég held, að Það sé áreiðanlegt, að hún hafi ekki gert það. En það verður þá a.m.k. leiðrétt af hæstv. forsrh., ef ég fer þar með rangt mál. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki heldur gert neina tilraun til að sýna Það með tölulegum rökum, hver áhrif kauphækkanirnar á s.l. sumri raunverulega höfðu á hag útvegsins, heldur aðeins þrástagazt á Þeirri fullyrðingu, að kauphækkun hefði riðið útveginum að fullu. Ég spyr: Hvers vegna hafa gögnin, ef þau hafa einhver verið um þessi efni, ekki verið lögð á borðið? Var e.t.v. eitthvað gruggugt við útreikningana? Voru fullyrðingarnar kannske illskárri en það að láta sannazt, hverjar staðreyndirnar voru?

Samkvæmt áætlunum norska sérfræðingsins, prófessors Gerhardsens, sem starfað hefur fyrir ríkisstj. að athugun á sjávarútvegi okkar, — en áætlanir sínar hefur prófessorinn byggt á reikningum nokkurra frystihúsa og vafalaust á öðrum öruggum heimildum, sem hæstv. ríkisstj. og stofnanir hennar hafa látið honum í té, er áætlað, að vinnulaun í öllum frystihúsum landsins á árinu 1959 nemi 171.8 millj. kr. eða 16.8% af útflutningsverðinu, fob-verðinu, það ár, en það varð rúmlega 1000 millj. miðað við gengið 1960. Samkvæmt sömu áætlun voru verkalaun við framleiðslu saltsíldar 47 millj. kr. eða 16.6% af útflutningsverðmæti, og við verkun saltfisks voru verkalaun 7–8% af útflutningsverðmæti. Samkvæmt þessu sýnist mér, að það sé mjög varlegt að áætla, að vinnulaun séu ekki yfir 15% að meðaltali af fobútflutningsverðmæti sjávarafurða og þó sennilega nokkru minni, miðað við væntanlegt söluverð afurðanna. Öll verkalaun í landi við sjávarútveginn, en það eru þau einu verkalaun, sem hér ber að reikna með, hafa því ekki getað verið yfir 450 millj. kr. á s.l. ári. Og Þó að teknar séu þær tölur, sem hv. stjórnarsinnar vilja reikna með, Þegar um kauphækkun er rætt, og talið, að hún hafi numið 12–14%, Þá kemur í ljós, að öll kauphækkunin hefur ekki numið meira en 54–63 millj. kr. fyrir sjávarútveginn í heild eða rétt um 2% af útflutningsverðmætinu, eins og það var á s.l. ári. Ef eitthvað er skakkt við þessa útreikninga, er ekki skekkjan fólgin hjá mér, heldur hjá þeim, sem lagt hafa þessar tölur upp í hendur okkar alþm. Á sama tíma og kauphækkunin lagði þessar byrðar upp á 50–60 millj. kr. í hæsta lagi á sjávarútveginn, skeði Það svo, að útflutningsverðmætið óx um 400 millj. frá árinu 1960 og um 200 millj. frá árinu 1959, þ.e.a.s. útvegurinn Þurfti aðeins að verja rösklega 1/4 hluta af aukinni framleiðslu sinni frá 1959 til kauphækkananna og ekki nema röskum 1/8 hluta af aukningunni frá árinu á undan, árinu 1960, en hefði þá sloppið við alla þá gífurlegu útgjaldaaukningu og nýju álögur, sem af gengisfellingunni leiddi fyrir hann.

Þetta var vissulega mjög vel kleift og fullkomin fjarstæða að halda Því fram, að slík kauphækkun við Þau skilyrði, sem hér voru fyrir hendi, hefði leitt af sér hallarekstur og atvinnuleysi, eins og hv. stjórnarsinnar streitast við að fullyrða án þess Þó að gera minnstu tilraunir til að finna orðum sínum stað eða sannanir. Það er fyrirsláttur, sem við minna en ekkert hefur að styðjast, að gengisfellingin hafi verið gerð til þess að bjarga sjávarútveginum, því að hann gat betur borið Þau laun, sem um var samið s.l. sumar, heldur en þau, sem hann áður þurfti að greiða, eins og ég hef hér sýnt fram á.

En þá stendur hin meginástæðan eftir, sem sögð er hafa verið fyrir gengisfellingunni, Þ.e.a.s. sú, að kauphækkunin hefði leitt af sér svo mikla eftirspurn eftir gjaldeyri, að til neyðarástands hefði horft í þeim efnum, ef hún hefði ekki verið tekin aftur af verkafólki með gengisfellingunni.

Staðreyndin er auðvitað sú, að Það aukna verðmæti útflutningsins og Þar með gjaldeyristeknanna, sem varð á s.l. ári, réttlætti það fullkomlega, að launafólki væri með kauphækkun gerð kleif meiri gjaldeyrisnotkun en áður, án þess að nokkur bagi væri að, enda er nú ekki státað meira af öðru í herbúðum hv. stjórnarsinna en því, að verulegar upphæðir hafi safnazt í gjaldeyrissjóði. En hitt er líka skiljanlegt, að gengisfellingin hvorki skapaði neinar gjaldeyristekjur né hindraði heldur, að aðrir en verkafólk fengju raunverulega ávísun á hinn aukna gjaldeyri. Og það verður að telja mjög ósennilegt, að tekjutilfærslan í þjóðfélaginu frá verkafólki og til annarra aðila í Þjóðfélaginu hafi verkað sérstaklega í þá átt að draga úr gjaldeyriseftirspurninni. Ég ætla t.d., svo að maður taki einfalt dæmi, að þegar læknar hækka sín laun um 70% og við þurfum að borga þeim mun meira fyrir læknishjálpina, hafi ekki við það dregið neitt úr gjaldeyriseftirspurn. Þeir peningar, sem áður voru í hendi sjúklingsins, eru eftir aðgerðina í hendi læknisins, og hann hefur fengið sína ávísun á sinn gjaldeyri. Það þarf vissulega enga prófessora til að skilja svo einfalda hluti. En það er líka harla eftirtektarvert, að einmitt undir lok ársins og síðan hefur hæstv. ríkisstj. tekið sig til og gert sérstakar ráðstafanir til þess að örva gjaldeyrisnotkun í þeim tilgangi að fá ríkissjóði auknar tekjur, og þær ráðstafanir benda óneitanlega ekki til þess, að í því gjaldeyrislega góðæri, sem s.l. ár var vegna aukningar aflans, hafi ríkisstj. í raun og veru verið svo óttaslegin um gjaldeyrisafkomuna sem hún vill vera láta.

Hitt er líka auðsætt, sem ég hef áður sagt hér, að vel mátti hugsa sér aðrar leiðir og heppilegri til þess að ná gjaldeyrisjöfnuði en þær að lækka kaupið, ef til þess var brýn þörf, sem ég tel ekki hafa verið. Ég fyrir mitt leyti óttast ekki frýjunarorð manna um það, að með því að halda þessu fram séum við að gerast málsvarar nýrra innflutningshafta. Ég álít, að takmörkun á notkun erlends gjaldeyris, skynsamleg takmörkun á honum, sé betra skömmtunarfyrirkomulag en að láta fátæktina og skortinn skammta, en slíkt virðist vera algert trúaratriði hjá þeim, sem standa að hæstv. ríkisstj.

Ég ætla, að Það sé nú orðið flestum ljóst, að þær tvær meginástæður, sem hæstv. ríkisstj. hefur fært fram fyrir gengisfellingunni, séu tylliástæður einar, en hinar raunverulegu ástæður hafi verið allt aðrar og miklu ógöfugri en þær, sem hún vill vera láta.

Þegar þessi hæstv. ríkisstj. tók við völdum, hét hún því mjög hátíðlega, að hún skyldi engin afskipti hafa af kaupgjaldssamningum atvinnurekenda og verkalýðsfélaga. Jafnframt og síðan við mörg tækifæri hefur hún látið í ljós, að 3–4% árleg raunhæf kauphækkun væri eðlileg og framkvæmanleg, en samkvæmt því ætti kaupgjald að hafa hækkað um 10–12%, frá því að þessi hæstv. ríkisstj. tók við völdum. En reyndin er hins vegar, að kaupið hefur lækkað raunverulega um eða yfir 20%. Efndir þessara loforða hafa því verið nokkuð á annan veg en vænta hefði mátt, Því að í fyrsta lagi hefur aldrei nein ríkisstj. blandað sér freklegar inn í viðskipti atvinnurekenda og launþega en núv. hæstv. ríkisstj. hefur gert. Lögmæt verkföll hafa verið bönnuð með brbl. Löglegum og rétt gerðum samningum hefur verið rift með löggjöf. Mikilvægasta samningsatriði lægst launuðu stéttanna til verndar kaupmættinum, þ.e.a.s. verðlagsbætur eftir vísitölu, hefur verið afnumið með lögum og bannað að semja um Það framvegis eða um nokkra aðra hliðstæða vernd til handa þeim, sem minnst bera úr býtum. Og enn hefur kaup verið ákveðið beint með lögum. Allt þetta hefur sú ríkisstj. gert, sem hét því, þegar hún tók við völdum, að hún skyldi aldrei hafa nein afskipti af samningum atvinnurekenda og verkalýðsfélaga, það væri þeirra mál, sem þeir yrðu að bera ábyrgð á. En þannig hefur það gerzt í síauknum mæli, að ríkisvaldið hefur hrifsað til sín valdið yfir sjálfum launakjörunum, og þetta hefur vissulega ekki verið gert til þess að tryggja Þær árlegu og raunhæfu kjarabætur, sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur talið sig vera sérstakan málsvara fyrir, heldur hafa afskiptin reynzt verða á borði árlegar árásir á lífskjör vinnustéttanna og á samninga- og samtakafrelsi þeirra.

Ég hef áður rakið það hér í hv. deild, hvernig hin beina valdbeiting ríkisstj. gagnvart verkalýðshreyfingunni hefur leitt til þess, að kaupmáttur hefur lækkað um full 17% eftir opinberum útreikningum, frá því að viðreisnin hófst, og hann er nú lægri en nokkru sinni áður á s.l. 16–17 árum og fer enn hraðminnkandi. Ég ætla ekki að endurtaka það, sem ég hef áður sagt um þessa þróun, en hún er vitanlega fullkomin sönnun þess, hvernig hæstv. ríkisstj. hefur misbeitt valdi sínu og svikið öll fyrirheit sín um að leiða þjóðina inn á braut bættra lífskjara. Gengisfellingin s.l. sumar átti sér, eins og ég hef nokkuð rakið, engar frambærilegar efnahagslegar forsendur. En það er þó ekki Þar með sagt, að til hennar hafi ekki legið neinar efnahagslegar orsakir, því að vissulega er það svo, að Það hafa ekki allir skaðazt á gengisfellingunni. Sú innlend auðmannastétt, sem lifað hefur undanfarna áratugi hátt á því fjármagni, sem þjóðin á sameiginlega í lánastofnunum sínum, hefur fengið skuldir sínar afskrifaðar um það, sem gengisfellingunni nam, og þannig náð til sín drjúgum hluta af fjármagni þjóðarinnar, á sama tíma sem sparifjáreigendur og aðrir hafa beðið hliðstætt tjón. Þessi þróun var vitanlega þóknanleg fyrir ríkisstjórn, sem hefur sett sér það takmark öllu öðru fremur að skapa hér voldugt einkafjármagn, sem öllu geti ráðið í okkar efnahagslífi, og til þess að Því marki verði náð, Þarf kaupgjaldið líka að vera lágt. Verzlunarauðvaldið hefur líka farið með drjúgan skerf frá borði eftir gengisfellingaraðgerðirnar. Og síðast, en ekki sízt eru þeir útlendu húsbændur, sem segja hæstv. ríkisstj. fyrir verkum í efnahagsmálum og gefa henni einkunnir eftir því, hvernig hún stendur sig, eins og nú alveg nýlega hefur komið fram, og eru að undirbúa ásamt henni jarðveginn fyrir flóð erlends fjármagns inn í landið. Þeir hafa líka áhuga á því, að vinnuafli sé haldið hér í lágu verði og að kaup á íslenzku vinnuafli verði því sem hagstæðust, þegar til þarf að taka. Allt hefur þetta að sjálfsögðu stutt að ákvörðuninni um gengisfellingu. En ég tel þó ekki vafa á hinu, að valdstreita og hreinn hefndarhugur í garð verkalýðshreyfingarinnar og samvinnuhreyfingarinnar hafi átt einna ríkastan þátt í því, að ríkisstj. tók sína ógæfuákvörðun eftir vinnudeilurnar á s.l. sumri.

Þegar það varð séð, að engu viti varð komið fyrir ríkisstj. og þau atvinnurekendasambönd, sem hlíta hennar forsjá í einu og öllu, gerðist það, að verkalýðshreyfingin og samvinnuhreyfingin tóku höndum saman um að bjarga atvinnuvegunum úr þeim ógöngum, sem kauplækkunarstefnan var að festa þá í. Þessi tvenn hagsmunasamtök almennings gerðu sér ljósan þann voða, sem allri afkomu þjóðarinnar stafaði af stöðvun alls atvinnulífsins yfir hábjargræðistímann á s.l. sumri, glötun síldarvertíðarinnar og lömun flestra annarra atvinnugreina. Og þessi hagsmunasamtök fólksins sjálfs mótuðu réttláta, hóflega og varanlega lausn kjaradeilunnar á þann hátt, að Vinnuveitendasamband Íslands og ríkisstj. þorðu ekki annað en samþykkja þá lausn að lokum, að vísu ekki fyrr en þau höfðu unnið þriggja vikna skemmdarstarf á atvinnurekstrinum og gert tilraunir til að svelta verkafólk til hlýðni. Með þessari lausn á vinnudeilunum sýndu þessi samtök bæði það, hvert vald þau eru í þjóðfélaginu, og hæfni sína til lausnar á miklum vanda, sem stjórnarstefnan hafði skapað. Það var þessi staðreynd, sem öllu öðru fremur umturnaði svo ástandinu á stjórnarheimilinu, sem verkin sanna. óttinn um það, að hér væri að skapast víðtækt samstarf stærstu hagsmunasamtaka almennings, hvors öðru til styrktar í lífsbaráttunni, samstarf, sem hefði að baki sér mikinn meiri hluta þjóðarinnar, fyllti hæstv. ríkisstj. hefndarhug og ótta, og nú þótti ekki lengur í það horfandi að beita alla launamenn í landinu hinum harkalegustu aðgerðum til þess að eyðileggja árangur þessa samstarfs þegar í upphafi, til þess að það þætti síður fýsilegt í framtíðinni og til þess að sanna verkalýðshreyfingunni, að hún mundi jafnan hafa verra af, ef hún þyldi ekki möglunarlaust þær kjaraskerðingaraðgerðir, sem ríkisstj. þóknaðist að leiða yfir hana á hverjum tíma. Þannig átti að skapa vonleysi í röðum verkalýðshreyfingarinnar og reyna að gera hana óhæfa til að gegna frumskyldum sínum, þeim að verja og bæta launakjörin. Enn kom Það svo til, að viðreisnin í skattamálum, sem eins og allir vita hefur verið fólgin í því að tengja allar tekjur ríkissjóðs beint við neyzluna, hafði leitt af sér fyrirsjáanlegan hallarekstur ríkissjóðs vegna kjaraskerðinganna og minnkandi neyzlu, minnkandi kaupgetu. Með gengisfellingunni var reynt að stórauka þessa skattheimtu og bjarga stjórnarstefnunni í bili frá því áfalli, sem hallarekstur ríkissjóðs hefði leitt af sér.

Ekki verður fram hjá því gengið, þegar gengisfellingin er metin, að hún hefur auðvitað mótað þau viðhorf, sem nú eru í kaupgjaldsmálum í landinu. Það hefur nefnilega sannazt, að hún hefur ekki náð þeim tilgangi sínum að slá launamenn niður í eitt skipti fyrir öll, eins og tilætlunin var og kjörorðið hljómaði á s.l. sumri. Afleiðingar gengisfellingarinnar herða með hverjum degi fastar að afkomu launafólks og þó alveg sérstaklega að hinum lægst launuðu. Ný kauphækkunarbarátta af hálfu hinna verst launuðu í þjóðfélaginu er óumflýjanleg og óhjákvæmileg, eftir að þeim, sem við þau kjör eiga að búa, hefur verið synjað um allar úrbætur eftir stjórnarfarslegum leiðum. Meðal opinberra starfsmanna og þeirra stétta, sem betur eru launaðar, eru launmálin í hreinni upplausn. Uppsagnir heilla stétta frá störfum eru fyrirhugaðar, hálaunastéttir setja taxta og ákveða sér sjálfar laun, án þess að ríkisvaldið fái nokkra rönd við reist. Trú launamanna almennt á gildi rétt gerðra samninga, allra sízt til nokkurs verulegs tíma, er þrotin með öllu. Gagnvart þessu ástandi stendur sú ríkisstj., sem eftir kjarasamningana á s.l. sumri átti kost á fullri tryggingu fyrir tveggja ára vinnufriði, ef hún hefði látið þá samninga í friði, en ekki rift þeim með valdbeitingu, algerlega úrræðalaus að öðru en því, að hún er ákveðin í að streitast með öllum ráðum gegn því, að þeir lægst launuðu fái nokkra bót á sínum kjörum. Launastéttunum var sagt stríð á hendur með gengisfellingunni, og afleiðingin er orðin sú, að engin stétt launamanna mun sitja hjá í þeirri launabaráttu, sem fram undan er, og því stríði, sem hæstv. ríkisstj. hefur efnt til með gerræði sínu.

Afgreiðsla hinna tveggja gengislækkunarfrv. hér á hv. Alþingi bíður því síðasta tækifæris til þess að rifta þeim gerræðisaðgerðum, sem ég hef hér lýst, og koma þannig í veg fyrir, að meiri óheill en þegar er orðin stafi af þeim. Það er sjálfsagt of mikil bjartsýni að gera sér vonir um, að þetta síðasta tækifæri verði notað hér af þeim meiri hluta, sem hlýðir í einu og öllu hæstv. ríkisstj., verði notað eins og vera bæri. En afleiðingarnar af því að láta þetta síðasta tækifæri ganga úr greipum verða þá líka allar að skrifast á reikning þess meiri hluta, sem það gerir.