09.04.1962
Efri deild: 82. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (1119)

124. mál, læknaskipunarlög

Frsm. (Kjartan J. Jóhannsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð út af ummælum hv. 9. þm. Reykv. Hann lýsti því nú hér mjög, hvað illa hefði verið ástatt um skipun læknishéraða á árinu 1961. Eins og ég skýrði frá áðan og eins og hæstv. heilbrmrh. skýrði frá við 1. umr. málsins, er miklu betur ástatt um þetta nú. Það er þannig, að nú eru aðeins þrjú héruð óskipuð og þar af eitt hérað, sem ekki eru líkur til að fáist skipað, vegna þess að það er orðið svo fámennt, það eru ekki nema rúmlega 100 manns í því, og það eru ekki líkur til þess, að það fáist neinn til þess að vera þar, blátt áfram af því, að það er svo lítið að gera þar. Það er Flateyjarhérað.

Hv. 9. þm. Reykv. talaði mikið um frv. eins og hæstv. ríkisstj. lagði það fyrir. Hann drap að vísu í lokin aðeins á, að það hefðu orðið nokkrar bætur á því í Nd., og það er alveg rétt. Ég tel frv. miklu betra, eins og það kemur frá Nd., heldur en eins og það var lagt fyrir og að sumu leyti betra og svara betur þeim kröfum, sem þarf að gera til þess núna, heldur en þó að staðaruppbótin hefði verið samþykkt, eins og ég skýrði frá hér áðan. Miðlungshéruðin, sem áttu að vísu að fá nokkra staðaruppbót, eru núna skipuð, og það er ekki vandamál eins og er. En fámennustu héruðin fá með þessari fjárveitingu, sem er heimilt að veita til þeirra, meira en þau hefðu fengið með staðaruppbót. Það er hærri upphæð, sem heimilt er að veita til þessara fámennustu héraða núna, sem eru óskipuð, heldur en staðaruppbótin hefði numið til þessara sömu héraða. Það ætti að vera hægt, og hæstv. ráðh. skýrði frá því hér við 1. umr., að ætlunin væri, ef ekki fengist með öðru móti læknir til þess að sinna þessum héruðum, m.a. að veita þeim aukatekjur eða meiri tekjur, eins og næmi staðaruppbót. Og auk þess ætti að vera nokkur afgangur, sem ætti að vera hægt að nota til þess að greiða fyrir því með öðrum hætti, að þessi héruð fáist skipuð. (AGI: Vill formaður verða við þessum tilmælum mínum?) Ég hef nú orðað þetta við hana, sé ekki ástæðu til þess.