06.04.1962
Efri deild: 81. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1391 í B-deild Alþingistíðinda. (1138)

210. mál, Samvinnubanki Íslands hf.

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Sem samvinnumanni finnst mér satt að segja dálítið óviðfelldið, að Samvinnubanki Íslands skuli eiga að vera hlutafélag. Ég vildi þess vegna leyfa mér að spyrja hæstv. bankamálaráðh., sem hér hafði framsögu í þessu máli, hvort það hafi ekki komið fram neinar óskir af hálfu forráðamanna Samvinnusparisjóðsins um það, að reynt yrði að hafa bankann í samvinnufélagsformi. Nú skilst mér, að þetta hlutafélagsform sé valið eftir óskum forráðamannanna. En ég vildi sérstaklega óska eftir að fá vitneskju um, hvort það hefðu ekki áður komið fram óskir um að hafa þetta samvinnufélag og hvort hefði farið fram athugun á því, hvort það væri mögulegt, og þá hvort sú athugun hafi leitt í ljós, að samvinnuformið hentaði ekki við bankastarfsemi.