08.03.1962
Neðri deild: 61. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1443 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

35. mál, atvinnubótasjóður

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. að ráði. Ég get tekið undir það, að það sé æskilegt, að sett verði löggjöf um þetta efni, en ég get ekki samglaðzt hv. 1. þm. Vestf. yfir þeirri tilvonandi löggjöf, sem hann lýsir af svo mikilli gleði. Það má segja, að það sé kannske að einu leyti vinningur, þrátt fyrir það hvað frv. er ófullkomið, það er það, að núv. stjórnarflokkar eiga þá ekki eins auðvelt á eftir með að lækka framlagið frá því, sem verið hefur og er nú. Það hefur sýnt sig, að þeim hefur verið það tiltölulega auðvelt að hafa þann hátt á, að það væri bara með fjárlagaákvæði, sem fjallað væri um upphæðina.

Ég skal ekki fara inn í málið eða endurtaka það, sem nokkrir þm. hafa ljóslega fundið að frv., bæði við þessa umr. og fyrr. Þeir hafa ljóslega sýnt fram á það, hvað hér er í raun og veru mikil sýndarmennska á ferðinni í sambandi við stórvægilegt og þýðingarmikið mál. Og það gæti verið ástæða til, að þeir, sem draga í efa gildi þess að setja þessa löggjöf, hugsi sem svo, og ég er eiginlega á sama máli, að það sé hæpinn vinningur að hrapa að því að staðfesta þetta í þeirri von, að það kynni að vera hægt að fá hv. stjórnarflokka til að endurskoða afstöðu sína og gera betur, svo að það væri þó hægt að telja það viðunandi lágmarksafgreiðslu í bili.

Ég stóð nú aðallega upp til þess að leiðrétta eitt af því, sem hv. 1. þm. Vestf. vék að, þegar hann var að gera tilraun til þess að verja og í raun og veru að bera á móti þeirri staðreynd, að hér hefði á undanförnum árum verið mjög lækkað framlagið til atvinnuaukningar í landinu. Þá greip hann til þess, sem hann veit nú ósköp vel að ekki hæfir að hafa slíkan málflutning í þessu máli, — greip til þess að vitna í þær 4 millj., sem voru fluttar á 20. gr. fjárlaga á sama tíma og hæstv. ríkisstj. lækkaði framlag til vega á 13. gr. fjárl., ef tekið er tillit til þess, hvað kostnaður við nýbyggingu vega hafði vaxið mikið með gengisbreytingunni. Þá var sem sagt gripið til þess að flytja 4 millj. af því fé, sem réttilega hefði átt að koma inn undir þann venjulega fjárlagalið um nýbyggingu þjóðvega, yfir á 20. gr. og setja þá fjárhæð saman við þær 10 millj., sem ríkisstj. hafði ráðgert að veita til, atvinnuaukningar. Þetta voru náttúrlega á sínum tíma talin ákaflega hæpin vinnubrögð, að taka úr höndum Alþingis það vald að ráðstafa fé til nýbyggingar þjóðvega. En það er nú annað mál. Þessu hefur með nokkru samkomulagi og eftir þessari einkennilegu leið verið úthlutað til nýbyggingar á þjóðvegum, en átti vitanlega eftir venjum að ganga til þeirra hluta í sambandi við afgreiðslu fjárveitinga til vegagerða samkv. 13. gr. Það er þess vegna alls ekki rétt, og það veit hv. þm., að hér er ekki um venjulegt atvinnuaukningarfé að ræða. Það er þess vegna staðreynd, þó að hv. þm. sé að reyna að berja í þann brest, að það hafi ekki verið lækkað fé til þessara hluta, að atvinnuaukningarféð hefur aðeins verið 10 millj. undanfarin ár. Það bendir til þess, hvað hv. þm. finnur til þess, að hann vanti rök og afsakanir fyrir, hvað þessi fjárveiting hefur lækkað á undanförnum árum, að hann skuli grípa til þessara ósanninda, sem í raun og veru allir þm. vita, hvernig er varið.

Hv. 4. landsk. minntist á „litlu gulu hænuna“ frá 1956. Ég skal ekki tala neitt um það, hvað sú nafngift var sanngjörn. En það er rétt hjá honum, að það er vissulega ástæða til þess að minnast hennar núna, vegna þess að nú er þetta ekki orðin lengur lítil gul hæna, heldur ósköp pínulítill gulur hænuungi. Og það er náttúrlega eftir að vita, hvort hv. 1. þm. Vestf. og stjórnarflokkunum tekst að koma þessum kjúkling sínum svo upp, að hann verði nokkurn tíma að hænu og verpi eggjum til gagns dreifbýlinu.