09.04.1962
Neðri deild: 87. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

155. mál, verkamannabústaðir

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja á þskj. 668 þá brtt. við 3. tölulið 3. gr., að Seðlabanki Íslands skuli tryggja byggingarsjóði verkamannabústaða 15 millj. kr. lán árlega með hagkvæmum vöxtum næstu 5 árin, ef sjóðsstjórnin óskar þess.

Ástæður mínar fyrir þessari till. eru í stuttu máli þessar: Ef sjóðurinn fær þær tekjur, sem gert er ráð fyrir í 1. og 2. málslið 3. gr., þá eru þær áætlaðar í grg. frv. minnstar 20 millj. og mestar 30 millj. á ári. Mér sýnist, að ef þetta fé innheimtist þannig, þá yrði hægt að lána árlega til 65–100 verkamannabústaða, ef miðað er við það, að hvert lán verði í kringum 300 þús. kr., eins og gera má ráð fyrir. Ég álít, að þetta sé ekki nægilegt og það þurfi að gera ráðstafanir til að tryggja það, að hægt verði að byggja eitthvað fleiri verkamannabústaði en þetta. Þess vegna flyt ég þessa brtt. um, að sjóðnum skuli a.m.k. tryggt árlega 15 millj. kr. lán næstu fimm árin, en það mundi þýða, að það yrði þó alltaf hægt að byggja 50 verkamannabústöðum fleira árlega. Meira er nú ekki farið fram á en þetta.

Ég hygg, að hv. þm. sjái, að hér er mjög hóflega í sakirnar farið og það sé ekki rétt að gera ráð fyrir, að byggðir verði færri en 100–150 verkamannabústaðir árlega. En til þess að svo verði, er samþykkt svipaðrar till. og ég flyt nauðsynleg.