09.04.1962
Neðri deild: 87. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1513 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

77. mál, Hæstiréttur Íslands

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) hreyfir hér mjög athyglisverðu máli, og ég vil þakka honum fyrir að vekja athygli á því. Ég tel, að það sé alveg rétt hjá honum, að launakjör hæstaréttardómara eru nú með öllu óviðunandi, miðað við tekjur annarra manna í þessu þjóðfélagi, ekki aðeins embættismanna, heldur almennt. En málið er Þó ekki eins einfalt og hann vill vera láta. Ef ég heyrði rétt efnið úr hans till. eða skildi það rétt, þá er auðvitað mjög erfitt að segja, að hæstaréttardómarar eigi að hafa hin hæstu laun, sem ríkið greiðir. Nú skulum við segja, að maður sé ráðinn til sérstakra starfa og fái fyrir það háa þóknun, eins og við skulum viðurkenna að getur orðið, ef menn taka að sér verk í ákvæðisvinnu og ljúka því á skemmri tíma en reiknað hefur verið með. Þá geta komið út allháar launatekjur, t.d. hjá verkfræðingi, sem ráðinn er með slíkum hætti eitt ár. Er þá ætlunin, að hugmynd hv. þm. taki til þess, að hæstaréttardómarar fái jafnhá laun og þessi maður hefur fengið af þessum sérstöku ástæðum? En jafnvel þótt við sleppum því, þá horfir töluvert öðruvísi við t.d. með seðlabankastjóra en hæstaréttardómara þegar af því, að seðlabankastjórarnir eru ráðnir með miklu lausari samningsákvæðum en hæstaréttardómarar. Það eru engir menn í landinu, sem hafa sína stöðu betur tryggða til 65 ára aldurs en hæstaréttardómarar. Aftur á móti er hægt að segja seðlabankastjórum upp með þeim ákvæðum, sem samþ. voru hér fyrir ári og ég get nú ekki tekið nákvæmlega til eftir minni, hvernig voru, en við munum, að þeir eru í raun og veru lausráðnir, þannig að það er ákaflega auðvelt, ef vilji er til þess, að losna við þá úr starfi. Þess vegna er allt öðruvísi um þessar stöður búið og eðlilegt, að það komi fram í nokkrum launamun.

Ég held því, að ákvæði um laun hæstaréttardómara þurfi töluvert betri íhugunar við en mér virðist eftir till. hv. þm., að hann hafi enn gefið sér tíma til þess að gera í Þessu mjög vandasama, en þýðingarmikla máli. Það stendur fyrir dyrum á einn eða annan veg að taka upp til endurskoðunar þær reglur, sem gilda um laun opinberra starfsmanna almennt, og ég hygg, að launakjör hæstaréttardómara séu svo viðurhlutamikil, að það sé eðlilegt, að ákvörðun um, með hverjum hætti og eftir hvaða reglum þau séu ákveðin, sé tekin í sambandi við launamál opinberra starfsmanna almennt, en ekki á síðasta stigi umr. þessa máls. Nú getur hv. Þm. bent á Þar á móti, að þarna sé nú tekið inn fyrirmæli varðandi hæstaréttarritara, en það er einungis varðandi flutning á honum milli tveggja flokka, tiltölulega einfalt mál og atriði, sem menn gera sér alveg glögga grein fyrir, hvað í felst, hvort sem Þeir eru með Því eða á móti. En varðandi hæstaréttardómarana er það, eins og ég segi, mun flóknara og viðurhlutameira.

Ég hef ekki heyrt um þessa till. hv. þm. fyrr en hér á fundinum. Ég mundi telja ráðlegra, að þessi till. væri ekki samþ. í sambandi við þetta frv., heldur í sambandi við nýskipan á reglum um launakjör opinberra starfsmanna almennt. Ég vil þó taka fram, þar sem þessu er nú hreyft að mönnum óviðbúnum, að ég hef ekkert á móti Því, þó að málið yrði nú tekið af dagskrá og menn athuguðu það í einn eða tvo daga, hvort ráðlegt er að samþ. þessa till. í þessu formi eða einhverju öðru. Ég viðurkenni réttmæti meginröksemda hv. þm. og ítreka mínar Þakkir til hans fyrir að hreyfa Þessu mikilsverða máli hér, en tel a.m.k., að Það sé ekki hægt að samþ. Þessa till. án Þess að athuga hana betur. Og í stað þess að leggja til, að till. sé felld, þá mundi ég, ef hv. Þm. er Því samþykkur, mælast til Þess við forseta, að málið yrði nú tekið af dagskrá a.m.k. til morguns eða fram eftir vikunni, eftir því sem vill, til þess að hægt verði að sjá, hvað verður um launakjör opinberra starfsmanna almennt.