22.03.1962
Efri deild: 68. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1590 í B-deild Alþingistíðinda. (1524)

110. mál, ríkisreikningurinn 1960

Frsm. 2. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég tel nú ástæðu, þó að umræðurnar hafi ekki orðið lengri en þær eru orðnar, til þess að minna á það, sem var aðalatriðið í ræðu minni og raunar frsm. 1. minni hl. fjhn. líka, að hvorugur okkar vildi una Því, að hæstv. fjmrh. héldi fyrir þeirri n., sem um ríkisreikninginn átti að fjalla, og fyrir hv. Alþ. upplýsingum, sem fyrir lægju. Þetta var aðalatriðið í okkar ræðum og okkar ásökun á hendur hæstv. ráðh. Nú hefur það komið fram í ræðu hæstv. ráðh., að hann telur, að þessar ásakanir okkar séu hreinn hugarburður, sem sé byggður á sandi og hafi við ekkert að styðjast, vegna þess, að því er manni skilst, að engar upplýsingar aðrar en þær, sem fyrir liggja í athugasemdum yfirskoðunarmanna og í öðrum gögnum, sem við höfum fengið í hendur, lægju fyrir. Ég hlýt af þessu tilefni og vegna Þess, að þetta er í raun og veru kannske aðalatriðið í málinu, eins og það hefur verið rætt hér, rifja upp örlítið, hvernig umræður hafa verið um Þetta í fjhn. og hvernig, ef svo má segja, upplýsingar frá hendi ráðh. og meiri hl. fjhn. hafi smám saman verið að taka breytingum við meðferð málsins.

Ég man nú ekki lengur glöggt, hve langt er síðan upplýst var í fjhn., — ég hygg, að það séu 2–3 vikur a.m.k., kannske er það upp undir mánuður, síðan það var upplýst í nefndinni af hv. 1. minni hl. fjhn., Karli Kristjánssyni, eftir að hann hafði rætt við ríkisendurskoðanda, að ríkisendurskoðandi hefði lokið skýrslugerð sinni, Þeirri rannsókn, sem um er rætt í aths. við ríkisreikninginn og svari ráðh., — hefði lokið þeim og sent þau til ráðh. Og þegar þessar upplýsingar lágu fyrir eftir beztu hugsanlegum heimildum að mínum dómi, þá er það, að hv. frsm. 1. minni hl. fjhn. og ég gerum þá kröfu, að við fáum að sjá Þessa niðurstöðu. Síðan er tekinn frestur í málinu af hálfu meiri hl., án þess að nokkrar aths. komi fram hjá honum um það, að þessi lokaniðurstaða liggi fyrir, og það eftir að hv. meirihlutamenn höfðu haft tal af hæstv. fjmrh. Eftir sem áður var talað í nefndinni fullum fetum um lokaniðurstöðu ríkisendurskoðanda og engar brigður bornar á það af meiri hl., að þessi lokaniðurstaða lægi fyrir. Það var ekki fyrr en á lokafundinum, sem haldinn var um þetta mál, að einhverjir úr meiri hl. fóru að impra á því, að þetta hefði ekki verið lokaniðurstaða, heldur hefði þetta verið uppkast að skýrslu til hæstv. fjmrh. um málið. Hér sýnist mér, að verið sé að skjóta sér á bak við það, að að sjálfsögðu getur ráðh., sem hefur yfirstjórn rannsóknar með höndum, krafizt sífellt meiri og meiri rannsókna af hálfu ríkisendurskoðanda eða annars Þess manns, sem hann kann að fela rannsóknina, og neitað að viðurkenna, að sá maður, sem falið hefur verið verkið, hafi skilað því eins og hann hafi ætlazt til. Það eru slíkar vífilengjur, sem hér eru hafðar í frammi. Svo hefur það enn þá gerzt, að nú í dag hefur hæstv. fjmrh. kallað þessa skýrslu, þessa lokaskýrslu ríkisendurskoðanda, trúnaðarbréf til sín. Reyndar var það nú í lokin nefnt álitsgerð. Ef hér er yfirleitt verið að tala um eitt og sama skjalið, þá er það nefnt sums staðar lokaskýrsla ríkisendurskoðanda, annars staðar uppkast að lokaskýrslu, enn annars staðar trúnaðarbréf um málsmeðferð og enn annars staðar álitsgerð. Maður fer að efast um, að það sé verið að tala um eitt og sama skjalið. Eða getur það verið, að hæstv. ráðh. eigi hér við tvenns konar gögn, að lokaskýrsla hafi komið frá ríkisendurskoðanda og hann hafi e.t.v. þar að auki ritað hæstv. ráðh. eitthvert bréf? Ég skal ekki segja um það. En afskaplega verð ég að telja það ósennilegt, að eftir að ríkisendurskoðandi hefur haft málið með höndum frá því í byrjun desembermánaðar og fyrir hann hefur verið lagt að hraða rannsókninni svo sem kostur væri, þá liggi málið þannig fyrir nú seinni hluta marzmánaðar, að engar nýjar upplýsingar hafi komið fram og hann hafi ekki gefið ráðh. neina vitneskju um neitt annað en það, sem lá fyrir, þegar yfirskoðunarmenn ríkisreikninga rituðu sínar aths. Það vil ég segja, að þetta finnst mér ólíklegt. Og ef við berum svo þetta aftur saman við þær kröfur, sem ég og hv. frsm. 1. minni hl. n. höfum sett fram, þ.e.a.s. að við viljum fá að sjá Þau gögn, sem liggja nú fyrir, ef málið er ekki fullrannsakað, þá er ekki um það að fást, en við teljum, að fjhn. og hv. þingdeild eigi fulla kröfu á því að fá þær upplýsingar í hendur, sem fyrir hendi eru. Annað höfum við ekki farið fram á. Og það má vel vera, að við getum ekki gert neinar kröfur um það að fá að sjá einkabréf ríkisendurskoðanda, trúnaðarbréf ríkisendurskoðanda til hæstv. fjmrh. En upplýsingar í þessu máli geta áreiðanlega ekki verið neitt einkamál embættismanna í fjmrn. eða að það geti verið um það að ræða, að þar séu slíkar upplýsingar um málið, að fjhn. og þd. eigi ekki fullan rétt á að sjá það.

Ég hjó ekki eftir því í ræðu hæstv. fjmrh., að hann fullyrti nokkurn tíma berum orðum og beinlínis, að engin lokaniðurstaða væri fengin frá ríkisendurskoðanda. Það var farið í kringum málið, en ég held, að hann hafi aldrei fullyrt það berum orðum, að þessi endanlega niðurstaða lægi ekki fyrir. En það gefur svo aftur tilefni til nokkurrar íhugunar, að bréfaskriftir skuli eiga sér stað frá embættismanni í fjmrn. til hæstv. ráðh. um vandamál í sambandi við málsmeðferðina. Hvaða vandamál geta það verið? Geta það verið nokkur önnur vandamál en þau, sem kynnu að rísa af Því, að Það væri frekari aðgerða þörf um rannsókn, t.d. hvort ætti að fyrirskipa réttarrannsókn eða ekki? Eða gætu slík vandamál risið upp að öðrum kosti, nema þá lokaniðurstaðan lægi niður? Málið hefur verið rannsakað, eftir því sem hægt er að rannsaka það í ráðuneytinu. Mér sýnist því, að þrátt fyrir allar fullyrðingar hæstv. ráðh., sem hann ber fram í trausti þess, að hann hafi yfirburðaaðstöðu fram yfir okkur aðra um að geta haft í frammi fullyrðingar í málinu, þá berist böndin illilega að því, að þeirri rannsókn, sem yfirleitt getur verið um að ræða í fjmrn. eða endurskoðunardeild þess, sé lokið og að Þeim upplýsingum, sem kunna að hafa komið fram þar nýjar fram yfir þær, sem liggja fyrir, þegar yfirskoðunarmenn birta sínar aths., sé haldið leyndum fyrir fjhn og fyrir hv. þd., og það er það, sem er aðalatriðið í Þessu máli.

Ég vil svo líka geta þess, því að það skýrir þetta ofur lítið allt saman, að ég fór fram á það, eftir að fjmrh. a.m.k. tvívegis hafði neitað að gefa þessar upplýsingar, án þess að bera það nokkurn tíma fram, að þær væru í einhverju trúnaðarformi til sín, að ráðh. mætti á fundi nefndarinnar, svo að ekkert væri um að villast og ekkert færi á milli mála, þar sem milligöngumaður væri hafður við. Þessu var algerlega neitað af meiri hl., sem þá var orðinn svo órólegur að afgreiða málið, að það þoldi enga bið, og þeir töldu líka og þar á meðal hv. frsm. meiri hl. fjhn., að slíkt væri með öllu tilgangslaust, hvort tveggja væri, að ráðh. mundi ekki mæta á fundi nefndarinnar, og þar að auki mundi hann ekki gefa neinar upplýsingar. Ég veit, að þetta er öllum nm. í fjhn. kunnugt, en hjá því verður ekki komizt að rifja Það upp, þegar slíkur málflutningur er hafður í frammi, sem hæstv. ráðh. hefur hér gert í dag. Það var vissulega ekkert auðveldara fyrir hæstv. ráðh. en að koma til n. og segja, að það lægi engin lokaniðurstaða fyrir og það efna, sem hann hefði nýtt í höndunum, væri trúnaðarbréf um málsmeðferðina. En hann gerði það bara ekki. Og það er ekki fyrr en nú, að hann er opinberlega ásakaður fyrir það að halda leyndum gögnum fyrir hv. þingdeild, sem hann grípur til þess að fullyrða, að sú skýrsla, sem hér hefur verið gerð að mestu umtalsefni, sé ekki til.

Hv. frsm. 1. minni hl. fjhn. kom inn á það hér réttilega, að við hefðum ekki krafizt þess, eins og ráðh. fullyrti, áreiðanlega gegn betri vitund, að við hefðum heimtað að fá Þessi gögn frá ríkisendurskoðanda bæði til yfirlesturs og birtingar, — við hefðum heimtað að fá þau til birtingar. Það sýnir nokkuð inn í það, hvað hæstv. ráðh. er aðþrengdur, að hann skuli leyfa sér að fara með svona algerlega staðlausa stafi, að við höfum heimtað að fá skjöl til birtingar, þegar við tókum það sérstaklega fram, að við værum reiðubúnir til þess að taka við þessu sem algeru trúnaðarmáli, ef ástæða væri til og þess væri óskað.

Það var sýnilegt, að hæstv. ráðh. var gramur yfir því, að hv. frsm. 1. minni hl. skyldi lesa hér bréf skilanefndarinnar, því að það kom auðsjáanlega ekki vel við hann, en þar var sá mikli munur á, að það hafði aldrei verið neinum hleypt í það sem trúnaðarmáli.

Þetta eru í raun og veru aðalatriði af því, sem ég vildi segja nú um málið til viðbótar við það, sem áður hefur komið fram. Það er naumast umtalsvert, þó að hæstv. ráðh. kvarti um annað eins og það, að við syngjum hér ekki einhvern lofsöng yfir því, að honum hafi tekizt að fá örlítinn greiðsluhagnað á ríkisreikninginn með því að hækka skatta um 45–50% og fella gengið að auki eða að honum hafi tekizt að fara ekki mikið fram úr umframgreiðslum með því að hafa allar áætlanir nógu háar, og um það, hve fljót og góð reikningsskil hann hafi gert og miklu betri en hv. fyrrv. fjmrh., 1. Þm. Austf. Ég held a.m.k., að mér yrði ekki brugðið um afbrýðisemi, eins og kannske er hægt að gera gagnvart framsóknarmönnum, því að aldrei mun ég hirða um það, hver verði eftirmaður hæstv. núv. ráðh. eða hv. 1. þm. Austf.

En um leið og hæstv. ráðh. var að ásaka okkur, að við gleymdum svona mikilsverðum atriðum, þá láðist honum að svara að nokkru því, sem ég hafði sérstaklega spurt hann um viðvíkjandi hans eigin fjármálastjórn. Ég spurði hann t.d. að því, með hvaða heimildum hann hefði látið reka togarann Brimnes frá því 1. sept. 1959 og til maíloka 1960, hvaða heimildir hann hefði haft til þess frá hv. Alþingi. En honum láðist alveg að svara þeirri spurningu. Og honum láðist líka að bera fram afsakanir fyrir því, að hann hafi ekki efnt til neins eftirlits með þessari útgerð, sem svona hefur reynzt, eins og dæmin sanna. Og honum láðist að geta um það, að það var ekki einu sinni hann sjálfur, sem fyrirskipaði það, að þessari útgerð skyldi hætt, heldur var það Axel Kristjánsson, sem gerði það. Honum hefði sennilega verið ljúft að halda þessari útgerð áfram enn í dag, ef viðskiptavinurinn hefði ekki gefizt upp.

Mér finnst, að hæstv. ráðh. hafi tekið raunverulega þann kostinn, sem hann átti nú einna lakastan, þ.e.a.s. að skýla sér á bak við ósannar fullyrðingar, sem hann veit að enginn tekur trúanlegar af þeim, sem hafa nokkuð kynnt sér þessi mál, og stangast algerlega á við allt, sem fram hefur komið í málinu til þessa, því þó að það sé að vísu ekki gott og eins og ég hef rakið algerlega óverjandi að halda upplýsingum fyrir hv. Alþingi, — upplýsingum eins og þessum, sem nú hefur verið krafizt, — þá var það þó a.m.k. karlmannlegra en sú afstaða, sem hæstv. ráðh. hefur nú tekið.