05.04.1962
Neðri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1774 í B-deild Alþingistíðinda. (1579)

170. mál, Stofnalánadeild landbúnaðarins

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hygg, að framsöguræða sú, sem hæstv. landbrh. flutti hér í dag, muni teljast til sérstæðra tíðinda hér á hv. Alþingi. Hæstv. ráðh. gleymdi næstum því að ræða málið, nema þegar hann var að víkja úr ræðustólnum og bað um, að því yrði vísað til nefndar og 2. umr., en því var hann rétt búinn að gleyma líka, því að áhugi hans snerist eingöngu um að ræða um Framsfl. Eitt sagði hæstv. ráðh. merkilegt í sinni ræðu. Hann sagði, að það væri lofsvert, þegar þm. vönduðu sig í málflutningi. Nú langar mig til þess að spyrja: Á þetta ekki einnig við um ráðherra? Er það að vanda sig í málflutningi, þegar notuð eru orð eins og hæstv. ráðh. gerði, þegar hann sagði þetta m.a. um okkur framsóknarmenn: Þeir standa ekki á fastri grund. þeir munu iðrast orða sinna. Þeir vinna illt verk. Þeir snúast gegn málinu gegn betri vitund, gegn sannfæringu sinni. — Er þetta að vanda sinn málflutning, hæstv. ráðh.? Hvers vegna þurfa hæstv. ráðherrar að nota svona orð? Hvaða máli er það til framdráttar?

Hæstv. ráðh. gerði ekki heldur greinarmun á því, hvort bændasamtökin í landinu óskuðu eftir, að mál væri afgreitt, er þau varðar, eða mótmæltu því. Það skipti engu máli frá sjónarmiði hæstv. ráðh., heldur voru bara bændasamtökin eða forsvarsmenn þeirra menn, sem ekki átti að taka tillit til frekar en framsóknarmanna.

Þá sagði hæstv. ráðh.: Ef þessi lög hefðu verið samþykkt fyrir 10–15 árum, hvað hefði þá gerzt í landinu? — Ég skal svara þessu. Það, sem hefði gerzt, hefðu verið minni framkvæmdir í landbúnaði en orðið hefur. Það hefði verið minni framleiðsla en orðið hefur. Það væru færri bændur í landinu en nú eru. Það er þetta, sem hefði gerzt.

Svo segir hæstv. ráðh., að Tíminn hafi verið að tala um það, að hv. þm. Bjartmar Guðmundsson hefði verið að hnupla máli í sambandi við það, að bændur kæmu sér upp lífeyrissjóði. Nú skal ég segja þessum hæstv. ráðh. það, að á árinu 1957 var hér á hv. Alþingi samþykkt tili. til þál. frá okkur framsóknarmönnum um að athuga það, að bændur kæmu sér upp lífeyrissjóði. Þessi till. var afgreidd, það var skipuð mþn. í það mál, og sú nefnd hefur skilað áliti. Svo segir hæstv. ráðh.: Þetta mál þarf að vanda vel, og það þarf að fá sérfræðinga, tryggingafræðinga, til þess að athuga þetta mál. — En það eru tryggingafræðingar, sem hafa verið að skoða þetta mál í nokkur ár.

Annars ætla ég ekki að ræða þessa ræðu hæstv. ráðh. miklu meira en orðið er. En mér datt í hug, þegar hæstv. ráðh. var að flytja þessa ræðu, saga af ferðamanni einum, sem meiddi hesta sína oft á ferðalögum, fór illa með þá. Honum var sagt, að til þess að græða meiðslin væri gott að bera á blástein. Þetta gerði ferðamaðurinn, en hann bar blástein á ómeiddu hestana líka. Mér fannst eins og það kenndi þess, að hæstv. ráðh. væri sár undan umr. í Ed. og ætlaði nú að bera blásteininn á ómeiddan fararskjóta sinn, þegar hann héldi innreið í þessa deild. En það mun fara svo, að blásteinninn mun ekki duga honum, — dugði ekki þessum bónda, vegna þess að hann fór illa með sína hesta, — og hrokinn mun ekki heldur duga hæstv. ráðh. hér í málflutningi, sárin munu sýna sig.

Það er þrennt, sem hefur sérstaklega verið rætt í þessum umr. um lánasjóði landbúnaðarins, sem ég vil nú sérstaklega gera að umtalsefni. Það er í fyrsta lagi viðskilnaður og afskipti Framsfl. af þessum sjóðum, Það er í öðru lagi stefna núv. ríkisstj. og aðgerðir hennar, og í þriðja lagi, hvernig átti að snúast við vandanum.

Áður en ég vík að fyrsta þættinum, vil ég minna á það, að þegar lögin um stofnlánadeildir landbúnaðarins, ræktunarsjóð og byggingarsjóð, byggingar- og landnámssjóð, upphaflegu lögin, voru sett, þá var meginstefnan sú, að þjóðfélagið í heild aðstoðaði bændurna í landinu við uppbyggingu með því að veita þeim löng lán með lágum vöxtum. Það átti að vera aðstoð þjóðfélagsins til þess að byggja upp í landbúnaði, til þess að rækta landið, bæta það og stækka, það var að veita bændunum í landinu löng lán með lágum vöxtum. En hvað þýddi þetta: að veita löng lán með lágum vöxtum? Það þýddi, að það var öllum ljóst, að sjóðir, sem var ætlað þetta hlutverk, gátu ekki af eigin rammleik byggt sig upp, vegna þess að féð, sem þeir fengu að láni, var dýrara en þeir vextir, sem þeir áttu að taka aftur. En það var skilningur valdhafanna þá og þeirra, sem með þessi mál hafa farið síðan, að þjóðfélagið í heild ætti að leggja til þann mismun til þess að jafna þarna metin. Þetta er meginstefnan í uppbyggingu sjóða landbúnaðarins frá upphafi fram á Þennan dag. Og það er þessi stefna, sem nú á að fara að breyta.

Þá kem ég að þeim þætti, hvernig Framsfl. hefur staðið að þessum málum.

Framsfl. fór með stjórn landbúnaðarmála og ríkisstj. í landinu á árunum 1934–37. Á þeim árum voru veitt úr byggingarsjóði sveitanna 68 lán að meðaltali á ári og lánsupphæðin 270 þús. kr. En á árunum 1944–46 fóru sjálfstæðismenn með yfirstjórn landbúnaðarmátanna í landinu. En þá voru ekki veitt nema 33 lán að meðaltali á ári úr byggingarsjóði sveitanna og fjárhæðin var 132 þús. kr. Þetta er samanburður á afskiptum framsóknarmanna og sjálfstæðismanna af byggingarsjóði sveitanna hér áður fyrr. Af ræktunarsjóði er sömu sögu að segja. Á árunum 1934–39 voru veitt að meðaltali 127 lán og lánsupphæðin 280 þús. kr. En á árunum 1944–46, Þegar sjálfstæðismenn áttu landbrh., voru veitt 101/2 lán að meðaltali á ári og lánsupphæðin 131 þús. kr. Þetta er að stjórna málum landbúnaðarins vel að dómi þeirra sjálfstæðismanna. Og sagan heldur áfram og sýnir staðreyndirnar. Allt frá 1947 til 1958 fóru framsóknarmenn óslitið með landbúnaðarmálin í ríkisstj. Á því tímabili er stórstígasta framfaratímabilið í sögu íslenzks landbúnaðar. Á þessum árum var ekki verið að lána 10 lán úr ræktunarsjóði og ekki verið að lána 130 þús., eins og verið hafði árin á undan. Á þessum árum voru lánuð að meðaltali úr byggingarsjóði 170 lán, og lánsfjárhæðin í heild var 101 millj. kr. Þetta var þegar Framsfl. fór með þessi mál sjóðanna. Og úr ræktunarsjóði voru á þessu tímabili lánuð 600 lán að meðaltali á ári og lánsupphæðin í heild var 236 millj. kr. Á tímabilum Framsfl. frá 1947–58 voru lánaðar í landbúnaðinn gegnum þessa sjóði um 340 millj. kr. Svo koma þessir hv. stjórnarsinnar nú og telja, að Framsfl. Þurfi að biðja afsökunar á afskiptum sínum á lánasjóðum landbúnaðarins, þegar borið er saman þetta tímabil og þúsundirnar hjá þeim á undan. Nei, Framsfl. er óhætt að tala um lánasjóði landbúnaðarins. Og við skulum halda áfram að lesa söguna, því að staðreyndirnar verða ekki hraktar, jafnvel þó að hæstv. landbrh. flytji hrokafulla ræðu, eins og hann flutti hér í dag.

Til viðbótar þessu um uppbygginguna skal ég geta þess, að á þessu tímabili framsóknarmanna var uppbyggingin í landinu það mikil, að byggð munu hafa verið um 25% af íbúðarhúsum í sveitum landsins. En það var meira gert á þessum árum en uppbyggingin ein. Og nú skal ég snúa mér að uppbyggingu lánasjóða landbúnaðarins. Það er þáttur út af fyrir sig, sem er rétt að ræða líka, ekki sízt eftir að því gjaldþrotaástandi hefur verið lýst, sem hv. stjórnarsinnar tala mest um hér í hv. deild.

1946 í árslok eða í ársbyrjun 1947, þegar Framsfl. tók við yfirstjórn landbúnaðarmála í landinu, var höfuðstóll byggingarsjóðs sveitanna 6.7 millj. kr. En í lok tímabilsins, eða í árslok 1958, þegar Framsfl, fór frá völdum, var höfuðstóll byggingarsjóðsins 43.3 millj. kr. Á þessu tímabili hafði hann vaxið um 36.6 millj. kr. Sömu sögu er að segja úr ræktunarsjóði, því að í árslok 1946 átti ræktunarsjóður höfuðstól 4.4 millj. kr., en í árslok 1958 átti hann 61.7 millj. kr. Höfuðstóli ræktunarsjóðs hafði aukizt á þessu tímabili um 57.3 millj. kr. Í árslok 1958, þegar Framsfl. fór úr ríkisstj., var höfuðstóll ræktunarsjóðs og byggingarsjóðs 105 millj. kr. Þetta eru staðreyndir um gjaldþrot Þessara sjóða. En ég mun síðar koma að þeim þættinum, sem hæstv. ríkisstj. ætlar sér að hanga á, sem sé Þeim, að Framsfl. eigi að stjórna þessum málum og sjá fyrir þeim, löngu eftir að hann er kominn úr ríkisstj.

En það var fleira gert á þessu tímabili en hefur verið hér greint, og er það þó allverulegt, því að einnig á þessu tímabili var ákveðið, að hluti af mótvirðissjóði gengi til lánastarfsemi ræktunarsjóðs. Þetta heldur áfram, eftir að Framsfl. hefur farið úr ríkisstj. Hér var því einnig verið að skila til framtíðarinnar. Það er því ekki óglæsilegt tímabil Framsfl., þegar hann fór með yfirstjórn þessara mála. Og hæstv. landbrh. má gæta sin á samanburðinum siðar meir. Það, sem gerðist á Þessu tímabili Framsfl., á árunum 1947–58, var það, að lánveitingar sjóðanna jukust að meðaltali á ári úr 260 þús., sem þær voru hjá íhaldsstjórninni, í 28 millj. kr. Eignir sjóðanna jukust um 94 millj. kr. Og útvegað var fé til þess að lána nokkurn hluta af þessum lánum sjóðanna framvegis í gegnum mótvirðissjóðinn líka. Þetta er þáttur Framsfl. í yfirstjórn þessara mála, og þýðir hér ekki á móti að mæla, því að staðreyndirnar tala sínu máli.

Þá kem ég að þeim þættinum, sem hæstv. landbrh. og stjórnarsinnar hafa reynt að nota sér til framdráttar í sambandi við lánakjör landbúnaðarins, en það eru þær erlendu lántökur, sem teknar voru á þessu tímabili. Þeir hafa haldið því fram, að Framsfl. hafi ekki séð fyrir því, að af þessu yrði ekki halli siðar meir. Nú verð ég að segja það, að það er skrýtin pólitík og alveg nýr þáttur í fjármálum, ef t.d. gengislækkunin í sumar ætti að skrifast á reikning Framsfl., ef það ætti nú að fara að kenna honum það tjón, sem sjóðunum varð af því gengisfalli. Vegna þess að ríkisstj. landsins var í illu skapi og þurfti að svala sér, af því að hún hafði tapað í vinnudeilum, þá felldi hún gengið, og þá ætti að kenna Framsfl. um það tjón, sem þessi sjóður yrði fyrir. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið í sambandi við gengisfallið, þá skiptist það sem næst þessu, að yfirfærslugjaldið muni hafa kostað sjóðina um 32 millj. kr. Nú vil ég taka það fram, að þegar vinstri stjórnin fór frá völdum, höfðu hækkuð útgjöld sjóðanna ekki numið nema 1.9 millj. kr., en Það var sú hækkun, sem varð á útgjöldum sjóðanna árið 1958, 1.2 millj. í ræktunarsjóði og 0.7 millj. í byggingarsjóði. Þess vegna var hér ekki um stóra upphæð að ræða. En með gengisfallinu 1960 hækkuðu skuldir sjóðanna um 65 millj. kr., og með gengisfallinu 1961 hækkuðu þær um 26 millj. kr. Þess vegna hefur samanlagt gengisfallið valdið sjóðunum útgjöldum upp á 123 millj. kr. Nú er því haldið fram, að Framsfl. hafi ekki tryggt þetta mál nógu vel. Nú skulum við gera okkur grein fyrir því, hver var tryggingin? Ríkissjóður bar ábyrgð á skuldum sjóðanna, og ríkissjóður á þessa sjóði, eins og segir í grg. þessa frv., og hefur alltaf átt. Sá aðili, sem bar ábyrgð á skuldum sjóðanna, var enginn annar en ríkissjóður. Og svo segja menn: Hvernig eigum við að fara að taka núna afleiðingum gengisfallsins, þar sem Framsókn anaði út í að láta sjóðina taka erlend lán? — því hefur að vísu aldrei verið svarað af hv. stjórnarsinnum, hvað átti að gera annað. Þá spyr ég: Af hverju er verið að gera gengisbreytingu á Íslandi? Það er gert vegna atvinnuveganna. Það er venjulega sett hér upp á hv. Alþingi í grg., hvað þessi og þessi bátur þurfi mikið gengisfall til þess að geta borið sig. Ef Alþingi íslendinga ber skylda til þess að breyta gengi krónunnar vegna sjávarútvegsins, þá segi ég, að þá ber Alþingi Íslendinga jöfn skylda til þess að sjá um, að einum af höfuðatvinnuvegum landsmanna verði ekki íþyngt vegna gengisbreytinga. Og þess vegna er það ekki nema einn þáttur af aðgerðum í efnahagsmálum að greiða það gengistap, sem sjóðirnir urðu fyrir. Og það sýnir linkind þessa hæstv. landbrh., að hann skyldi láta þennan þátt eftir liggja. Og svo kemur hæstv. ráðh. hér í dag og segir, að Það hafi verið rangt, að ríkisstjórnin hafi séð fyrir gengishalla, sem bankarnir hafa orðið fyrir. Nú fyrir stuttu hélt Seðlabanki lands vors mikla veizlu, og þar flutti aðalbankastjórinn ræðu mikla, og svo gáfu Þeir út bók, og á bls. 19 segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Í bráðabirgðaákvæðum seðlabankalaganna er fjmrn. heimilað að semja við Seðlabankann um það, að inn á gengisreikning ríkissjóðs, sem varð til vegna gengistaps ríkissjóðs og bankanna 1960, verði greiddar“ o.s.frv., segir svo frá því, að um 110 millj. kr. sé nú búið að verja í þessu skyni og svo ætli bankinn að taka hitt að sér. En hér á hv. Alþingi er verið að blása yfir því og það er talin sérstök frekja, að þm. skuli láta sér detta í hug, að landbúnaðurinn sé látinn sitja við sama borð og annar atvinnuvegur þjóðarinnar, þegar gengisbreytingar eru gerðar í þágu atvinnuveganna.

Svo vil ég nefna annað dæmi. Hér á hv. Alþingi fyrir stuttu gaf hæstv. fjmrh. skýrslu um ríkisábyrgðir, sem ríkissjóður er búinn að greiða. Hann gat þess, hæstv. ráðh., að ríkissjóður væri búinn áð greiða vegna togaraútgerðar landsmanna um 93.4 millj. kr. á nokkrum árum og greiddi 25.8 millj. kr. s.l. ár. Samkv. skýrslum um ríkisábyrgðir er búið á nokkrum árum að greiða vegna togaraútgerðar, fiskiðjuvera og síldarverksmiðja úr ríkissjóði tæpar 150 millj. kr. Og svo þykir það frekja, ef það er ætlazt til þess, að ríkissjóður taki á sig kostnað, sem sjóðir landbúnaðarins verða fyrir vegna breytinga í efnahagsmálum landsins. Hér skýtur nokkuð skökku við, og ég held, að hæstv. landbrh. hafi ekki gert sér grein fyrir því, að landbúnaðurinn er einn af atvinnuvegum þjóðarinnar og að ríkisvaldinu ber einnig að taka tillit til þess atvinnuvegar eins og hinna.

Nú er ég ekki með því að skýra frá Þessum ríkisábyrgðum að segja, að það hafi ekki verið nauðsynlegt að gera þetta vegna þessa atvinnuvegar, því að það er höfuðmál ríkisvaldsins, að atvinnuvegum þjóðarinnar vegni vel. En þáð á ekki að gera það á þann veg, að um leið og það er að greiða úr fyrir einum, þá íþyngi það öðrum. Það skal svo haft í huga, að stefna sjóðanna frá upphafi hefur verið sú, að ríkisvaldið sjálft legði þeim til, svo að þeir gætu jafnað rekstrarhallann, vaxtamismuninn og önnur þau áföll, sem sjóðirnir yrðu fyrir. Þetta er höfuðmálið. Á þessu eru þessir sjóðir byggðir, og þess vegna hefur rekstur þeirra verið með þeim hætti, sem hann hefur verið. En þeir hafa bara gert meira, því áð á þessum tíma hafa þeir einnig safnað innistæðuhöfuðstól upp á 100 millj. kr. Og það er ekki fyrr en hæstv. núv. ríkisstj. kemur, að þessum höfuðstól er eytt. Það er hennar verk, vegna þess að hún tekur ekki efnahagsmálin þeim tökum, sem hún átti að taka. Hún lætur hlut landbúnaðarins liggja eftir. Þetta er mergur málsins um sögu sjóðanna, og það er alveg þýðingarlaust að belgja sig út hér á hv. Alþ. og ætla að reyna að halda öðru fram.

Þá kem ég að því frv., sem hér er til umr., eða öðrum þeim þætti, sem ég nefndi hér í upphafi máls míns, en það er sú stefna, sem þetta frv. boðar. Þetta frv. hæstv. ríkisstj. er í samræmi við stefnu hennar í efnahagsmálunum. Hún er sú að íþyngja æ ofan í æ almennum borgurum, hlaða pinkli ofan á pinkil, eins og einn fyrrv. þm. orðaði hér einu sinni, þangað til allt fer undir kvið á merinni. Þetta er hennar stefna. Og í raun og veru má segja, að hlutverk sjóðanna var áður að aðstoða bændastéttina í landinu við uppbyggingu, en nú eiga bændurnir í landinu að fara að byggja sjóðina upp. Það er þetta, sem er að gerast. Áður áttu sjóðirnir að standa fyrir uppbyggingu úti um sveitir landsins, en nú eru það sveitir landsins, sem eiga að standa fyrir uppbyggingu sjóðanna. Þetta er mergur málsins. Og þetta er í samræmi við stefnu núv. ríkisstj., að íþyngja alltaf meir og meir hinum almenna borgara. Þetta er hæstv. ríkisstj., sem telur sér svo trú um, að hún sé að létta sköttum af þjóðinni. Margt er nú sér til gamans gert. Samkv. þessu frv., ef teknar eru töflurnar, sem hæstv. ráðh. var að minna okkur á að lesa vel í dag og ég hef nú dálítið lesið, þá miðast þetta allt við árið 1975, og gæti maður því látið sér detta í hug, að hæstv. ríkisstj. hugsaði sér, að það ár væri þætti ríkissjóðs a.m.k. lokið. Þessi stofnlánadeild á að hafa í tekjur á þessu tímabili, þar með talið stofnframlagið, sem fylgir í upphafi málsins hér, þessar 60.5 millj. kr., sem ríkissjóður leggur til núna, en allar tekjur deildarinnar eiga á þessu tímabili að vera 953.5 millj. kr. Og ef við förum nú í gegnum þetta og gerum okkur grein fyrir því, hvernig þetta skiptist, þá er skiptingin á þessa leið:

Upphaflega stofnfjárframlagið, sem ríkissjóður leggur til nú í upphafi, er 60.5 millj. kr. Gert er ráð fyrir, að ríkissjóðsframlagið á móti framlagi bænda sé 132.6 millj. kr. og að neytendaskatturinn eða þessi 0.75% muni gefa 86 millj. kr. Þetta eru samtals um 279.1 millj. kr. Og þessu til viðbótar er 4 millj. kr. árlegt framlag, sem er endurnýjun á því framlagi, sem er í núgildandi lögum. Ef það er tekið með, eru þetta samtals 335 millj. kr. Frá bændunum í landinu á svo að koma á þessu tímabili í gegnum framleiðsluskattinn og í vextina 618.5 millj. kr., eða nærri því af því, sem þessir sjóðir eiga að fá til meðferðar.

Nú skulum við fara dálítið nánar í þessa tekjustofna, og nú skulum við halda okkur við það, sem hæstv. ráðh. og talsmenn ríkisstj. segja hér í grg. frv. um gjaldþrotasjóðina. Ég lýsti því hér áðan, að ríkissjóður ber ábyrgð á ræktunarsjóði og byggingarsjóði, og ef um eitthvert gjaldþrot verður að ræða, þá er það ríkissjóðs að sjá um greiðslur á skuldum þessara sjóða.

Samkv. því, sem í frv. segir, gera þeir ráð fyrir því, að halli sjóðanna, eins og þeir orða það, yrði á þessu tímabili, frá 1962–1975, 156 millj. kr. Og ef við tökum svo aftur það, sem ríkissjóður ætlar að leggja sjóðunum til af nýju fé, sem eru 60.5 millj. af stofnfénu og 132.6 millj. á móti skattinum, eru þetta samtals 193.1 millj. kr. Þessu til viðbótar er svo að geta þess, að með breytingu á eldra framlaginu, sem er lækkað um 100 þús. kr., þá kemur þar mínus upp á 1.4 millj. kr. Og ef við drögum gjaldþrotið frá, þ.e. gengistapið og töpin á rekstri sjóðanna, sem alltaf hefur verið frá upphafi ætlazt til að ríkissjóður jafnaði, þá eru eftir í stofnfé handa sjóðunum 36.6 millj. kr. Gengistapið og rekstrarkostnaðurinn og vaxtahallinn, það hefur alltaf verið með lögum þessara sjóða ætlazt til, að ríkissjóður jafnaði það. Ef þetta er jafnað, þá eru eftir 36.6 millj. kr., og það er hið raunverulega framlag ríkissjóðs í hinn nýja sjóð stofnlánadeildarinnar, sem svo mikið er rætt um hér nú.

Þessu til viðbótar er svo neytendaskatturinn, sem ég vék að hér áðan. Um hann er það að segja í fyrsta lagi, eins og hv. 2. þm. Sunnl. benti á, að þá eru bændur eins og aðrir neytendur í þessu landi og kaupa líka landbúnaðarvörur. En það er annar þáttur í þessu máli einnig, og hann er sá, að við vitum, að ár eftir ár og í raun og veru alltaf hefur verið um það þjarkað, hvað ætti að taka inn í verðlag landbúnaðarvara, og það hefur alltaf verið miðað við það, hvað útsöluverðið yrði hátt. Það er í raun og veru það, sem um hefur verið slegizt. Nú efast ég ekki um það, að þessi þáttur verður tekinn inn í verðlagið. En hann þýðir það, að þá verður öðrum að einhverju leyti a.m.k. ýtt út. Þetta fæst ekki allt upp borið í verðlaginu. Við vitum Það ósköp vel, það hefur ekki verið tekið með í reikninginn það, sem bændur hafa talið skilyrðislaus útgjöld í sínum búskap og hafa getað rökstutt, og það er af því, að það hefur þótt of mikil hækkun á landbúnaðarvörunum. Og það fer eins í þessu tilfelli. Þó að þessi þátturinn verði tekinn með, verða bændur að einhverju leyti að borga hann aftur, vegna þess að öðrum verður sleppt.

Þegar þetta er svo tekið saman, þá er það svo, að þó að við tökum þennan neytendaskatt allan inn í sjóðina og teljum ekki mínus í hann, sem þó verður, þá eru það 122 millj. kr., sem koma frá öðrum en bændunum, ef dæmið er gert upp á sama hátt og áður. Hitt er framlag bændanna sjálfra, með því að hafa 6 og 61/2% vexti, eins og reiknað er með í grg. frv., og með framleiðendaskattinum. Þannig á að byggja sjóði landbúnaðarins upp nú. Það á að byggja þá upp með fé frá bændunum sjálfum. Það var einmitt þetta, sem við gerðum ekki áður, vegna þess að við vildum styðja landbúnaðinn í landinu með því að veita í hann fé, en ekki taka frá honum fé til þess að lána honum það aftur með háum vöxtum. Það var meginþátturinn í okkar uppbyggingarstefnu, og það er vegna þessarar stefnu, sem uppbyggingin í landbúnaði hefur verið svo ör sem hún hefur orðið, en ekki af því, að það hafi verið tekið fé þaðan og lánað svo aftur.

Það eru sem sagt 122 millj. kr., sem eiga að koma annars staðar frá en frá bændunum sjálfum, þegar dæmið er gert upp á sama hátt og áður, rekstrar- og vaxtahallinn er jafnaður, þar með gengistapið, og sjóðirnir standa eftir með sitt. Þetta jafngildir því, að það sé í kringum 9 millj. á ári. En á fyrra tímabilinu, sem ég ræddi hér um áðan, tímabili Framsfl., var höfuðstólsaukning sjóðanna á milli 8 og 9 millj. kr. árlega. Og beri menn það svo saman, Þessa höfuðstólsaukningu á fyrra tímabilinu og 8–9 millj. á þessu tímabili nú, þegar fjárlög ríkisins hafa fjór- til fimmfaldazt samanborið við sum árin og tvöfaldazt miðað við síðasta árið og rúmlega það. Þetta er hin mikla rausn, sem núv. stjórnarstefna beitir sér fyrir, að ætla bændunum í landinu að leggja fram fé, sem á svo að ráðstafa hér í Reykjavík, lána aftur með háum vöxtum og til stutts tíma.

Nú mun kannske einhver hugsa sem svo, að sjóðirnir verði ekki í gengisáhættu eftir þá breytingu, sem þarna er gerð, svo að þarna halli ég réttu máli, — að nú séu þeir ekki í gengisáhættu, sem þeir þurfi að stríða við síðar meir. En hver er breytingin þar á? Hún er sú, að nú eiga bændurnir sjálfir að sitja uppi með gengisáhættuna, en áður var það baktryggt af ríkissjóði eins og aðrar eignir sjóðanna. Það er sú breyting, að ef erlend lán verða tekin á tímabilinu, þá eiga bændurnir sjálfir gengisáhættuna, taka hana á sig, en áður var það svo tryggt sem ég hef hér skýrt. Ekki er þar munurinn bændunum í hag. Og það er alveg þýðingarlaust að reyna að halda því fram, að gengisáhættan komi ekki bændunum við, vegna þess að það verði lánað í vinnslustöðvarnar, frystihúsin, sem bændurnir eiga, mjólkurstöðvarnar, sem bændurnir eiga, og önnur slík tæki, sem bændurnir eiga einir. Það eru bændurnir þrátt fyrir það, sem eiga þessar eignir, og það eru þeir, sem verða að borga þetta. Þess vegna er þessi breyting ekki heldur þeim í hag. Það er sama stefnan og áður, að bændurnir eiga að leggja fram féð, sem á að fara til uppbyggingarinnar.

Það, sem ég mundi því segja um þetta tímabil núv. hæstv. ríkisstj., er samandregið það, sem ég hef hér sagt, að í raun og veru á að mestu leyti að hætta aðstoð ríkisins við uppbyggingu í sveitum landsins. Og samkv. frv. er fullkomin ástæða til að ætla, að henni verði alveg hætt eftir 1975. Í öðru lagi á að mynda stofnlánasjóði landbúnaðarins með framlagi frá bændunum sjálfum. í þriðja lagi eiga þeir að taka á sig gengisáhættu, ef erlend lán eru tekin.

Ég hef áður skýrt það og þarf ekki þar við að bæta, að landbúnaðurinn átti fullan rétt á því, að gengismál hans væri tekið til eðlilegrar meðferðar eins og annarra atvinnuvega þjóðarinnar. Og það er ekki nema af dugleysi hæstv. landbrh., sem sá þáttur var látinn eftir liggja.

Þá kem ég að því, hvernig við getum þá snúið okkur að þessum málum í framtíðinni, Í fyrsta lagi vil ég segja það, að við eigum að fylgja áfram þeirri stefnu, sem við höfum fylgt í landbúnaðarmálum, að ríkissjóður eða hið almenna vald í landinu hjálpi við uppbyggingu í sveitum landsins með því að jafna halla á rekstri sjóðanna og vaxtamismuninn. En nú mun einhver segja, að þetta mundi ekki duga til, við hefðum ekki nóg lánsfé, þótt við héldum áfram að mynda höfuðstól, eins og við höfum gert á tímabili Framsfl., sem ég lýsti hér áðan. En hvaða ástæða er til þess, að landbúnaðurinn í landinu megi ekki fá sinn hluta af sparifjármynduninni? Það virðist eins og hlutverk Seðlabankans hafi orðið það að vera einhvers konar pakkhús, eins og hv. síðasti ræðumaður orðaði það, seðlapakkhús, í sambandi við geymslu á bundnu fé í þeim banka. En er hægt að rökstyðja það, að það sé ekki kleift að lána til uppbyggingar í landinu nokkra tugi milljóna, þegar búið er að safna af innstæðu í Seðlabankanum á fjórða hundrað millj. á tveim árum á bundnum reikningi? Það er ekki hægt að rökstyðja Það. Og ef eðlileg peningapólitík er rekin í þessu landi, þá verða skiptin á milli fjárfestingar- og rekstrarfjár gerð, og þá á landbúnaðurinn að fá sinn hlut eins og annar atvinnuvegur í þessu landi. Það á að koma með fé inn í landbúnaðinn, en ekki ætla honum að leggja til fé til að byggja sig upp. Það er þessi stefna, sem á að taka gagnvart sjóðunum, en ekki sú neikvæða stefna, sem þessu frv. fylgir.

Áður en ég lýk hér máli mínu, vil ég draga saman í fáein atriði niðurstöður af því, sem ég hef hér sagt. Ég hef sýnt fram á það, að upphaflega stefna þessara sjóða var sú, að ríkissjóður annaðist það að jafna metin á rekstri sjóðanna, greiddi rekstrarhallann og vaxtatapið. Aðstoð ríkisvaldsins átti að vera í gegnum löng lán og lága vexti. Ég hef líka sýnt fram á það, að svo hefur verið stjórnartímabit framsóknarmanna. Ég hef líka bent á það, að á því tímabili var veitt í lánum í landbúnaði milli 300 og 400 millj. kr. Þessi lán voru veitt með 21/2–4% vöxtum. Lánin voru veitt í 25–42 ár. Á sama tíma varð höfuðstólseign sjóðanna um 105 millj. kr. Það var enn fremur tryggt, að mótvirðissjóðslán yrði lánað sjóðunum til útlána í framtíðinni. En á tímabili núverandi hæstv. ríkisstj. hefur á málunum verið tekið með þeim hætti, að nú fá bændur lán með 6 og 61/2% vöxtum til 1525 ára. Þeir eiga sjálfir að taka á sig gengisáhættuna í framtíðinni, ef erlend lán eru tekin, og eiga að byggja upp sína eigin sjóði. Þetta er stefna núv. hæstv. ríkisstj., og það er ekki að undra, þótt hæstv. ráðh. sé nokkuð órólegur, þegar hann kemur hér í ræðustól og ætlar að mæla fyrir máli, sem er ekki betra en þetta mál. Enda mun það nú vera svo, að þessi vetur hefur reynzt hæstv. ráðh. nokkuð erfiður. Af málum, sem hann hefur barizt fyrir hér á hv. Alþingi, má nefna áburðarsölumálið, sem mér sýnist að þurfi að lima úr nefnd, ef það á að koma hér í dagsins ljós aftur. Það má nefna lausaskuldamálið, sem afturfótafæðing var á. Ýmis mál önnur hafa gerzt utanþings, sem hafa verið ráðh. erfið. Og framleiðsluskatturinn á svo að vera kóróna á þetta allt saman.