23.03.1962
Neðri deild: 72. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1860 í B-deild Alþingistíðinda. (1630)

44. mál, Handritastofnun Íslands

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Hæstv. forseti. Menntmn. hefur haft frv. um Handritastofnun Íslands til athugunar alllengi, rætt það á mörgum fundum og haft samband við ýmsa aðila utan þings viðkomandi málinu. Frv. var fyrst sent til umsagnar heimspekideild Háskóla Íslands, og er sú umsögn birt sem fskj. með nál. Sú umsögn gaf tilefni til þess að senda málið aftur til háskólaráðs og gefa því kost á frekari athugasemdum. Er bréf Þess einnig birt sem fskj. Þá barst nefndinni erindi frá Félagi íslenzkra fræða, og komu stjórnarmenn þess á fund nefndarinnar til umr. um málið.

Í sambandi við frv. hafa aðallega fjögur atriði verið til umr. Hið fyrsta er nafn stofnunarinnar, annað er stjórn hennar, þriðja eru fjárframlög til handritastofnunarinnar og fjórða eru hugmyndir um byggingar, sem að einhverju leyti mundu verða tengdar þessari stofnun.

Heimspekideild Háskóla íslands gerði Það að tillögu sinni, að nafni þessarar væntanlegu stofnunar yrði breytt í Stofnun Jóns Sigurðssonar. Háskólaráð féllst ekki á Þessa tillögu og hélt sér við fyrri afstöðu sína, en nafnið í frv. mun vera komið frá háskólaráði.

Helztu röksemdir fyrir því að breyta nafninu í Stofnun Jóns Sigurðssonar, eru þær, að hún er stofnuð á afmæli hans, að heitið Handritastofnun Íslands sé of þröngt, marki starfseminni of þröngan bás, að sérstakur styrkur sé að nafni þjóðhetju okkar, og í fjórða lagi, að alsiða sé erlendis, að stofnanir beri nöfn mikilmenna.

Helztu röksemdir, sem hafa komið fram fyrir að halda því nafni, sem er í frv., Handritastofnun Íslands, eru þessar: Samkv. því frv., sem samþ. hefur verið af danska þinginu og væntanlega verður grundvöllur undir afhendingu handritanna, ber okkur að stofna hér á landi eða koma á fót stofnun Árna Magnússonar á Íslandi. Þykir ekki fara vel á því, að í framtíðinni verði stofnun Árna Magnússonar í stofnun Jóns Sigurðssonar, og að því leyti fara betur að halda nafninu Handritastofnun Íslands. í öðru lagi er það skoðun manna, að nafnið Handritastofnun Íslands þurfi á engan hátt að þrengja starfssvið stofnunarinnar. Þau verkefni, sem þar verða unnin, munu í fyrsta lagi fara eftir lögunum, en þar eru þau mjög vítt mörkuð. Samkv. 2. gr. á stofnunin að vinna að aukinni þekkingu á máli, bókmenntum og sögu, og samkv. 5. gr. er heimilt að skipta stofnuninni í deildir eftir fræðigreinum. Er því engin hætta á, að þetta nafn muni reynast of þröngt. Loks hafa fræðimenn bent á það, að hið mikla ævistarf Jóns Sigurðssonar hafi verið á fleiri sviðum en þeim, sem tilheyra tungu okkar, bókmenntum og fornsögu, og sé vel hugsanlegt, að stofnaðar verði deildir við háskólann eða stofnanir við hann viðkomandi stjórnmálum, stjórnmálahugmyndum og öðru slíku, sem gætu engu síður átt tilkall til nafnsins en sá aðili, sem nú er til umræðu. Niðurstaðan hefur orðið sú, að menntmn. er sammála um að leggja til, að nafn stofnunarinnar verði óbreytt, eins og það er í frv.

Félag íslenzkra fræða hefur lagt fram þá till., að því yrði gefinn kostur á að skipa a.m.k. einn mann í stjórn handritastofnunarinnar. Samkv. 3. gr. verður stjórn stofnunarinnar falin nefnd manna, sem í séu þrír prófessorar við Háskóla Íslands, kosnir af háskólaráði til fjögurra ára í senn, landsbókavörður, þjóðskjalavörður, þjóðminjavörður og forstöðumaður stofnunarinnar. Þar sem þessi stjórn samkv. frv. er eingöngu embættismannastjórn og yfirgnæfandi líkur til, að flestir, ef ekki allir Þeir menn, sem verða kosnir í stjórnina, verði meðlimir í Félagi íslenzkra fræða, þá er það skoðun nm., að rétt sé að gera ekki till. um breytingu, enda allar líkur á því, að meiri hl. í þessari stjórn verði meðlimir í umræddu félagi.

Í þriðja lagi hefur komið til tals fjárframlag til handritastofnunar, og er það ekki með öllu nýtt deilumál, eins og hv. deildarmenn vafalaust vita. Þeir aðilar, sem hafa fjallað um frv. utan þings, sem eru háskólaráð og heimspekideildin, hafa látið það gott heita, sem fram kemur í grg. með frv., að framlag í núgildandi fjárlögum sé aðeins byrjunarframlag, en að væntanleg stjórn handritastofnunar hljóti að gera það að sínu fyrsta verki að skipuleggja starfsemina og gera þá um leið áætlun um fjárþörf hennar og muni þá koma til kasta Alþingis að auka fjárframlög eftir því, sem þörf gerist. Menntmn. tekur þetta fram í nál. sínu á þskj. 445 og leyfir sér þar að vænta þess, að Alþingi muni, þegar þar að kemur, taka þessu máli með velvild og skilningi, þannig að ekki sé nein hætta á, að handritastofnunin muni ekki hafa nægilegt fé til ráðstöfunar.

Í fjórða lagi hefur verið allmikið rætt um húsnæðismál handritastofnunar. í frv. því, sem fram var lagt á þskj. 52, segir í grg. frá því, að Alþingi hafi 1957 samþ. þál. um sameiningu Landsbókasafns og Háskólabókasafns. í grg. segir enn fremur, að þegar slík bygging verði reist, verði eðlilegt að ætla handritastofnuninni rúm í henni. Þetta mál var mikið rætt í menntmn., og kom fram í nefndinni sterkur áhugi á að nota Það tækifæri, sem gefst við afgreiðslu þessa frv., til að freista að vinna þessu byggingarmáli fylgi. Vissulega er brýn þörf fyrir þjóðarbókhlöðu, ekki aðeins sem nægilega byggingu fyrir handritin, heldur einnig sem viðunandi byggingu yfir væntanlega sameinað bókasafn, Landsbókasafn og Háskólabókasafn. Viðræður um þetta mál milli nefndarinnar og hæstv. menntmrh. leiddu þó til þess, að ríkisstj. taldi ekki rétt að sameina málin á þessu stigi, en engu að síður kom fram áhugi á því hjá öllum aðilum, að unnið verði að framgangi þess.

Eins og fram kemur í prentuðu nál. á þskj. 445, hafði einn nm., Einar Olgeirsson, lagt fram í n. skriflegar tillögur um breytingar á frv. í þá átt að setja inn í það ákvæði um slíka byggingu, svo og um lágmarksfjárveitingu til handritastofnunar. Einar var fjarverandi, þegar málið var endanlega afgreitt, en eins og segir í nál., þá var fallizt á að draga till. til baka, vegna þess að nm. voru allir um það sammála, að æskilegt væri að skapa sem bezta samstöðu um afgreiðslu þessa máls hér á Alþingi. Ég vil sem formaður nefndarinnar þakka þessa afstöðu og þakka Þann sameiningarhug, sem kemur fram í henni, og vil vænta þess, að hv. deild fjalli um málið í sama anda. Málið er vissulega þess eðlis, að Alþingi þyrfti að standa einhuga um handritastofnunina og það, sem á eftir fer. Það er því till. menntmn., að frv. verði samþykkt óbreytt, eins og háskólaráð og ríkisstj. gengu frá Því og það var hér lagt fram.