30.03.1962
Neðri deild: 80. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1894 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Nál. minni hl. sjútvn. er prentað á þskj. 531 og hefur verið útbýtt á Þessum fundi. í n. gerðum við minnihlutamenn grein fyrir breytingum, sem við töldum nauðsynlegt að gera á frv., en þar sem hv. meiri hl. gat ekki á þær breyt. fallizt, höfum við skilað sérstöku nál. ásamt brtt. við frv., sem prentaðar eru á sama þskj.

Í byrjun nál. okkar á þskj. 531 er gerð grein fyrir efni þess frv., sem hér liggur fyrir, og vísa ég til þess, sem þar er sagt um efni frv. Hér er um tvíþætt mál að ræða: í fyrsta lagi er gert ráð fyrir, að frv. það um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins, sem hér liggur fyrir, komi í stað gildandi laga, nr. 48 25. maí 1949, um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins, og að þau lög verði þá felld úr gildi. Mun ég koma að því síðar. í öðru lagi er hér um að ræða sérstaka aðstoð við togaraútgerðina vegna rekstrarerfiðleika hennar undanfarið, en l. um hlutatryggingasjóð hafa hingað til ekki tekið til togaraútgerðarinnar. Nú virðist það vaka fyrir hæstv. ríkisstj. að breyta hlutatryggingasjóðnum í því skyni aðallega að leysa á þann hátt vanda togaraútgerðarinnar. Þetta virðist vera aðaltilgangur þessa frv. Og í framsöguræðu sinni við 1. umr. þessa máls ræddi hæstv. sjútvmrh. um frv.. aðallega út frá þessu sjónarmiði, að í því fælist aðstoð við togaraútgerðina. Ég mun því byrja á Því að gera það atriði málsins að umtalsefni.

Í efnahagsmálaritinu Viðreisn, sem hæstv. ríkisstj. gaf út árið 1960 um gengisbreytinguna og aðrar ráðstafanir sínar í efnahagsmálum, standa m.a. þessi orð á bls. 15 í nefndu riti, með leyfi hæstv. forseta:

Ríkisstj. telur, að hin nýja gengisskráning muni skapa möguleika á því að færa kjör togarasjómanna til samræmis við kjör bátasjómanna og jafnframt grundvöll fyrir hallalausum rekstri togaranna.“

Þetta stendur nú þar. En þessi skoðun ríkisstj., þessi spá hennar um, að eftir gengisbreytinguna miklu væri hag togaraútgerðarinnar borgið, hefur ekki reynzt rétt. Hún hefur reynzt röng eins og fleiri sams konar spár. Hagur togaranna batnaði ekki, heldur versnaði. Enn hefur genginu verið breytt, og enn hefur hagur togaranna versnað. Þeim, sem stóðu að efnahagslöggjöfinni 1960, gleymdist sem sé eitt af meginatriðum íslenzks efnahagslífs. Þeim gleymdist það, að hve miklu leyti íslenzkir atvinnuvegir eiga afkomu sina, eins og skáldið sagði, undir sói og regni og undir því, sem sjórinn lætur í té. Þeim gleymdist, að það er ekki gengisskráning, sem mestu máli skiptir fyrir sjávarútveginn og afkomu hans, heldur fiskigöngur, veðurfar og aflabrögð. Ný gengisskráning gat ekki ráðið bót á aflabresti. Og það er yfirleitt ekki hægt að sníða gengisskráningu eftir hinum síbreytilegu ástæðum atvinnuvegar eins og sjávarútvegsins, sem krefjast úrræða af ýmsu tagi eftir því, hvernig á stendur og hvað við á svo að segja í hverjum landshluta. Á þetta var á sínum tíma oftar en einu sinni bent í umr. um efnahagsmálin. Það má vel vera, að efnahagslöggjöfin frá 1960 hefði getað átt við í landi, sem fyrst og fremst byggir afkomu sína á háþróuðum iðnaði með stöðugri framleiðslu og stöðugu verðlagi. En það var allt of mikil bjartsýni að ímynda sér, að hún hlyti að skapa varanlegt öryggi í íslenzkum sjávarútvegi, eins og nú sést gleggst á togaraútgerðinni. Þess vegna er nú líka verið að leita nýrra úrræða, sem ekki eru í samræmi við hina yfirlýstu efnahagsmálastefnu hæstv. ríkisstj.

Nú er það af, sem áður var, þegar togaraútgerð var talin einn hinn mesti gróðavegur hér á landi. Skipin eru nú að vísu miklu stærri og betur búin en fyrrum, en árangurinn hefur ekki farið eftir því í seinni tíð. Enginn dregur í efa, að rekstur togaraflotans hafi gengið mjög erfiðlega á árunum 1960 og 1961, enda sjást þess víða merki. Af 48 skipum í togaraflotanum virðast 8 hafa legið bundin í höfn allt s.l. ár samkv. upplýsingum, sem nefndinni hafa borizt og hv. frsm. meiri hl. gat um, og þar að auki 6, sem hafa ekki verið gerð út á árinu nema að nokkru leyti. Sum þessara afkastamiklu veiðiskipa hafa verið undir hamrinum, sem kallað er, og útgerð þeirra komizt í þrot. Um hina nýju, glæsilegu þúsund tonna togara, sem nýlega voru keyptir til landsins og kostuðu 3540 millj. kr. eða jafnvel meira hver, er nú talað eins og þeir væru byrði á þjóðinni. Ríkissjóður hefur orðið að inna af hendi miklar fjárgreiðslur fyrir togaraútgerðina síðustu tvö árin vegna ríkisábyrgða fyrir stofnlánum togaraútgerðarfyrirtækja — og hefur reyndar orðið að gera það fyrr, og greidd hafa verið úr opinberum sjóðum eða verða greidd tryggingariðgjöld togaraflotans eins og annarra fiskiskipa fyrir árin 1960 og 1961. Fréttir hafa verið sagðar opinberlega af miklum rekstrarhalla hjá togaraútgerðarfyrirtækjum, sem enn halda þó áfram starfsemi sinni, og vék hæstv. ráðh. nokkuð að því efni í framsöguræðu sinni á dögunum, sem ég mun einnig koma að síðar. Rekstrarvandamál togaranna hafa nú um skeið verið almennt umræðuefni, bæði á opinberum vettvangi og manna á meðal, og valdið mörgum áhyggjum, sem ekki er furða, þar sem hér er um að ræða fiskiflota, sem dregið hefur að landi stundum meira en þriðjung, stundum helming eða meira af öllum fiskafla landsmanna, þegar síldaraflinn er frátalinn.

Nú síðast hefur það svo gerzt, sem allir vita, að togaraflotinn hefur með öllu stöðvazt eða er í þann veginn að stöðvast allur vegna kjaradeilu, sem upp er komin og ekki hefur enn tekizt að leysa, þar sem togarasjómenn telja sig bera skarðan hlut frá borði samanborið við aðra, m.a. vegna aflatregðunnar, en útgerðarfyrirtækin telja vandkvæði á að auka útgjöld sín, eins og á stendur. Flestir hafa verið sammála um það undanfarið, sem að því hafa vikið, að við svo búið megi ekki standa, að eitthvað verði að gera af hálfu hins opinbera í þessum málum, bæði vegna hinnar fjárhagslegu ábyrgðar ríkisins, sem hér er um að ræða, og þó ekki síður vegna þess atvinnulífs og þeirrar gjaldeyrisöflunar, sem tengd er við togaraútgerðina. Sumir kasta því að vísu fram, að togaraútgerð eigi sýnilega enga framtið fyrir sér hér á landi og ekki sé um annað að gera en leggja hana niður og það sem fyrst. Þetta segja sumir. En ekki verður það almennt talið æskilegt úrræði að leggja niður einstaka atvinnuvegi þjóðarinnar, þegar illa árar. Þess verður að vænta, að eitthvað rakni úr bráðlega um aflabrögðin og kannske fleira. Raddir hafa komið fram um það að leyfa togurunum veiðar á þeim fiskimiðum næst landinu, sem nú eru friðuð fyrir botnvörpuveiðum. Ekki hefur sú hugmynd þó átt fylgi að fagna, og mun nú vera frá henni horfið. En hér á Alþ. hefur almennt verið viðurkennt, að ráðstafana væri þörf til aðstoðar togaraútgerðinni. Og gert hefur verið ráð fyrir, að ríkisstj. legði fram till. um þá aðstoð að vel athuguðu máli, að undangenginni ýtarlegri rannsókn á viðfangsefninu.

Sjútvn. hefur við meðferð málsins fengið ýmsar upplýsingar um aflabrögð togaraflotans undanfarin ár og þá jafnframt um fjölda þeirra skipa, sem gerð hafa verið út ár hvert. Hv. frsm. meiri hl. vék að þessu áðan, og sé ég ekkert á móti því, þó að ég endurtaki sumar af þeim tölum, sem hann þá nefndi í sambandi við það, sem ég vil segja um þetta mál. Eins og hann sagði, eru þær upplýsingar, sem við höfum fengið um togaraaflann, miðaðar við afla upp úr sjó, en ekki við slægðan fisk með haus, og er þar því um nokkru hærri tölur að ræða en í skýrslum Fiskifélagsins, sem venjulega eru birtar, t.d. í tímaritinu Ægi. En þessi aðferð að telja afla upp úr sjó, það er hin alþjóðlega aðferð við gerð fiskiskýrslna, sem í rauninni ætti að taka upp hér á landi og hefur, ef ég man rétt, verið tekin upp í einni skýrslu, sem gerð hefur verið fyrir 2 árum um fiskafla Íslendinga um 50 ára skeið. Á árinu 1955 öfluðu 44 skip 204 þús. tonn, talin á þennan hátt. Árið 1956 öfluðu 43 skip 189 þús. tonn. árið 1957 öfluðu 42 skip 162 þús. tonn. Árið 1958 öfluðu 44 skip 209 þús. tonn. Árið 1959 öfluðu 45 skip, þar af 2, sem voru ekki nema hluta af árinu á veiðum, 166 þús. tonn. Árið 1960 öfluðu 48 skip, þar af 5, sem voru aðeins nokkurn hluta ársins á veiðum, ekki nema 120 þús. tonn. Og á árinu 1961 öfluðu 40 skip, þar af 6, sem voru aðeins hluta af árinu á veiðum, 81 þús. tonn, eða 72 þús. tonn af slægðum fiski með haus.

Í sambandi við skipatötuna er þá jafnframt þess að geta, að skipunum hefur ekki aðeins fjölgað nokkuð, heldur hafa þau líka stækkað, þannig að 44 skip í togaraflotanum árið 1958 voru samtals um 29 þús. rúmlestir, en 48 skip árið 1961 voru milli 33 og 34 þús. rúmlestir. Þetta er töluvert meiri hækkun á rúmlestatölunni en sem nemur skipafjöldanum, og stafar af því, að tekin hafa verið úr umferð lítil skip, gömlu togararnir, Flateyrartogararnir tveir, sem margir kannast við, en í staðinn hafa komið 5 stórir, nýir togarar á árinu 1960.

Nú er það svo, að þessar aflatölur áranna eru ekki einhlítur samanburður, og það væri rangt að halda því fram. Hér ber að hafa það í huga, að siglingar togaranna með afla til útlanda hafa aukizt mjög í seinni tíð. Á árinu 1960 fóru togararnir samtals 197 söluferðir til útlanda og á árinu 1961 223 söluferðir samkv. upplýsingum, sem nefndin hefur fengið hjá félagi ísl. togaraeigenda. Til ferða milli landa fer langur tími í hvert sinn, og hér virðist vera um að ræða 5–6 söluferðir hjá hverju skipi. Og af þessum ástæðum, vegna siglinganna og þess tíma, sem fer í að sigla, eru aflatölur síðustu tveggja ára lægri en þær ella væru, og verður að taka tillit til Þess, enda er verðið, sem fæst fyrir aflann, þá líka mun hærra. Um þetta liggja ekki fyrir neinar glöggar upplýsingar af ástæðum, sem ég kem að síðar. Samt leynir það sér ekki, að aflinn er mun minni þessi ár en hann hefur áður verið, hvernig sem framhaldið verður. Mun hér vera að leita aðalástæðunnar eða þeirrar orsakarinnar, sem menn festa helzt augu við, fyrir rekstrarerfiðleikum útgerðarinnar, þó að þar komi sjálfsagt fleira til.

Þess verður að vænta, að hér sé um tímabundinn aflabrest að ræða, eins og við höfum þekkt stundum áður í sögu íslenzkra fiskveiða. Og eins og ég sagði áðan, kemur sjálfsagt fleira til, sem hefur haft áhrif í þá átt að skapa togaraútgerðinni rekstrarerfiðleika. og má Þar t.d. nefna hina miklu vaxtahækkun, sem orðið hefur í tíð núv. hæstv. ríkisstj. og kemur að sjálfsögðu þungt niður á fjármagnsfrekum atvinnuvegi, sem er að safna skuldum vegna rekstrarerfiðleika.

Svo að ég komi þá aftur að því frv., sem hér liggur fyrir, þá verður því miður að segja Það, að undirbúningur þessa máls er ekki sá, sem vænta mátti og búizt var við. Viðfangsefnið liggur ekki svo ljóst fyrir sem skyldi. Nauðsynlegt var fyrir Alþ. að fá upplýsingar um hag togaraflotans, eins og hann er nú og hvernig hann hefur breytzt undanfarin tvö ár, til þess að geta gert sér grein fyrir. við hvað er að fást og hvað að gagni getur komið. í grg. frv. eru sáralitlar upplýsingar um þetta efni. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Sökum hinna miklu erfiðleika togaraútgerðarinnar vegna langvarandi aflabrests lét ríkisstj. á s.l. ári gera athugun á taprekstri togaranna. Leiddi sú athugun í ljós, að afkoma togaraútgerðarinnar er svo bágborin, að þess er ekki að vænta, að hún komist af hjálparlaust.“

Og svo er það ekki meira. Þetta eru þær upplýsingar, sem hinu háa Alþ. voru gefnar í grg. ríkisstj. fyrir frv. því, sem hér liggur fyrir. En eins og ég hef áður sagt í þessari ræðu, vék hæstv. sjútvmrh. að Þessu efni í framsögu, Því að framsöguræða hans var aðallega um aðstoðina til togaranna og þann hluta frv., sem um hana fjallar. Upplýsingar hæstv. ráðh. voru þessar helztar: Hann gerði grein fyrir minnkandi afla togaranna 1960 og 1961. Það voru svipaðar upplýsingar og hér hafa komið fram nú á þessum fundi, og er reyndar hægt að fá upplýsingar um Það efni í opinberum skýrslum. Hann sagði að rekstrarhalli venjulegs togara mundi hafa verið 21/2 millj. kr. að meðaltali á árinu 1960, með nokkurri fyrningu skips og vélar. Þá gerði hann ráð fyrir því, að bætur eða önnur aðstoð við togarana samkv. þessu frv. mundi nema að meðaltali 750 Þús. kr. á skip árið 1960 og sömu upphæð árið 1961. Þetta eru náttúrlega heldur litlar upplýsingar, þó að skýrt sé frá því, hvað rekstrarhalti hafi numið að meðaltali á skip á öðru því ári, sem hér er um að ræða, því að það er ekki meðaltalið, sem þarf að veita aðstoð, heldur er verið að veita aðstoð útgerð, sem berst í bökkum, væntanlega til Þess að hún geti haldið áfram. En hæstv. ráðh. bætti því við, að enn mundi orka tvímælis Þrátt fyrir það, þó að þetta frv. væri samþykkt, hversu mikið af skipunum væri hægt að reka áfram, ef ekki rættist úr með aflabrögð. Hann sagði, að sum útgerðarfyrirtækin væru talin eiga vel fyrir skuldum. önnur berðust í bökkum og væru rétt við það að eiga fyrir skuldum, en í þriðja flokknum væru svo Þan togaraútgerðarfyrirtæki, sem stæðu mjög örðuglega og ættu raunar í daglegri baráttu fyrir því að geta haldið úti skipunum frá degi til dags. Þetta mun vera nokkurn veginn það, sem hæstv. ráðh. sagði. Um afkomu ársins 1961 nefndi hann ekki neinar tölur, svo að ég tæki eftir, í framsöguræðu sinni.

Þetta voru þær upplýsingar, sem ráðh. gaf til viðbótar því, sem í grg. stóð og ég las hér áðan, og þær máttu vissulega ekki minnt vera í slíku máli. ef ekki átti að koma fleira til. Samt eru þetta eiginlega einu upplýsingarnar, sem fyrir Alþ. liggja um hag og rekstur togaranna 1960–1961. Og í því sambandi þýðir auðvitað ekki að vitna í reikninga einhverra bæjarútgerða, sem kunna að verða birtir, eftir að Alþ. hefur afgr. þetta mál.

Hæstv. ríkisstj. hefur þó, sem vænta mátti. haft milli handa gleggri upplýsingar um þetta mál en þær, sem fram hafa komið á Alþ. og ég hef skýrt frá. ilm Það efni sagði hæstv. ráðh. í framsöguræðu sinni: „Á s.l. ári var skipuð nefnd til þess að rannsaka hag og rekstur togaranna, og hún skilaði fyrir áramótin áliti, sem stuðzt hefur verið við, Þegar Þetta frv. hefur verið samið. En Það hefur verið rætt um ýmislegt og ýmsar aðrar aðferðir, sem ég að nokkru leyti hef nefnt,“ sagði ráðh. og á Þar sjálfsagt m.a. við þær aðferðir, sem í þessu frv. felast. Upplýst hefur verið í sjútvn., að Þessi n., sem skipuð var, hafi verið þriggja manna n., og sömuleiðis hefur verið upplýst, hverjir í þeirri n. hafi verið. Einnig hefur verið upplýst í sjútvn. af fulltrúum Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, að þessi þriggja manna n. hafi gert till., sem ekki hafi verið teknar til greina eða ekki felist í Þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Á fyrsta fundi sjútvn. um þetta mál óskaði ég eftir því við formann n., að hann hlutaðist til um, að hún fengi í hendur grg. togaranefndarinnar, þ.e.a.s. þriggja manna nefndarinnar, til ríkisstj. um málið, og vék hv. frsm. meiri hl. að því áðan. En þegar formaður n. ræddi um þetta við ráðh., taldi ráðh., eins og hv. frsm. sagði, sér ekki fært að afhenda sjútvn. grg. eins og hún lægi fyrir og ekki heldur hafa tök á að láta n. í té útdrátt eða niðurstöður úr grg. togaranefndar. Hv. frsm. sagði hér áðan, að þetta, að ráðh. taldi sér ekki fært að láta n. grg. í té, mundi stafa af því, sem vel getur verið rétt og sjálfsagt er rétt, að í grg. hafi verið upplýsingar um hag einstakra fyrirtækja. Og ég hef ekkert við því að segja, þótt slíkar upplýsingar hefðu ekki verið látnar þn. í té, sem snertu beinlínis einstök fyrirtæki, nafngreind fyrirtæki. En þá var sú aðferðin tiltæk að gera aðra grg. eða útdrátt úr þessari grg., raunverulega sama efnis, þar sem þessar upplýsingar um nafngreind fyrirtæki voru ekki. En þessa grg. eða upplýsingar um efni hennar hefur n., eins og ég sagði, ekki fengið í hendur, og þess vegna getur hún í raun og veru enga aðstöðu haft til að gera sér grein fyrir málinu í heild og getur ekki um það dæmt á grundvelli rannsóknar, hvort sú aðstoð, sem í frv. felst, muni bera viðhlítandi árangur. Ég á satt að segja erfitt með að skilja, að hæstv. ríkisstj. skuli ætlast til þess af n. eða Alþ. að afgreiða málið án slíkra upplýsinga.

Þrátt fyrir þetta telur minni hl. n. eftir atvikum rétt að mæla með því, að þetta frv. verði afgr. með það fyrir augum, að í því verði ákvæði um fjárhagslega aðstoð til togaraútgerðarinnar vegna áranna 1960 og 1961, að vísu að nokkru leyti með öðrum hætti en gert er ráð fyrir í frv. Jafnframt getur minni hl. á það fallizt, að löggjöfin um hlutatryggingasjóð verði a.m.k. til reynslu færð yfir á breiðari grundvöll, þannig að hún nái einnig til togaraútgerðarinnar, og þá í trausti þess, að stjórn aflatryggingasjóðs, eins og hún verður skipuð samkv. frv., hagi aðstoð sinni þannig, að árangurs megi vænta, þannig að tryggður verði rekstur togaraflotans, eftir því sem tök eru á, með þeim fjármunum, sem hér er um að ræða. Minni hl. virðast raunar líkur benda til, að meiri aðstoðar sé þörf, en telur sig ekki hafa þau gögn í höndum, sem til þess þurfi að gera fyllilega rökstuddar till. í því efni, en að því og till. minni hl, kem ég nánar síðar.

Í þessu sambandi skal það fram tekið, að minni hl. n. getur ekki fallizt á, eins og sakir standa, að lögð verði gjöld á bátaútveg landsmanna til þess að greiða kostnað við aðstoð til togaranna, eins og gert er ráð fyrir í frv. Minni hl. telur, að þessa aðstoð verði að veita á annan hátt. í frv. er gert ráð fyrir, að aflatryggingasjóður sjávarútvegsins taki 30 millj. lán til aðstoðar vegna ársins 1960, sem endurgreiðist af árlegu framlagi ríkissjóðs til togaradeildar hlutatryggingasjóðs, og er um þetta fjallað í bráðabirgðaákvæði frv. Á það út af fyrir sig getur minni hl. fallizt. En frv. gerir síðan ráð fyrir, að vegna ársins 1961 verði greiddar bætur úr togaradeild aflatryggingasjóðs. En þar sem togararnir hafa enn mjög litlu tryggingafé safnað, aðeins á s.l. ári síðan í ágústmánuði, eða eignazt ríkisframlag á móti því, er sýnilega gert ráð fyrir, að þær 30 millj., sem um er að ræða vegna ársins 1961, verði teknar af tryggingafé og ríkisframlagi bátaflotans. Hæstv. ráðherra sagði líka í framsöguræðu sinni, að togaradeild og jöfnunardeild ættu að bera þann kostnað, sem af aflabrestinum 1961 leiðir, og þar er auðvitað fyrst og fremst átt við kostnað, sem jöfnunardeild ber, því að í togaradeildinni eru ekki nema 3 millj. kr. En á þetta getur minni hl. ekki fallizt og gerir því till. um aðra leið til að gera þessa aðstoð framkvæmanlega, og mun ég gera grein fyrir þeirri leið, áður en ég lýk máli mínu.

Hlutatryggingasjóður bátaútvegsins var, eins og ég hef áður vikið að, stofnaður með l. nr. 48 25. maí 1949 og hefur nú starfað tæp 13 ár. Á þessum lögum var gerð breyt. árið 1958. Samkv. l. frá 1949 með viðbótinni frá 1958 starfar hlutatryggingasjóður bátaútvegsins í tveim deildum, sem hafa aðskilinn fjárhag, þ.e. síldveiðideild og almennri deild. Til sjóðsins eru greidd gjöld af útfluttum sjávarafurðum, þannig atl af útfluttum síldarafurðum eru samkv. þeim l. greidd 3/4% af fob-verði, en af útfluttum bátaafurðum eða þorskafurðum báta, eins og þær eru stundum nefndar, er greitt 1/2% af fob-verði. Þetta er ákvæði hlutatryggingasjóðslaganna frá 1949 með viðbótinni 1958. Á móti þessu gjaldi af útfluttum afurðum greiðir ríkissjóður síðan —eða hefur greitt samkv. téðum lögum framlag jafnhátt, jafnháa upphæð í hvora deild, eins og útflutningsgjaldið til hlutatryggingasjóðs nemur. Þessu fé, sem þannig safnast, hefur síðan verið varið til þess að greiða bætur, þegar illa hefur aflazt bæði á síldveiðum og einnig á öðrum veiðum bátanna. Um þetta eru í lögunum reglur, meginreglur, hvernig bætur skuli greiddar. Reikna skal út svokallað meðalveiðimagn, og í reyndinni hefur þetta meðalveiðimagn oft verið miðað við fimm síðustu ár, áður en bætur voru greiddar. Þó að þetta ákvæði um fimm ára meðaltal standi ekki í lögunum, hefur það verið svo. Síðan er þessum deildum skipt í margar undirdeildir eftir veiðisvæðum og eftir tegundum veiðiskipa og eftir því, hvers eðlis veiðarnar eru. En ef aflinn á einhverju veiðitímabili í einhverjum flokki deildar er 75% eða minna af þessu meðalveiðimagni, þá koma bætur til greina samkv. ákvæðum í lögunum. Samkv. l. stjórna 3 menn hlutatryggingasjóði, einn tilnefndur af ríkisstj., einn af Alþýðusambandi Íslands og einn af Landssambandi ísl. útvegsmanna.

Fram til 31. des. 1961 hafa bætur samtals úr almennu deildinni, — og var það líka upplýst hér áðan, — numið 331/2 millj. kr. og úr síldveiðideild 361/2 millj. kr. Síðustu bætur, sem þá hafa verið greiddar, munu hafa verið a.m.k. aðallega vegna vetrarvertíðar á því ári, aðallega vetrarvertíðar í Vestmannaeyjum og á einum stað öðrum.

Með brbl. nr. 80 3. ágúst 1961, sem nú liggja fyrir þessu þingi til staðfestingar, var í 8. gr. þeirra laga gerð breyt. á hlutatryggingasjóðsgjaldi. Gjald Það, er greiða skyldi af sjávarafurðum, var hækkað upp í 11/4% úr 1/2% og 3/4%, en mótframlagið úr ríkissjóði ekki hækkað, meira að segja sett það ákvæði í brbl., að þar skyldi gilda sú upphæð, sem tekin hafði verið upp í fjárlög á því ári. Auk þess var svo bætt við gjaldi af togaraafurðum 11/4% eins og annars staðar. En þann tekjuauka, sem af Þessu leiddi síðara hluta ársins og til þessa, skyldi samkv. þessum brbl. leggja inn á reikning sérstakrar deildar, er hefði, eins og í brbl, segir, það hlutverk að aðstoða einstakar greinar útvegsins, er þær verða fyrir sérstökum, tímabundnum óhöppum vegna aflabrests eða annarra utanaðkomandi orsaka. í grg, þessa frv. er reiknað út, að tekjur sjóðsins af 2800 millj. kr. útflutningi sjávarafurða séu 35 millj. og ríkisframlag 171/2 millj. kr., samtals 521/2 millj. kr. En Þá er þess að geta, eins og ég sagði áðan, að ríkisframlagið var skert með tilvísun til fjárlagaákvæða 1961 og er aftur skert í frv. með tilvísun til fjárlaga þessa árs.

Allmikið fé hefði sennilega átt að renna í Þessa nýju deild síðara hluta ársins, en ekki liggur fyrir, hve miklu Það nemur, en ekki ótrúlegt, að það mundi hafa numið ca. 8–10 millj. Upplýsingar, sem sjútvn. hefur fengið frá hlutatryggingasjóði nú, um fjárhag hans og deildanna, eru hins vegar við það miðaðar, að hver deild hefði fengið það, sem henni bar, samkv. l. frá 1940, þ.e.a.s. gjald af þeim afurðum, sem henni tilheyrðu, og ríkisframlag á móti, en togararnir hugsaðir sem sérstök deild, og munu þessar upplýsingar vera miðaðar við 31. jan. s.l. En samkvæmt þessum upplýsingum virðist almenna deildin eiga um 36 millj. kr. og síldveiðideild skulda ca. 5 millj. kr. En þá er þess að gæta, að nýja deildin á allmikið fé hjá báðum hinum deildunum af innkomnu gjaldi s.l. árs, ef upp væri gert samkv. brbl. Togararnir virðast eiga á sama tíma 3 millj. kr. upp í bætur, sem þeir kynnu að eiga rétt á vegna aflabrests 1961 samkv. þessu frv., sem þar er í grg. áætlaður 30 millj. kr. í sambandi við þá skuld, sem er tilgreind hjá síldveiðideildinni, er þess að geta, að fjárhagur hennar hefur alltaf verið miklu örðugri en almennu deildarinnar. í raun og veru hefur fjárhagur almennu deildarinnar verið góður tengst af, miðað við það, að hún greiddi þær bætur, sem lögin ákveða, en í raun og veru Þyrftu að vera meiri, sem ég einnig kem að síðar. En þegar síldveiðideildina hefur skort fé til að greiða bætur vegna síldveiða, þá hefur a.m.k. tvisvar sinnum verið gripið til þess ráðs, að lán hefur verið tekið samkv. lagaheimild í almennu deildinni, og námu þessar lántökur samtals um 10 millj. kr., sem nú hefur að nokkru verið endurgreitt eða sama sem endurgreitt, því að síldveiðideildin á fé inni hjá ríkissjóði upp í hluta af þessari skuld við almennu deildina. En að þessu leyti hafa deildirnar, almenna deildin og síldveiðideildin, aðstoðað hvor aðra á undanförnum árum, þannig að almenna deildin hefur hlaupið undir bagga og lánað síldveiðideildinni með ríkisábyrgð. En það hefur engu breytt um það, að fjárhagur þessara deilda — tekjur þeirra og eignir — hefur verið algerlega aðskilinn.

Nú er það svo, að á undanförnum árum hefur almennt verið talin þörf á endurskoðun laganna um hlutatryggingasjóð. 12–13 ára reynsla er nú fengin af framkvæmd laganna og ýmis viðfangsefni sjálfsagt orðin ljósari fyrir mönnum en í öndverðu. Ákvæði laganna eru ekki ýtarlegri en svo, að framkvæmdin hefur að verulegu leyti orðið að byggjast á starfsreglum, sem síðar hafa verið settar. M.a. hygg ég, að svo hafi verið í sambandi við bætur vegna síldveiða. Samstarfsnefnd Fiskifélas Íslands og sjútvmrn. vann að endurskoðun l. um hlutatryggingasjóð fyrir nokkrum árum, en ekki varð sá árangur af því starfi, að l. yrði breytt. Fiskiþing hefur oftar en einu sinni rætt þetta mál og síðast nú í vetur. Minni hl. hefur gert sér nokkurt far um að kynna sér brtt., sem uppi hafa verið, en um það skal ég ekki fjölyrða. Þess vil ég þó geta, að uppi hafa m.a. verið raddir um, að vafasamt væri að miða bæturnar við svokallað meðalveiðimagn og réttara kynni að vera að miða þær við það, sem telja mætti eðlilegan útgerðarkostnað. Menn segja þá sem svo, að veiðistöðvar, sem hafa aflað mikið, hafi ekki meiri þörf fyrir bætur en þær, sem að jafnaði hafa aflað minna. Segja má, að þekking á starfsemi sjóðsins og starfsaðferðum sé ekki svo útbreidd sem skyldi, og samvinna sjóðsins við einstaka útgerðarstaði víðs vegar um land þyrfti að vera meiri og traustari en hún er. Þess verður víða vart úti um landið, að menn, sem á þyrftu að halda, vita ekki nógu mikið um það, hvernig hlutatryggingasjóðurinn starfar. Ég hygg, að það vanti líka nokkuð á. að sjóðurinn hafi nógu traustar og fljótvirkar aðferðir til að fylgjast með aflabrögðunum alls staðar í landinu. Þetta nefni ég, þó að Það snerti ekki beinlínis þetta mál, en minni hl. telur, að í sambandi við þetta frv. hafi ekki farið fram sú endurskoðun, sem þörf er á, og hún þurfi að fara fram fljótlega. En þá þarf að tryggja, að ýmis sjónarmið, sem máli skipta, komi til greina og fái rækilega athugun.

Af umr., sem fram hafa farið meðal útvegsmanna, og ályktunum, sem þar hafa verið gerðar, kemur hins vegar berlega fram, að áhugi er fyrir því að efla slóðinn og gera honum fært að létta áhættu af bátaútveginum í ríkara mæli en hingað til hefur verið, án tillits til þess, hvort hann verður jafnframt til stuðnings togaraútveginum eða ekki.

Það er oft um það talað í ræðu og riti um þessar mundir, hve sjávarútvegurinn sé áhættusamur, áhættusamari en aðrar atvinnugreinar. Það er ekki hægt að ráða við fiskigöngur í sjónum. En það er hægt með samvinnu útvegsins og þjóðfélagsins að safna í tryggingasjóð, þegar vel árar, til að taka af verstu áföllin, þegar illa árar, og það er heilbrigð stefna. Því öruggari sem þessi atvinnuvegur verður, því betra fyrir alla.

Í frv. því, sem fyrir liggur, er gert ráð fyrir mikilli hækkun hlutatryggingasjóðsgjaldsins eða aflatryggingasjóðsgjaldsins, eins og það er kallað, eða upp í 11/4%. En ríkisframlagið á ekki að vera jafnhátt og fyrr, heldur helmingi lægra, og er það alveg bein lækkun að því er síldveiðideildina varðar, en þar var gjaldið, eins og ég sagði áðan, 0.75%. Minni hl. telur rétt að halda hinni fyrri reglu, að helmingur tekna sjóðsins komi frá ríkissjóði, og er varla minni ástæða til þess nú en áður, eins og ástatt er. Gert er í frv. ráð fyrir þrem deildum í sambandi við aðalgreinar sjávarútvegsins: síldveiðideild, almennri bátadeild og togaradeild, sem er ný. Síðan á að stofna fjórðu deildina, jöfnunardeild, og á hún að fá í sinn hlut helming af tekjum hinna deildanna að ríkisframlaginu meðtöldu. Þessi jöfnunardeild á samkv. 1. gr. frv. að veita hinum deildunum lán eða styrki, þegar svo stendur á. Með þessu móti á að færa féð milli deildanna, ekki aðeins sem lán, eins og áður hefur tíðkazt, heldur einnig sem styrki. Ein deild á að geta greitt bætur í annarri deild án þess að eiga þar endurkröfurétt. Þetta er nýmæli og virðist eins og nú standa sakir til þess ætlað, eins og ég sagði áðan, að hægt sé að láta bátadeildirnar standa að meira eða minna leyti undir fyrirhugaðri aðstoð við togaraflotann.

Minni hl. n. getur að vísu fallizt á það, að gjöldin til almennu deildarinnar, almennu bátadeildarinnar og síldveiðideildarinnar, verði eitthvað hækkuð og á sérstakan hátt, eins og ég geri grein fyrir síðar, en ekki eins mikið og frv. gerir ráð fyrir, og því aðeins að jafnmikið ríkisframlag komi á móti, eins og verið hefur, og ekki til þess að standa undir togaraaðstoðinni vegna áranna 1960–1961. Minni hl. telur, að ekki komi annað til greina, a.m.k. eins og sakir standa, en að deildirnar hafi, svo sem verið hefur, algerlega aðskilinn fjárhæð og ekki sé þá ástæða til að stofna jöfnunardeild. Hins vegar virðist minni hl. vel koma til mála. að deildirnar geti veitt hver annarri lán, ef þörf er á og unnt er. enda sé tryggt með ríkisábyrgð, að hið lánaða fé verði handbært, ef deild sú, er lán hefur veitt, þarf á fénu að halda. Ef til þess ætti að koma síðar, að stofnuð yrði jöfnunardeild með víðtækara hlutverki, yrði ýtarleg endurskoðun I. að hafa farið fram áður og málið rækilegar undirbúið en nú er. Og slíkt fyrirkomulag á alls ekki að dómi minni hl. að taka upp til þess að veita einhverja tiltekna aðstoð vegna liðins tíma, eins og nú virðist hafa verið fyrirhugað. Tryggingagrundvöllurinn á ekki við í sambandi við aðstoð veitta eftir á vegna áfalla liðins tíma.

Sjútvn. sendi frv. til umsagnar stjórn hlutatryggingasjóðs, Landssambandi ísl. útvegsmanna, Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda. Alþýðusambandi Íslands og Sjómannasambandi Íslands. Fjórir hinna fyrstnefndu aðila hafa sent skriflegar umsagnir, og upplýsingar hafa borizt um meginatriði í afstöðu fimmta aðilans — Sjómannasambands Íslands. Stjórn hlutatryggingasjóðs var ekki sammála í svari til n.. og ætla ég ekki að gera það að umtalsefni. Allir stjórnarmenn þar voru þó sammála um, að framlag ríkissjóðs ætti að vera jafnhátt útflutningsgjaldinu. Ég skal ekki eyða tíma hv. d. í að lesa þessar umsagnir, sem fyrir n. hafa legið, en ég vil aðeins geta þeirra lauslega.

Í umsögn Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda segir meðal annars: „Það er álit vort, að með frv. þessu sé ekki leystur sá vandi, sem togaraútgerðin er nú komin í, og miklu meira átak þurfi til þess.“ Enn fremur segir í þessari um sögn: „Hið opinbera hefur margsinnis á undanförnum árum látið fara fram athugun á hag og afkomu togaraútgerðarinnar og síðast á s.l. ári. Álit þeirrar nefndar, sem þá athugun gerði, gefur til kynna, hvernig ástandið er, og þarf ekki að fjölyrða frekar um Það,“ — þetta álit hefur sjútvn, ekki séð, — „að atvinnuvegur þessi er kominn í algert þrot, ef ekki verður mikil breyting til batnaðar á aflabrögðum eða sérstök aðstoð kemur frá hinu opinbera“ Komst n, að þeirri niðurstöðu, þ.e.a.s. þriggja manna nefndin, að því er virðist, sem ríkisstj. skipaði, að aðstoðin ætti að vera önnur og meiri en frv. gerir ráð fyrir. Enn fremur: „Fyrirgreiðsla sú, sem felst í frv., er allsendis ófullnægjandi til þess að leysa þann vanda, sem togaraútgerðin er nú komin í.“ Þá er í skjali þessu ályktun frá almennum fundi, sem sagt er, að haldinn hafi verið í Félagi ísl. botnvörpuskipaeigenda 9. þ. m., þar sem skorað er á Alþ. að láta ekki reglur hlutatryggingasjóðs gilda um aðstoðina vegna ársins 1961.

Umsögn Landssambands ísl. útvegsmanna er dagsett 23, marz s.l. Þar segir m.a.: „Nú á undanförnum árum hefur aðalfundur L.Í.Ú. þráfaldlega gert samþykktir um nauðsyn þess, að lögin um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins, nr. 58 25. maí 1949, verði endurskoðuð með tilliti til þeirrar reynslu, sem fengizt hefur af starfsemi sjóðsins þau ár, sem hann hefur starfað. Telur stjórn L.Í.Ú., að framangreint frv. um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins sé ekki viðhlítandi endurskoðun þeirra laga, sem nú eru í gildi um hlutatryggingasjóð bátaútvegsins. Stjórn L. 2. 17. telur rétt, að þeirri skipan verði haldið, sem felst í ofangreindri ályktun aðalfundarins, að deildir sjóðsins verði aðeins þrjár, þ.e. síldveiðideild, almenn bátadeild og almenn togaradeild. Um réttindi skipa í hverri deild fyrir sig mun fara eins og frv. gerir ráð fyrir Þá er í þessari umsögn lögð áherzla á það, að framlag úr ríkissjóði verði jafnhátt því, sem innheimtist af afurðagjaldi. Síðan segir: „Geti einhver hinna þriggja deilda ekki gegnt hlutverki sínu í samræmi við tilgang sjóðsins vegna fjárskorts, telur stjórn L.Í.Ú. eðlilegt, að hinar deildir sjóðsins hlaupi undir bagga með lánveitingu, séu þær þess umkomnar, og verði slík lán frá einni deild til annarrar einungis veitt gegn ríkisábyrgð á láninu, svo sem verið hefur um deildir hlutatryggingasjóðs.“

Þetta var umsögn Landssambands ísl. útvegsmanna.

Alþýðusamband Íslands sendi umsögn dagsetta 24. marz, þar segir m.a.: „Alþýðusambandið er andvígt þeirri meginstefnu frv. að skattleggja bátaflotann til þess að ráða bót á erfiðleikum togaraflotans. Hins vegar hefði Alþýðusambandið talið fulla þörf á að endurskoða I. um hlutatryggingasjóð miðað við reynslu undanfarinna ára og breytt viðhorf á ýmsan hátt síðan l. voru samin.“ Enn fremur: „Vandamál togaranna á ríkisstj. að leysa sem sérstakt mál, og því á engan veginn að blanda saman við verkefni hlutatryggingasjóðs. Alþýðusambandið mælir því gegn því, að frv. þetta, sem blandar tímabundnum rekstrarvandamálum togaraflotans saman við hlutatryggingamál bátaflotans og ætlast til, að þau verði leyst á kostnað síðarnefnda aðilans, verði samþykkt.“

Sjómannasamband Íslands hefur ekki sent skriflega umsögn enn þá til n. Mun Það vera af sérstökum og eðlilegum ástæðum, sem dregizt hefur að senda Þessa umsögn skriflega. En frá stjórn Sjómannasambandsins hefur borizt sú fregn og komið á framfæri við n., að hún mundi vera Þessu frv. hlynnt, en nánari grg. fyrir Því og á hvern hátt það er frv. hlynnt hefur n. ekki í höndum.

Eins og hv. Þm. hafa heyrt, hafa bæði Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda og Landssamband ísl. útvegsmanna haft miklar aths. að gera við þetta frv., sömuleiðis Alþýðusamband Íslands og stjórn hlutatryggingasjóðs raunar einnig. Eina jákvæða afstaðan, verulega jákvæða afstaðan gagnvart frv. í heild, eins og Það liggur fyrir, kann að liggja fyrir frá Sjómannasambandi Íslands, þó að ekki verði fyllilega um það sagt á Þessu stigi, meðan umsögnin berst ekki skrifleg, í hve ríkum mæli sú umsögn er jákvæð.

Fulltrúar Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda komu einnig á fund n. eftir ósk hennar og áttu viðtal við hana. Aðspurðir virtust þeir vera Þeirrar skoðunar, að rétt væri, að löggjöfin yrði einnig látin ná til togaraútgerðarinnar, en töldu að að því er varðar bætur ætti hún ekki að ná til þeirrar útgerðar fyrr en á árinu 1962, töldu sem sé, að Það ætti ekki að úthluta bótum til togaraútgerðarinnar fyrir árið 1961 á grundvelli hlutatryggingasjóðs- eða aflatryggingasjóðslaga. Aðstoðina töldu Þeir ná of skammt, eins og ég hef áður sagt, og var ýmislegt um það rætt, sem ég ætla ekki að gera frekar að umtalsefni.

Eftir að hafa kynnt sér viðhorf togaraútgerðarinnar, vill minni hl., eins og ég hef áður sagt, mæla með Því, að sett verði á stofn togaradeild í aflatryggingasjóði, og telur, að ekki muni veita af, að til þeirrar deildar verði greitt gjald, eins og segir í frv., 11/4%, enda komi þar þá jafnhátt ríkisframlag á móti, eins og við teljum að eigi að vera áfram í hinum deildunum. En togaraaðstoðinni vegna ársins 1960 og 1961 telur minni hl. að halda eigi út af fyrir sig. Þar er, eins og ég sagði, um liðinn tíma að ræða, sem tryggingagrundvöllurinn á ekki við.

Eins og ég hef áður sagt, skortir minni hl., eins og sjútvn. í heild, gögn til að gera sér fulla grein fyrir Því, hve mikil aðstoð Þessi ætti að vera, en telur sér þó skylt að gera um það tillögur við afgreiðslu málsins. Áður en ég lýk máli mínu, mun ég gera grein fyrir því, hvernig minni hl. hugsar sér að aðstoðinni verði hagað og hvaðan fé til hennar eigi að koma að verulegu leyti, ef till. minni hl. um að fella niður ákvæði frv. um jöfnunardeild og óafturkræfar greiðslur milli deildanna eiga að ná fram að ganga.

Ef till. minni hl. verða samþ., mundi aflatryggingasjóður greiða í fyrsta sinn baaur til togaraútgerðarinnar vegna ársins 1962. Til Þess hefði hann Þá Þær 3 millj. kr., sem ég hef áður nefnt, og tekjur þessa árs, gjald af útfluttum togaraafurðum 11/4%, sem t.d. af 500 millj. kr. yrði rúmlega 6 millj. kr., og jafnhátt ríkisframlag á móti, alls Þá 15–16 millj. kr. Þyrfti deildin þá trúlega á láni að halda vegna þessa árs, og má í því sambandi vísa til 11. gr. frv., sem heimilar slíka lántöku með ríkisábyrgð. Um þetta skal ég þó ekki ræða nánar, m.a. vegna Þeirrar óvissu, sem ríkir um árangur aðstoðarinnar vegna áranna 1960 og 1961, og auðvitað verður að vona, að úr rakni með aflabrögðin og fleira.

Ég kem þá næst að því að gera lauslega grein fyrir Þeim brtt., sem minni hl. n. hefur borið fram á þskj. 531 og leggur til að samþykktar verði. Ég get verið frekar fáorður um till., vegna Þess að ég hef í rauninni áður í þessari ræðu lýst meginefni þeirra.

1. brtt. á Þskj. 531 frá minni hl. n. er við 3. gr., en í 3. gr. eru ákvæði frv. um skiptingu sjóðsins í fjórar deildir. Brtt. er um það, að sjóðurinn skuli skiptast í þrjár deildir, síldveiðideild, almenna deild bátaflotans, almenna deild togaraflotans, og að síðasta málsgr., sem fjallar um jöfnunardeild og hlutverk hennar, falli niður.

Næsta brtt. er við 6. gr., og hef ég ekki mikið rætt um efni hennar áður, en hún er við þá gr. frv., þar sem um það er fjallað, hvað telja skuli almennan aflabrest. Skv. gildandi l. er það almennur aflabrestur, ef meðalveiði skipa í einhverjum flokki er 75% eða minna af hinu svokallaða meðalveiðimagni. í frv., sem fyrir liggur, er gert ráð fyrir, að þetta haldist að Því er bátana varðar, en að Það skuli teljast aflabrestur hjá togurum, ef meðalveiði þeirra yfir árið er minni en 85% af meðalveiðimagni, þannig að þar yrði tekin upp önnur regla, og er Þetta rökstutt með því, ef ég man rétt, í grg. frv., að útgerð báta sé að mestu leyti bundin vertíðum og afli Þeirra misjafnari, en hjá togurum er úthaldstími allt árið. Ég hef ekki getað áttað mig fyllilega á þessum rökstuðningi, hvaða gildi hann hefur, og vil m.a. benda á það, að ýmsir, sem ég hef talað við, hafa talið það eðlilegt, að veiði og úthaldi togaranna væri skipt í vertíðir við útreikning bóta. Menn hafa t.d. nefnt, að Það væri eðlilegt, að fimm fyrstu mánuðir ársins væru sérstök vertíð fyrir togara og þá síðari hluti ársins önnur vertíð, þannig að það er engan veginn sjálfsagt, að allt árið teljist að því er togarana varðar ein vertíð og að þeirra veiðar séu að því leyti annars eðlis en bátanna. Hvað sem því líður, höfum við lagt til, að sömu ákvæði gildi um almennu bátadeildina að þessu leyti eins og togaradeildina, þannig að það teljist aflabrestur, ef afli báta á þorskveiðum er minni en 85% af meðalveiðimagni. Um þetta hafa verið uppi tillögur hjá bátaútvegsmönnum, og okkur finnst eðlilegt að verða við þeim óskum. Vitanlega þýðir það það, að útgjöld almennu bátadeildarinnar aukast nokkuð. En bæði er það, að sú deild á nokkuð í sjóði, og eins hitt, að við gerum ráð fyrir því, að möguleiki sé til þess, að tekjur almennu bátadeildarinnar geti aukizt, eins og ég kem að siðar, þegar ég tala um þá brtt.

Næsta brtt. er við 8. gr. frv. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Stofnfé hinnar almennu deildar bátaflotans og síldveiðideildar er fé hlutatryggingasjóðs bátaútvegsins við gildistöku laganna.“ Við viljum orða þetta svo, að sagt verði: „Stofnfé hinnar almennu deildar bátaflotans og síldveiðideildar er fé það, er þær deildir eiga hvor um sig.“ Þetta er nokkru skýrara orðalag og af okkur ótvírætt talið til bóta.

Næsta brtt. okkar er við 9. gr., en sú gr. fjallar í frv. um hlutatryggingasjóðsgjaldið eða aflatryggingasjóðsgjaldið, eins og það heitir, hve hátt það skuli vera og hve mikið fé þar skuli koma á móti úr ríkissjóði, einnig um það. hvernig það skuli skiptast á milli deilda, fyrst milli þriggja deilda og svo, að helmingurinn af tekjum þessara þriggja deilda hverrar um sig skuli ganga í jöfnunardeild. Þessi till. er í samræmi við 1. brtt. okkar að því leyti, að við gerum ekki ráð fyrir neinni jöfnunardeild, heldur aðeins þrem deildum. Við gerum ráð fyrir, að aflatryggingasjóðsgjaldið af afurðum verði þrenns konar, mismunandi eftir deildum: í togaradeild 11/4%, í síldveiðideild 1% og í almennri bátadeild 3/4%. Við höfum ekki séð ástæðu til þess að hrófla við ákvæðum frv. að því er varðar gjald af togaraafurðum. Það verður að teljast hagur að því fyrir togarana, sem nú er verið að stofna sérstaka deild fyrir, að fá aukið framlag úr ríkissjóði, en við gerum ráð fyrir því og það felst í okkar brtt., að framlag ríkissjóðs verði jafnhátt því, sem inn kemur af afurðagjaldinu. Okkur þykir rétt, að það haldist, sem verið hefur, að gjaldið verði nokkru hærra í síldveiðideild en í hinni almennu bátadeild, vegna þess að aflabrögð eru misjafnari á síldveiðum og áhættan meiri. En við leggjum til, að gjaldið verði í þessum deildum 1/4% af fob-verði hærra en það nú er, þó þannig að stjórn aflatryggingasjóðs geti um lengri eða skemmri tíma lækkað aflatryggingasjóðsgjald einstakra deilda um 1/4% af fob-verði afurða: enda lækkar þá mótframlag ríkissjóðs að sama skapi. Þannig yrði þessi hluti gjaldsins hreyfanlegur og á valdi aflatryggingasjóðsstjórnarinnar, sem er skipuð af ýmsum samtökum, sem hér eiga hagsmuna að gæta. Í brtt. okkar er skýrt fram tekið. að tekjur skv. 1. tölul., þ.e.a.s. afurðagjaldið, skiptist milli deildanna þannig, að tekjur vegna síldveiði renni til síldveiðideildar, tekjur vegna annarrar bátaveiði til hinnar atmennu deildar bátaflotans og tekjur vegna togaraveiði, annarrar en síldveiði, til hinnar almennu deildar togaraflotans, og tekjur skv. 2. tölul., þ.e.a.s. mótframlag ríkissjóðs, skiptist milli deildanna í sömu hlutföllum, þannig að ekki orki tvímælis, að deildirnar hafi fullkomlega aðskilinn fjárhag.

Enn fremur segir svo í brtt. okkar, að sjóðsstjórninni skuli vera heimilt með samþykki ráðh. að veita deild lán af fé annarrar deildar gegn sjálfsskuldarábyrgð ríkissjóðs, þannig að tryggt sé, að lánið sé endurkræft og því handbært, Þegar deild sú, er lánið veitir, Þarf á því að halda til útgjalda sinna skv. lögum þessum. Ákvörðun um lánveitingu komi þó ekki til framkvæmda, nema hún hafi verið samþ. með samhljóða atkvæðum sjóðsstjórnaranna. Við teljum, að hér sé um það þýðingarmikið mál að ræða, það þýðingarmikla ákvörðun að ræða, að veita lán á milli deilda, þó að við teljum eðlilegt, að möguleikar séu veittir til þess, að þarna þurfi þeir, sem um það fjalla, að vera sammála.

5. og síðasta brtt. okkar fjallar svo um bráðabirgðaákvæði frv. og breyt. þá, sem við leggjum til að gerð verði á því. Meginatriði þessarar brtt. er í því fólgið, að við viljum, minnihlutamenn, algerlega aðskilja togaraaðstoðina vegna áranna 1960–1961 frá hinni almennu aflatryggingastarfsemi, en af því leiðir, að sjá verður fyrir fé til þess að veita aðstoð vegna ársins 1961 og e.t.v. einnig að einhverju leyti vegna ársins 1960. Í þessu skyni leggjum við til, að af gengishagnaði á reikningi ríkissjóðs skv. 6. gr. brbl. nr. 80 3. ágúst 1961, um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um nýtt gengi íslenzkrar krónu, skuli afhenda stjórn aflatryggingasjóðs sjávarútvegsins 50 millj. kr. til ráðstöfunar vegna aflabrests togaranna á árinu 1961 og ef ástæða þykir til einnig á árinu 1960. Eins og hv. þm. er kunnugt, var í þessum brbl. frá 3. ágúst 1961 í 6. gr. ákvæði um það, að mismunur andvirðis skilaðs gjaldeyris á eldra gengi og andvirðis hans á hinu nýja gengi, að því er varðar útfluttar afurðir framleiddar fyrir 31. júlí 1961, sem átti að greiða útflytjanda á því gengi, sem gilti fyrir 4. ágúst 1961, skuli færður á sérstakan reikning á nafni ríkissjóðs í Seðlabankanum. Þessi hagnaður skyldi skv. brbl. ekki falla í hlut útflytjenda. heldur verða eign hins opinbera og færast á þennan sérstaka reikning. í desembermánuði s.l. var skv. upplýsingum, sem ég hef fengið, áætlað, að í þessum gengishagnaðarsjóði mundu vera eða verða um 150 millj. kr. Mun þá hafa verið reiknað með endurgreiðslu á hluta af útflutningsgjaldi af þessu fé. Hins vegar hefur síðan verið lagt á sjóðinn, þennan gengishagnaðarsjóð, að endurgreiða hluta af hlutatryggingasjóðsgjaldi og 13 millj. kr. upp í vangreidd iðgjöld skipa frá 1960, en þær ráðstafanir hafa verið gerðar af hæstv. ríkisstj. núna alveg þessa dagana, þannig að það er auðsætt, að hún hefur alveg fram til þessa tíma talið, að hægt væri að ráðstafa þessum sjóði. Og við teljum, að það liggi alveg ljóst fyrir, að þarna sé fé, sem Alþingi geti ráðstafað. Á það verður þó að minna, að hér á hv. Alþ. hefur komið fram sú skoðun, að vafasamt sé að láta útflytjendur ekki njóta þessa gengishagnaðar, að sú tilhögun kunni að vera í ósamræmi við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Hæstv. ríkisstj. og meiri hl. Alþingis virðist ekki vera þeirrar skoðunar, að svo sé, að þessi ráðstöfun fari í bága við þessi ákvæði stjórnskipunarlaganna, og ráðstöfun þessa gengishagnaðar er þegar hafin. Úr því að svo er, þá sýnist okkur alveg eðlilegt, að togaraútgerðin. sem er í vanda stödd, njóti Þar góðs af.

Við gerum ráð fyrir, eins og reyndar líka er gert í frv., að fé því, sem til ráðstöfunar verður til aðstoðar, verði ráðstafað samkv. nánari ákvörðun sjóðsstjórnar og ráðuneytisins. En okkur sýnist, að hér sé um svo mikla fjármuni að ræða og fyrirmæli frv. um Það svo óglögg, hvernig þessu fé sé ráðstafað, að við höfum viljað gera tilraun til þess að setja nánari ákvæði þar um. Það, sem við leggjum til í því sambandi, er Þá í fyrsta lagi það, að aðstoð þessa skuli því aðeins veita, að eigandi skips, sem aðstoðar nýtur, noti hana til að tryggja, að skipið verði gert út áfram og útgerð þess hafin á ný þegar eftir að aðstoðin er veitt, nema um sé að ræða hindrun, sem sjóðsstjórnin metur gilda. Okkur sýnist, að það verði að liggja skýrt fyrir, að þessi aðstoð, sem veitt er af hálfu hins opinbera, sé til þess ætluð að tryggja útgerð skipanna, tryggja það, að botnvörpuskip þau, sem aðstoðarinnar njóta, geti orðið gerð út, þegar aðstoðin hefur verið veitt.

Í öðru lagi höfum við lagt til, að ákvörðun sjóðsstjórnar og ráðuneytis verði til þess að öðlast gildi að hljóta samþykki fimm manna undirnefndar sjútvn. Alþingis, er nefndirnar kjósi sameiginlega á þingi því, er samþykkir lög þessi. Á þennan hátt, ef samþykkt yrði, mundi Alþ. ekki algerlega steppa hendinni af þessu máli nú við afgreiðslu laganna, heldur mundi hér vera farið líkt að og t.d. í sambandi við ríkisábyrgðir á s.l. ári, þegar hv. fjvn. eða undirnefnd úr henni var falið að fjalla um það mál.

Þá er í þessum tölul. ákvæði um það í brtt. okkar, að því hlutatryggingasjóðsgjaldi, sem innheimt hefur verið skv. brbl. í sumar, skuli skipt á milli deilda skv. ákvæðum 9. gr. þessara laga og tilsvarandi framlagi úr ríkissjóði, svo að ekki orki tvímælis, að deildirnar eigi einnig þetta fé, sem innheimzt hefur, síðan brbl. voru sett.

Loks er svo í b-lið þessarar síðustu brtt. tekið fram, að bætur úr togaradeild aflatryggingasjóðs sjávarútvegsins skuli greiddar í fyrsta sinn vegna aflabrests, sem orðið hefur á árinu 1962, en ekki á árinu 1961, eins og frv. gerir ráð fyrir. Byggist þessi brtt. á því, að við höfum lagt til, að á sérstakan hátt verði séð um aðstoð vegna ársins 1961.

Ég get nú farið að ljúka máli mínu. Ég er búinn að tala alllengi, enda er hér um stórmál að ræða.

Eins og ég sagði í upphafi, er þetta mál tviþætt: almenn löggjöf um hlutatryggingu eða aflatryggingu og aðstoð við togaraflotann. Við það, sem ég þegar hef sagt um hlutatryggingasjóðinn og þörfina á því að endurskoða lög hans og starfsreglur, hef ég ekki miklu að bæta. Minni hl. telur ekki tímabært að gera þar breytingar á nema að litlu leyti í sambandi við þetta frv., eins og það ber að nú, en stefna þurfi að því að gera sér fulla grein fyrir því máli og láta endurskoðun fara fram. Minni hl. telur, að nauðsynlegt sé og réttmætt að gera sérstakar ráðstafanir til þess að koma togaraútgerðinni til aðstoðar í þrengingum hennar. Það væri vissulega allt of hvatvíslegt að álykta nú, að togaraútgerð eigi að vera úr sögunni. Og til eru þau byggðarlög hér á landi, sem mjög erfitt og næstum ókleift yrði að bæta upp missi hennar á skömmum tíma, þar sem svo stendur á, að bátaútgerð getur engan veginn leyst togaraútgerðina af hólmi, að Því er mér virðist.

Það er varhugavert fyrir íslendinga að afsala sér með öllu möguleikum til að stunda fiskveiðar á fjarlægum miðum. Hafa verður í huga, að togararnir hafa um áratugi flutt mikla björg í bú, aflað mikils gjaldeyris og veitt mikla vinnu á mörgum stöðum og útgerð þeirra tímum saman verið hagstæð. Þess má líka minnast, að togaraútveginum var um tíma greitt lægra fiskverð en öðrum og kynni að vera betur stæður nú, ef svo hefði ekki verið. Og ekki má alveg loka augunum fyrir því, að togararnir hafa af þjóðarnauðsyn orðið að víkja af nokkrum hluta þeirra miða, sem þeir höfðu veitt á hér við land, og ég vil að minnsta kosti ekki fullyrða, að þeir hafi ekkert tjón beðið af þeim sökum.

Ég vil nota þetta tækifæri til að minna á, að ef telja má, að afli togaranna hafi eitthvað minnkað vegna útfærslu fiskveiðilandhelginnar, á þetta þó ekki síður, heldur öllu fremur við um minni skip, sem stundað hafa togveiðar, togbátana, sem hafa minna athafnasvæði á sjónum, ef svo mætti að orði kveða, þ.e.a.s. takmarkaða möguleika til veiða á dýpri miðum við landið og á fjarlægum miðum. Ég veit dæmi um það, að einn slíkur togbátur við Eyjafjörð hafði a.m.k. helmingi minni veiði á togdag 1960–61 en hann hafði fyrir 5–6 árum. En mál þeirrar útgerðar hef ég hugsað mér að athuga nánar fyrir 3. umr., þegar fyrir liggur, hvaða afgreiðslu þetta frv. fær við þessa umr.

Ekki kemur til greina að dómi okkar minnihlutamana að veita togaraftotanum á ný aðgang að þessum miðum. En því má ekki gleyma. sem gerzt hefur.

Á allt þetta, sem ég nú hef nefnt, ber að líta. En að veita togurunum aðstoð vegna liðins tíma á kostnað bátaútgerðarinnar, er ekki eðlileg leið að dómi minni hl., og þess er ekki að vænta. að bátaútvegurinn sætti sig við það, að sú leið verði farin. Þessa aðstoð verður að veita á annan hátt, og við það hefur minni hl. miðað afstöðu sína í þessu máli. Um það, hvort sú aðstoð muni bera tilætlaðan árangur, verður hins vegar engu spáð á þessu stigi, þar sem undirbúningi málsins er áfátt og ekki hefur verið hægt að fá aðgang að gögnum þeim, er ríkisstj. hefur haft í höndum, eða niðurstöðum, rannsóknum og till., sem kunna að hafa verið gerðar á sínum tíma af þeim, er til þess voru kvaddir.

Nú við þessa umr. leggur minni hl. til, að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem hann hefur gert till. um á þskj. 531.