03.04.1962
Efri deild: 78. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 1987 í B-deild Alþingistíðinda. (1681)

168. mál, aflatryggingasjóður sjávarútvegsins

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég þarf að segja í tilefni af ræðu hæstv. sjútvmrh. Ég tek undir það með honum, að það er ekki vert að blanda saman tryggingakerfi og uppbótum. Þess vegna tel ég, að það eigi að taka með sérstökum hætti þá fjárhagsaðstoð, sem togurum verður veitt vegna áranna 1960 og 1961, því að það er liðinn tími, og það er hægt að vita, hvað þarf til þess, síðan eigi tryggingakerfi að taka við. En það er samkv. þessu frv. ætlazt til þess, að árið 1961 blandist þarna að verulega leyti inn í tryggingakerfið, og það tel ég ekki heppilegt.

Hæstv. ráðh. viðurkenndi, að auðvitað yrði að taka tillit til úthaldstíma togara, verðlags á afla þeirra og þess, sem fæst fyrir hann, til þess að geta gert sér grein fyrir hinu raunverulega tapi. Þetta er alveg rétt, og ég fór ekki fram á annað en Það, að sjútvn. yrði veitt aðstaða til þess að kynnast Þessari rannsókn, sem hefur þegar farið fram. Ég býst við því, að sú rannsóknarnefnd, sem hefur um Þetta fjallað, hafi þessi gögn í sínum fórum, og ég tel það a.m.k. ekki neina frekju, að Alþ. fái aðgang að slíkum gögnum, enda hefur hæstv. ráðh. alls ekki neitað því, að svo kunni að verða.

En það, sem mestum ágreiningi veldur í þessu máli, er það ákvæði frv., að bátaútvegurinn á að taka yfir á sig verulegan hluta af þeim bótum, sem togararnir fá. Og það er ekki óeðlilegt, að þetta kunni að valda ágreiningi. Hæstv. ráðh. sagðist ekki vilja fara út í neinn meting milli báta annars vegar og togara. Og ég segi alveg það sama, að ég vil það alls ekki. En hvar var byrjað á þessum metingi? Er það ekki í hv. Nd., þar sem frsm. meiri hl. sjútvn. kemur fram með þessar upplýsingar, að togaraútgerðin hafi lagt bátaútgerðinni til 100 millj. kr.? Þetta er upphafið að því, og það var því ekki að tilefnislausu, að á þetta var minnzt, enda var Það hæstv. ráðh., sem minntist fyrst á það hér, en ekki ég. En þetta tel ég með öllu villandi, því þó að útflutningsgjald af togaraafla hafi runnið í fiskveiðasjóð, þá er það út af fyrir sig ekkert framlag til bátaútvegsins, þó að bátaútvegurinn fái lán úr þessum sjóði. Togarar hafa auðvitað fengið lán engu síður en bátar, svo að það kemur nákvæmlega í sama stað niður, hvort útflutningsgjaldið rann í fiskveiðasjóðinn eða eitthvað annað. Báðir útvegirnir hafa fengið lán úr lánastofnunum þjóðarinnar, og ég held því fram og því hefur ekki verið mótmælt, að togararnir hafi fengið þar miklu ríflegri fyrirgreiðslu. Eða er það nokkuð rangt hjá mér, að togaraútgerðin hafi fengið lán, sem nam 90% af kostnaðarverði togaranna, þegar þeir voru keyptir? Ekki einn einasti bátur, sem ég veit til, hefur fengið slík lán. Er það ekki líka rétt, að lánin hafi verið veitt út á fyrstu 30 togarana, nýsköpunartogarana, með 21/2% vöxtum? Það eru ekki slíkir vextir, sem bátaútvegurinn býr við.

Margt fleira má nefna, sem ég kæri mig ekkert um að vera að fara út f, því að mér er heldur ógeðfellt að vera með slíkan samanburð. En hinu tek ég ekki þegjandi, að togaraútgerðin hafi lagt bátaútveginum til 100 millj. og ekkert fengið í staðinn. Togaraútgerðin hefur fengið fyrirgreiðslu frá hinu opinbera, ekki síður en bátaútvegurinn, svo að ekki sé meira sagt, og því er algerlega villandi að vera með slíkar upplýsingar sem þetta um þessar 100 millj. Það er aðeins þetta, sem ég vil undirstrika. Ég býst við, að Þessi rökstuðningur í hv. Nd. hafi verið fluttur til að renna stoðum undir, að nú skuli bátaflotinn standa undir aðstoð til togaranna. Það tel ég harla lélegan rökstuðning. Þetta er aðalágreiningsefnið, að ég ætla, um þetta frv.