14.04.1962
Neðri deild: 93. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2209 í B-deild Alþingistíðinda. (1866)

199. mál, innflutningur búfjár

Frsm. 2. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Það hefur ekki orðið samstaða í landbn. d. um afgreiðslu þessa máls. Efnislega fjallar málið um það, að landbrh. skuli með tilteknum skilyrðum hafa leyfi til þess að veita leyfi fyrir innflutningi búfjár eða búfjársæðis, sem siðan á að ganga í gegnum sóttvarnarstöð, áður en því er hleypt út til almennra nota á búfjárstofni landsmanna í þessum efnum, innflutningi búfjár, hafa íslendingar þegar þá reynslu að baki, að Alþingi hefur fyllstu skyldur til þess að fara með allri gát um leyfi til slíks innflutnings. Á hinn bóginn er augsýnilegt, að nokkur ávinningur getur verið að því, ef hægt er að flytja inn búfé eða sæði til kynbóta á búfjárstofni landsmanna. Málið er því í eðli sínu eða tilgangur þess gott mál. En á hinn bóginn ber að reisa hinar fyllstu skorður við því, að hér geti hent önnur eins óhöpp og orðið hafa í búfjárinnflutningi, þar sem inn hafa verið fluttir búfjárstofnar, sem sýkt hafa bústofninn, sem fyrir er í landinu, og valdið bændastétt landsins milljónatjóni margföldu og sjálfum ríkisbúskapnum einnig.

Þetta mál kom fyrst fyrir í landbn. þessarar hv. þingdeildar s.l. fimmtudag. Þar var það rætt á einum fundi, og á þeim fundi var haft samráð við ráðunaut Búnaðarfélags Íslands í nautgriparækt, Ólaf Stefánsson, og gaf hann nefndinni ýmsar upplýsingar. Á þeim fundi var óskað eftir því, að einnig yrði kvaddur á fund n. yfirdýralæknir, sem upplýst var að þá var staddur erlendis, en væntanlegur heim degi síðar, þ.e.a.s. í gær, og þegar þeim fundi lauk, var ekki annað vitað en hann yrði kvaddur til n. á fund. En svo brá við, að út af þessu var brugðið, fundur boðaður í gærmorgun, án þess að til yfirdýralæknis næðist, og ég verð að játa á mig það afbrot, að ég kom fjórum mínútum of seint til þess fundar, en þá var líka fundinum lokið, búið að slíta honum og n, var í tvennu lagi um afgreiðslu málsins. Þess vegna kemur það fram í nál. hér, að ég hafi ekki verið mættur á þessum fundi.

Svona vinnubrögð, svona rannsókn af hálfu þingnefndar á máli, sem varðar eins miklu og þetta mál getur gert, tel ég ósæmandi vinnubrögð og hef ekki tekið afstöðu til málsins efnislega, en mótmæli fyrir mitt leyti þeim vinnubrögðum, sem hér eru viðhöfð, þar sem beita á rannsóknum og íhygli. Það hefur ekki verið gert í landbn. og er það ámælisvert.