04.04.1962
Neðri deild: 83. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2214 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

217. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Það er greinilegt af því, sem fram kemur í þessu frv. og athugasemdinni, sem því fylgir frá ríkisstj., að sú tala bifreiða, sem ætluð hefur verið lögum samkvæmt til þess að selja fötluðu fólki með eftirgjöf af aðflutningsgjöldum, hefur reynzt of lág: Þess vegna hefur hæstv. ríkisstj. gripið til þess á s.l. ári að leyfa sölu með eftirgjöf á aðflutningsgjöldum á nokkru fleiri bílum en ótvíræð lagaheimild lá fyrir um. Ég hef ekkert við þá framkvæmd að athuga, eins og hún er gerð, þannig að ríkisstj. gerði þetta með þeim fyrirvara, að innheimta mætti aðflutningsgjaldið, ef Alþ. samþykkti þetta ekki. Að vísu hefði verið viðkunnanlegra, að ríkisstj. hefði fyrir fram aflað sér heimildar til frekari eftirgjafar á bifreiðainnflutningi, en fyrst það fórst fyrir, get ég látið óátalda Þessa framkvæmd. En þegar þetta hefur komið fyrir, að svo greinilega hefur ásannazt, að undanþáguheimild fyrir innflutningi bifreiða er of lág í lögunum til þess að uppfylla þær þarfir, sem fyrir hendi eru, þá hefði mér fundizt eðlilegt, að jafnhliða því að leita eftir heimild Alþ. fyrir þessari eftirgjöf, þá hefði ríkisstj. einnig aflað sér heimilda til að mega hækka Þá tölu bifreiða, sem með þessum hætti er látin fötluðu fólki í té árlega. Á hinn bóginn er ekki gert ráð fyrir því í þessu frv., og vildi ég því spyrjast fyrir um það, hvort ekki væri þörf á því að hækka þá tölu bifreiða, sem framvegis væri heimilt að láta fötluðu fólki í té með eftirgjöf á aðflutningsgjaldi.