13.02.1962
Efri deild: 46. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2265 í B-deild Alþingistíðinda. (1926)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Karl Kristjánsson:

Herra forseti. Það er mjög ánægjulegt, að hæstv. fjmrh. ver sig með Því, að samvinnufélögin séu ódauðleg, en hin félögin ekki. Hann álítur þess vegna, að sú regla, sem samvinnufélögin hafa í lögum sínum, að er þau hætta störfum, þá erfi byggðin, sem þau eru í, eða héraðið þeirra eignir, hún í raun og veru verði aldrei gild. En hvernig er það með hin félögin, þau dauðlegu? Hvað verður um þeirra varasjóðseign? Hún fer til félagsmannanna við félagsslit og heldur ekki þannig áfram í byggðinni eins og sjóður samvinnufélaganna, sem er jafnverðmætur satt að segja að mínu áliti og ég vona líka að áliti fjmrh., þegar hann hugsar sig vel um, þó að hann sé ekki í þeirri feigðarhættu, sem aðrir sjóðir eru.

Hæstv. ráðherra nefndi tölur um það, hvað skattar hefðu verið í landinu og hvað mikinn hluta af þeim samvinnufélög hefðu goldið. Ég hef ekki aðstöðu til þess að gagnrýna eða rengja þessar tölur, sem hann nefndi hér, en vitanlega hefði mér þótt fara betur á því, að hann hefði í staðinn fyrir að nefna heildartölur skatta nefnt upphæð þá, sem önnur félagsform gjalda. Ég tók ekki eftir því, að hann gerði það. En ég vil benda á það, sem voru rök ræðumanna áður í þessum umræðum og hv. 9. þm. Reykv. lagði áherzlu á réttilega, að þegar við erum að meta það, hvað goldið er til ríkis í okkar landi, meta Þunga þess og framlagsgildi, þá verðum við líka að hafa í huga, hvað goldið er til sveitarfélaga. Það er kunnara en að dæmi þurfi um það að taka, að samvinnufélögin eru yfirleitt hæstu gjaldendur í sínum byggðarlögum til sveita, og þess vegna er það, að ég hygg, að samvinnufélögin standi vel undir sínu gagnvart þjóðfélaginu, þegar til þess kemur að meta, hvað af mörkum er lagt til almennings, fyrir utan það, sem þessi félög skila jafnan við árslok til viðskiptamanna sinna, en önnur fyrirtæki aftur á móti, verzlunarfyrirtæki, hafa sinn sérgróða.