08.03.1962
Efri deild: 58. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2304 í B-deild Alþingistíðinda. (1939)

139. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja þessa umr. mikið, en vildi þó í tilefni af því, sem fram hefur komið hér í ræðum ýmissa hv. þm., gera örfáar aths.

Í upphafi skal ég taka það fram, að mér er ljúft að verða við þeim tilmælum hv. 1. þm. Norðurl. e., sem því miður er ekki viðstaddur í dag, að tekin verði aftur 5. brtt. n. og athuguð nánar til 3. umr. Það má vel vera, að okkur hafi ekki heppnazt þar að finna það rétta orðalag á þeirri breyt., sem n. var sammála um, og sjálfsagt að verða við ósk hans um, að það verði athugað nánar.

Varðandi annars þær brtt., sem bornar hafa verið fram af hv. stjórnarandstæðingum og ég hafði haft lítinn tíma til þess að kynna mér fyrir framsöguræðu mína, eins og ég Þá tók fram, vil ég aðeins benda á eftirfarandi:

Það, sem einkum hefur verið gagnrýnt í frv., eru þau ákvæði, sem miða til skattafvilnana fyrir félög, en þau eru lækkun félagaskattsins úr 25% í 20% og fyrningarreglurnar. Báðir þeir hv. stjórnarandstæðingar, sem að minnihlutaálitunum standa, eru Því andvígir, að tekjuskattur félaganna sé lækkaður úr 25% í 20%. Ég vil aðeins í sambandi við þetta vekja athygli á því, sem ég nefndi í framsöguræðunni, að hvað sem því líður, hvað þessi skattur á að vera hár, þá vildi ég gjarnan spyrja þessa hv. þm. að því, hvernig þeir mundu hugsa sér að setja undir þann leka, að tekjurnar verði ekki að óbreyttum skattstiga í verulegum mæli færðar frá félögunum og yfir á einstaklinga. En ekki liggja fyrir neinar till. frá þessum hv. Þm. um það að hækka tekjuskattana á einstaklingum, sem ég álít að væri nauðsynlegt að gera, ef félagaskatturinn ætti að standa óbreyttur og koma ætti í veg fyrir það, að sá skattstofn hyrfi að verulegu leyti. (BjörnJ: Einstaklingarnir greiða nú meira.) Greiða meiri skatta? Nei, félögin greiða samtals 55% í skatt til ríkis og bæjar- og sveitarfélaga fyrir utan veltuútsvarið. Einstaklingarnir geta að vísu komizt upp í 30% til ríkisins, en það er ekki nema í hámarki skattstigans, og ef um fjölskyldufyrirtæki er að ræða, þá er vissulega möguleiki á því að skipta þeim tekjum niður á fjölskyldumeðlimina, jafnvel þannig, að þær verði í mörgum tilfellum algerlega skattfrjálsar. Mér finnst óraunhæft að gera ráð fyrir því, að allar þessar tekjur væru í hámarki skattstigans, ef þær væru fluttar til einstaklinga. Slíkt mundu ábyggilega vera undantekningartilfelli.

Þá telja báðir þeir hv. stjórnarandstæðingar, sem að minnhlutaálitunum standa, óréttmætt, að breytt sé núverandi ákvæðum I. um varasjóðsfrádrátt útgerðarfélaga og samvinnufélaga. Fyrir utan það, sem ég benti á í þessu sambandi í framsöguræðu minni, vil ég leyfa mér að benda á það, að frv. gerir ráð fyrir því, að tapfrádráttur verði mjög rýmkaður frá því, sem nú er, eða nái 5 ár aftur í tímann. Ég tel ekki nokkurn vafa á því, að þessi rýmkun tapfrádráttarins kemur einkum til góða áhættusömum fyrirtækjum og sérstaklega útgerðarfyrirtækjunum. Og ég ætla, að sú skattaívilnun, sem af þessu leiðir, verði einmitt fyrir útgerðarfélögin þyngri á metunum heldur en hitt, þó að dregið sé úr varasjóðshlunnindunum. Að öðru leyti vísa ég í Þessu efni til þess, sem ég hef áður sagt. Ég tei, að farið sé inn á óheilbrigða braut með því að ákveða sérstaka skattstiga fyrir mismunandi atvinnugreinar og æskilegt að komast hjá því, þó að skiljanlegar ástæður lægju til þess á sínum tíma, að útgerðinni voru veittar sérstakar skattaívilnanir. Það stóð í sambandi við hina óhagstæðu gengisskráningu, sem útgerðin þá bjó við.

Þá vil ég aðeins víkja örlitið að því, sem fram kom í ræðu hv. 5. þm. Norðurl. e. og að nokkru leyti líka í ræðu hv. 4. þm. Vestf., um fyrningarafskriftirnar. Ég vil í fyrsta lagi vekja athygli á því, að það er á fullkomnum misskilningi byggt hjá hv. 5. þm. Norðurl. e., þegar hann orðaði það þannig, að ákvæðin í 17. gr. um það að hækka þá prósentu, sem félögunum er heimilt að draga frá skattskyldum tekjum, úr 8% í 10% þýði það, að þessi arður sé skattfrjáls. Það er hann alls ekki. Slíkur úthlutaður arður er skattlagður að fullu hjá þeim einstaklingum, sem þennan arð bera úr býtum. Það, sem hér er um að ræða, er aðeins að hækka markið fyrir tvísköttunina. Eftir að arðurinn var kominn upp úr 8% samkv. núgildandi lögum, var hann skattlagður bæði hjá einstaklingunum og líka hjá félögunum. Það er aðeins um það að ræða að hækka markið fyrir tvísköttunina, ekki það að gera nokkuð af þessum arði skattfrjálst. En skattalaganefndin taldi slíka breyt. eðlilega með tilliti til þeirrar hækkunar hins almenna vaxtafótar, sem nú hefur átt sér stað.

Varðandi ummæli hv. 5. þm. Norðurl. e. um fyrningarreglurnar nýju og áhrif þeirra, og undir það var að nokkru tekið af hv. 4. þm. Vestf., þá vil ég benda á, að það er að mínu áliti fullkomlega rangt hjá þessum hv. þm., er þeir voru að gera sér áhyggjur um það, að með þessum nýju fyrningarreglum væri verið að velta einhverjum sérkostlegum byrðum yfir á almenning, þannig að þetta mundi jafnvel leiða til stórhækkaðs almenns verðlags. Ef Þetta væri rétt, hlyti Það annaðhvort að byggjast á því, að hægt væri með einhverju móti að sleppa við þann kostnað, sem fyrningin í rauninni er, eða þá að þessi kostnaður hefði áður verið borinn af einhverjum öðrum, en nú væri verið að veita þessum kostnaði yfir á almenning. Hvað fyrsta atriðið snertir, að hægt sé að sleppa við þann kostnað, sem hér er um að ræða, þá mundi það vera svo fráleitt, að ég ætla þessum hv. þm. það ekki, að það sé slíkt, sem þeir hafa haft í huga. Sá raunverulegi kostnaður, sem hér er um að ræða, liggur blátt áfram í því, að skip, vélar og önnur framleiðslutæki, sem notuð eru, eyðast við notkunina, og það þarf einhvern tíma að endurnýja þau. Það verð, sem verður að endurnýja þessi tæki á, er í meginatriðum ákveðið á heimsmarkaðnum, af því að mest af þessum framleiðslutækjum verðum við að kaupa fyrir erlendan gjaldeyri. Það er í þessu, sem kostnaðurinn raunverulega er fólginn, og hvað sem við samþykkjum hér um fyrningar, heimilaðar fyrningarafskriftir og þess háttar, getur það engin áhrif haft á þennan kostnað. Samþykktir, sem við gerum hér á hinu hv. Alþ., eru því miður ekki svo máttugar, að þær breyti náttúrulögmálum eða því verði, sem ríkir á heimsmarkaðnum.

En ég býst nú ekki við, að það sé þetta, sem hv. þm. hafa haft í huga, heldur hitt, að með þessum nýju fyrningarafskriftum væri verið að einhverju leyti í ríkara mæli en nú á sér stað að velta þessum kostnaði yfir á almenning. En þetta mundi að mínu áliti líka vera á fullkomnum misskilningi byggt. Þessi kostnaður er þegar borinn af almenningi. Fyrirtækjunum er meinað vegna þeirra afskriftareglna, sem nú gilda, og vegna verðbólgunnar að leggja fyrir í afskriftasjóði, þannig að Þau geti staðið undir kostnaðinum við endurnýjun framleiðslutækjanna. En af því að allir gera sér það ljóst, að þessi endurnýjun verður með einhverju móti að fara fram, þá er séð fyrir því með öðru móti, að svo verði, og leiðin, sem farin er í því efni, er blátt áfram sú, að bankarnir eru látnir leggja fram þá peninga, sem til þessa þarf, í mörgum tilfellum með ábyrgð ríkisins. Afleiðingin af þessu verður svo annaðhvort verðhækkanir, ef um verðbólgulán bankanna er að ræða, eða þá að bankarnir verða að draga saman útlán sin til annarra framkvæmda, og auðvitað bitnar það líka á almenningi, í sumum tilfellum er það þannig, eins og hv. þdm. er kunnugt um, að ábyrgðir þær, sem ríkissjóður hefur gengizt undir af þessum ástæðum, falla á ríkissjóðinn og almenningur kemur til með að greiða þær í hærri sköttum.

Sú breyting, sem nú er um að ræða, er aðeins fólgin í því, að fyrirtækjunum verði gert kleift að safna í afskriftasjóði, en þá auðvitað ætlazt til þess, að þau geti á sínum tíma, þegar endurnýja þarf þessi framleiðslutæki, staðið undir kostnaðinum, sem af því leiðir. Og ég er algerlega ósammála hv. 5. þm. Norðurl. e. um það, þegar hann nefndi, að vegna þess að heimilað væri að leggja vissan hluta af arðinum í skattfrjálsan varasjóð, þá ætti það að geta staðið undir endurnýjuninni. Tilgangurinn með varasjóðunum er að auka framleiðslutækin. Fyrning og afskriftir eru aftur á móti kostnaður og óeðlilegt, að varasjóðir standi undir því. Það mætti þá að mínu áliti alveg eins segja, að Þessir varasjóðir ættu að standa undir launagreiðslum eða öðrum slíkum kostnaði.

Hv. 5. Þm. Norðurl. e. vitnaði í Þessu sambandi í Þjóðhagsreikningana eða yfirlit, sem Framkvæmdabankinn nýlega hefur birt um aukningu Þjóðarauðs Íslendinga. Að vísu ber að mínu áliti að taka slíkar upplýsingar með nokkurri varúð, en það eru einu upplýsingarnar, sem til eru um þetta efni, svo að við skulum sleppa því atriði. En það er alveg rétt, að þó að fyrirtækjum sé ekki heimilað að afskrifa nægilega það fjármagn, sem í þeim er bundið, þá getur endurnýjun framleiðslutækjanna átt sér stað fyrir því, og það er alveg rétt hjá hv. þm., að það hefur átt sér stað mjög mikil fjárfesting á undanförnum árum. Og það er út af fyrir sig ánægjulegt, að verðmæti framleiðslutækjanna hefur um það bil tvöfaldazt á því árabili, sem hv. Þm. nefndi. Ekkert er því til fyrirstöðu í sjálfu sér, að mikil fjárfesting geti átt sér stað, þó að fyrirtækjunum sé ekki heimilað að afskrifa framleiðslutæki sín. En það er annað atriði í Þjóðhagsreikningunum, sem oft hefur borið á góma hér á hv. Alþ. og er ekki jafnánægjulegt og þetta, en það er sú þróun kaupmáttar launa, sem átt hefur sér stað á sama tímabili. Þrátt fyrir það að fjármunirnir hafi um það bil tvöfaldazt á Þessu tímabili, þá benda þær upplýsingar, sem fyrir hendi eru um þróun kaupmáttar launa, til þess, að hann hafi nokkurn veginn staðið í stað. Ég efast ekki um það, að einmitt þessi staðreynd hefur sérstaklega valdið hv. 5. þm. Norðurl. e. miklum áhyggjum, þar sem hann er formaður í fjölmennu verkalýðsfélagi, en sú staðreynd bendir til Þess, að sú mikla fjárfesting, sem hér hefur átt sér stað, hefur ekki skilað Þjóðarbúinu eins miklum arði og æskilegt væri, og Það er ekki fjarri mér að álíta, að ein af mörgum ástæðum til þessarar leiðinlegu staðreyndar sé það handahóf, sem ríkt hefur einmitt varðandi fjárfestinguna og á að nokkru leyti rót sína að rekja til þess, að fyrirtækin hafa ekki sjálf getað staðið undir henni, heldur hefur fjáröflun til slíkrar fjárfestingar að mestu leyti verið á vegum opinberra aðila, banka og ríkis, þar sem annarleg sjónarmið hafa oft ráðið því, hvers konar fjárfestingu hefur verið ráðizt í. Ég tel líklegt, að einmitt það breytta fyrirkomulag, sem hér er gert ráð fyrir, væri líklegt til að vera spor í þá átt að ráða bót á þessu. Hér er um að ræða nokkurs konar sjálfvirkt úrval þeirra framkvæmda, sem um er að ræða. Þau fyrirtæki, sem rekin verða með tapi og ekki geta safnað í þessa afskriftasjóði, mundu þá dragast saman, en þau, sem skila sæmilegum arði, geta endurnýjað og aukið framleiðslutæki sín. Ég tel víst, að þetta mundi út af fyrir sig verða spor í þá átt að tryggja heilbrigðari fjárfestingu en hingað til hefur verið.

Ég get nú því miður ekki svarað orði til orðs Þeim fsp., sem hv. 4. Þm. Vestf. kom hér fram með. Hann talaði um það misræmi sem væri milli grg. og lagafrv., þar sem annars vegar væri talað um fastafjármuni og hins vegar um fasteignafjármuni. Ég get upplýst það, að það, sem skattanefndin hafði í huga, Þegar hún notaði orðið fastafjármunir, voru blátt áfram þau verðmæti í fyrirtækjunum, sem ekki voru aftur til sölu út úr fyrirtækinu, eins og vélar, byggingar, áhöld og annað slíkt, gagnstætt hráefnum og öðru slíku, sem ætlazt er til að selt sé út úr fyrirtækinu. Það er hins vegar talað um fasteignafjármuni í grg., og hygg ég, að það sé annaðhvort prentvilla eða sprottið af vangá, a.m.k. hefur Það hugtak ekki verið notað af okkur.

Þá vil ég að síðustu leiðrétta þann misskilning, sem mér fannst koma fram hjá hv. 4. Þm. Vestf., þegar hann taldi, að heimildin til þess að gefa út jöfnunarhlutabréf hefði í för með sér einhvers konar skattfríðindi. Ég tel, að það sé á algerum misskilningi byggt. Það, sem hér er um að ræða, er aðeins það, að ákveðnar eignir, nefnilega hlutabréf í eldri hlutafélögum, er heimilt að meta til raunverulegs verðs. Slíkt eru ekki neinar tekjur fyrir þá, sem þetta fá, frekar en það eru tekjur, eins og hv. 9. landsk. réttilega benti á, þó að eign hækki í verði og sé endurmetin með tilliti til þess. Hér er ekki um neinar nýjar tekjur að ræða og þess vegna ekki grundvöllur fyrir því að skattleggja Þær. Það leiðir af almennum skattareglum. Hitt er annað mál, að það er rétt, að fyrirtækjunum verður nú kleift að greiða meiri arð af þessum hlutabréfum en áður var, þar sem arðurinn mundi nú vera miðaður við nýja matið, en slíkur arður verður ekki undir neinum kringumstæðum skattfrjáls. Hann er alltaf skattlagður að fullu hjá einstaklingunum. Hins vegar mundi hann auðvitað koma undir Þá almennu reglu, að félagið hefur heimild til þess að draga hann frá skattskyldum tekjum, þannig að um tvísköttun verður ekki að ræða, fyrr en hann hefur náð vissu marki.

Að síðustu vildi ég beina Þeim tilmælum annars vegar til hv. 5. Þm. Norðurl. e., að hann taki aftur til 3. umr. b-lið 1. brtt., sem hann hefur flutt, og 7. brtt., Þannig að n. fái svigrúm til Þess að athuga Þessar till. nánar á milli umr. Sömu tilmælum mundi ég vilja beina til hv. 9. Þm. Reykv. varðandi Þær brtt., sem hann flutti. Ég tel þær líka þess eðlis, að eðlilegt sé, að n. fái aðstöðu til þess að athuga þær á milli umræðna.