05.04.1962
Neðri deild: 84. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2522 í B-deild Alþingistíðinda. (2222)

192. mál, skólakostnaður

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Út af þessum síðasta ræðukafla, sem fjallaði um annað en hér er til umr., vil ég aðeins segja þetta:

Ég vil benda hv. þm. á, að við höfum þingbundna stjórn í þessu landi, að í svo til öllum tilfellum, og þ. á m. nú, eru ráðh. þm. og þeir verða ráðh. vegna þess, að þeir hafa meiri hl. Alþ. á bak við sig, þeir verða ráðh. af því, að þeir eru áhrifamenn. Með því að meiri hl. Alþ. hefur falið þeim þessa stöðu, hefur hann líka falið þeim vissa ábyrgð. Það ætti því ekki að vera nýtt fyrir þm., að það séu höfð samráð við menn, sem bera þessa ábyrgð á útgjöldum ríkisins. Þegar rætt er um mál milli þm.-hópa annars vegar og hins vegar ráðh., sem eru forsvarsmenn meiri hl. í það og það skiptið, eru það hin eðlilegustu þingstörf og ekkert annað.

Það er alveg rétt hjá hv. þm., að málsmeðferð getur gengið úr skorðum, ef ráðh. leita út fyrir þingið og síðan sé þingið látið bíða eftir því, að þeir komi með einhverja lausn mála. Ég man eftir árum, þegar slíkt ástand keyrði algerlega um þverbak. Það voru hv. Alþb.-menn, sem þá sátu í ráðherrastólum og fóru með þau mál, sem við vorum látnir bíða eftir upp undir hálft ár. Ég var að vísu einn af þeim, sem studdu þá stjórn, en óánægður að þessu leyti eins og margir, en það getur gengið á ýmsu í þessum efnum.

En sem sagt: samráð milli þingmanna og þeirra, sem eru kjörnir af meirihlutaflokkum til að sitja í ráðherrastólum, eru fullkomlega eðlileg þingstörf.