05.04.1962
Efri deild: 79. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2542 í B-deild Alþingistíðinda. (2322)

189. mál, skipun prestakalla

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Frv. þetta var flutt í hv. Nd. af menntmn. þar eftir beiðni dóms- og kirkjumrn. Til skamms tíma var það ekki bundið í lögum, hvar í prestakalli prestur skyldi sitja, en það var lögfest 1952. Nú hefur komið á daginn, að það er ekki heppilegt að hafa þetta lögbundið. Það eru bæði tilflutningar á fólki, breyting á búskaparháttum og ýmsar aðstæður heima í héraði, sem gera það að verkum, að æskilegt geti verið, að prestssetur flytjist. Á því eru þó miklar hömlur, að það sé fært, sem sé að afla prestum húsnæðis, og þar sem miklu fé er varið úr ríkissjóði til þess að koma upp byggingum á prestssetrum, þá er það ljóst, að ekki er unnt að samþ. flutning á prestssetri, nema mjög ríkar ástæður séu fyrir hendi. Þegar í þessu eru fólgnar miklar takmarkanir á því, að kirkjumálastjórnin veiti slíkar heimildir. Ég held það sé þess vegna engin hætta á, að ríkisstj., hver sem hún er, misbeíti því valdi, þó að hún hafi þá heimild, sem hún lengst af hefur haft til þess að kveða á um aðsetursstað presta. Hins vegar er það svo, að ef ekki hefði verið leitað eftir þessari almennu heimild nú, hefði á þessu þingi einu orðið að fá með mjög mismunandi rökstuðningi heimild til þess að flytja fjögur prestssetur, og er það í sjálfu sér ekki þess eðlis, að rétt sé að trufla Alþingi með ákvörðunum um það efni.

Frv. mætti engum mótmælum í hv. Nd., og leyfi ég mér að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn.