13.04.1962
Sameinað þing: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2674 í B-deild Alþingistíðinda. (2396)

Almennar stjórnmálaumræður

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Það er athyglisvert í þessum umr. að málsvarar ríkisstj. færa einkum fram þrjú atriði til stuðnings því, að viðreisnin hafi verið rétt og borið fullan árangur. Þessi þrjú atriði eru: í fyrsta lagi, að samdráttur sá, sem stjórnarandstaðan sagði að leiða mundi af víðreisninni, hafi ekki orðið, því að mikil og góð atvinna hafi verið víðast hvar á landinu. í öðru lagi, að gjaldeyrisstaðan hafi batnað. Og í þriðja lagi, að sparifjármyndun hafi aukizt í landinu. Það er rétt að víkja að þessum atriðum öllum, hverju um sig.

Samdráttur í uppbyggingu atvinnulífsins í landinu hefur sannarlega fylgt í kjölfar viðreisnarinnar. Þeirri staðreynd verður ekki neitað með því að benda á mikinn síldarafla og góða atvinnu á ýmsum stöðum á landinu. Sú atvinna á ekkert skylt við viðreisnarstefnuna. Viðreisnarstefnan átti auðvitað engan þátt í því, að síldveiðarnar á s.l. sumri gengu vel. Þau mörgu nýju skip, búin nýjustu og beztu veiðitækjum, sem mestan þátt áttu í hinum mikla síldarafla, voru öll keypt til landsins, áður en viðreisnarstefnan var ákveðin, og um það verður ekki deilt, að höfundar viðreisnarstefnunnar höfðu einmitt fordæmt þessi skipakaup og flokkað þau undir eyðslustefnu. Það má því telja alveg furðuleg falsrök að ætla að sanna réttmæti viðreisnarinnar með því að þakka henni afrakstur þeirra tækja, sem höfundar viðreisnarinnar höfðu talið að væru ofkeypt og ógnuðu fjárhagslegu sjálfstæði þjóðarinnar.

Það er mikil gróska í atvinnulífinu, sagði hv. þm. Sjálfstfl., Jóhann Hafstein, hér áðan. En hvar eru þau atvinnutæki í landinu, sem keypt hafa verið á tímum viðreisnarinnar eða ákveðið að kaupa til landsins í hennar tíð? Sú gróska, sem nú er í atvinnulífinu í landinu, er öll vegna þess, sem gert hafði verið í atvinnumálum fyrir tíma viðreisnarstjórnarinnar. Samdráttarstefnan kemur fram í því, að dregið er úr uppbyggingunni í landinu, að nauðsynlegar stofnframkvæmdir fyrir framtíðina eru vanræktar. Samdráttur af slíku tagi hefur einmitt verið augljós fylgifiskur viðreisnarstefnunnar. Hér skulu nefnd dæmi.

Tökum íbúðabyggingar. Árið 1956–59, eða í fjögur árin næst á undan viðreisninni, var hafin smíði á 1611 íbúðum að meðaltali á ári hverju, en á fyrsta heila viðreisnarárinu, 1961, var hafin smíði á aðeins 770 íbúðum. Þannig nam samdrátturinn í íbúðarhúsabyggingum meira en helmingi. Og tökum dæmi um kaup á nýjum fiskiskipum. Síðan viðreisnin var samþykkt, hefur stórlega dregið úr kaupum á nýjum skipum, og nú er svo komið, að ekki er keypt nýtt sem nemur árlegu viðhaldi flotans. Þegar tölur um árlegan innflutning fiskiskipa eru bornar saman, verður að hafa í huga, að nýtt skip kemur ekki á skrá, fyrr en einu til einu og hálfu ári eftir að kaupsamningur um það hefur verið gerður, þar sem smiðatíminn er venjulega svo langur. Þannig er t.d. innflutningur skipa árið 1960 allur vegna skipakaupa, sem ákveðin voru á árunum 1958 og 1959. Hæstv. viðskmrh. reyndi að mistúlka þessar tölur í ræðu sinni hér í kvöld. Hann vildi telja innflutning skipa árið 1960 til áhrifa frá viðreisninni, en slíkt er alger blekking. Viðreisnarstefnan byrjaði fyrst að segja til sín í innflutningi fiskiskipa s.l. ár, árið 1961, en enn greinilegar munu þó áhrif hennar koma fram á þessu ári, 1962. En hvað sýna þær tölur, sem fyrir liggja um innflutning fiskiskipa? Árið 1960 bættust fiskiskipaflotanum 53 skip, 5802 rúmlestir að stærð. En árið 1961, þegar viðreisnarinnar var farið að gæta, var nettóaukningin 11 skip, 1412 rúmlestir að stærð. Um þessa aukningu segir Davíð Ólafsson í Morgunblaðinu 1. marz s.l. orðrétt á þessa leið: ,.Þessi endurnýjun flotans á einu ári er of lítil til þess, að hún geti talizt nægjanleg.“ Og í nýútkomnu blaði af tímaritinu Ægi, sem fjallar um endurnýjun fiskiskipastólsins, má lesa þessi hógværu orð: „Á yfirstandandi ári, 1962, er ekki gert ráð fyrir teljandi innflutningi fiskiskipa.“ Þannig er ástandið um endurnýjun fiskiskipastólsins. Það er þetta, sem heitir samdráttur. Þetta er samdráttarstefnan í reynd.

Hv. Alþýðuflokksþm. Jón Þorsteinsson sagði hér áðan, að viðreisnarstefnan miðaði við hagsýna fjárfestingu. Þeir telja ekki endurnýjun fiskiskipastólsins hagsýna fjárfestingu, sem ráða stefnu núv. ríkisstj.

En gjaldeyrisstaðan hefur þó batnað, segja stjórnarsinnar. Jú, það er rétt, gjaldeyrisstaða bankanna batnaði á s.l. ári. En hvers vegna þora málsvarar ríkisstj. ekki að gera grein fyrir því, hvað olli batnandi gjaldeyrisstöðu landsins? Voru þar að verki heilbrigð áhrif viðreisnarstefnunnar, eða kom eitthvað annað til? Það, sem réð úrslitum um batnandi gjaldeyrisstöðu bankanna, var þetta:

1) Síldaraflinn skilaði í þjóðarbúið 350 millj. kr. meiri gjaldeyrisverðmætum en áður, og allir vita, að viðreisnarstefnan átti engan þátt í auknum síldarafla.

2) Erlent gjafafé bætti stöðu bankanna.

3) Gjaldeyrisstaða bankanna batnaði nokkuð vegna aukinna vörukaupalána.

4) Gjaldeyrisstaðan batnaði vegna þess, að svikizt var um að endurnýja framleiðslutæki þjóðarinnar.

Sú staðreynd, að viðreisnarstefnan hefur leitt til þess, að ekki eru keypt ný fiskiskip til landsins sem nemur nauðsynlegu árlegu viðhaldi, sú staðreynd, að ekki hefur verið ráðizt í byggingu eins einasta frystihúss í landinu, síðan viðreisnin var samþykkt, sú staðreynd, að bygging íbúðarhúsa í landinu hefur hrapað um helming, sú staðreynd, að framkvæmdir í landbúnaði hafa stórlega dregizt saman, sú staðreynd, að ekki hefur verið ráðizt í eina einustu orkuvirkjun á landinu á tímum viðreisnarinnar, auðvitað leiða þessar staðreyndir til þess, að nokkur laus gjaldeyrir hlýtur að safnast fyrir, svo framarlega sem atvinnuvegirnir eru ekki stöðvaðir með öllu. En eru nokkrar lausar gjaldeyriskrónur betri en ný skip? Eru peningar þýðingarmeiri fyrir þjóðarbúskapinn en ný orkuver, ný hús og ný framleiðslutæki? Það er ein magnaðasta blekking, sem heyrzt hefur í íslenzkum stjórnmálum, að ný og fullkomin framleiðslutæki og ný orkuver séu dæmi um eyðslustefnu og þýði fjárhagslegt ósjálfstæði, en að peningar, jafnvel þótt litlir séu í kassa, séu aftur á móti dæmi um ráðdeild og hyggindi.

Um sparifjármyndunina gildir í raun og veru hið sama og um gjaldeyrisstöðuna. Það gefur auga leið, að mikil framleiðsla, sem byggist á þeim tækjum, sem keypt voru, áður en hömlur viðreisnarinnar náðu að verka, er undirstaða aukinnar sparifjármyndunar í landinu. Á meðan helmingi meira var byggt af íbúðarhúsum, gekk hluti sparnaðarins þangað, og á meðan mikil kaup áttu sér stað á nýjum bátum og skipum og nýjum tækjum til landbúnaðarins, fór álitlegur hluti sparifjárins til slíkra kaupa. Spurningin er eins og áður sú: Er sá sparnaður betri, sem kemur fram í lausum peningum, en sá, sem kemur fram í nýjum íbúðarhúsum fyrir framtíðina og nýjum tækjum til að standa undir aukinni þjóðarframleiðslu á komandi árum.

Hæstv. forsrh., Ólafur Thors, sagði hér í umr. í gærkvöld, að efnahagsmálaráðstafanir stjórnarinnar miðuðu einmitt að því að örva vöxt þjóðarframleiðslunnar. Ég vil nú spyrja hæstv. forsrh.: Heldur hann, að sú ráðstöfun ríkisstj. að heimila brezkum og þýzkum togurum að veiða á miðum bátanna í íslenzku fiskveiðilandhelginni muni leiða til vaxandi framleiðslu Íslenzkra fiskiskipa á næstu árum? Heldur hæstv. forsrh., að ráðið til að örva vöxt þjóðarframleiðslunnar sé að hætta að halda fiskiskipaflota landsmanna við? Nei, auðvitað veit hæstv. forsrh., að þessar ráðstafanir leiða ekki til vaxandi þjóðarframleiðslu, og hann veit líka, að sú efnahagsmálastefna, sem óhjákvæmilega leiðir til endurtekinna verkfalla og framleiðslustöðvana, getur ekki leitt til efnahagslegra framfara í neinu landi.

Hæstv. forsrh. varði miklum hluta ræðu sinnar hér í gærkvöld til að afsaka gengislækkunina á s.l. sumri, og það var í sjálfu sér broslegt að heyra forsrh. rembast við að sanna mönnum algert getuleysi atvinnuveganna eftir 11/2 árs viðreisnarstjórn og eftir 21/2 árs yfirráð hans flokks yfir málefnum þjóðarinnar. Hæstv. ráðh. sagði, að atvinnuvegir landsins hefðu verið allsendis ófærir um að taka á sig kauphækkanir, sem námu 550 millj. kr. Auðvitað eru allar fullyrðingar um, að kauphækkanir þær, sem verkafólk samdi um á s.l. sumri, hafi numið 550 millj. kr., alger fjarstæða. Þær fullyrðingar eru álíka haldgóðar og þær staðhæfingar, sem ríkisstj. sendi frá sér á s.l. sumri til réttlætingar gengislækkuninni. Þá birti ríkisstj. langa grg. um nauðsyn gengislækkunarinnar í útvarpinu og þó enn ýtarlegri grg, í stjórnarblöðunum. Þar birtu doktorar og hagfræðingar ríkisstj. tölulegar skýrslur um efnahagsástandið og sönnuðu auðvitað það, sem átti að sanna, að lækka þyrfti gengið um nákvæmlega það, sem gert var. Eins og alþjóð veit, byggir núv. ríkisstj. allar sínar ráðstafanir í efnahagsmálum á nákvæmum útreikningum hinna fróðustu sérfræðinga, eins og það heitir á máli ríkisstj.

Hæstv. forsrh. dregur enga dul á það, þegar hann ræðir þessi mál, að hann sé enginn sérfræðingur í efnahagsmálum. Hann er enginn doktor, ekki heldur hagfræðingur. En aftur á móti hefur hann slíka menn í þjónustu sinni. Hæstv. forsrh. hefur lýst því mjög eftirminnilega, að hann, bara venjulegur maður, hafi t.d. ekki séð með sínum venjulegu augum, að óhjákvæmilegt væri að fella gengið á s.l. sumri, hins vegar hafi sérfræðingar hans séð þetta allt nákvæmlega fyrir, og svo sýndu þeir mér í radarinn, segir hæstv. forsrh., og þá sá ég, að þessir spekingar vissu allt nákvæmlega fyrir. Og svo var krónan felld í ágústbyrjun samkvæmt myndinni í radarnum, og mikil talnaskýrsla var síðan birt þjóðinni, til þess að hún gæti skilið allan þennan vísdóm.

Í grg. hinna miklu spekinga, sem birtist í Morgunblaðinu hinn 14. sept. s.l. sumar, segja þeir nákvæmlega fyrir um aflabrögð ársins 1961 og afkomu þjóðarbúsins á því ári. Takið eftir: Strax í ágústbyrjun gátu þeir gert nákvæman samanburð á aflamagni ársins 1961, sem þá var rétt hálfnað, og áranna 1960 og 1959. Svo nákvæmur var radar þessara spekinga, að þeir gátu með fullu sagt fyrir um það í ágústmánuði, að heildarverðmæti sjávaraflans á því ári mundi verða 2431.3 millj. kr. upp á kommu þurfti það að vera. Þessi tala var borin saman við verðmætið árið 1960 og árið 1959. Hinir vísu menn reiknuðu nákvæmlega út verðmætisvísitölur fyrir þennan sjávarafla, og reyndust vísitölurnar þessar og voru birtar í skýrslunni: Árið 1959 vísitala 100, árið 1960 vísitala 92.6 og árið 1961 — sagt fyrir á miðju ári — vísitala 96.8. Það var því ekkert um að villast, að þjóðarbúið var að tapa borið saman við árið 1959. Sjávaraflinn hlaut að verða 3% — sögðu þeir nákvæmlega fyrir — 3% minni að magni árið 1961 en 1959 og þó enn minni að verðmæti. Og niðurstaða skýrslunnar var þessi orðrétt tekið upp: „Og er því samanlögð verðmætisminnkun á árinu 1961, miðað við árið 1959, vegna aflabrests og verðfalls um 170 millj. kr.“ Og enn sögðu hinir vísu menn orðrétt: „Af þessu, sem hér hefur verið sagt, er ljóst, að áhrif aflabrests, verðfalls og aukins kostnaðar vegna stækkunar flotans til rýrnunar á afkomu sjávarútvegsins munu nema samtals 320 millj. kr., sé árið 1961 borið saman við árið 1959. Er þetta um 13% af framleiðsluverðmætum sjávarafurða og 4% þjóðarframleiðslunnar. Það getur hver og einn gert sér í hugarlund, hversu auðvelt það sé fyrir þjóðarbúskapinn að bera 13—19% almennar kauphækkanir jafnhliða slíkri minnkun framleiðsluverðmætis og aukningu kostnaðar.“ Tilvitnunin í skýrsluna er lokið. Þegar doktorar og hagfræðingar höfðu reiknað þetta allt svona nákvæmlega út og með yfirburðaframsýni sinni og þekkingu sýnt forsrh. svart á hvítu í radarnum, hvernig málin stóðu, þá lét hann sannfærast, og svo fór auðvitað um fleiri venjulega menn.

En svo komu hinar voðalegu staðreyndir í ljós. Hagfræðingarnir höfðu lesið allt vitlaust út úr radarmyndinni, og útreikningar þeirra reyndust haldlaus hugarburður. Aflamagnið 1961 varð ekki 3% minna en 1959, heldur 12% meira, og verðmæti sjávaraflans reyndist ekki 2431.3 millj. kr., eins og þeir sögðu fyrir, heldur yfir 3000 millj, kr. samkv. nýjustu athugunum Seðlabankans, sem talið hefur innkomna peninga á árinu fyrir útfluttar afurðir. Verðmæti sjávaraflans varð því 600 millj. kr. meira en ráðunautar ríkisstj. sönnuðu í ágústbyrjun. En loddaramennskan hafði heppnazt. Gengið var fellt. Kauphækkunin var tekin aftur. Þjóðin hafði verið blekkt.

Launþegasamtökin í landinu hafa lært af dýrkeyptri reynslu. Þau vita nú betur en áður, hver er raunveruleg stefna núv. ríkisstj. og hversu mjög má marka staðhæfingar hennar, útreikninga og fullyrðingar. Þau búast nú til átaka. Nokkrir starfshópar hafa þegar fengið sínar launabætur. Ríkisstj. og kuklarar hennar munu ekki koma við brögðum sínum í annað sinn. Verkalýðssamtökin munu vissulega sjá um það, til þess hafa þau nægilegt afl. Það mun ríkisstj. fá að reyna á næstu mánuðum, þegar verkalýðssamtökin endurheimta það, sem þau eiga í tekjum þjóðarbúsins.