13.04.1962
Sameinað þing: 55. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2683 í B-deild Alþingistíðinda. (2398)

Almennar stjórnmálaumræður

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Alls staðar í lýðfrjálsum löndum er það sanngirniskrafa kjósenda, að stjórnmálaflokkar, sem keppa um fylgi þeirra, geri skýrt og skilmerkilega grein fyrir stefnu sinni almennt og úrræðum í einstökum vandamálum, sem efst eru á baugi í þjóðfélaginu hverju sinni. Gildir þetta af kjósendanna hálfu jafnt gagnvart stjórnarflokkum og stjórnarandstöðuflokkum. En á hinn bóginn er aðstaða flokkanna gagnvart háttvirtum kjósendum harla ólík. Stjórnarflokkarnir eru ábyrgir gerða sinna. Þeir verða að taka ákvarðanir og framfylgja þeim.

Þess vegna er hægt að dæma þá af verkunum. Stjórnarandstaðan getur aftur á móti leyft sér allt önnur vinnubrögð. Hún þarf ekki að taka ábyrga afstöðu eða ákvarðanir, hún getur hagað málflutningi sínum og tillögum þannig, að ekkert af hennar málum komi til framkvæmda, og hún verður þar af leiðandi ekki dæmd af verkunum á sama hátt og ráðandi stjórn og stuðningsflokkar hennar. Þennan aðstöðumun hafa andstöðuflokkar núv. ríkisstj. notfært sér út í yztu æsar á Alþingi á yfirstandandi kjörtímabili, eins og ljóslega hefur komið fram í þessum eldhúsdagsumræðum og ótal sinnum áður. Samkvæmt þessari gamalreyndu forskrift þurfa hvorki Framsókn né Alþb. að binda sig í till. sinum við takmörk þess, sem er skynsamlegt og framkvæmanlegt. Þess vegna einkennast tillögur þeirra ýmist af blindri andstöðu gegn öllu, sem stjórnin og stuðningsflokkar hennar eru að gera, eða þá af gegndarlausum yfirboðum.

Því fer áreiðanlega víðs fjarri, að stjórnarandstaðan trúi sjálf á allt, sem hún lætur frá sér fara á einn eða annan hátt. Þess verða menn öðru hverju varir hjá hreinskilnum mönnum í hópi stjórnarandstöðunnar. En sjónarspilið er sett á svið vegna hv. kjósenda, sem eiga tilkall til þess, að flokkarnir geri hreint fyrir sínum dyrum. Þess er stjórnarandstaðan ekki umkomin, því að vafasamt er, að hún viti sjálf, hvað hún vill, og öruggt er það, að hún veit ekki, hvað hún mundi gera, ef svo ólíklega færi, að taflið snerist og stjórnarandstaðan fengi ráðin í sínar hendur. Þetta kemur til af því, að enginn flokkur er nógu stór í landinu, til þess að hann geti stjórnað einn, og samningar ólíkra flokka um stjórnarmyndun geta því leitt til allt annars en þess, sem hver einstakur þeirra hefur viljað eða boðað.

En það nægir stjórnarandstöðunni í bili að búa sig nú undir það að koma fram fyrir hv. kjósendur í næstu kosningum með sakleysislegt andlit og segja ýmist: Við vorum á móti þessari ráðstöfun stjórnarinnar — eða: Við vildum gera miklu meira fyrir fólkið en stjórnin gerði. — Út á þetta eru atkvæðin slegin, og siðan er e.t.v. setzt í ríkisstj. til að framkvæma einmitt það, sem harðast hefur verið barizt gegn.

Frægasta dæmið um þetta er frá árinu 1950, þegar Framsókn fékk samb. vantraust á ríkisstj. Sjálfstfl. og felldi hana, af því að sú ríkisstj. flutti frv. til laga um gengislækkun. Síðan myndaði Framsókn stjórn með Sjálfstfl. til að lögfesta sama frv. um gengislækkun.

Núna tala framsóknarmenn mikið um það, að gengisfellingin s.l. sumar hafi verið óþörf, en með hliðsjón af reynslunni frá 1950 þurfa hv. kjósendur ekki að halda það, að Framsókn mundi gera á því leiðréttingu og hækka gengið aftur, þótt hún fengi allt í einu aðstöðu til. Bæði Framsókn og Alþb. hafa staðið að gengisfellingum eða dulbúnum gengisfellingum sem stjórnarflokkar, þótt þeir sverji nú allt slíkt af sér. Þeir hafa einnig báðir tekið þátt í kaupbindingu og kaupskerðingu, þótt þeir þykist nú vera stórlega hneykslaðir á þess konar ráðstöfunum. Þeir hafa báðir áður lofað brottför varnarliðsins og svikið það. Og gæti þá ekki alveg eins farið svo, að Moskvu-víxill Framsóknar ætti eftir að lenda í vanskilum, enda þótt einstakir þm. hennar gangi sig upp að hnjám í Keflavíkurgöngu? Eða þá sjónvarpið á Keflavíkurflugvelli. Nú er það hneykslunarhella, að leyfi það, sem Framsókn veitti hernum á sínum tíma skilmálalaust, skuli hafa verið framlengt. Stefnan í því máli gæti skjótlega breytzt eins og í öðrum málum.

Þannig notar stjórnarandstaðan yfirleitt hefðbundnar aðferðir til að forðast að láta kjósendur vita, hvað hún raunverulega vill. En hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, greip einnig annað ráð í umr. í gærkvöld til þess að villa á sér heimildir. Hann lét í það skína, að lausn landhelgisdeilunnar og afnám víxlhækkana þeirra, sem vísitalan olli, væri verk Framsfl., og átti þetta að sanna, að sá flokkur starfaði af mikilli ábyrgðartilfinningu sem stjórnarandstöðuflokkur. Út af fyrir sig er það góð einkunn, sem stjórnarflokkarnir fá hjá hv. Þm. fyrir lausn þessara tveggja mála, þegar hann vili nú eigna þau sér og sínum flokki. Allir vita þó, að hvort tveggja málið var leyst af núverandi ríkisstj. í harðri andstöðu við Framsókn og Alþb. Útfærsla landhelginnar í 12 mílur var að vísu ákveðin í tíð vinstri stjórnarinnar, en sú ákvörðun fékkst ekki viðurkennd þá í reynd. Við áttum í hættulegri styrjöld út af útfærslunni við eitt mesta flotaveldi heims fram á síðasta ár. Þá fyrst tókust samningar, sem tryggja fullnaðarviðurkenningu annarra þjóða á 12 mílunum og gera útfærsluna raunhæfa. Um þá samninga sagði hv. þm. Finnbogi R. Valdimarsson í gærkvöld, — og hann talaði bæði fyrir hönd Alþb. og Framsóknar, að því er bezt varð skilið, — að flokkarnir teldu sig ekki bundna af landhelgissamningnum og mundu nota fyrsta tækifæri, sem gæfist, til þess að losna undan oki þess samnings. Þetta sagði þm. Alþb., á sama tíma og Eysteinn Jónsson, formaður Framsóknar, reyndi að læða inn hjá fólki, að Framsókn ein hafi leyst allan vanda í sambandi við landhelgismálið. Vafalaust talar Finnbogi R. Valdimarsson í fullu umboði Alþb. En hvor þeirra má sín meira í Framsfl., hann eða Eysteinn Jónsson? Fróðlegt væri að fá á þessu nánari skýringar úr þeim herbúðum og þó sérstaklega á spurningunni um það, hvort yfirlýsing Framsóknar frá í fyrra um uppsögn landhelgissamningsins, sem Finnbogi R. Valdimarsson hefur nú endurtekið í hennar nafni, sé í fullu gildi. Um hitt þarf ekki að spyrja, að yfirlýsingar Alþb. — eða Lúðvíks Jósefssonar fyrir þess hönd — á þá leið, að hann hefði helzt kosið að semja við Breta um áframhald þorskastríðsins, eru enn í fullu gildi.

Óbreyttir liðsmenn Framsóknar hafa margir áttað sig á því, að lausn landhelgisdeilunnar í fyrra var farsæl lausn á miklu vandamáli og að flokkur þeirra gerði mikið axarskaft með afstöðu sinni þá. Forustumenn flokksins hér á Alþingi hafa nú vegna yfirlýsingar Finnboga R. Valdimarssonar í gærkvöld fengið ágætt tilefni til að lýsa yfir, að þeir hafi líka áttað sig á glappaskotinu. En því miður hafa þeir látið tækifærið ganga sér úr greipum. Þeir virðast ekkert hafa lært, og nú er samstarf þeirra við kommúnistana, sem kalla sig Alþýðubandalag, orðið svo náið, að fyrirsvarsmenn þeirra gefa hiklaust út yfirlýsingar í nafni Framsóknar. Einhvern tíma hefði það þótt ótrúlegt, að slíkt mundi ske, eftir að Eysteinn Jónsson væri nýlega orðinn formaður Framsfl.

Áður en ég hlýddi á útvarpsumr. í gærkvöld, var ég farinn að halda, að þjóðsagan um móðuharðindin, sem Karl Kristjánsson bjó til fyrir 2 árum, hefði gengið sér til húðar og þegar valdið höfundinum og flokki hans nægum óþægindum. En hinum nýkjörna formanni Framsóknar, Eysteini Jónssyni, hefur augsýnilega ekki þótt nóg komið af slíku. Ef trúa mætti orðum hans í gærkvöld, þá er þannig umhorfs í stofunum hjá ykkur, hlustendur góðir, að ókunnugir hljóta að fyllast meðaumkun. Þið eruð bæði svöng og klæðlítil og skjálfandi í kulda, og líklega eru stofurnar ykkar bæði húsgagna- og teppalausar. Óhræsis ríkisstj. hefur samkv. lýsingu Eysteins Jónssonar rúið ykkur algerlega inn að skinni. Húsbóndinn liggur sennilega uppi í rúmi, örmagna af þreytu, því að ríkisstj. vinnur skipulega að því að eyðileggja heilsu ykkar með þrotlausum þrældómi. E.t.v. sitja sum ykkar með útvarpið úti í bílskrjóðnum, af því að bannsett ríkisstj. vill ekki sjá ykkur fyrir þaki yfir höfuðið, ef trúa má orðum Eysteins Jónssonar. — Lýsingar í þessum dúr hljóta að hafa öfug áhrif við það, sem höfundar þeirra ætlast til, og má þá einu gilda fyrir okkur, sem styðjum núv. ríkisstj., hversu oft stjórnarandstæðingar taka sér slíkt í munn. Það eru þeirra málefnalegu móðuharðindi, sem skaða þá sjálfa mest, þegar staðreyndirnar svara fyrir sig.

Hlustendur fengu í gærkvöld að heyra af vörum Karls Guðjónssonar, 6. þm. Sunnl., samlíkingu, sem ég hygg að flestum muni hafa blöskrað. Hann líkti ríkisstj. við morðingja- og landráðamannafélagsskapinn OAS í Alsír, sem drepur saklaust fólk í hundraðatali, ræðst með spúandi vélbyssur inn í sjúkrahús og skóla til þess að myrða og skelfa og fremur blóðug bankarán og hvers konar ólýsanleg óhæfuverk. Þótti þm. ekki nóg að gert með þessari samlíkingu, því að hann klykkir út með því að segja, að ríkisstj. gengi þó öllu lengra í óhæfuverkum en glæpasamtök OAS. Þm. Karl Guðjónsson er dagfarsprúður og viðræðugóður hversdagslega og situr hér daglega, að því er virðist alls óhræddur við þá skelfilegu íslenzku OAS-foringja, sem sæti eiga hið næsta honum. Það hlýtur þess vegna eitthvað að ama að þm., þegar hann lætur sér um munn fara aðra eins viðurstyggð og umrædda samlíkingu. Skýringin er auðvitað sú, að ekki er treyst á góðan málstað, þegar gripið er til slíkra örþrifaráða í rökræðum. Þm. var í þessu sambandi að ráðast á ríkisstj. fyrir gengisfellinguna s.l. sumar, sem var nauðsynleg, vegna Þess að kauphækkaninar þá leiddu af sér hækkun framleiðslukostnaðar um 550–600 millj. kr. Þetta geta Karl Guðjónsson og félagar hans ekki hrakið með rökum, og þá á að bjarga sér með ógeðslegustu samlíkingum, sem hægt er að finna. Ekki verða þeir menn að meiri, sem þannig koma fram.

Ræður stjórnarandstæðinga í gærkvöld og í kvöld sýna vel glundroðann í herbúðum þeirra. Þar er hver höndin upp á móti annarri og engin fastmótuð stefna í vandamálunum önnur en sú ein að gera ríkisstj. sem allra mest ógagn. Alþfl. og Sjálfstfl. hafa hins vegar komið sér saman um ákveðna stefnu í viðreisn efnahagslífsins og margháttuðum félagslegum umbótum, og þeirri stefnu hefur verið framfylgt í góðu samstarfi annars ólíkra flokka af einbeitni og með miklum árangri. Lánstraust þjóðarinnar út á við var þrotið, þegar vinstri stjórnin skildi við. Það hefur verið endurreist, og möguleikar hafa skapazt á ný til alhliða uppbyggingar atvinnuveganna og til hagnýtingar orkulinda landsins. Gjaldeyrisvarasjóður hefur verið myndaður, og sparifjáraukning nemur nú rúmlega einum milljarð króna á 2 árum. Innflutnings- og gjaldeyrisfrelsi hefur leyst af hólmi höft og gjaldeyrisskömmtun. Jafnvægi hefur náðst á peningamarkaðinum, og sú útlánaaukning, sem átt hefur sér stað, er byggð á réttri forsendu, nefnilega á aukinni sparifjármyndun. Þetta allt reynir stjórnarandstaðan að rífa niður með því að beita sér fyrir ótímabærum kauphækkunum og ótímabærri vaxtalækkun og útlánapólitík, sem gæti ekki byggzt á öðru en prentun verðlausra peningaseðla. Sú barátta stjórnarandstöðunnar er alls ekki háð af umhyggju fyrir bættum hag launþega. Þeirra hagur getur því aðeins batnað, að endurreisn efnahagslífsins haldi áfram á þeirri braut, sem mörkuð hefur verið.

Það má fullyrða, að viðreisn efnahagslífsins hafi tekizt framar öllum vonum, þegar þess er gætt, að miklir örðugleikar hafa orðið á veginum, svo sem verðfall á útflutningsafurðum, aflaleysi togara og meiri kaupbreytingar til hækkunar en atvinnuvegirnir hafa þolað. Samt hefur jafnframt verið gert stórátak á sviði þjóðfélagslegra umbóta. Almannatryggingar hafa verið efldar og fjölskyldubætur auknar. Skerðingarákvæðin hafa verið afnumin, og fá nú allir ellilífeyri greiddan að fullu án tillits til tekna. Verið er að endurskoða lögin um almannatryggingar með það m.a. fyrir augum, að skipting landsins í verðlagssvæði falli niður. Einnig verða slysa- og dánarbætur hækkaðar.

Tekjuskattur af launatekjum hefur verið felldur niður, og þessa dagana er verið að gera breytingar á skattalögunum, sem munu stuðla að framþróun og vexti atvinnufyrirtækja, sem mikilvæg eru fyrir afkomu alls almennings. Sveitarfélögum hefur verið tryggður 1/2 hluti af söluskatti, og þar með hefur verið orðið við óskum sveitarstjórnarmanna um, að sveitarfélögin fengju nýjan tekjustofn. S.l. ár fengu sveitarfélögin um 70 millj. kr. í sinn hlut af söluskattinum, og á þessu ári er hlutur þeirra áætlaður um 83 millj. kr. Þessi ráðstöfun hefur átt ríkan þátt í því að vernda útsvarsgreiðendur fyrir óhóflegri álagningu útsvara og einnig verkað á framkvæmdagetu sveitarfélaganna. Frv. um tekjustofna sveitarfélaga, sem enn þá er til meðferðar í þinginu, hefur inni að halda mikilvæg ákvæði fyrir sveitarfélögin, m.a. um landsútsvör. Það er tekjustofn, sem sveitarstjórnarmenn hafa margsinnis bent á. Einnig er í því ákvæði um einn útsvarsstiga fyrir allt landið, ákvæði um aðstöðugjald í stað veltuútsvara og fleira, sem er mikilvægt fyrir gjaldendur.

Aflaleysistryggingasjóður fær að vísu á sig aukna bótaskyldu vegna togaranna, en sjóðurinn verður jafnframt stórlega efldur. Framlag ríkisins til sjóðsins er í ár samkv. fjárlögum 81/2 millj. kr., en árið 1963 mun það verða 18.6 millj. kr., eða 10.1 millj. kr. hærra en það er nú. Það ár eru heildartekjur sjóðsins áætlaðar 55.8 millj. kr., og sé það borið saman við útgjöld sjóðsins eftir 12 ára starf, þá sést, að um mikla eflingu hans er að ræða. Almenna deildin hefur á 12 árum greitt um 33.4 millj. kr. í bætur, en síldveiðideildin um 361/2 millj. kr.

Verið er að gera ráðstafanir til að reisa við stofnlánasjóði landbúnaðarins, sem orðnir voru gjaldþrota, og verður þannig lagður nýr grundvöllur að áframhaldandi uppbyggingu þess mikilvæga atvinnuvegar.

Á þessu þingi hafa einnig verið gerðar mikilvægar breytingar á lögum um húsnæðismálastofnun ríkisins og lögum um verkamannabústaði, og í framhaldi af þeim lagabreytingum er unnið að útvegun aukins fjármagns til húsbygginga. Hv. þm. Hannibal Valdimarsson, sem gegndi embætti félmrh. í 21/2 ár, reyndi í ræðu sinni hér í kvöld að gera lítið úr þeim ráðstöfunum, sem verið er að gera í húsnæðismálum. Hvað gerði hann sjálfur á því sviði í 21/2 ár? Ekkert, bókstaflega ekkert.

Sett hafa verið lög um launajafnrétti kvenna og karla, og fyrir þinglok verður væntanlega afgr. frv. til laga um samningsrétt opinberra starfsmanna, sem mun færa þeim mikla réttarbót.

Þannig mætti telja upp margt fleira úr jákvæðu starfi stjórnarflokkanna, sem miðar að því að bæta hag landsmanna og gera þeim kleift að lifa við mannsæmandi kjör og njóta frelsis og menntunar til jafns við það, sem bezt gerist meðal annarra þjóða. Stjórnarflokkarnir þurfa ekki að kviða dómi kjósenda fyrir þetta starf, en þegar þar að kemur, munu Framsókn og Alþb. lenda í basli með að útskýra fyrir hv. kjósendum, hvers vegna þeir flokkar hafa ekki upp á neitt að bjóða annað en niðurrifstillögur eða fáránleg yfirboð. Íslenzkir kjósendur eru það þroskaðir, að þeir munu auðveldlega sjá í gegnum þennan blekkingavef.

Það heyrist stundum sagt, að samstarf eins og það, sem nú á sér stað um stjórn landsins milli Alþfl. og Sjálfstfl., hljóti að vera til tjóns fyrir minni aðilann í samstarfinu. Ég tel, að þetta sé rangt ályktað. Þegar málefnin eru látin ráða og vel er unnið, þá kveða kjósendur upp réttlátan dóm á kjördegi. Það gildir jafnt, hvort sem flokkar vinna saman í landsstjórn eða sveitarstjórn og hvort sem flokkarnir heita Alþfl. og Sjálfstfl. eða eitthvað annað. Aðalatriðið er, að unnið sé af heilindum, eins og nú hefur verið gert. Það tókst ekki í vinstri stjórninni, og því fór sem fór um þá sjóferð. — Góða nótt.