24.11.1961
Neðri deild: 25. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2719 í B-deild Alþingistíðinda. (2415)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður skoraði á mig að gefa hér vissa yfirlýsingu í heyranda hljóði á Alþingi og endurtaka hana síðan opinberlega. Spurning er, hvort það væri ekki mark takandi á þeirri yfirlýsingu, sem gefin væri á Alþingi, heldur þyrfti að sima Krúsjeff hana, til þess að hv. þm. teldi hana einhvers virði. Annars er það nokkuð hlálegt, að fyrst halda þessir hv. þm. langar ræður um það, að ekki sé að marka eitt einasta orð, hvorki yfirlýsingar stjórnarinnar um, hvort ákveðnir atburðir hafi gerzt eða séu að gerast, né loforð þeirra um framtíðina, en hins vegar krefjast þeir loforða um framtíðarathafnir, sem núverandi ríkisstj. vitanlega hefur ekki á valdi sínu að binda Alþingi eða komandi ríkisstj. um. Þeir bera fram þessar kröfur um yfirlýsingar, einungis vegna þess að þeir eru að reyna að dreifa huga manna frá aðalatriði málsins, hvort þessi tiltekna fregn sé rétt eða ekki. En það er hún ein, sem hér er til umræðu og úr þarf að fá skorið, hvort fái staðizt eða ekki.

Þessi uppspuni, sem í Þjóðviljanum er prentaður og hefur verið lesinn upp og hv. þingmenn vilja ekki taka afstöðu gegn, gefur að sjálfsögðu ekkert tilefni til neinna yfirlýsinga um framtíðina eða skuldbindingar af hálfu íslenzku stjórnarinnar, Alþingis eða ríkisins. Slíkar skuldbindingar verða að sjálfsögðu gefnar, ef ástæða er til, en ekki þó að slík ósannindi séu fram borin eins og hér hefur verið gert.

Það er harla athyglisvert, að hvorugur þessara hv. þm., sem báðir eru mestu valdamenn í þeim flokki, sem stendur að Þjóðviljanum, segist geta dæmt um eða hafa staðreynt, hvort fregn Þjóðviljans sé sönn eða ekki. Þjóðviljinn segist þó hafa örugga vitneskju um, að fregnin sé rétt. Hv. þm. vilja láta okkur trúa því, að Þjóðviljinn hafi lumað á þessari öruggu vitneskju, áður en hann birti fregnina, án þess að bera sig saman við þessa tvo mestu valdamenn flokksins, og þeir vilja láta okkur trúa því, að þeir hafi látið hálfan daginn liða svo, að slík stórfrétt, sem ekki aðeins hefur mjög mikla þýðingu fyrir Íslendinga, heldur ef til vili meira en nokkur önnur fregn nokkru sinni frá Íslandi er til þess löguð að geta haft áhrif á örlög og framtið annarrar þjóðar, — þeir vilja láta okkur trúa því, að þeir hafi látið hálfan daginn líða án þess að kynna sér, hverjar heimildir Þjóðviljinn hefði, hver sú örugg vitneskja væri, sem hann ber á borð. Slíkum málflutningi trúir enginn, og ég skora enn á þessa menn að hafa nú manndóm einu sinni til þess að standa upp og lýsa yfir því, sem þeir báðir vita, að Þjóðviljinn fari hér með vísvitandi lygi.