05.02.1962
Neðri deild: 41. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 2726 í B-deild Alþingistíðinda. (2422)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir o.fl.

Lúðvík Jósefsson:

Hæstv. forseti. Ég vildi leyfa mér að gera hér fyrirspurn til hæstv. sjútvmrh. og vænti, að hann treysti sér til að svara fyrirspurn minni, þó að hún sé gerð hér utan dagskrár.

Eins og hv, alþm. minnast, kom það hér fram í umræðum á Alþingi, nokkru áður en þingi var frestað fyrir jólin, að starfandi hefur verið á vegum ríkisstj. nefnd manna til að athuga um, með hvaða hætti rétt þætti að styrkja togaraútgerðina í landinu eða veita henni stuðning í þeim erfiðleikum, sem hún á nú í. Ég hygg, að það sé nokkuð síðan þessi nefnd skilaði áliti til ríkisstj.

Í umræðunum um þetta mál áður á þinginu hafði hæstv. sjútvmrh. minnzt á, að hann teldi, að aðallega væri um þrjár leiðir að ræða til að veita togurunum nokkurn stuðning. Ein af þeim leiðum, sem hann minntist á að væri hugsanleg, var sú að veita togurunum nokkurt olnbogarúm innan fiskveiðilandhelginnar, án þess þó að hann tæki þar nokkra beina afstöðu til. Nú vildi ég leyfa mér að leggja þá fyrirspurn fyrir hæstv. sjútvmrh., hvort ríkisstj. hafi nú þegar ákveðið, hvaða ráðstafanir hún hyggst gera til stuðnings togaraútgerðinni í landinu, og einnig þá um það, hvort ríkisstj. hefur ekki hugsað sér að leggja tillögur sínar í þessum efnum fyrir Alþingi og hvenær megi búast við þessum tillögum. Það er enginn vafi á því, að þeir, sem hafa með togaraútgerðina að gera nú, bíða eftir ráðstöfunum í þessum efnum, og það er á margan hátt mjög óþægilegt að bíða í þeirri óvissu, sem nú er beðið. Ég vænti, að hæstv. sjútvmrh. geti gefið svör hér við þessum spurningum mínum.