02.03.1962
Neðri deild: 58. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 25 í C-deild Alþingistíðinda. (2534)

81. mál, húsnæðismálastofnun

Jón Skaftason:

Herra forseti. Á mánudaginn eða þriðjudaginn var sagði ég hér örfá orð í sambandi við umr. um það frv., sem við erum nú að ræða, og skýrði frá því, í hverju fyrirvari minn væri fólginn við þetta frv.

Hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ) sá tilefni til þess að fara um þessa ræðu mína nokkuð mörgum orðum, og virtist mér kenna í þeim mikils misskilnings á því, sem ég hafði sagt, því að ég skildi hann nánast þannig, að hann teldi, að fyrirvarar mínir væru það mikilvægir, að rökrétt afleiðing af þeim hefði verið sú, að ég hefði átt að greiða atkv. gegn frv. Þetta er að sjálfsögðu algerlega rangt hjá hv. 1. þm. Vestf. Ég tók fram og get endurtekið það nú, að aðalatriði þessa frv. eru um vaxtalækkun á byggingarlánum og lengingu lánstíma þeirra. Þessu er ég algerlega fylgjandi, ekki sízt fyrir þá sök, að hæstv. ríkisstj. hefur með efnahagsaðgerðum þeim, sem hún hefur framkvæmt á valdatíma sínum, lagt meiri byrðar á húsbyggjendur með þeim en á flestalla aðila, ef ekki alla aðra aðila í þjóðfélaginu. Ég tel því ekki óeðlilegt, að ríkisstj. komi á einhvern hátt til móts við það fólk, sem hefur orðið fyrir þessum búsifjum af völdum efnahagsaðgerða hennar. Og þá tel ég í fyrstu röð að hækka lánin til húsbyggjenda og í annarri röð að hæta lánskjörin, þ. á m. að lækka vextina. Ég teldi það enga goðgá, þó að framvegis, meðan byggingarkostnaður er jafnhár og hann er í dag, fyrst og fremst af völdum löggjafar, sem afgreidd hefur verið frá Alþingi, yrðu beinlínis tekin upp ákvæði í fjárlögum hvers árs, er miðuðu að því að greiða niður þá háu vexti af byggingarlánum, sem nú eru í gildi.

Ég ætla að endurtaka, í hverju þeir fyrirvarar eru fólgnir, sem ég hef við þetta frv.:

Í fyrsta lagi, og það er aðalfyrirvari minn, þá er hann við ákvæði 5. gr. frv. um endurgreiðslu tolla af byggingarefni. Ég tel, að sú leið sé erfið í framkvæmd í mörgum tilfellum og geti verið viss hætta á því, að hún skapi misræmi. Ég held, að réttara sé að hækka frekar byggingarlánin til þess fólks, sem lent hefur í hinum háa byggingarkostnaði frá ársbyrjun 1960, heldur en að endurgreiða aðflutningsgjöld af þeim byggingum, sem þegar er búið að koma upp og byggjendur hafa einhvern veginn náð í fjármagn til þess að ljúka. Þetta er minn aðalfyrirvari, og á ég hér í þinginu frv. um hækkun byggingarlána úr byggingarsjóði ríkisins, sem undirstrikar þetta sjónarmið vel.

Þá tel ég í öðru lagi vafasamt að láta þá vaxtalækkun, sem um er rætt í 1. gr. frv., ná jafnlangt aftur í tímann og virðist gert ráð fyrir í frv., eða frá byrjun þess að A-lán veðdeildarinnar voru afgreidd. Hv. síðasti ræðumaður kom inn á sjónarmið hér áðan, sem gæti stutt þetta, sem ég er að segja, að vafasamt sé að láta vaxtalækkunina gilda langt aftur í tímann, því að það er ástæðulítið eða a.m.k. ástæðuminna að vera að lækka vexti við húsbyggjendur, sem hafa lokið við sín hús fyrir mörgum árum á tiltölulega lágu byggingarverði, — húsbyggjendur, sem síðan hafa orðið ríkari vegna verðhækkana, því að vegna þeirra hafa húseignir þeirra hækkað í verði. Ég tel meiri ástæðu til þess að hjálpa því fólki, sem nú er að sligast undir þeim miklu drápsklyfjum, sem húsbyggjendur verða að axla, ef þeir eiga að geta lokið íbúðum sínum.

Hv. 1. þm. Vestf. vék einnig að því, að nauðsyn bæri til að gera einhverjar ráðstafanir til þess að lækka byggingarkostnaðinn. Um þetta er ég honum algerlega sammála. Það var gerð smátilraun hér á hv. Alþingi, á síðasta þingi, til þess að lækka byggingarkostnaðinn með því að auka rannsóknarstarfsemi í sambandi við byggingariðnaðinn í landinu og annað slíkt. Ég flutti þá ásamt fleiri mönnum frv. um auknar fjárveitingar, sem voru ekki stórar í sjálfu sér til byggingarannsókna, en stórhugur stjórnarliðsins var þá ekki meiri en svo, að hann kolfelldi það frv., eða a.m.k. dagaði það uppi, ég man ekki, hvort heldur var, svo að skilningur stjórnarliða á því mikilvæga hlutverki, sem byggingarannsóknir geta haft til þess að lækka hinn háa byggingarkostnað, virðist vera ærið takmarkaður.

Í hv. Ed. liggur nú fyrir frv., sem ríkisstj. hefur flutt, um hækkun lána byggingarsjóðs ríkisins úr l00 þús. kr. í 150 þús. kr. Þetta frv. er í sjálfu sér gott, svo langt sem það nær. En það nægir ekki til þess að standa undir þeirri auknu skattlagningu einni, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt á húsbyggjendur.

Mér skildist af blaðalestri frá þeim umr., sem fram fóru í hv. Ed. um þetta frv., að hæstv. félmrh. hefði haldið því fram, að byggingarkostnaður á valdatímabili þessarar stjórnar hefði hækkað miklu minna en margir þm. stjórnarandstöðunnar vildu vera láta. Ég hef hér fyrir framan mig tölur, sem ég tel að séu öruggar og megi byggja á, sem sýna þá þróun, sem orðið hefur í byggingarkostnaðinum á árunum 1960 og 1961. Ég tek hér sem dæmi íbúð, sem í september 1959 kostaði 350 þús. kr. Þessi kostnaður skiptist á milli byggingarefnis og byggingarvinnu þannig, að byggingarefnið var 122500 kr., en byggingarvinnan var 227500 kr. í september 1961, eftir að hæstv. ríkisstj. hafði lögleitt síðari gengislækkun sína, var byggingarkostnaður þessa húss kominn upp í 466 þús. kr., eða hafði hækkað, fyrst og fremst vegna þeirra efnahagsaðgerða, sem hæstv. ríkisstj. hafði framkvæmt á þessum tveimur árum, um rúmar 116 þús. kr., eða um 33.2%. Ég vil því segja, að hækkun byggingarkostnaðarins, sem orðið hefur á valdatímabili núv. hæstv. ríkisstj., er óumdeilanlega það miklu meiri en sú hækkun, sem hæstv. ríkisstj. ætlar nú að gera á lánum úr byggingarsjóði ríkisins, að hún gerir ekki betur en að borga tæpan helming þeirrar hækkunar, sem hefur orðið á 360 m3 húsi frá því í september 1959 og þar til í september 1961.

Sömuleiðis tók ég eftir því, að hæstv. félmrh. hefði sagt í umr. í Ed., þegar frv. þetta var þar til 1. umr., að tiltölulega lítið hefði dregið úr byggingu íbúðarhúsa. Þetta er rangt. Sannleikurinn er sá, að samdrátturinn í byggingu íbúðarhúsa nú hin síðustu 2 árin og þá sérstaklega á árinu 1961 er gífurlegur. Við sjáum þetta ekki betur á nokkurn annan hátt en þann að bera saman tölu hafinna íbúðabygginga á undanförnum árum, því að ef á að miða við, hvað miklu lýkst af íbúðum á hverju ári, þá er erfitt að sjá rétta þróun þessara mála vegna þess langa hala, sem verið hefur af ófullgerðum íbúðum á hverju ári.

Ég hef hér fyrir framan mig skýrslu, sem byggist á upplýsingum frá Framkvæmdabanka Íslands, er sýnir þróunina í þessum málum. Ég vil taka það fram, að talan fyrir árið 1961 byggist að nokkru leyti á áætlun. En samkv. þessari skýrslu lítur dæmið þannig út, með leyfi hæstv. forseta: Það er tala hafinna íbúða árin 1956—61, og það er flokkað í fjóra flokka: sveitir, kauptún, kaupstaði og svo Reykjavík sérstaklega. Til þess að stytta tímann ætla ég ekki að fara í hvern flokkinn út af fyrir sig, heldur einungis taka þær samtölur, sem hér eru fyrir hvert ár, út af fyrir sig. Og byrja ég þá á árinu 1956. Þá er tala hafinna íbúða 1775. Árið 1957 er hún 1610. Árið 1958 er byrjað á 1462 íbúðum. Árið 1959 er byrjað á 1597 íbúðum. Árið 1960 er byrjað á 1013 íbúðum. Og árið 1961 er byrjað á 770 íbúðum. Sem sagt, á árinu 1956, þegar þjóðin var enn fámennari en hún er í dag, var byrjað á 1775 íbúðum, en á árinu 1961 er talan komin niður í 770 íbúðir. Þetta sýnir mjög vel, hvað hefur verið að gerast í sambandi við þennan mikilvæga þátt í þjóðarbúskap okkar Íslendinga: að þær íbúðir, sem hafin var bygging á 1961, eru rúmur þriðjungur þess, sem byrjað var á á árinu 1956.

Ég hef einnig hér fyrir framan mig yfirlit um þá fjármunamyndun, sem orðið hefur við byggingu íbúðarhúsa þessi sömu árin, þ.e.a.s. frá árunum 1956–61, og eru þær tölur reiknaðar til verðlags ársins 1954. Þetta gildir fyrir sömu árin og ég las hér upp áðan um tölu hafinna íbúða á hverju ári. Niðurstaðan er þessi: Árið 1956 er fjármunamyndun við byggingu íbúðarhúsa í landinu 454.3 millj. kr. Árið 1957 er hún 417.3 millj. kr., árið 1958 er hún 365.5 millj. kr. og árið 1959 407.6 millj. kr. Árið 1960 er hún 354.9 millj. kr., og á árinu 1961 er hún komin niður í 290 millj. kr., 290 millj. kr. á árinu 1961 á móti 454.3 millj, kr. árið 1956.

Ég hygg, að tölur þessar, sem eru byggðar á upplýsingum frá Framkvæmdabanka Íslands, séu óyggjandi, ef undan er skilið árið 1961, því að sú tala er byggð á áætlun sömu stofnunar. En það eru mjög litlar líkur til þess, að henni skeiki, svo að nokkru verulegu nemi.

Af þeim tölum, sem ég hef hér lesið upp, sést vel, hvað er að gerast í sambandi við íbúðarhúsabyggingar, og hv. þm. mega gjarnan minnast m.a. þessa, þegar þeir lesa greinar og hástemmt lof í stjórnarblöðunum um þann árangur, sem „viðreisnin“ hefur náð, t.d. í sambandi við þá sparifjármyndun, sem þeir segja, að hafi orðið hér á tveim seinustu árum. Sparifjármyndunin hér er ekki sízt fengin fyrir það, að fólk, sem áður notaði sitt lausafé og það, sem það hafði af peningum umfram brýnustu þarfir, lagði það m.a. í húsbyggingar. En nú hefur það beinlínis ekki treyst sér til þess í sama mæli og áður var að hefja húsbyggingar og lagt því fé sitt fyrir í þeirri von, að síðar kynnu aðstæður að vera hagstæðari til þess að ráðast í það mikla þrekvirki, sem það í raun réttri er að koma upp yfir sig og sína sæmilegu íbúðarhúsi.