06.03.1962
Neðri deild: 60. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 57 í C-deild Alþingistíðinda. (2543)

81. mál, húsnæðismálastofnun

Jón Skaftason:

Herra forseti. Mig langar til þess að gera í örstuttu máli nokkrar athugasemdir við ræðu þá, sem hæstv. félmrh. hélt hér s.l. föstudag.

Hann byrjaði á því að tala um þá hækkun, sem orðið hefði á byggingarkostnaði í landinu, og tók til samanburðar byggingarkostnaðinn á árinu 1958 og allt til þessa dags og fékk það út, að hann hefði hækkað um 25% á þessum tíma, miðað við byggingarvísitölu áranna. Þetta er rétt hjá hæsta. ráðh. En sá samanburður, sem hann hugðist hnekkja með þessu dæmi sínu og ég hafði viðhaft í minni ræðu, var ekki miðaður við byggingarvísitölu og ekki við árið 1958, heldur við árið 1959. Dæmi mitt var tekið af íbúð, sem í september 1959 kostaði 350 þús. kr., en í september 1961 var komin upp í 466 þús. kr., hækkun um 33%. Hækkun byggingarvísitölu frá árinu 1959 til ársins 1961 mun hins vegar vera einhvers staðar á milli 27% og 28%.

Þá talaði hæstv. ráðh. um, að það væri svo sem ekkert nýtt, að byggingum hefði fækkað hér á landi, því að á þrem árum vinstri stjórnarinnar, frá árinu 1956–58, hefði tala hafinna íbúða lækkað um 300. Þetta er rétt hjá hæstv. ráðh. En ég vil benda honum á, að á fyrsta ári núv. hæstv. ríkisstj. hefur íbúðabyggingum fækkað á einu einasta ári um 585 íbúðir, og er hér ekki um neina áætlun að ræða, því að þetta er byggt á óyggjandi og óhrekjandi tölum frá Framkvæmdabanka Íslands, þannig að á þessu má sjá, að á fyrsta ári núv. hæstv. ríkisstj. fækkar tölu hafinna íbúðabygginga á einu ári nærri því helmingi meira en íbúðabyggingum fækkaði þrjú ár vinstri stjórnarinnar.

Hæstv. ráðh. nefndi, að í janúar s.l. hefðu fleiri sótt um lán til húsnæðismálastjórnarinnar en nokkurn tíma fyrr, og skildist mér á honum, að með þessu teldi hann sannað, að ekki hefði dregið mjög mikið úr íbúðabyggingum. Ég hef dálitið kynnt mér þetta hjá húsnæðismálastofnuninni og þykist geta fullyrt, að langsamlega mestur hluti þeirra umsókna, sem bárust til hennar í janúar s.l., eru viðbótarlánsumsóknir. Fólk, sem hafði á árunum 1955, 1956 og 1957 lokið við íbúðir sínar og var flutt inn í þær og hafði fengið allt að 70 þús. kr. húsnæðismálastjórnarlán, komst í alger greiðsluþrot á árunum 1960 og 1961 vegna þeirra gífurlega auknu byrða, sem á það var lagt með hækkun vaxta og ýmissa annarra ráðstafana, þannig að það sá sig til neytt að sækja um það 30 þús. kr. viðbótarlán, sem það átti kost á samkv. lögum, til þess eins að geta haldið húsum sínum áfram. Af þessu stafar fyrst og fremst sú fjölgun, sem varð á umsóknum íbúðarlána í janúar s.l. þá kom hæstv. ráðh. með yfirlýsingu, sem mig furðaði mjög á. Ég skildi hann þannig, og ég hygg, að það fari ekki á milli mála, að það hafi verið það, sem hann átti við, að sú hækkun lána frá húsnæðismálastjórn, sem ráðgerð er samkv. frv. því, sem ríkisstj. hefur lagt fram í hv. Ed. og gerir ráð fyrir að byggingarsjóðslánin hækki upp í 150 þús. kr. úr 100 þús. kr., sem nú er, hún þýddi í raun réttri um 80 þús. kr. hækkun á þessum lánum, því að eins og hann sagði, fyrir gengisfellinguna 1960 var það mjög sjaldgæft, ef ekki alveg án dæma, að menn fengju hærri lán en 70 þús. kr. frá byggingarsjóðnum. Hér er mjög málum blandað af hálfu hæstv. ráðh. Ákvæðið um 100 þús. kr. hámarkslán var sett inn í löggjöfina um húsnæðismálastjórn á árinu 1955, og strax á árinn 1956 var farið að veita til nokkuð margra umsækjenda hámarkslán, þ.e.a.s. 100 þús. kr., og er mér fullkunnugt um, að tala þeirra manna, sem fengið hafa lán úr byggingarsjóði ríkisins á árunum 1956—60 og hafa fengið full hámarkslán, nemur mörgum hundruðum, ef ekki þúsundum. Þannig er það langur vegur frá því, að ekki hafi verið veitt hámarkslán úr byggingarsjóði ríkisins fyrr en árið 1960 eða áður en gengið var fellt 1960, og er því ekki um neina 80 þús. kr. raunhæfa hækkun byggingarlána að ræða, þó að frv. hæstv. ríkisstj., sem nú liggur fyrir Ed., verði samþykkt.

Auk þess kemur fleira til. Af frv. því, sem ég hef minnzt á, er ekki nokkra vísbendingu að finna um það, að byggingarsjóður ríkisins verði frekar fær um að afgreiða hámarkslán til hvers og eins umsækjanda, eftir að frv. hefur verið samþykkt, þ.e.a.s. afgreiða 150 þús. kr. lán til umsækjenda, heldur en var allt til þessa dags um, að menn ættu kost á að fá 100 þús. kr. að láni hjá byggingarsjóði ríkisins.

Hæstv. ráðh. hélt því einnig fram, að ein, ef ekki aðalástæðan fyrir því, að dregið hefði úr byggingum nú síðustu tvö árin, væri sú, að fólk teldi, að það ávaxtaði fjármuni sína betur með því að leggja þá inn á sparisjóð og í bankastofnanir núna heldur en áður hefði verið. Hann þóttist vita dæmi þess, að menn hefðu í hreinum spekúlasjónstilgangi lagt í íbúðarhúsabyggingar áður fyrr, af því að þar hefðu þeir talið fjármuni sína betur varðveitta en með því að leggja þá í banka. Hvað sem um þessa staðhæfingu ráðh. er að segja, þá er hitt staðreynd, að talið er, að byggja þurfi um 1400 íbúðir á hverju ári, til þess að það fólk, sem bætist við árlega, geti búið í sómasamlegu húsnæði, — 1400 íbúðir á ári, — og þegar tala hafinna íbúða á árinu 1961 er komin niður í 770, þá sjá allir, að það er annað og meira, sem veldur þessum samdrætti, en það eitt, að fólkið telji, að það varðveiti peninga sína betur í bankastofnunum landsins en verja þeim til íbúðabygginga. Þetta er greinilegt, og það þarf ekki að fara í neinar grafgötur um ástæðurnar fyrir því. Þær eru fyrst og fremst þær, að byggingarkostnaður hefur hækkað, svo sem hér hefur verið margupplýst, mjög mikið, en laun svo til staðið í stað.

Ég vil svo aðeins að endingu í tilefni af ræðu hv. 1. þm. Vestf., þar sem hann innti eftir því, hvort ég hefði í fórum mínum upplýsingar um hækkun byggingarkostnaðarins hin síðustu tvö árin, hve mikið af henni mætti rekja til hækkunar á efnisliðum byggingarkostnaðarins og á vinnulaunaliðum byggingarkostnaðarins, gefa þessar upplýsingar: Samkvæmt byggingarvísitölunni, eins og hún var í febrúar 1960, þ.e.a.s. áður en áhrifa gengisbreytinganna fór að gæta, og með samanburði við byggingarvísitöluna, eins og hún er nú s.l. október, en það er seinasta vísitalan, sem reiknuð hefur verið út, þá er hækkun hreinna vinnuliða á þessu tímabili tæp 3%, en hækkun hreinna efnisliða í byggingarkostnaðinum er rúm 60%, þannig að það fer ekki á milli mála, í hverju sú hækkun byggingarkostnaðarins fyrst og fremst liggur, sem hefur átt sér stað tvö undanfarandi ár.