13.03.1962
Neðri deild: 66. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 63 í C-deild Alþingistíðinda. (2553)

171. mál, almannavarnir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Þó að okkur á Alþingi greini á um margt, þá erum við áreiðanlega sammála um það allir að óska þess af heilum hug, að friður haldist í heiminum. En við verðum að játa, að því miður horfir ekki svo nú né hefur gert um alllangt skeið, að við getum verið öruggir um, að þessi ósk okkar nái fram að ganga.

Ég skal ekki gera grein fyrir almennu ástandi heimsmála, en einungis rifja það upp, sem af öllum er vitað, að á síðasta ári var hvað eftir annað talað um það af þeim, sem gerst mega vita, að þá hafi minna munað en nokkru sinni fyrr eftir síðari heimsstyrjöldina, að ný stórstyrjöld brytist út. Enn hefur ekki tekizt að leysa neitt af þeim vandamálum, sem talið var að til þessara óskapa gætu leitt. Okkur hér á Alþingi kemur raunar ekki saman um orsakir til þessa ástands né hvernig líklegast sé að bæta úr því. En engu að síður hlýtur okkur að koma saman um hitt, að eins og horfir væri það með öllu óverjandi, ef við gerðum ekki einhverjar varúðarráðstafanir, ef við værum ekki viðbúnir því, ef ný stórstyrjöld skylli á og kynni að ná einnig til okkar lands.

Af þessum sökum ákvað ríkisstj. á s.l. hausti að láta endurskoða löggjöfina um varúðarráðstafanir gegn ófriðarhættu eða tjóni af völdum ófriðar, og var það einkum þáverandi hæstv. dómsmrh., Jóhann Hafstein, sem hafði forgöngu í því efni, og tók síðan að sér, eftir að hann hvarf úr sæti dómsmrh., að halda undirbúningsstarfi undir nýja löggjöf áfram, og er það frv., sem hér er lagt fram til laga um almannavarnir, því samið undir hans forustu, að tilkvöddum hinum færustu mönnum, bæði innanlands og sérfræðingum erlendis frá.

Frv. fylgir mjög ýtarleg grg. ásamt fylgiskjölum, skýrslum um það, sem þegar hefur verið gert í þessu efni hérlendis, og álitsgerðum frá tveimur sérfræðingum, öðrum norskum og hinum dönskum. Ég get því mjög stytt mál mitt og vísað til þessara grg., en eins og í 1. gr. frv. segir, þá er hlutverk almannavarna að skipuleggja og framkvæma ráðstafanir, sem miða að því að koma í veg fyrir, eftir því sem unnt er, að almenningur verði fyrir líkamstjóni eða eigna af völdum hernaðaraðgerða, og veita líkn og aðstoð vegna tjóns, sem orðið hefur, enda falli þau störf ekki undir aðra aðila samkvæmt lögum. Til viðbótar þessu er svo ákveðið í niðurlagi 1. gr., að almannavarnir skuli einnig veita aðstoð samkvæmt fyrirmælum dómsmrh., ef tjón vofir yfir eða hefur orðið af náttúruhamförum eða annarri vá, þannig að þetta frv. miðar ekki einungis að hernaðarástandi, heldur einnig að því að skapa nokkurn viðbúnað gegn tjóni, sem orðið hefur af náttúruhamförum eða öðrum svipuðum orsökum.

Í síðustu heimsstyrjöld var efnt til svokallaðra loftvarna, sérstaklega hér í bænum, og sú starfsemi var síðan tekin upp aftur 1951, en féll niður síðar á þeim áratug. Eftir að ástandið þótti verða ískyggilegra á ný, þótti réttara að taka málið upp til lausnar á víðari grundvelli en áður var og hafa nokkra aðra skipan á þessum efnum en fyrr tíðkaðist. Segja mátti, að áður hafi ætlunin verið sú, að sveitarfélögin, bæjareða hreppsfélög, hefðu í þessum efnum forgöngu, þó að kostnaður skiptist að jöfnu á milli þeirra og ríkisins. Nú er tekinn upp sá háttur, að ríkið á að hafa forgöngu í þessum efnum og taka ákvarðanir í samráði við sveitarstjórnir um það, hvort til almannavarna skuli gripið. Og er þá ætlazt til, að hægt sé að kveða á um, að fleira en eitt sveitarfélag hafi samvinnu sín á milli um ráðstafanir í þessu efni. Vegna forgöngu ríkisins er ráðgert, að einum manni verði af þess hálfu falin forstjórn almannavarna ásamt þar til kjörinni nefnd, er veiti honum aðstoð, en á hinn bóginn er þó ætlazt til, að í sumum efnum, þ.e.a.s. þeim, sem sérstaklega varða sjúkrahús, hafi landlæknir forustuna, þannig að að því leyti er þarna skipt verkefnum á milli. Þá er ætlazt til þess, að þar sem almannavarnir eru fyrirskipaðar í einstökum héruðum, þá komi fulltrúar þeirra til aðstoðar um stjórn, eftir því sem nánar er fyrir mælt í þessum lögum.

Samfara þessari breyttu yfirstjórn er ætlazt til þess, að skipting kostnaðar verði með öðrum hætti en áður, sem sé að af sjálfri yfirstjórn almannavarna í öllu landinu greiði ríkissjóður allan kostnað, en kostnað til almannavarna, sem undir landlækni heyra, greiði ríkissjóður einnig, en hlutaðeigandi sveitarstjórnum beri þó að endurgreiða þriðjung þess kostnaðar. Kostnað af öðrum ráðstöfunum til almannavarna greiði hlutaðeigandi sveitarsjóður, en ríkissjóði ber að endurgreiða 2/3 hluta kostnaðar af opinberum öryggisbyrgjum, en helming annars kostnaðar. Það er því ótvírætt, að þessi ákvæði eru sveitarfélögunum mun hagstæðari en áður var, þátttaka ríkissjóðs í kostnaði verulega meiri, sem og er eðlilegt, þegar ríkið á að hafa í þessu bæði frumkvæði og forustu.

Þá eru lagðar nokkrar kvaðir á borgara til þátttöku í almannavörnum, og eru þær sízt meiri, að sumu leyti takmarkaðri en var samkvæmt lögunum um loftvarnir, er áður giltu. Enn eru kvaðir á húseigendum, sem nánar eru skilgreindar, þeim sem ráða yfir farartækjum og öðru slíku, eins og í lögunum greinir.

Segja má, að auk hinnar almennu grg. um eðli og tilgang almannavarna sé í 2. kafla frv. gerð grein fyrir skipulagi almannavarna og þá einkanlega í 9. gr. talið upp, hvert höfuðverkefnið skuli vera. Það á að koma upp viðvörunarkerfi, skipuleggja hjálparstarf og hjálparlið og flokka til ýmiss konar þjónustu. Það á að hafa eftirlit með einkavörnum, íbúðarhúsum, atvinnufyrirtækjum og stofnunum, enn fremur annast um byggingu, búnað og rekstur opinberra öryggisbyrgja, svo og koma upp sérstökum stjórnstöðvum, tryggja fjarskiptakerfi, hafa birgðageymslur og birgðavörzlu, hafa undirbúning og aðstoð vegna brottflutnings og móttöku fólks af hættusvæði og svo aðrar ráðstafanir, sem hverju sinni þykir óhjákvæmilegt að gerðar verði. Í 3. kafla laganna er svo fjallað sérstaklega um hjálparlið, í 4. kafla um einkavarnir, í 5. kafla um flutning fólks af hættusvæðum, og nokkur almenn ákvæði í 6. kafla frv.

Ég hygg, að menn hljóti að koma sér saman um, að óverjandi væri að gera ekki þessar varúðarráðstafanir. Mönnum getur að vísu sýnzt sitt hvað um, hversu langt skuli ganga, en allar þjóðir hafa gert eitthvað í þessa átt og flestar miklu meira. Framkvæmdir okkar takmarkast að eðlilegum hætti mjög af okkar getuleysi og allri aðstöðu hér á landi. Við óskum þess af heilum hug, að ekki þurfi að gripa til þessara ráðstafana. En við skulum játa, að það væri þung ábyrgð að gera þær ekki, vegna þess að ef illa fer, kunna þær þó að geta forðað frá og bætt úr miklu tjóni, sem ella hlyti að verða, auk þess sem hafa ber í huga, að margt af því, sem samkvæmt þessu frv. ber að gera, kemur að gagni, jafnvel þótt ófrið beri ekki að höndum. Þær birgðir og viðbúnaður, eins og sjúkrarúm og annað slíkt, sem safnað er, verða til nytja í mörgum öðrum tilfellum, og því fé er engan veginn á glæ kastað, sem í þessu skyni er varið, og eins og ég gat um í upphafi míns máls, þá er hér ekki einungis um að ræða viðbúnað gegn hernaðarhættu, heldur gegn ýmiss konar annarri vá, sem við verðum ætíð að vera við búin.

Ég vona því, að þetta frv. mæti ekki í meginatriðum andstöðu í hv. Alþingi, heldur fái greiðan framgang, og leyfi mér að leggja til, að það fari til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.