30.10.1961
Efri deild: 9. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (2661)

41. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Magnús Jónason:

Það voru aðeins örfá orð til áréttingar. — Því er haldið mjög fram, að ég hafi með ræðum mínum sannað það hér, að ég sé á móti þessu frv. Ég er alls ekki á móti frv. Hins vegar hefur í ræðum mínum falizt það, að ég teldi mjög vafasamt að fara að lögfesta þetta mál á þessu stigi. Það getur hins vegar vel verið, þegar það kemur í ljós, annaðhvort óhæfilegur seinagangur á þessari athugun eða að hún leiði ekki til þeirrar niðurstöðu, sem við, sem viljum þessu máli vel, teljum viðunandi, en þá sé rétt að lögfesta þetta frv. Þetta er mín skoðun.

Þá virðist það enn þá vera mjög óljóst fyrir þessum hv, þingmönnum, að þar sem í ályktun Alþingis er talað um endurskoðun vegalaga, þá á það einnig við brýr. Það er talað um endurskoðun á lögum um vegi og beinlínis tekið fram, að þar undir falli líka brýr og öll atriði varðandi framkvæmd og fjárveitingar í sambandi við þessi mál.

Þá er aðeins í þriðja lagi, að hv. síðasti ræðumaður sagði, að það sýndi ósamræmi hjá mér að styðja flutning frv. á siðasta þingi um, að kostnaður við greiðslu jarðganga skyldi leggjast á hrúasjóð, en vera svo að telja hér svo mjög vafasamt að taka inn nýja þjóðvegi, af því að ekki væri séð fyrir auknu fjármagni til þeirra. Hér er að því leyti verulegur munur á, að með frv. okkar hv. 3. þm. Vestf. á síðasta þingi um jarðgöng var verið að lögfesta nýja reglu. Það var verið að lögfesta það atriði, sem skipti að sjálfsögðu meginmáli, að jarðgöng skyldu færast yfir til brúasjóðs, en ekki vera greidd eftir ákvæðum um vegi, og það skyldi litið á þessi jarðgöng sem brýr. Auðvitað var ljóst, að það mundi leggja auknar kvaðir á brúasjóðinn og það mundi gera nauðsynlegt að gera ráð fyrir aulinu fjármagni til þess sjóðs. En meginefni frv. var þó þetta, að það væri lögfest, sem varð að setja ákveðnar reglur um, að það skyldi lýta á jarðgöngin að þessu leyti sem brýr, en ekki sem vegi, sem að sjálfsögðu var ekki sjálfsagt mál. Ég tel því ekki, að í þessu sé neitt ósamræmi, þótt ég játi það fúslega, að til þess að verulegum áfanga yrði í þessu náð, þá yrði að sjálfsögðu að sjá þessum sjóði fyrir auknum tekjum. En meðan það lá ekki fyrir, að á sjóðnum hvíldi einnig þetta verkefni, þá hlaut að sjálfsögðu fjáröflun til sjóðsins að miðast eingöngu við brýr.