12.04.1962
Neðri deild: 90. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í C-deild Alþingistíðinda. (2681)

41. mál, jarðgöng á þjóðvegum

Frsm. minni hl. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Það var ágreiningur í n. um afgreiðslu á þessu frv. Meiri hl. leggur til, að því sé slegið á frest, vegna þess að vegalöggjöfin sé í endurskoðun.

Ég hygg nú, að það, sem aðallega vakir fyrir meiri hl., sé að fá málinu frestað, en ekki það, að vegalöggjöfin sé í endurskoðun.

Þetta er dálítið sérstakt með jarðgöngin. Það er ekki víða, sem þarf jarðgöng hér á landi, og endurskoðun þessarar n., sem á að fjalla um vegamálin, verður sennilega aðallega bundin við vegi og brýr, en ekki jarðgöng. Vera má, að það verði nú tekið með, vegna þess að frv. þessu verður sennilega frestað. En það, sem fyrir okkur vakir í minni hl., er það, að við álítum, að beri að hraða þessu máli sem mest. Það, sem við teljum nauðsynlegast eða brýnast, er Siglufjarðarvegur. Þetta er kaupstaður með um 3000 íbúa, þarna er mikið athafnalíf, a.m.k. tíma úr árinu. Það er svo með marga, að þeir kunna illa við sig þar, sem ekki er hægt að hafa samgöngur við aðra landshluta nema sjóleiðina meiri hluta ársins, enda nauðsynlegt fyrir allt atvinnulíf, að samgöngur séu sem beztar.

Fyrir okkur, sem í minni hl. erum, er ekki aðalatriði, hvernig þetta fé er fengið, en aðalatriðið er, að málinu sé hraðað. Ég fyrir mitt leyti hefði alveg eins vel getað fellt mig við það, ef ríkisstj. hefði hlutazt til um það, að lán væri tekið eingöngu í þessu skyni og málinu hraðað. En það, sem fyrir okkur vakir með því að leggja til, að þetta frv. verði samþykkt, er það, að við álítum, að það beri brýna nauðsyn til að hraða þessu máli. Ég er sannfærður um, að það verður ekki við annað unað en að vegur verði lagður til Siglufjarðar, og þá borgar sig ekki að draga það. Ég er sannfærður um, að það borgar sig ekki. Siglufjarðarkaupstaður liggur vel við sjávarútvegi, höfnin er afar góð og styttra á miðin þar en í flestum öðrum kaupstöðum Norðanlands, jafnvel öllum, þannig að þar eru mjög góð skilyrði til bátaútgerðar. En það einkennilega hefur skeð, að það er lítið um sjálfstæða bátaútgerð frá Siglufirði. Það eru helzt trillur. Vafalaust á það mikinn þátt í því, að ríkið hefur haft þarna mikinn atvinnurekstur, og það hefur óbeint orðið til að draga úr framtaki einstaklinganna. Þeir hafa treyst meira á atvinnu hjá öðrum en sjálfum sér. En hvað sem því líður, þá er það sannfæring okkar, að það beri brýna nauðsyn til þess að hraða þessari vegagerð. Hvort það verður gert með því að leggja skatta á benzín, eins og hér er gert ráð fyrir, eða taka lán, er í sjálfu sér ekki aðalatriði. Aðalatriðið er að hraða málinu sem mest, og það er þess vegna, sem ég legg til, að þetta frv. sé samþ.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta að sinni. Þetta er sjálfsagt öllum ljóst, og krafan um, að nokkurn veginn trygg vetrarleið fáist til Siglufjarðar, fellur vitanlega ekki niður, henni verður haldið vakandi og þess vegna er bara tímaspursmál, hvenær í þetta verður ráðizt. Mín skoðun er, að það borgi sig bezt að gera það sem fyrst, hraða því sem mest.