16.10.1961
Neðri deild: 4. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í C-deild Alþingistíðinda. (2724)

6. mál, bann gegn stöðvun millilandaflugs

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., er brbl. sem út voru gefin 6. júní s.l. Hv. þm. er kunnugt um, í tilefni af hverju lögin voru gefin út. Það var af brýnni nauðsyn til þess að koma í veg fyrir, að flugfélögin yrðu gjaldþrota og misstu það traust, sem þau hafa skapað sér á ertendum vettvangi. Farþegafjöldi með Flugfélagi Íslands og Loftleiðum h/f hefur aldrei verið eins mikill og á s.l. sumri. Farþegar með Loftleiðaflugvélum eru nær eingöngu útlendingar, og útlendir ferðamenn með flugvélum Flugfélags Íslands hafa aldrei verið fleiri en nú. Ef stöðvun hefði orðið á millilandaflugi í júníbyrjun s.1., þótt sú stöðvun hefði ekki verið nema tiltölulega fáa daga, — ég tala nú ekki um, ef hún hefði verið nokkrar vikur, — hefði þessi farþegafjöldi tapazt. Þá hefðu þeir, sem voru búnir að panta sér far hjá íslenzku flugfélögunum, afturkallað sínar pantanir, og ekki nóg með það, eftirleiðis hefðu útlendir ferðamenn ekki pantað far hjá íslenzkum flugfélögum, vegna þess að flugfélögin hefðu verið búin að missa það traust, sem þau nú njóta. Þetta er annar þátturinn, sem leiddi til þess, að þessi lög voru gefin út, og svo hitt, að fjárhagur flugfélaganna hefði farið í kaldakol, ef um stöðvun hefði verið að ræða.

Það er ánægjulegt fyrir okkur Íslendinga, sem erum ekki fjölmennari en við erum, hvað flugið hefur rutt sér braut og að íslenzku flugfélögin njóta álits víða um heim, og hinn aukni farþegafjöldi er skýrasti votturinn um það. Íslenzku flugfélögin starfa án beinna styrkja frá því opinbera og eru stöðugt að færa út kvíarnar. Þetta er að verða þýðingarmikill atvinnuvegur hjá þjóðinni. Það munu um 600 manns vera fastir starfsmenn hjá flugfélögunum, og það má því ætla, að um 3000 manns hafi framfærslu sína af þessari atvinnu beinlínis.

Ég held, að það se ekki ástæða til að svo stöddu að fjölyrða meira um útgáfu þessara laga. Ég held, að hv. þm. hljóti að vera sammála um það út af fyrir sig, þótt þá greini á um margt annað, að við því verði að sporna, að til þess gæti komið, að flugfélögin misstu þá fótfestu, sem þau nú hafa í atvinnulífinu, og þann grundvöll, sem þau hafa skapað sér á alþjóðlegum vettvangi. Menn getur svo greint á um ýmislegt annað. Lög þessi gripu ekki út af fyrir sig inn í þá vinnudeilu, sem stóð yfir. Það voru aðeins örfáir menn, sumir sögðu, að það væru jafnvel ekki nema tveir menn hjá Loftleiðum, sem vinnudeilan næði til, — það má vera, að þeir hafi verið þrír, e.t.v. fjórir, ég hef ekki kynnt mér það nákvæmlega, — en fullyrða má, að hjá báðum flugfélögunum voru þetta aðeins örfáir menn, sem vinnudeilan út af fyrir sig náði til. Þetta var forsvarsmönnum vinnudeilunnar ljóst. Það var vitanlega nokkuð svipað, vinnudeilan í vor og 1955. Þá veittu forstöðumenn vinnudeilunnar Loftleiðum h/f undanþágu. Loftleiðir fengu að halda áfram sinni starfsemi í langa verkfallinu 1955, og þessi undanþága var gefin vegna þess, að það var ljóst, að það hafði ekki bein áhrif á lausn vinnudeilunnar út af fyrir sig, þótt Loftleiðir væru stöðvaðar að því sinni. Eins og það skaðaði ekki gang verkfallsins 1955 að leyfa Loftleiðum þá að fljúga, svo skaðaði þau ekki heldur lausn verkfallsins 1961, þótt flugfélögin héldu áfram starfsemi sinni í millilandaflugi. Þessi lög ná aðeins til að leysa eða koma í veg fyrir, að millilandaflugið stöðvaðist. Þau ná ekki til innanlandsflugsins. Ef lögin næðu til innanlandsflugsins, væru vitanlega fleiri menn, sem verkfallið snerti beinlínis. Til þess að fara ekki inn í vinnudeiluna sjálfa með þessum lögum var látið nægja að láta þau gilda um utanlandsflugið.

Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. samgmn.