16.10.1961
Neðri deild: 4. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 285 í C-deild Alþingistíðinda. (2732)

8. mál, siglingalög

Sjútvmrh. (Emil Jónason):

Herra forseti. Þetta mál er gamall kunningi. Það hefur verið hér til umr. bæði á síðasta þingi og áður, svo að það þarf ekki að hafa um það mörg orð. En efni frv. er það að samræma gildandi siglingalög því, sem tíðkast á Norðurlöndum. Hefur verið við Norðurlandalögin miðað við samningu frv., þar sem það er talið eðlilegt, að svipuð ákvæði gildi um þessi efni í þeim löndum, sem nánust samskipti hafa á þessu sviði. Það var gerð ýtarleg grein fyrir frv., þegar það var flutt hér í fyrra. Það var afgreitt úr hv. sjútvn. með meðmælum, en náði ekki endanlegu samþykki, og ég vildi þess vegna vona, að afgreiðsla málsins gæti orðið sú nú í þetta sinn, að það gengi nokkru örar eða fljótar en það gerði síðast, svo að frv. gæti nú orðið að lögum. Frv. er vel undirbúið, að ég ætla, og hefur verið ýtarlega athugað af öllum, sem þar eiga hlut að máli.

Ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. sjútvn.