02.11.1961
Neðri deild: 11. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 329 í C-deild Alþingistíðinda. (2748)

22. mál, áburðarverksmiðja

Skúli Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Það kom fram í umr. um þetta mál í fyrradag hér í d., að landbrh. er búinn að fela áburðarverksmiðjunni að annast þá starfsemi, sem Áburðarsala ríkisins hefur haft að undanförnu. Þetta er furðulegt tiltæki af stjórninni að gera slíkt, áður en það frv., sem hér liggur fyrir og er nú til umr., hefur fengið nokkra afgreiðslu í þingi. En af því að ég hef hér aðeins athugasemdartíma, þá ætla ég ekki að ræða um þann þátt málsins að þessu sinni.

Ég hef bent á það áður í þessum umr., að áburðarverksmiðjan hafi enga heimild til að verzla með áburð. Í lögum, sem hún á að starfa eftir, segir, að Áburðarsala ríkisins skuli kaupa þann áburð, sem verksmiðjan framleiðir, og annast verzlun með hann, þ.e.a.s. selja hann til notenda. Lögin um áburðarverksmiðju hafa því verið sniðgengin nú síðustu tvö árin, með því að hún hefur sjáif annazt sölu til notenda á þeim áburði, sem hún framleiðir. Í lögum um verzlun með tilbúinn áburð frá 1935, 4. gr. þeirra, segir hins vegar, að ríkisstj. sé heimilt að fela Sambandi ísl. samvinnufélaga eða öðrum aðila, er henta þykir, rekstur Áburðarsölu ríkisins. Ég vitnaði í þessa heimild og orðaði það þannig, að hæstv. ráðh. hefði getað falið einhverju verzlunarfyrirtæki að annast rekstur áburðarsölunnar. Hæstv. ráðh, reyndi síðar að gera veður til af þessu orðalagi mínu. Hann reyndi að gera veður út af því, að í staðinn fyrir að segja, að ráðh. hefði getað falið Sambandi ísl. samvinnufélaga eða öðrum aðila að annast þetta, þá sagði ég, að hann gæti samkv. lögum falið einhverju verzlunarfyrirtæki að gera þetta. Nú sjá það auðvitað allir, að sá aðili, sem verzlar með innfluttan áburð, hver sem hann er, er verzlunarfyrirtæki, og það er ekki hægt að fela þetta öðrum en þeim, sem hafa leyfi til að reka verzlun. Það er því alveg furðulegt, þetta upphlaup hæstv. ráðh. út af þessu orðalagi mínu. Það stendur eftir óhaggað, að samkv. lögum áburðarverksmiðjunnar hefur hún ekki heimild til að taka slíkt að sér, það þarf fyrst að breyta lögum hennar, áður en hún tekur að sér slíka verzlun. Hún hefur ekki einu sinni leyfi til að selja beint til notenda þann áburð, sem hún framleiðir sjálf, hvað þá innfluttan áburð.

Enn eru það svo staðlausar fullyrðingar hæstv. ráðh., að ég sé með blekkingastarfsemi, þegar ég bendi á skýlaus ákvæði laga um áburðarverksmiðju um gjald til fyrningarsjóðs og sýni fram á það, að verksmiðjan hafi síðustu árin, síðan 1959, reiknað miklu hærri gjöld til fyrningarsjóðsins en lögin ákveða og þar með lagt skatt á bændur og aðra, sem áburð nota, selt þeim áburðinn hærra verði en löglegt er. Stjórn áburðarverksmiðjunnar byrjaði á þessu árið 1959, en það var einmitt fyrsta árið, sem núv. stjórnarflokkar stóðu að stjórn landsins. Landbrh. á að samþykkja kostnaðarverðsáætlun verksmiðjunnar hverju sinni og hafði það á valdi sínu að stöðva þessa hækkun, hafði það á valdi sínu auðvitað að láta stjórn verksmiðjunnar fara hér að lögum. Þegar stjórnarskiptin urðu um áramót 1958 og 1959 og einn af þm.. Alþfl. varð landbrh., hefur stjórn áburðarverksmiðjunnar séð sér leik á borði að koma fram þessari hækkun og hefur haldið því áfram síðan, eins í tíð núv. hæstv. landbrh., sem hefur látið þetta viðgangast.