06.12.1961
Sameinað þing: 19. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í D-deild Alþingistíðinda. (3009)

94. mál, átta stunda vinnudagur verkafólks

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég vil taka undir með þeim tveim hv. þm., sem hér hafa talað, að hér er um mjög merkilegt mál að ræða. Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að þessi till. er fram komin, og ekki sízt yfir því, að hún skuli vera flutt af þeim hv. þm., sem eru flytjendur þessarar tillögu. Það er sjálfsagt að athuga einstök atriði hennar í nefnd, eins og þingsköp ætlast til, en meginstefnan, sem vísað er til með þessari till., er að mínu viti alveg rétt, og ég vil fullyrða, að hér sé vikið að merkilegustu og framkvæmanlegustu kjarabót, sem nú er hægt að fá fyrir verkamenn hér á landi.

Eins og hv. 1. flm, gat um, þá er það ljóst, m.a. af skattaframtölum, sem hann vitnaði til, að vinnutími er hér mjög langur. Í þeim deilum, sem orðið hafa hér á þingi út af kauphækkunum á s.1. sumri, var annars vegar vitnað til þess, að ókleift væri að lifa á lágmarkskaupi því, sem hér var í gildi fyrri hluta þessa árs. Þetta var út af fyrir sig ekki véfengt varðandi fjölskyldufólk, en þá hins vegar bent á, að almenningstekjur væru miklu hærri en sem þessu lágmarkskaupi svaraði. Sumpart var það vegna þess, að aðrir taxtar voru í gildi fyrir mikinn hluta vinnunnar heldur en þessir lágmarkstaxtar, en einnig hitt og ekki síður, að vinnutími var miklu lengri en svaraði 8 tímum. Það er óvéfengjanlegt.

Sannfæring mín er sú, og það er engin einkasannfæring mín, heldur hygg ég, að það sé viðurkennd, ef svo má segja, vísindaleg staðreynd, að afköst vinnunnar aukist ekki með löngum vinnutíma, sem samsvari lengingu tímans fram yfir 8 tíma, að sá maður, sem vinnur venjulega vinnudaga 8 tíma á dag og vinnur vel, hann leggi svo mikið af mörkum, að það muni ekki fást viðbót við hans afköst með langvarandi og stöðugri framlengingu vinnutímans. Ef hægt væri að koma á þeirri skipan, að vinnutími yrði 8 tímar með samsvarandi árskaupi og menn hafa nú, þá mundi verða tryggt, að menn hefðu sæmilega lifvænlegar tekjur, eftir því sem hægt er að búast við, án þess að þurfa að ganga fram af sér og eyða starfsorku sinni á þann veg, sem hv. flm. að mínu viti gerði alveg rétta grein fyrir, að menn eyða mjög sér til óhollustu með stöðugum löngum vinnutíma og þrældómi, — þrældómi, sem kemur ekki þeim sjálfum að gagni á þann veg, að þeir afkasti meira, og þá ekki heldur vinnuveitandanum. Þetta er viðurkennd staðreynd annars staðar, og þær þjóðir, sem lengst eru komnar í vinnuafköstum og bezt hafa lífskjörin, hafa þess vegna stuttan vinnutíma, 48 stundir á viku, sumar eru að færa sig þar niður fyrir, farið að tala um miklu styttri raunverulegan vinnutíma og meira að segja sums staðar kominn á. Það er einnig athyglisvert, að ráðunautur launþegasamtaka, sem kom hingað á s.l. ári frá einu Norðurlandanna, benti á, að aðalkjaramunurinn milli íslenzks verkafólks og verkafólks annars staðar á Norðurlöndum væri ekki varðandi heildarlaun, heldur í því, að Íslendingar þyrftu að vinna lengur fyrir þeim heildarlaunum, sem þeir fengju, heldur en annars staðar væri.

Það er víst, að úr því að aðrar þjóðir hafa getað náð svo góðum árangri í þessum efnum sem raun ber vitni, þá eiga Íslendingar einnig að geta gert það. Ákvæðisvinna hefur þar mjög mikla þýðingu, betri vinnutilhögun að öðru leyti hefur einnig mjög mikla þýðingu, og aðstoð löggjafarvaldsins getur einnig ráðið miklu um þetta. Ég tel, að það sé ákaflega mikið áunnið, ef menn geti í raun og veru sameinazt um að reyna að leysa þetta vandamál og þar með komizt úr þeirri ófrjóu baráttu og kaupstreitu, sem um of hefur einkennt deilur vinnuveitenda og verkamanna á undanförnum árum. Ég tel þessa þáltill. vitni þess, að flytjendur hennar hafi á þessu skilning og vilji rétta fram hönd sina, til þess að þarna sé leitað raunhæfra úrræða, og fagna þess vegna eindregið, að till. er fram komin, og vil stuðla að því, að hún fái í meginatriðum greiðan framgang á þessu þingi, helzt sem allra fyrst.