14.02.1962
Sameinað þing: 35. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í D-deild Alþingistíðinda. (3161)

113. mál, útflutningur á dilkakjöti

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Dilkakjöt og aðrar afurðir sauðfjár hafa lengi verið verulegur liður í útflutningi Íslendinga. Ef maður fer svo langt aftur sem á meðan fráfærur voru fastur liður í búskap, þá var einkum um að ræða kjöt af veturgömlu og fullorðnu og þá einkum sauðum. Fyrir og um síðustu aldamót voru sauðir seldir lifandi til Englands, en er fráfærur lögðust niður, hvarf sauðaeignin að mestu, og þá var farið að slátra dilkunum. Kjötið af þeim var saltað og flutt út saltað til Noregs. Á árunum milli 1920 og 1930 var svo farið að kæla og síðan frysta kjötið, og þannig hefur það verið flutt út frá þeim tíma. En nú allra síðustu árin hefur aftur verið flutt út nokkurt magn af saltkjöti og þá til Noregs. Á stríðsárunum, þegar mikill erlendur her dvaldist hér á landi, var það dilkakjöt, sem Íslendingar neyttu ekki sjálfir, að mestu eða öllu keypt upp af hernum. Og nokkru eftir stríðið, þegar fjárpestir og útrýming þeirra með niðurskurði hafði fækkað sauðfjárstofninum í landinu stórkostlega, var ekki um teljandi útflutning að ræða. Þá var dilkakjötsframleiðslan ekki meiri en svo, að hún fullnægði innanlandsþörfinni. En eftir að sigrazt hafði verið á fjárpestunum að mestu, fjölgaði sauðfénu jafnt og þétt og dilkakjötsframleiðslan fór vaxandi, og hún er allmiklu mest nú á s.1. hausti. Af þessu hefur leitt, að útflutningur hefur verið vaxandi, og er talið, að hann muni nema um 3 þús. tonnum af framleiðslu ársins 1961, eða yfir 200 þús. skrokkum, þ.e. á milli 1/4 og 1/3 af dilkakjötsframleiðslunni í heild.

Þróun síðustu ára hefur leitt í ljós, að hér er a.m.k. nú um skeið að ræða um búvöru, sem skiptir verulegu máli í útflutningsverzluninni.

Þess vegna er rík ástæða til að gefa því gaum, hvernig til tekst með þennan útflutning. Samband ísl. samvinnufélaga hefur haft þennan útflutning með höndum, þar sem meginmagn kjötsins hefur verið á þess hendi. Ég gat um það áðan, að nú um 30–40 ára skeið hefur kjötið verið flutt út frosið í heilum skrokkum og að langmestu leyti til Bretlands. Nokkurt magn hefur þó farið til annarra landa, m.a. til Bandaríkjanna. Menn rekur e.t.v. minni til þess, að fyrir nokkrum árum var sala þangað talin mjög hagstæð, gaf þá hærra verð en kjötið innanlands. En sú dýrð stóð þó stutt. Til Noregs er einnig selt nokkuð af saltkjöti núna allra síðustu árin og fyrir mjög hagstætt verð. Fryst kjöt hefur enn fremur nokkuð verið selt til Danmerkur og Svíþjóðar og yfirleitt fyrir betra verð en á Bretlandsmarkaði. En þeir markaðir hafa reynzt svo takmarkaðir, að jafnan hefur mest magnið farið til Englands, enda þótt þar hafi venjulega, a.m.k. nú síðustu árin, verið um einna lægsta eða lélegasta verðið að ræða.

Nú um skeið eða nánar sagt um nokkur ár hafa verið uppi raddir um það, að reyna þyrfti nýjar teiðir við sölu á kjötinu. Breyting hefur orðið mjög mikil á því, í hvaða formi matvælin væru seld til neytendanna. Öllum er kunn sú mikla breyting, sem orðin er á sölu fiskafurðanna, og mörgum bændum hefur orðið hugsað til þess, hvort ekki væri unnt að vinna betri markaði fyrir kjötið, þar sem stuðzt væri við þá reynslu, sem þróun fisksölumálanna hefur leitt í ljós.

Eins og drepið er á í grg. till., hafa nokkrar tilraunir verið gerðar af hálfu SÍS, sem framleiðsluráð landbúnaðarins hefur einnig haft skipti af eða fylgzt með, með breytt form á kjötsölunni, þ.e. að selja dilkakjötið sundurhlutað, en þær tilraunir hafa ekki þótt bera tilætlaðan árangur. En öll slík mál krefjast mikillar þrautseigju og stöðugs starfs, og allir þeir, sem bera velferð sauðfjárræktarinnar fyrir brjósti, eiga erfitt með að sætta sig við það eða trúa því, að ekki sé hægt að hagnýta til hækkaðs verðs á hinu ágæta dilkakjöti nýja sölutækni, nýjar neyzluvenjur og nýja velmegun í ýmsum markaðslöndum okkar. Um þetta ber gleggstan vott sú tillaga, sem síðasta búnaðarþing samþykkti um þetta mál einróma, og sú till. er birt í grg. okkar.

Ég hef t.d. rætt við mjög marga menn, sem hafa ferðazt eða dvalist í nágrannalöndum okkar eða Ameríku og meira og minna telja sig hafa orðið vara við áhuga fólks þar fyrir íslenzku lambakjöti í ýmsu formi og m.a. reyktu. Og þar hefur verið kvartað um að geta ekki náð í þessa vöru. Það má e.t.v. segja, að lítið sé á slíkum dæmum að byggja. En allt slíkt vekur vonir um, að eitthvað sé unnt að vinna. Það, sem mér er sagt að einkum sé í vegi, að unnt sé að fara slóð fisksölunnar með kjötið, er í stuttu máli þetta: Kjöt er yfirleitt ekki selt fryst beint til neytendanna, heldur þarf að þíða það upp, áður en það kemur í búðirnar, því sé naumast um að ræða möguleika á að selja kjötið fryst í pökkum. Mikið af því kjöti eða mest, sem er á markaði t.d. í Bandaríkjunum, er af nýslátruðu, þar eð dýrin eru felld jafnóðum og þörf er á kjöti á markaðinn. Kjöt af sauðfé sé í heild minna metið á markaði en t.d. af nautgripum og svínum og af því sé yfirleitt minna magn á markaðinum. Við þyrftum að hafa eigin búðir ytra, þar sem ná mætti verulegu valdi á markaðinum, en til þess þarf mikið fé og einnig mikið magn af kjöti. En til þessa hefur magnið verið fremur lítið, a.m.k. á heimsmælikvarða, og naumast nógu öruggt frá ári til árs. Allt eru þetta vafalaust rök í málinu, en sýna þó fyrst og fremst nauðsyn þess að vinna að þessum markaðsmálum stöðugt og af fullri festu.

Það mætti virðast, að bændum væri ekki sérstakt áhugamál með þessi útflutningsmál, þar sem þeir hafa útflutningstryggingu á framleiðslu sinni í framleiðsluráðslögunum, þeir hafi því ekki beinan hag af góðri sölu á kjöti erlendis. En ég vil taka það skýrt fram, að auðvitað skiptir það þá máli eins og aðra þjóðfélagsborgara, að ríkissjóður hafi ekki eða sem minnst útgjöld af tryggingarákvæðinu. Og ég vil sérstaklega undirstrika það, að mér eru þessi útgjöld eitur í beinum einmitt bændanna vegna, af því að það er því miður svo ástatt í augum fjölda fólks úr öðrum starfshópum eða starfsröðum þjóðfélagsins, að landbúnaðurinn sé annars flokks starfsgrein, sem sé á ýmsan hátt til byrði öðrum þegnum. Þessi skoðun er ákaflega hættuleg að mínu viti og auðvitað byggð á fullkomnum misskilningi. En það má segja, að útflutningsuppbæturnar á landbúnaðarafurðir, ef þær þurfa að vera í verulegum mæli, þá kitli þær þessa skoðun.

Það er skoðun mín og okkar flm., að betur sé hægt að vinna að kjötsölunni erlendis, og það hefur áreiðanlega verið skoðun fulltrúanna á búnaðarþingi einnig.

Ég vil ekkert fullyrða um árangur, þó að þessi þáltill. yrði samþykkt, sem ég vona að verði. En ég tel nauðsynlegt að sinna þessu máll. Till. búnaðarþings var á þá leið að skora á Samband ísl. samvinnufélaga og framleiðsluráð að beita sér fyrir markaðsleit á ný og landbrh. að leggja fram fé. Okkur sýnist eðlilegra að beina málinu beint til ríkisstj., sem þá væntanlega kemur fyrst og fremst í hlut landbrh. Hans og ríkisstjórnarinnar er að ákveða, hvernig á verður tekið og til hvaða aðila verður leitað um framkvæmdir í þessu efni. En ég vil í þessu sambandi minna á álit manns, sem ég ætla ekki hér að nafngreina, en er mjög kunnugur sölumálum og framleiðslumálum landbúnaðarins. Það er á allra vitorði, að nú er svokallað Markaðsbandalag Evrópu mjög á dagskrá, og það liggur fyrir að gera sér ýtarlega grein fyrir því, hvernig aðstaða Íslendinga verður með sín framleiðslumál, ef til einhverrar þátttöku í meira eða minna mæli í því bandalagi kemur. En ég vil geta þess hér, að það var hans álit, að eins og málið virtist liggja fyrir í dag, mundi einhver aðild að Markaðsbandalagi Evrópu þýða hækkun á sauðfjárafurðum Íslendinga a.m.k. um 30%.

Ég tel rétt, að þetta komi einnig hér fram, vegna þess að þetta er vitanlega liður í því, hvernig hægt er að fá hærra verð, afla betri markaða fyrir þessa ágætu framleiðsluvöru okkar, sem að mínu viti, eins og bent er á í grg. fyrir till., er eðlilegasta framleiðslugreinin í búskap okkar. Þá vil ég enn fremur minna á það, að sauðfjárræktin er fyrst og fremst mál strjálbýlisins. Það er hin strjála byggð í landinu, sem byggist fyrst og fremst á sauðfjárrækt. Ég veit, að það eru misjafnar skoðanir á því, hversu hagkvæmt sé fyrir okkur að halda við strjálbýlinu og standa á móti samdrætti byggðarinnar. Það er bjargföst skoðun mín, að það sé okkur á allan hátt fyrir beztu, og það er eitt höfuðatriði til stuðnings hinni strjálu byggð, að það sé sem bezt haldið á markaðsmálum sauðfjárframleiðslunnar.

Ég held, að það sé á allra vitorði, að íslenzkt dilkakjöt sé viðurkennt fyrir gæði og yfirleitt að allra þeirra dómi, sem þess hafa neytt, í samanburði t.d. við dilkakjöt annars staðar að, bezta dilkakjöt í heimi. Það má e.t.v. segja, að þessara kosta hafi það að einhverju leyti notið alla tíð, en ég held, að það þurfi að reyna betur og meir að hagnýta þessa kosti kjötsins. Það eru sem sagt ákaflega mörg rök, sem hníga að flutningi og samþykkt þessarar till., enda vona ég, að hún eigi greiðan gang í gegnum hv. Alþingi.

Við bendum á í okkar till. fyrst og fremst nýjar aðferðir við söluna, nýja pökkun o.s.frv., en vitanlega geta einnig komið til greina fleiri hliðar, svo sem það, að sums staðar er um háa innflutningstolla eða hömlur að ræða, sem fyrst og fremst standa í vegi fyrir því, að við getum selt okkar kjöt. Má t.d. benda á það, að eftir því sem ég veit bezt, mun tollur á innfluttu dilkakjöti til Svíþjóðar nú vera 12—13 kr. á kg. Þrátt fyrir það hefur það litla magn, sem þangað hefur fengizt selt, gefið betra verð en t.d. Bretlandsmarkaðurinn hefur gefið. Þarna er því einnig um leiðir að ræða, sem þurfa athugunar við.

Ég skal svo ekki fjölyrða meira um þessa till. Ég hef í þessari stuttu framsögu drepið á helztu rökin, sem í huga okkar flm. eru ásamt því, sem segir í grg. Ég tel eðlilegt, að þn. fái að fjalla um þessa till., enda þótt ég telji hana raunar mjög einfalda, en þá vildi ég gera það að till. minni, að henni yrði vísað til hv. fjvn. til fyrirgreiðslu.