26.10.1961
Sameinað þing: 8. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í D-deild Alþingistíðinda. (3231)

18. mál, vantraust á ríkisstjórnina

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Háttvirtir hlustendur. Enn flytja þeir vantrauststill. á ríkisstj. Framsóknarmönnum virðist það álíka sjálfsagt og að rjúfa jafnan stjórnarsamstarf, sem þeir hafa stofnað til við aðra flokka. Formaður Framsfl. reið á vaðið í þessum umr. Þessum þm. finnst, að lýðræðið í landinu sé nú að verða markleysa, vegna þess að hjá núv. stjórnarflokkum hafi öll loforð og áform, sem gefin voru fyrir kosningar, farið í sömu gröfina, eins og hann komst svo smekklega að orði. Að minna á sig með þessum hætti er furðu djarft hjá fyrrv. forsrh. vinstri stjórnarinnar. Hefur og verið að því vikið í þessum umr. Í málefnasamningi vinstri stj., sem hann veitti forstöðu, var m.a. lýst yfir, að varnarliðið yrði tafarlaust látið hverfa úr landi. Allir þekkja efndir þess. Að lokið verði á starfstíma stjórnarinnar endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins og kosningalaganna. Allir þekkja efndir þess. Að leitað skyldi eftir erlendum lánum í landbúnaði, iðnaði og hafnargerð. Alkunn er hin niðurlægjandi betliganga vinstri stjórnarinnar til NATO-ríkjanna, að smíðaðir skyldu 15 stórir togarar og aflað lánsfjár til þess. Efndirnar urðu hin 12 misheppnuðu smáskip, svonefndir tappatogarar. Að stjórnin mundi láta gera heildaráætlun um framkvæmdir á næstu árum og nýmæli í því sambandi og birta hana þjóðinni. Aldrei sá hún dagsins ljós. Nú talar Hermann Jónasson og fleiri framsóknarmenn um framkvæmdaáætlun núv. ríkisstj., sem langt er komið og verður senn lögð fram, sem auglýsingaskrá eða loforðaskrá í blekkingaskyni. Loks lofaði vinstri stjórnin, að ríkisstj. mundi þegar í upphafi í samráði við stéttasamtökin skipa nefnd sérfróðra manna til þess að rannsaka ástand efnahagsmála þjóðarinnar með það fyrir augum, að sem traustastur grundvöllur fáist undir ákvarðanir hennar í þeim málum. Hversu traustur reyndist sá grundvöllur? Formaður Framsfl. sagði í umr. í gærkvöld, að það sé beint öfugmæli, sem búið sé að margendurtaka, að Framsfl. hafi gefizt upp í ríkisstj. vinstri manna 1958. En sjálfur lýsti hann yfir hér í sölum Alþingis 5. des. 1958, að hann hefði þá samdægurs beðizt lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt vegna þess, eins og hann orðaði það, að ný verðbólgualda væri skollin yfir, og við þetta hafði hann því einu að bæta, að í ríkisstj. væri ekki samstaða um nein úrræði, eins og hann komst að orði.

Ég vil segja það út af orðum hv. 1. þm. Norðurl. e., Karls Kristjánssonar, áðan hér í umr., að þetta er sá ægilegasti ofanveltukraftur, sem nokkur stjórnarforusta á Íslandi hefur sýnt. Það er mála sannast á hinn bóginn, að núv. ríkisstjórn hefur fengið á sig almannaorð fyrir að vera mjög framtakssöm og einörð og hafa fylgt fast eftir sinni upphaflegu stefnu, enda þótt þurft hafi að grípa til ráða, sem vita mátti að í upphafi gátu sætt verulegri gagnrýni og valdið jafnvel almennri óánægju fyrst í stað.

Þegar á allt er litið, er ljóst, að almenningur hefur látið sér skiljast hið erfiða hlutverk, sem ríkisstj. hafi að gegna, og hefur metið einarða afstöðu hennar til þess að snúast á hverjum tíma gegn vandanum, enda þarf engum að blandast hugur um það, að ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar óska að sjálfsögðu eftir sem beztu, friðsælustu og farsælustu samstarfi við allar stéttir og starfsgreinar þjóðfélagsins.

Hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, sagði áðan, að ráðh. hefðu hér í umr. flutt áróður án raka og það væri uppgjöf, sem allir skildu. Ég get látið hv. hlustendur og hv. þm. um að dæma það. En ég skal í mínum stutta ræðutíma minna nokkuð á, hvernig staðið hefur verið að málum í tíð núv. ríkisstj. Þegar vinstri stjórnin gafst upp í des. 1958, samþykkti flokksráð Sjálfstfl. yfirlýsingu um efnahagsmál og fleira, sem mynda skyldi meginstoðir undir hugsanlegt stjórnarsamstarf sjálfstæðismanna við aðra flokka. Þetta var áréttað á landsfundi og fyrir alþingiskosningarnar 1959. Hér verður að fara stutt yfir sögu.

1) Tafarlaust yrðu gerðar ráðstafanir til þess að stöðva verðbólguna. Það var gert með lögum um niðurfærslu verðlags og launa í janúar 1959.

2) Að lögfest yrði breyting á kjördæmaskipuninni. Það var gert á miðju ári 1959.

3) Að nýta þyrfti betur auðlindir landsins og byggja upp stóriðju til þess að tryggja þjóðinni góð og örugg lífskjör með fjölþættara atvinnulífi. Víðtækar athuganir og undirbúningur þessa máls er í framkvæmd.

4) Stefnt skyldi að því að afnema uppbótakerfið, skráð eitt gengi á erlendum gjaldeyri. Þetta var framkvæmt með efnahagsmálalöggjöfinni 1960.

5) Lagður skyldi grundvöllur að frelsi í atvinnurekstri og viðskiptum, svo að hægt væri að afnema þau höft, sem þá voru á viðskiptum og framkvæmdum. Það var gert með nýrri skipan innflutnings- og gjaldeyris- og fjárfestingarmála fyrri árshelming 1960.

6) Fjölskyldubætur skyldu auknar og beinir skattar lækkaðir. Þetta hefur verið framkvæmt.

7) Vísitölukerfið skyldi endurskoðað. Það er einnig framkvæmt.

8) Fjármál ríkisins tekin til gagngerðrar endurskoðunar. Þeirri framkvæmd var rækilega lýst af fjmrh. hér nýlega.

9) Framkvæmd heildarendurskoðun á tolla- og skattakerfinu. Þessu verður lokið á yfirstandandi þingi.

10) Sett skyldi ný og heilsteypt löggjöf um Seðlabanka Íslands, bankalöggjöfin að öðru leyti endurskoðuð. Allt er það komið til framkvæmdar.

11) Sett lög um atvinnuaukningarsjóð og jafnvægi í byggð landsins. Frv. liggur fyrir þessu þingi um það.

12) Að vaxandi framkvæmdir byggist á eðlilegri sparifjármyndun, án þess að þjóðinni sé reistur hurðarás um öxl með óhóflegum erlendum lánum. Ráðstafanir í peningamálum hafa miðazt við þetta.

Þá er að vísu ótalið, að stefna beri að því, að kjarasamningar séu gerðir til lengri tíma en nú tíðkast, og koma þurfi upp samvinnustofnun launþega, vinnuveitenda og ríkisvaldsins, er fylgist með afkomu atvinnuveganna og afli sem gleggstra upplýsinga um alla þætti efnahagslífsins til afnota við samninga um kaup og kjör. Hér er að vísu enn miklu verki ólokið. En ég get ekki varizt því, herra forseti, að láta í ljós, að lýðræði í landinu er ekki hætta búin af slíkri framkvæmd þjóðmála, en vissulega fremur hinu, þegar forustumenn stjórnarandstöðunnar tala jafnutangátta á Alþ. og raun hefur borið vitni að þessu sinni.

Mig hefur undrað margt, sem fram hefur komið í þessum umr. af röngum staðhæfingum og óljósum upplýsingum. Ég get ekki stillt mig um að minnast á það, sem hv. 4. þm. Sunnl., Björn Fr. Björnsson, sagði, þegar hann talaði með tilfinningahita um framfarirnar hér, sem Framsfl. hefði haft forustu um á umliðnum áratugum. Þm. mun ekki eiga við kreppuárin eftir 1934. Hann mun sennilega eiga við tímabilið, sem Tíminn lýsti svo fyrir kosningarnar 1956, að óvíða í heiminum hafa verið meiri framfarir en hér á landi síðustu áratugina. Lífskjörin hafa breytzt og batnað, svo að undrum sætir. En það var einmitt um þetta leyti, fyrir kosningarnar 1956, sem formaður Framsfl. sagði. að sjálfstæðismenn hefðu haft lykilaðstöðuna í stjórnmálum landsins s.l. 17 ár, meðan allar þessar framfarir áttu sér stað. Forustan var m.ö.o. ekki meiri en svo í höndum framsóknarmanna á þessu framfaratímabili þjóðarinnar, þvert á móti. Og þetta passar ekki heldur við það, sem Eysteinn Jónsson sagði áðan, að framsóknarmenn hefðu rifið fólkið hér upp úr fátæktinni.

Í umr, í gærkvöld sagði Lúðvík Jósefsson, að gjaldeyrisstaða þjóðarinnar í heild hafi versnað um 500 millj. kr. á árinu 1960. Minnkandi birgðir útflutningsvöru taldi hann rúmar 200 millj. kr. á árinu. Þessar upplýsingar um minnkandi birgðir má lækka um ca. 80 millj. kr. miðað við það verð, sem vörurnar seldust á eftir verðfall á lýsi, mjöli o.fl., og er þá hallinn í dæmi Lúðvíks sjálfs rúmar 400 millj. kr., en verðmæti innfluttra skipa eingöngu nam á 6. hundrað millj. kr. Það gerir líka meira en að skýra það, sem honum fannst óverjandi, að umsamdar skuldir við útlönd hefðu hækkað á árinu 1960 um 350 millj. kr. Til þessa mikla skipainnflutnings var áður stofnað, en hve afdrifaríkur hann er, sést á þessum samanburði á verðmæti innfluttra skipa undanfarin ár, að árið 1960 er verðmæti innfluttra skipa 518 millj. kr., 1959 256 millj. kr., 1958 201 millj. og 1957 aðeins 100 millj. kr.

Formaður Framsfl. var enn stórtækari, sagði, að skuldasöfnunin erlendis væri 800 millj. kr., sem notað hefði verið til eyðslu, eins og fjmrh. vék að áðan og hrakti.

Auðvitað á ekki að þurfa að deila hér á Alþ. um slíkar tölur. Það, sem máli skiptir og sker úr um það, sem um þetta hefur verið sagt, og einnig um gjaldeyrisstöðu bankanna, er í stórum dráttum þetta: að í gjaldeyrisstöðu bankanna eru talin yfirdráttarlán og yfirdráttarheimildir hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Evrópusjóðnum, sem Hermann Jónasson er líklega með í huga, að hámarki 800 millj. kr., en aðeins er þó notað að nokkru, og um leið auknar innstæður bankanna hjá öðrum peningastofnunum eða minnkandi skuldir þeirra hjá þeim. Og ég get upplýst það hér, að frá ágústlokum 1960 til ágústloka nú 1961, eða á einu ári, hefur gjaldeyrisstaða bankanna batnað um 300 millj. kr., og birgðaaukning útflutningsverðmæta nemur á sama tíma í landinu 70 millj. kr. Og hvers vegna þarf þá að vera að segja fólkinu ósatt eða bara hálfan sannleikann eða bara brot úr sannleikanum, þegar þessar tölur liggja óhrekjanlega fyrir?

Það hefur líka mikið verið talað um innstæðuféð. Mönnum ber ekki alveg saman, og þó vita menn, að menn eru að tala um sitt hvað: annars vegar sparisjóðsinnstæður og hins vegar heildarinnstæður, þ. á m. veltiinnlánin.

Karl Kristjánsson, 1. þm. Norðurl. e., vék að þessu hér áðan og 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, líka. Nú langar mig til að lesa hér aðeins örfá orð um þetta atriði úr skýrslu Útvegsbankans 1960. Ég geri ekki ráð fyrir, að Karl Kristjánsson a.m.k. vefengi það, — hann er endurskoðandi bankans, — en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Það má telja, að með þeim ráðstöfunum ríkisstj. hafi í fyrsta sinn um árabil náðst jafnvægi í peningamálum hér á landi á árinu 1960. Spariinnlán bankanna jukust um 286 millj, kr. í stað 170 millj. kr. árið 1959. Aukningin er þó tiltölulega enn meiri, ef tillit er tekið til þess, að spariinnlánin lækkuðu fyrstu mánuði ársins, er áhrifa efnahagsráðstafananna var enn ekki farið að gæta, og öll aukningin skeði því á tímabilinu apríl—desember, og varð sú aukning 21/2 sinnum meiri en á sömu mánuðum ársins 1959:

Svo segir enn fremur:

„Veltiinnlánin lækkuðu hins vegar um 33.7 millj. kr., en höfðu aukizt um 24.2 millj. kr. á árinu 1959. Skýringin á lækkun veltiinnlánanna er að nokkru leyti sú, að inneignir fjárfestingarsjóða hjá viðskiptabönkunum eru taldar með í þessum innlánum, en breytingar á þeim inneignum geta verið miklar á skömmum tíma eftir því, hvernig til hagar með fjáröflun útlánssjóðanna. Þannig lækkaði inneign Fiskveiðasjóðs Íslands hjá Útvegsbankanum um 35.4 millj. kr. á árinu 1960, þ.e.a.s. um hærri upphæð en nemur heildarlækkun veltiinnlána hjá öllum viðskiptabönkunum.“

En þessi minnkun á veltiinnlánum er vegna óvanalega mikilla útlána til skipakaupa á þessu ári hjá fiskveiðasjóði.

Það er ekkert skordýraeitur, sem drepur kvikindi eins snögglega og viðreisnin útgerðina, segja þessir spekingar og bera fyrir sig aðra spekinga. Á yfirstandandi ári hafa útgerðinni þó verið veittar um 400 millj. kr. í stofnlán til greiðslu á gjaldföllnum og óumsömdum skuldum, sem orsökuðust öðru fremur af fjárfestingarlánaskorti þessarar atvinnugreinar á liðnum árum. Fiskveiðasjóður hefur til septemberloka á þessu ári veitt 105 millj. kr. í lánum til smíði á fiskiskipum innanlands og til kaupa erlendis frá á nýjum skipum, og í fyrra veitti sjóðurinn lán til sömu þarfa aðeins í nýsmíði fyrir 137 millj. kr. og alls með viðgerðum og vélakaupum 183 millj. kr.

Bændum er ætlað að fá hliðstæða aðstoð með breytingu á víxillánum í löng lán, en áður hafði ríkisstj. sannast að segja bjargað stofnlánasjóðum þeirra í Búnaðarbankanum frá gjaldþroti.

Iðnlánasjóður hefur verið stórefldur með auknum ríkisframlögum og útvegun erlends hagstæðs láns um 21 millj, kr. á þessu ári.

Ég vil aðeins víkja örfáum orðum að ummælum hv. 3. þm. Reykv. hér áðan, er hann komst að orði á þá leið, að „kardínálar heimsauðvaldsins“, eins og hann kallar okkur stjórnarsinna, „hafi nú ákveðið að stela sjálfstæðinu af þjóðinni eftir að vera búnir að stela laununum af fólkinu“. Hann segir þetta í sambandi við hugsanlega aðild að Evrópubandalaginu. „Maðurinn, manngildi og lífshamingja fjöldans er þessum mönnum einskis virði“, sagði þessi hv. þm. Ég vil aðeins að þessu sinni segja vegna þessara óstjórnlegu stóryrða og reyndar margra fleiri, sem ég hirði nú ekki að rekja, og einnig af því að mér virtist hv. 1. þm. Austf. vilja að einhverju leyti taka í sama streng, að ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar vilja einmitt vegna trúar á manngildið, mannhelgina og einstaklingsfrelsið freista þess að slitna ekki úr tengslum við hinar vestrænu lýðræðisþjóðir og þ. á m. Norðurlöndin í efnahagsuppbyggingu þeirra til bættra lífskjara fyrir alþýðu manna. Þjóðinni verður gerð full grein fyrir því, sem um er að ræða, en það verður aldrei, að núv. ríkisstj. gangist undir nein þau samningsákvæði, sem hér eiga ekki við og samrýmast ekki íslenzkum þjóðarhagsmunum.

Það er fjarri því, að ríkisstj. Íslands og stuðningsflokkar hennar hafi eitrað fyrir íslenzka atvinnuvegi og vilji alþýðu þessa lands sem verst, eins og fram hefur komið í ræðum hv. þingmanna. Það hefur verið barizt harðri baráttu til þess að rétta við eftir öngþveiti vinstri stjórnarinnar. En hv. þingmenn, andrúmsloftið er hins vegar eitrað þessa dagana. Mánuðum og e.t.v. árum saman verður það eitrað um gjörvalla heimsbyggðina. Kommúnistar og handbendi þeirra virðast ekki vilja vita um hið eitraða helryk, sem nú breiðist út frá risasprengjum Sovétríkjanna. En ótti og skelfing býr þó um sig. Það væri sannarlega ekki til of mikils mælzt, þótt talsmenn kommúnista hér í þessum umræðum gerðu grein fyrir afstöðu sinni til þessarar ögrunar við lífshamingju fólksins um heim allan. Og enn eiga þeir þess kost í kvöld, þó að allir hafi þagað fram að þessu, og eftir því verður tekið. Það er e.t.v. svo, að þau frú Furtseva, sem hér var gestur ekki alls fyrir löngu, og Krúsjeff séu saklausar friðardúfur, en e.t.v. eru þau og þeirra lið ekki meira mannkostafólk en þau sjálf lýsa fyrri samherjum og áður fremstu mönnum hins kommúnistíska ríkis í austri. Og þegar slíkt fólk leikur sér að 500 millj. tonna vetnissprengjum, er gervöllu lífi ögrað. Við slík tímamót þykir ekki öllu máli skipta, hvort kommúnistum megi takast að komast á nýjan leik í vinstri stjórn á Íslandi.

Ríkisstjórn Íslands mun beita sér fyrir þeirri aðgát og varúð, er við verður komið. Hún vill stuðla að vörnum borgaranna í öruggri trú á framtíð þjóðarinnar. Við Íslendingar missum ekki þrátt fyrir stórar ögranir trúna á landið og lífið sjálft. Við tökum undir með þjóðskáldinu Davíð Stefánssyni, þegar hann kveður á þúsund ára hátíð Alþingis: .,Við biðjum þess, að byggðir vorar allar blómgist og vaxi næstu þúsund ár.“ — Góða nótt.