01.11.1961
Sameinað þing: 11. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í D-deild Alþingistíðinda. (3310)

31. mál, tjón af völdum vinnustöðvana

Einar Olgeirsson:

Hv. 9. landsk. þm. hefur rætt hér nokkuð í ræðum, sem hann hefur haldið um sína till., um þátt verkfallanna í þjóðfélaginu. Hann sagði í sinni framsöguræðu, að verkföll hefðu verið tíðari og varað lengur hér á Íslandi en með flestum öðrum þjóðum. Þetta held ég, að sé tvímælalaust rangt. Ég held, að verkföll hafi yfirleitt verið fátíðari hér en hjá megininu af okkar nágrannaþjóðum. (JÞ: Þau hafa verið tíðari en í Rússlandi.) Þau hafa verið tíðari en þar, já. Og ef við tækjum það land, sem honum mun kærast, t.d. Bandaríkin, þá býst ég við, að þar mundi hann sjá mynd af jafnvel mjög tíðum verkföllum og það ekki bara venjulegum verkföllum, rólegum og friðsamlegum eins og hérna heima hjá okkur, heldur verkföllum, þar sem verkamenn verða sífellt að standa í baráttu við lögreglu, bæði einkalögreglu atvinnurekendanna og auðhringanna og lögreglu ríkisins. Sannleikurinn er sá, að verkalýðssamtökin á Íslandi hafa yfirleitt sýnt ákaflega mikla ábyrgðartilfinningu í sambandi við að hefja verkföll, gefið atvinnurekendum og öðrum þeim aðilum, sem vildu vinna að því að afstýra verkföllum, ákaflega mikil tækifæri til þess að gera það, og e.t.v. aldrei meir en á síðustu þremur áram. Atvinnurekendur á Íslandi og að svo miklu leyti sem ein ríkisstj. hefur viljað skipta sér af þeim málum hefur líklega aldrei fengið annað eins tækifæri hér heima um marga áratugi og áður en verkföllin hófust í sumar, þannig að þeim mönnum, sem um þessi verkföll ræða, væri dálítið nær að beina geiri sínum þangað, sem þörfin meiri fyrir er, og spyrja hæstv. ríkisstj. og atvinnurekendurna, hvernig hafi staðið á því, að þessir aðilar hafi algerlega svikizt um að nota þann tíma, sem verkalýðshreyfingin gaf þeim, til þess að semja um þessi mál. Og það væri nær að flytja þáltill. um það efni heldur en hitt.

1952 var hér allalmennt verkfall í desember. Síðan var ekki neitt verulega langt verkfall hér né almennt þangað til 1955, 6 vikna verkfallið, þá í þrjú ár. (JÞ: 1957 var farmannaverkfall.) Ég sagði frá 1952 til 1955, þ.e. í þrjú ár. Síðan kemur tímabilið 1955–1961. Á öllu því tímabili eru raunverulega verkföllin, sem voru á meðan vinstri stjórnin var, farmannaverkföllin og slík, einu verkföllin. Það er mjög lítið um verkföll á öllum þessum tíma, mjög lítið, 5 ára tímabil, skulum við segja, sem stærsta félagið fer ekki í verkfall, eins og Dagsbrún í heil 5 ár. Eftir svo að þær aðgerðir voru gerðar, sem hv. þm. er kunnugt um, að rjúfa alla samninga með ofbeldi, eins og gert var með lögun frá Alþingi 1. febr. 1959, svipta verkamenn þeim rétti, sem þeir höfðu þá haft í um 20 ár með samningum, eftir það ofbeldi biða verkamenn samt sem áður í 21/2 ár, áður en farið er í verkföll. Það er ekki til neins að koma hér upp og ætla að fara að segja, að það sé verið svo að segja að misbeita verkfallsvopninu hérna. Það er um nokkuð annað að ræða. Það er um að ræða slíkt ábyrgðarleysi af hálfu atvinnurekenda og ríkisstj., að fátítt er, og það er alveg óþarfi að vera að koma með till. eins og þessa, sem hérna liggur fyrir, þess vegna frá því sjónarmiði að ætla að reyna að fara að sýna verkamönnum fram á, að þeir hafi misnotað svo mikið verkfallsréttinn og þetta hafi verið þeim svo dýrt, að þeir skuli varast þetta í framtíðinni.

Hv. 9. landsk. vildi fara að snúa út úr í sambandi við það, sem fram kom í ræðu hv. 9. þm. Reykv. hér áðan, þegar hann talaði um ýmislegt ómetanlegt, sem hefði áunnizt með verkföllum. Það eru tvenns konar verðmæti, sem vinnast með verkföllum. Annars vegar er hægt að vinna með þeim beinar kauphækkanir. Þær kauphækkanir geta verið með tvennu móti. Þær geta verið raunverulegar kauphækkanir, sem þýðir það, að kaupmáttur tímakaupsins aukist. Og þannig er það, ef það situr ekki að völdum ríkisstj., sem beinlínis rýrir kaupmáttinn með aðgerðum þess opinbera. Ef þannig háttar til, að að völdum er ríkisstjórn eða ríkisstjórnir, sem rýra kaupmáttinn í sífellu eða hann rýrist kannske af öðrum orsökum óviðráðanlegum, þá geta verkföllin verið nauðsynleg til þess að vinna upp rýrðan kaupmátt, m.ö.o. til að halda í horfinu. Og allmörg af þeim verkföllum, sem íslenzkur verkalýður hefur orðið að heyja, hafa beinlínis verið verkföll til þess að halda þannig í horfinu. Það er engin röksemd á móti verkföllum, þó að því sé haldið fram af þessum hv. þm. og sumum fleiri, að það hafi ekki vaxið um tíma kaupmáttur tímakaupsins, eins og við höfum oft sýnt fram á hérna. Það sýnir aðeins það, að kaupmáttur tímakaupsins hefði minnkað stórkostlega og hraðminnkað, svo framarlega sem ekki hefðu verið gerð verkföll til þess að afstýra þeirri rýrnun. Verkföll geta, hvað kaupgjaldið snertir, verið hvort tveggja, bæði til þess að sækja fram, hækka kaup, og til þess að verjast kauplækkunum af völdum t.d. verðbólgu, gengislækkana eða annars slíks. Það er vafalaust hægt að reikna út, við skulum segja, ef maður tekur verkfallið 1955, 6 vikna verkfall, eitt lengsta og dýrasta verkfall, sem hér hefur verið háð, — út úr því kom 12% kauphækkun plús 4% í atvinnuleysistryggingasjóðinn. Ef við aðgætum það, að þessi 4%, sem fóru í atvinnuleysistryggingasjóðinn, munu nú nema hátt á þriðja hundrað millj. kr., getum við nokkurn veginn gert okkur hugmynd um, hvað verkalýðurinn hefur haft upp úr þeim 12%, sem hann fékk beint í sinn vasa. En það er engin smáræðisfúlga. Og það hélzt í ein 6 ár að mestu leyti, einmitt í krafti vísitölunnar, sá kaupmáttur tímakaups, sem þá var knúinn fram, þannig að það mætti vafalaust reikna það mjög nákvæmlega út. En svo er hitt, þau ómetanlegu verðmæti, sem vinnast og hv. 9. landsk. vildi gera heldur lítið úr, — þau verðmæti, sem þannig vinnast, í fyrsta lagi sjálfur félagsþroskinn, sjálf viðurkenningin á manngildi verkamannanna, viðurkenningin á því, að þeir eru samningsaðilar, viðurkenningin á því, að það er við þá að semja um þessa hluti, og svo öll þau réttindi, sem verkalýðurinn knýr fram með slíku. Meginið af þeim réttindum, sem verkamenn hafa fengið, eins og t.d. orlofið eða atvinnuleysistryggingasjóðirnir, er fengið með verkföllum. Orlofið var fengið með verkföllunum 1942, þar sem samið var um við atvinnurekendur í lak þeirra verkfalla, að frv., sem þá lá hér fyrir Alþ. og fékkst ekki samþykkt á Alþ., um orlof, skyldi vera samningur á milli atvinnurekenda og verkamanna. Þannig hófust orlofsréttindin. Síðar meir var þetta frv. svo samþykkt, þegar búið var að knýja þetta í gegn með verkfalli. Frv. um atvinnuleysistryggingarnar höfðum við lagt fram 12 þing og ekki fengið samþykkt hér á Alþingi. Í verkfallinu 1955 var eitt af því, sem samið var um, að þessir atvinnuleysistryggingasjóðir skyldu settir á stofn og löggjöf um atvinnuleysistryggingar sett. Það unnust sem sé beinlínis með verkfallinu atvinnuleysistryggingarnar. Og þannig hefur verið með ýmislegt af þeim réttindum, sem verkamenn hafa fengið á vinnustöðvum, hvers konar réttindi viðvíkjandi trúnaðarmönnum og allt mögulegt slíkt, þó að það séu náttúrlega líka mörg réttindi, sem hafa verið knúin fram með hinni pólitísku baráttu verkamanna.

Verkföll hafa yfirleitt á Íslandi verið mjög árangursrík lengst af. Svo er hamingjunni fyrir að þakka, að verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur borið sigur úr býtum í þeim átökum, sem hún hefur átt í við atvinnurekendur. Þau hafa verið árangursrík ýmist í því að bæta kjör verkamanna eða verja kjör verkamanna rýrnun, verja kjör verkamanna fyrir afleiðingum verðbólgu, gengislækkana og annars slíks. Og það er ekki síður nauðsynlegt að berjast oft til að verjast heldur en til að sækja, þannig að verkföllin hafa verið árangursrík, enda hefur ekki verið gripið til þeirra yfirleitt fyrr en mjög góð samtök hafa um þau verið.

Þá talaði hv. 9. landsk. um það, hvort verkamenn gætu ekki sparað sér fórnir. Vissulega er ekkert frekar, sem verkamenn vilja. Verkamenn langar ekki í verkföll. Það eru miklar fórnir, sem verkamenn færa í verkföllum. Þess vegna bíða þeir oft lengi, og það er stundum lagt þeim þannig út, þegar þeir eru að biða til þess að gefa atvinnurekendum og viðkomandi ríkisstj. tækifæri til þess að semja, eins og þeir séu eitthvað deigir við að leggja til verkfallanna. Það hafa jafnvel komið, m.a. í blaði þess flokks, sem hv. þm. tilheyrir, mjög harðvítugar ögranir í garð okkar um, hvort við þyrðum ekki að leggja út í verkföll, eftir hverju við værum að bíða með að leggja út í verkföll, vegna þess að hjá okkur hefur yfirleitt sú ábyrgðartilfinning verið ráðandi í þessu að reyna allar leiðir, áður en það væri lagt til verkfalla.

Frá því að þessi hv. þm. tók þátt í því að rjúfa alla samninga verkamanna með lögum, stela af verkamönnum með vísitölusamþykktinni 1. febr. 1959, þá biðu verkamenn, í staðinn fyrir að svara þessu kannske tafarlaust með verkfalli, í næstum tvö og hálft ár, áður en svona samningsrofi var svarað. Ég gæti trúað, að það hefði verið brugðið öðruvísi við, ef það hefðu verið gefin út lög um, að gjalddagi allra víxla á landinu breyttist þannig, að þeir féllu á allt öðrum gjalddaga og miklu seinna, og annað þess háttar, heldur en vera skyldi, — það hefði eitthvað verið kvakað hérna frá borgarastéttinni, — eða ef öllum veðrétti hefði allt í einu verið breytt, öllum einkasamningum, þar sem fésýslumennirnir eru að semja. Þá hefði líklega verið kvakað eitthvað, og þá hefði líklega ekki verið beðið í tvö og hálft ár. Það hefði jafnvel kannske verið farið í hvers kanar mál og annað slíkt. En verkamenn biðu í tvö og hálft ár, og allan þennan tíma hafði þessi hv. þm. m.a. tækifæri til þess að sýna sína framtakssemi í því að reyna að afstýra því, að til verkfalla þyrfti að koma, bæði með flutningi tillagna hér á Alþingi og með því að hafa einhver áhrif í sínum þingflokki, ef hann hefur það, og sjá til þess, að það þyrfti ekki að koma til verkfalla. Ef til vill man hann eftir því, að það var talað við þá ríkisstj., sem hann styður, það var talað við hana jafnvel meir en missiri áður en lagt var til verkfallsins, og hann man kannske, hverjar hennar undirtektir og hver hennar afskipti voru. Líklega var þá sú yfirlýsing hjá henni gildandi, að verkamenn og atvinnurekendur ættu einir að fást við um slík mál og það kæmi því opinbera ekkert við og þjóðfélaginu ekkert við. Það var sú yfirlýsing, sem hér var endurtekin í tvö ár hvað eftir annað og hv. þm. tók þátt í líka, þótt hann tali öðruvísi núna.

Hvað gerði þessi hv. þm. og hans flokkur til þess að reyna að spara verkamönnum þær fórnir? Það voru ekki bara verkamenn, sem fylgdu t.d. Alþb., það voru líka verkamenn, sem fylgdu Alþfl. og Sjálfstfl. Það áttu allir verkamenn þarna hlut að máli. Það var ekki gert neitt. Og hvað gerðu atvinnurekendur til þess að spara þjóðfélaginu tjón? Hv. þm. var þó nýlega svo sanngjarn í ræðu, sem ég hlustaði á hann halda, að hann átaldi það, hvernig atvinnurekendur hefðu verið, að þeir hefðu yfirleitt ekki baðið verkamönnum nokkurn skapaðan hlut, ekki neina hækkun, áður en til verkfallsins var lagt. Hvers konar framferði er þetta? Væri ekki nær út frá því, sem hv. þm. sagði þá, að hann hefði orðað sína spurningu þannig: Hvaða tjón eru atvinnurekendur búnir að valda verkamönnum og þjóðfélaginu með sinni þrákelkni, með sinni lítilsvirðingu gagnvart þjóðfélaginu og verkamönnunum í að semja ekki, áður en til verkfalla kemur.?

Verkamenn fengu að vita það, að sú hæstv. ríkisstj., sem þessi hv. þm. styður, skipti sér ekkert af verkföllum, atvinnurekendur og verkamenn ættu að eiga sig einir. Það var ekki skiljanlegt út frá neinu öðru sjónarmiði það algera skeytingarleysi, sem ríkti í þessum efnum, áður en verkföllin skullu yfir. En hvað gerist svo, þegar verkföllin eru búin? Þá er það ríkisstj., sem grípur inn í. Þá er það ríkisstj., sem skellir á gengislækkuninni, eins og til þess að hefna sín á verkamönnum, eins og til þess að ræna af þeim því, sem þeir höfðu unnið, í staðinn fyrir að halda fast við sína yfirlýstu stefnu um, að atvinnurekendur verði sjálfir að bera byrðarnar af þeim hækkunum, sem þeir semja um, og það er ekki ríkisstj. að fella neinn dóm um það. Það var það, sem sagt var fyrir verkföllin í tvö og hálft ár. Því var ekki staðið við það, þegar verkföllin voru búin?

Ég held, að hv. 9 landsk. hefði þess vegna átt að orða þessa till. sína dálitið öðruvísi, ef hann vildi vera sanngjarn í þessum efnum. Í fyrsta lagi hefði hann átt að fela hagstofunni að reikna út, hvað var tjón verkamanna og starfsmanna á Íslandi, þeirra 75% þjóðarinnar, sem þessar tvær stéttir eru, hvað var tjón allra launþega á Íslandi af þeirri ákvörðun að svipta menn vísitölunni í febr. 1959? Hvað var þetta tjón orðið — segjum 1. maí 1961? Þetta er hægt að reikna út alveg nákvæmlega, og það ætti að setja inn í þessa till., að hagstofan reikni út, hvað er tjónið, sem var búið að valda verkamönnum og starfsmönnum í íslenzka þjóðfélaginu með þeirri ráðstöfun að svipta þá þessari vísitölu? Hvað er tjónið? Þetta væri gott að lægi fyrir. Þetta er tiltölulega einfaldur útreikningur, sem hagstofan getur alveg framkvæmt. Í öðru lagi: Hvað var tjónið af hækkunum verðlagsins frá því í marz 1960 til maí 1961? Þetta er hægt að reikna út líka. Það er til verðlagsvísitala yfir það. Þetta mátti reikna út nákvæmlega, og það er undarlegt, að hv. 9, landsk. skuli ekki hafa spurt að því, ag það hefði verið eðlilegt, að það hefði verið spurt þarna að líka, eins og hæstv. ríkisstj. leggur oft áherzlu á, hvað verkamenn hefðu máske fengið í sambandi við ýmsar fjölskyldubætur og annað slíkt, en allt þetta er sem sé hægt að reikna út.

Svo er orðalagið á þessu: Tjón af völdum vinnustöðvunar. Það er hægt að orða það líka öðruvísi, eftir því, hvernig menn vilja hugsa um þetta. Við skulum segja, að þetta væri orðað þannig, að hagstofunni hefði verið falið að reikna út tjónið af því, að atvinnurekendur skyldu ekki semja við verkamenn kvöldið fyrir verkföllin um þessa kauphækkun, sem varð niðurstaðan eftir fjögurra vikna verkfall hjá mörgum. Hvaða tjóni ollu íslenzkir atvinnurekendur þjóðfélaginu og verkamönnum með því að semja ekki kvöldið fyrir verkföllin, en standa í staðinn í fjögurra vikna verkfalli og semja svo á eftir? Hvaða tjón bökuðu atvinnurekendur? Það er sama talan, sem kæmi út. En það sýnir bara huginn, hvernig spurt er og til hvers er verið að spyrja. Það væri mjög þarft, að það lægi fyrir, hvaða tjóni t.d. Vinnuveitendasamband Íslands hefur valdið íslenzku þjóðfélagi og íslenzkum verkamönnum með því að semja ekki fyrr en fjórum vikum eftir að verkfall hófst, með því að semja ekki strax. Og ég vonast til þess, að sú n., sem fær þetta til meðferðar, athugi orðalagið á þessu, því að það er engin ástæða til þess að gera hagstofuna að neinni sérstakri áróðursstofu fyrir atvinnurekendur eða afturhaldið í landinu. Það er bezt að fá fram þær tölur, sem á að rannsaka, þannig að spurningarnar liggi alveg fyrir, og það er hægt að orða þær á mjög misjafnan hátt eftir því, hvernig maður litur á það. Það má t.d. orða þær þannig; eins og minntist á áðan: Hvaða tjóni ollu atvinnurekendur íslenzku þjóðfélagi í fyrsta lagi og í öðru lagi íslenzkum verkamönnum með því að semja ekki um þá kauphækkun, sem þeir sömdu um að lokum, þegar áður en verkfallið hófst?

Mér virtist það liggja í orðum hv. 9. landsk., að hann vildi meina, að lítið hefði unnizt með verkföllum, enda er auðséð, að till, er nú flutt í þeim tilgangi að reyna að gera sem minnst úr slíku. Hann hefur ekki haft mikil afskipti af íslenzkri verkalýðshreyfingu. En svo mikið get ég frætt hann um, að það hefur sjaldan komið fyrir, að íslenzkir atvinnurekendur hafi að fyrra bragði boðizt til þess að hækka kaup verkamanna. Það eru mjög fá og teljandi kannske á fingrum annarrar handar, ef þau nægja þá fyrir þá fimm, dæmin um það, að íslenzkir atvinnurekendur hafi að fyrra bragði boðið slíkar hækkanir, a.m.k. almennt. Verkamenn hafa í þau 60–70 ár, sem verkalýðshreyfingin hefur starfað á Íslandi, alltaf orðið að berjast sjálfir fyrir því að fá kauphækkanir. Viðkvæðið hjá atvinnurekendunum hefur alltaf verið, að þjóðfélagið þyldi þær ekki, og það hefur verið hart fyrir verkamenn að þurfa að leggja í verkföll hvað eftir annað á þessu 60–70 ára tímabili til þess að knýja fram kauphækkanir, þegar það lá þó í augum uppi, að hægt var að veita þeim þær. Ef verkamenn hefðu aldrei hreyft sig, aldrei farið í verkföll, þá hefðu aldrei orðið neinar kauphækkanir hér. Og sannleikurinn er náttúrlega, að það þyrfti ekki að vera að rífast ákaflega mikið um þessa hluti hérna, það er kannske hægt að fá prófstein á það strax núna. Hvað ætla menn að gera núna? Það vita allir, að verkalýðsfélögin í landinu hafa ákveðið að segja upp samningum, það standa öll verkalýðsfélög að því. Það sjá allir, hvernig kaupgetan hraðminnkar. Hvað á að gera núna? Hvað á að gera til að afstýra þeim verkföllum? Er ekki bezt að ræða um þá hluti um leið? Við vildum oft fá rætt um þá hluti, áður en verkföllin í sumar skullu á. Það fékkst aldrei.

Eitt er rétt í því, sem hv. 9. landsk. kom inn á í sinni grg. Það var viðvíkjandi þörfinni á rannsóknar- og upplýsingastarfsemi um efnahags- og kjaramál. Ég veit ekki, hvort aðrir hafa kannske talað meira um þörfina á slíku heldur en ég oft hér á undanförnum þingum, vitnað í það, hve framúrskarandi illa væri búið að til þess að afla okkur alveg óhlutdrægra gagna í þessum efnum hér á Íslandi, miðað við allar aðrar þjóðir.

Það er út af fyrir sig ekkert slæmt að fela hagstofunni að reikna út t.d. tapaðar vinnustundir og annað slíkt. Þetta er gert í flestum þjóðfélögum í kringum okkur. En í þessum sömu þjóðfélögum, tökum til dæmis Bandaríkin aftur, þá getur maður gengið að skýrslum um efnahagsafkomuna í ríkinu, þar sem maður getur flett upp á afkomu hvers einasta a.m.k. af öllum þeim stærri hlutafélögum og auðhringum þar, séð, hvaða gróða þeir hafa, séð, hvað þeir hafa greitt verkamönnum í vinnulaun, og þarf ekkert að vera að ræða um það, vera með neinar getsakir um það, hvort atvinnurekendurnir græða eða hve mikið þeir græði. Þetta liggur alveg hreint fyrir. Ár eftir ár hefur verið farið fram á það hérna á Íslandi að fá þessa hluti rannsakaða, fá íslenzkt þjóðfélag krufið til mergjar í þessum efnum, fá skilgreiningu á hinum ýmsu þáttum tekjumyndunar á Íslandi, fá það greint, hve mikið verðmæti það er, sem verkalýðurinn á Íslandi skapar, hvernig því verðmæti er varið, til hverra það verðmæti fer, hve mikið af því er gróði í einni mynd eða annarri. Þessu er alltaf þverneitað, og það fæst aldrei neitt fram, sem hægt sé að byggja á óhlutdræga mynd af íslenzka þjóðfélaginu. Það er lakar statt hér á Íslandi í þessum efnum en í nokkru nágrannaþjóðfélagi, sem ég þekki til í. Hér mætir svo að segja fullyrðing fullyrðingu, þegar verið er að ræða um þessa hluti. Og hvernig væri, ef við ættum að fara að reyna að vinna eitthvað í svona efnum, að fela hagstofunni að reikna út, hvernig gróðinn, hvernig gróðamyndunin er í íslenzku þjóðfélagi, hvar sú gróðamyndun fer fram, hvernig sá gróði skiptist, hjá hvaða aðilum hann er? Ég veit, að þetta er að því leyti dálítið erfiðara en í mörgum nágrannaþjóðfélögum okkar, að skattskýrslurnar eru heldur lélegri og að verðbólgan hefur þarna haft sín áhrif, þannig að allmikið af gróðanum kemur meira fram sem verðbólgugróði heldur en eðlilegur, beinn peningagróði, eins og mundi vera í þjóðfélögum með tiltölulega föstum gjaldeyri. Engu að siður hefur hvað eftir annað verið sýnt af okkar hálfu, án þess að það hafi verið hægt að hrekja það, fram á gífurlega gróðamyndun í því íslenzka þjóðfélagi. En það hefur aldrei fengizt hér á Alþingi nein rannsókn í þessum efnum. Og ég held, að ef ætti að fara að athuga tjónið í vinnustundunum, hvað mikið er af töpuðum vinnustundum t.d. vegna verkfalla, þá ætti að athuga um leið, hver er sá gróði, sem skapast við þær vinnustundir, sem unnar eru, hver er gróðinn, sem skapazt hefur í því íslenzka þjóðfélagi, og hvernig honum hefur verið varið.

Það koma náttúrlega ýmis fleiri mál í þessu sambandi, sem ég skal ekkí fara hér út í, sjálf fjárfestingin og það allt saman og hvernig henni hefur verið stjórnað, sem er eitt af því lakasta í ráðstöfunum íslenzks þjóðfélags. En ef við ætlum að reyna að vinna eitthvað að því að afstýra verkföllum og reyna að knýja fram, að það sé samið milli atvinnurekenda og verkamanna, án þess að til verkfalla komi, harðra og máske langra verkfalla, þá er eitt af því fyrsta, sem við þurfum að hafa, myndin af sjálfu þjóðfélaginu, myndin af öllum þeim auði, sem íslenzkur verkalýður skapar, myndin af því, hvernig þeim auði er varið, hvað mikið af þeim auði fer í gróða til atvinnurekendastéttarinnar og ýmissa, sem standa í sambandi við hana, hvað mikið af þeim gróða fer í beina eyðslu og alls konar ranga fjárfestingu og rangar ráðstafanir, hvað mikið af þeim gróða fer til fjárfestingar og annars slíks á vegum þjóðfélagsins sjálfs. Það er vitað mál, að íslenzkur verkalýður vinnur lengur og vinnur meira en nokkur verkalýður í nokkru af okkar nágrannalöndum. Og afköst íslenzkra verkamanna, — tökum t.d. það, sem við eigum hægast með að mæla, eins og sjómannanna, — eru miklu meiri en stéttarbræðra þeirra erlendis. Og þá hlýtur sú spurning þess vegna að verða áleitin: Hvernig stendur á því, að í þjóðfélagi, þar sem verkalýðurinn vinnur lengur en nokkurs staðar annars staðar hér í okkar nágrannalöndum, sýnir meiri afköst a.m.k. á fjölmörgum sviðum heldur en stéttarbræður erlendis, — hvernig stendur á því, að hjá slíkum verkalýð skuli sífellt vera verið að skera niður kaupgjaldið og það með opinberum ráðstöfunum, svipta hann með opinberum ráðstöfunum ávöxtunum af frjálsum samningum, sem hann hefur gert? Þetta eru hlutir, sem lægi nær að rannsaka og væri gagnvart verkalýð landsins sanngjarnara, að væri einhvers staðar rannsakað, heldur en nokkurn tíma það, sem hv. 9. landsk. er hér að leggja til. En auðvitað er hægt að laga þessa till. og bæta og sjá til þess, að bætt sé úr þessum göllum, sem verið hafa undanfarið á þeim rannsóknum, sem hefðu e.t.v. getað hjálpað til þess að afstýra ýmsum af þeim vinnudeilum, sem orðið hafa á Íslandi.