01.11.1961
Sameinað þing: 11. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í D-deild Alþingistíðinda. (3313)

31. mál, tjón af völdum vinnustöðvana

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram, að gera örfáar ábendingar, sem að mínu áliti eru fyrst og fremst tæknilegs eðlis.

Ég skal strax taka það fram, að ég er því í sjálfu sér hlynntur, að sú athugun, sem hér er um að ræða, verði gerð, þótt að mínu áliti séu að vísu mjög miklir tæknilegir örðugleikar á því að framkvæma hana þannig, að á slíkum niðurstöðum yrði verulega að byggja. En það mundi leiða of langt hér að fara út í þá hlið málsins.

Hv. þm. Alþb., sem hér hafa nokkrir talað, hafa lagt áherzlu á það, að ef slíka athugun eigi að framkvæma, megi ekki eingöngu taka tillit til þess tjóns, sem af vinnustöðvunum hafi leitt, heldur verði líka að taka tillit til þess ávinnings, sem af þeim leiði. Út af fyrir sig er ég þessu sammála. En í sambandi við það vaknar auðvitað spurningin um það, þegar meta á ávinninginn af vinnustöðvunum, fyrir hverja sé um ávinning að ræða. Ef þarna er um að ræða ávinning fyrir þjóðarheildina, verður það að mínu áliti mjög lítið, sem kemur í aðra hönd. Það er tvímælalaust, að vinnustöðvanir draga úr þjóðarframleiðslunni, meðan á þeim stendur, og þar kemur lítið á móti. Það eina, sem hægt væri að benda á í því sambandi, er sú staðreynd, að oft og tíðum, þegar til vinnustöðvunar dregur, er að vísuunnið meira rétt fyrir og eftir vinnustöðvunina en ella hefði verið gert. En hitt gefur auga leið, að sé um langvarandi vinnustöðvanir að ræða, vegur sá ávinningur eða sú aukning framleiðslunnar, sem af þessu kann að leiða, lítið á móti tjóninu af völdum vinnustöðvunarinnar, svo að sé litið á þetta frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar, hlýtur hér í flestum tilfellum að verða um að ræða nettótap.

Nú býst ég við, að þeim hv. þm. Alþb., sem hér hafa talað, sé þetta út af fyrir sig ljóst, þannig að þegar þeir tala um ávinning, er það ávinningur launþeganna. Þeir telja, að afleiðing vinnustöðvunarinnar geti orðið sú, að launþegarnir sem slíkir fái meira í sinn hlut en áður var. Það er hugsanlegur möguleiki, að þetta sé raunin að einhverju leyti. En á það má þó benda, að með tilliti til þess, að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarteknanna er launatekjur, hlýtur sá ávinningur alltaf að vera takmarkaður. Nú er það að vísu því miður þannig, og þar get ég tekið undir sumt, sem fram kom m.a. í ræðu hv. 3. þm. Reykv. (EOl), að upplýsingar um ýmsar þýðingarmiklar efnahagslegar staðreyndir hér á landi eru svo ófullkomnar, að það er varla grundvöllur fyrir því að ræða svona mál á málefnalegum grundvelli. Maður veit ekki fyrir víst um það, hvernig þjóðartekjurnar skiptast í launatekjur og annað. Ég mundi þó telja líkur á því, að launatekjur og sambærilegar tekjur, þar með t.d. taldar tekjur bænda, sem í rauninni eru launatekjur, þó að þeir séu ekki launþegar, og sömu augum má í rauninni líta á tekjur þeirra, sem lifa á eftirlaunum og styrktarfé, að það er í rauninni kaupgjald, sem greitt er eftir á, nemi um 90% þjóðarteknanna, svo að jafnvel þó að launþegarnir gætu aukið eitthvað í bili sinn hlut í þjóðartekjunum, yrði sá ávinningur lítill. En þar að auki efast ég mjög um það, að árangur þeirra verkfalla, sem háð hafa verið að undanförnu, sé jákvæður í þessu efni. Og það var athyglisvert, að þegar þeir hv. þm. Alþb., sem hér töluðu, nefndu tiltekin dæmi máli sínu til sönnunar, þá voru það yfirleitt ekki dæmi, sem sótt voru frá verkfallsbaráttu síðustu ára, heldur var farið aftur til ársins 1930 og jafnvel til ársins 1913, en þá voru þjóðfélagslegar aðstæður aðrar en nú og meiri líkur á því, að kaupgjaldshækkanir gætu leitt til aukinnar hlutdeildár launþeganna í þjóðartekjunum. Þá var efnahagskerfið í rauninni þannig skipulagt, að þær kauphækkanir, sem atvinnurekendur sömdu um, urðu þeir að bera sjálfir. Þeir höfðu yfirleitt ekki nema innan mjög þröngra takmarka möguleika á því að hækka verðið, því að þá leiddi samkeppnin annars staðar frá til þess, að þeir gátu ekki selt vöru sína. Bankar og lánastofnanir sögðu á þeim tíma við atvinnurekendur: Það er ykkar mál, hvort þið semjið um hærra kaupgjald, en okkur dettur ekki í hug að auka lánveitingar til ykkar um einn eyri vegna þeirra kanpgjaldshækkana, sem þið kunnið að semja um. — M.ö.o.: á þeim tímum urðu atvinnurekendur yfirleitt sjálfir að bera þær kauphækkanir, sem þeir sömdu um. Ef boginn var of hátt spenntur, gat þetta auðvitað leitt til samdráttar og atvinnuleysis, en kaupmáttur launa óx þá að jafnaði nokkurn veginn sem launahækkununum nam, og þá mátti, einmitt vegna þess að atvinnurekendur urðu, miðað við þeirra tíma kringumstæður, að bera kanphækkanirnar sjálfir, færa nokkur rök að því, sem fram kom hér í ræðu hv. 2. landsk. þm., þegar hann benti á það, að það, að vinnuaflið yrði dýrara, væri atvinnurekendum hvöt til þess að koma á fullkomnari tækni o.s.frv. Það átti við þá. En eins og aðstæðurnar hafa verið hér á landi að undanförnu, þá held ég, að ekki sé hægt að segja þetta.

Það er staðreynd, að þær kauphækkanir, sem orðið hafa, hafa ekki leitt til neinnar endurskiptingar á þjóðartekjunum, heldur aðeins til rýrnunar á verðgildi peninganna. Atvinnurekendur hafa að jafnaði tafarlaust velt kauphækkunum yfir í verðlagið, og bankar og aðrar lánastofnanir hafa fylgt þeirri stefnu að auka öll lán til fyrirtækjanna í sama hlutfalli og kaupgjaldið hefur hækkað, þannig að hlutdeild launþeganna í þjóðartekjunum hefur þannig ekki aukizt. Þjóðartekjurnar hafa verið þær sömu og skipting þeirra ekki breytzt frá því, sem áður var, en þær hafa bara verið metnar á annan mælikvarða. Það er þetta, sem raunverulega hefur skeð, og að mínu áliti má meira að segja færa að því vissar líkur, að það sé síður en svo ástæða til að ætla, að þessar kaupgjaldshækkanir hafi aukið hlutdeild launþeganna í þjóðartekjunum. Allar upplýsingar, sem fyrir hendi eru um þetta efni, benda til þess, að ekki sé um slíka aukningu þjóðarteknanna að ræða. Í þessu sambandi má minna á athugun, sem gerð var fyrir nokkrum árum, ekki af hagstofunni, heldur af sjálfu Alþýðusambandi Íslands, á þróun kaupmáttar launanna frá því í styrjaldarlok og fram til 1958. Það er enginn, sem hefur átt meiri þátt í því að útbreiða einmitt þetta álit en hv. 3. þm. Reykv., sem hér talaði áðan, og tel ég það liðnum til sóma út af fyrir sig. En niðurstaða þessa álits var sú, að engin breyting hefði orðið til hækkunar á kaupmætti launa á þessu tímabili, sem telja má mjög óeðlilegt, miðað við þá þróun, sem átt hefur sér stað í nágrannalöndunum. Nú veit ég, að svarið við þessu verður það, að ef verkföllin hefðu ekki verið háð, hefði kaupmátturinn í stað þess að standa í stað rýrnað og hlutdeild launþeganna í þjóðartekjunum hefði þá orðið minni en hún nú er. Ég dreg mjög í efa, að þessi niðurstaða sé rétt, og tel allar líkur til hins gagnstæða, bæði með tilliti til þess, að meginhluti þjóðarteknanna er launatekjur, eins og ég áður benti á, og í öðru lagi tel ég síður en svo líkur á því, að þær kaupgjaldshækkanir, sem hér hafa orðið, og afleiðingar þeirra hafi orðið til þess að draga úr gróðamyndun í landinu. Ég held, að það gagnstæða hafi í rauninni átt sér stað. Í fullkomlega frjálsri samkeppni, þar sem ekki eru einokunarmyndanir, á gróði til lengdar í rauninni að vera útilokaður, því að ef gróði verður í einhverri tiltekinni atvinnugrein, leiðir það til aukinnar samkeppni annars staðar frá. Framleiðslan í þeirri grein vex, þangað til verðið lækkar ofan í framleiðslukostnað. Nú mundu sumir kannske segja við þessu: Er ekki frjáls samkeppni t.d. í Bandaríkjunum, og var ekki frjáls samkeppni í Þýzkalandi fyrir 1930, og er það ekki nú, og samt græða auðhringarnir í þessum löndum geysimikið fé? Nei, það er nefnilega svo, að það hefur ekki ríkt frjáls samkeppni í þessum löndum. Bæði Bandaríkin og Þýzkaland hafa verið höfuðvígi tollverndunarstefnunnar eða hlaðið um sig háum tollamúrum, og það er í skjóli þessara tollamúra einmitt, sem þessi gróði auðhringanna hefur myndazt. Hvernig ætli það hafi verið hér á landi? Jú, þegar kaupgjald hefur hækkað umfram það t.d., sem sjávarútvegurinn hefur borið, hafa viðbrögðin við því, til þess að forða stöðvun, að jafnaði verið þau, að gripið hefur verið til víðtæks uppbóta- og haftakerfis. Því, að aukin kaupgeta vegna launahækkana leiddi til síversnandi gjaldeyrisafkomu, hefur verið mætt með því að taka upp ströng innflutningshöft og gjaldeyrisskömmtun. Það fyrirkomulag hefur þannig oft og tíðum einmitt verið bein afleiðing kauphækkana umfram það, sem sjávarútvegurinn og aðrir atvinnuvegir gátu borið. En innflutningshöftin hafa ekki orðið til þess að draga úr gróðamyndun í landinu, heldur alveg þvert á móti. Fyrir 1930, eða áður en innflutningshöftin komu til sögunnar, var það alltitt, að innflutningsfyrirtæki fóru blátt áfram á höfuðið, ef þau höfðu gert óhagstæð innkaup. Eftir að innflutningshöftin komu til sögunnar, held ég, að slíkt hafi varla komið fyrir. Innflutningshöftin hafa breytt þannig aðstöðu verzlunarfyrirtækjanna og fleiri fyrirtækja hér á landi, að eigendur þessara fyrirtækja hafa í rauninni haft nokkurn veginn svipaða aðstöðu og opinberir starfsmenn hafa í dag. Þeir hafa að vísufengið skammtaðan sinn innflutning og oft og tíðum skammtaða sína álagningu. Hins vegar var í skjóli haftakerfisins fullkomið öryggi um það, að allt, sem þeir fengu innflutningsleyfi fyrir, það gátu þeir selt á því verði, sem leyft var. Öll áhætta í þessari starfsemi hefur þannig orðið úr sögunni, og það er athyglisvert, að fyrir 1930, meðan hér var frjáls verzlun, þá var það sjávarútvegurinn, sem fyrst og fremst bar útsvörin hér í bæ. Eftir 1930 snýst þetta þannig við, að það er verzlunin og iðnaðurinn, sem fyrst og fremst bera útsvörin, enda eru það þessar atvinnugreinar, sem einmitt í skjóli haftanna hafa blómgazt á kostnað útflutningsframleiðslunnar, þannig að niðurstaðan af þessu hlýtur fyrir fram að verða frekar neikvæð.

Það eru ekki líkur á því, að kaupgjaldshækkanirnar hér á landi að undanförnu hafi aukið hlutdeild launþeganna í þjóðartekjunum. Ég játa, að bæði það, sem ég segi hér og aðrir hafa sagt, er að mjög litlu leyti byggt á staðreyndum, og ég er því sammála, að æskilegt væri að fá um þetta þær upplýsingar, að slíkar umr. gætu orðið meira málefnalegar en grundvöllur er fyrir nú, og með tilliti til þess mun ég styðja það, að sú till., sem hér liggur fyrir, verði samþykkt, þó að ég geri mér ljósa þá örðugleika, sem á því eru að framkvæma slíka athugun.