08.11.1961
Sameinað þing: 13. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í D-deild Alþingistíðinda. (3316)

31. mál, tjón af völdum vinnustöðvana

Einar Olgeirsson [frh.]:

Herra forseti. Ég mun hafa, þar sem ég lauk ræðu minni síðast, hafa verið að ræða við hv. 9. landsk. þm., flm. þessa máls, og held, að ég hafi aðeins átt eitt atriði eftir í sambandi við það, sem hann hér hafði sérstaklega sagt. Það var viðvíkjandi því, sem við höfðum nokkuð deilt um, hvern árangur verkföll almennt gætu borið. Við höfðum rætt um það nokkuð viðvíkjandi verkamönnum og launþegum almennt, og því held ég, að ég hafi að mestu þá svarað. En það, sem var eftir, var að ræða um, hver ávinningur væri að kauphækkunarbaráttu verkamanna fyrir þjóðfélagsheildina. og það er nauðsynlegt, að það sé alveg greinilega og vel undirstrikað og reynt að gera hv. þm. sem ljósast, til þess að þeir átti sig á, af því að það vill oft verða í þeim almenna áróðri, að lagðar séu einhliða áherzlur á þær miklu fórnir, sem standa í sambandi við verkföllin, og það tjón, .sem þjóðfélagsheildin biður við þau, ef þau verða löng, en ekki að sama skapi, hver árangur er að því fyrir þróunina í þjóðfélaginu. Sannleikurinn er sá, að allan þann tíma, sem auðvaldsskipulagið hefur staðið, hefur þessi kauphækkunarbarátta verkalýðsins, við skulum segja síðustu 100 ár, þá hefur hún verið aðalaflið, sem hefur knúið fram framfarirnar í þjóðfélaginu. Svo fremi sem þessi barátta hefði aldrei veríð, svo fremi sem verkalýðurinn hefði, strax og stóriðnaðurinn myndaðist í Englandi, sætt sig við þau hörmulegu kjör, sem hann þá bjó við, og ekki tekið að berjast af öllum sínum lífsog sálarkröftum, sem voru ekki sérstaklega miklir þá, fyrir því að bæta þessi kjör, þá hefðu þeir, sem réðu, atvinnurekendurnir í þjóðfélaginu, látið við svo búið sitja. Við hefðum enn þá vinnutíma fyrir börn allt niður í 7 ár í kolanámum og verksmiðjum og sæjum kynslóðirnar hrynja í þá gröf, sem kapítalisminn bjó þeim, eins og þá var í Englandi, meðan engin verkamannasamtök voru til. Það eru verkamannasamtökin, sem hafa knúið þessar framfarir fram, sem hafa knúið auðvaldið nú í 100 ár til þess að gera sífelldar breytingar á sjálfu auðvaldsskipulaginu og gera sérstaklega stórkostlegar tæknilegar breytingar. Allar þessar breytingar hafa verið gerðar vegna þess, að auðmennirnir kvörtuðu yfir því, að verkamennirnir gerðu svo ósvífnar kröfur til betra lífs, að það yrði þess vegna í sífellu að breyta allri tækninni, til þess að gróði auðmanna gæti engu að síður haldið áfram, þó að verkamenn kæmust upp með að gera svona ósvífnar kröfur og knýja það fram, að vinnutíminn væri, styttur úr 14–16 tímum smám saman meira að segja niður í 8 tíma og að laun væru hækkuð að sama skapi. Og við verðum að gera okkur grein fyrir því, að þessar risavöxnu framfarir, sem orðið hafa í auðvaldsskipulaginu, eru fyrst og fremst þessari baráttu að þakka og því, að auðmannastéttin hefur orðið að laga sig að þessari baráttu, hefur orðið að samræma sitt tæknilega stig þessum krafti, sem var nægilega sterkur hjá verkalýðnum til þess að geta sigrað hana í atundarhagamunaátökum. Og það var engin tilviljun, að einmitt á þeim stað og í því landi, þar sem verkamenn unnu alveg sérstaklega mikla sigra í þessum efnum á 19. öldinni, í Bandaríkjum Norður-Ameríku, þar urðu framfarirnar alveg sérstaklega hraðar. Við vitum það, að í Evrópu var alla 19. öldina ag framan af 20. öldinni og er jafnvel enn talað um það háa kaup, sem verkamenn hafa í Bandaríkjunum. En hver hefur orðið afleiðingin einmitt af þessu háa kaupi? Hún hefur orðið sú, að atvinnurekendurnir hafa orðið í sífellu að skipuleggja sinn atvinnurekstur betur og betur. Það hefur þýtt, að tækniþróunin hefur orðið meiri og hraðari, og það hefur þýtt, að auðmannasamsteypurnar hafa orðið voldugri og voldugri, smáiðnaðurinn hefur dottið niður og stóru auðsamsteypurnar, sem náttúrlega reka sinn atvinnurekstur á miklu praktískari máta, hafa tekið við. Þess vegna verðum við að gera okkur ljóst, að þessi stéttabarátta, þessi kauphækkunarbarátta verkalýðsins er um leið eitt höfuðframvinduaflið í sjálfu auðvaldsskipulaginu.

Hvað hefur núv. hæstv. ríkisstj. gert í þessu efni? Við höfum oft verið að tala um það, þegar við höfum deilt um þessi mál undanfarið, að það hafi í 20 ár hjakkað í sama farinu kaupmáttur tímakaupsins á Íslandi. Og við höfum ekki getað orðið sammála um það hér í þinginu, hvernig stendur á þessu. Ég hef lýst því yfir við allar þær umr., sem fram hafa farið um þessi mál, að þetta álít ég að við ættum að reyna að kryfja til mergjar til að reyna að komast að niðurstöðu um, hvernig stæði á. Er sú verðbólga, ef við viljum kalla hana það, sem ríkt hefur í þjóðfélaginu nú á 20 ár, því að kenna, að verkamenn hafa knúið fram kauphækkanir? Þeir hafa og þó tiltölulega sjaldan á þessum tíma, stundum annað hvert ár, stundum þriðja hvert ár, knúið fram nokkra hækkun á sínum launum. Er verðbólgan því að kenna, að þeir hafa knúið fram þessar hækkanir? Nei, hún er ekki því að kenna. Ef verkalýðurinn knýr fram kauphækkun, hver er þá afleiðingin af því í þjóðfélagi, þar sem er haldið með einhverri festu á peningamálunum? Afleiðingin af því, að atvinnurekandinn gerir samning við verkamanninn um að borga honum hærra kaup, er, að atvinnurekendur hugsa með sér: Hvernig get ég nú, án þess að láta það ganga út yfir minn gróða eða auka mitt tap á mínum atvinnurekstri, staðið undir þessari kauphækkun? Það þýðir, að atvinnurekandinn reynir að gera endurbætur á sínum rekstri, hann reynir að finna út betri aðferð til síns atvinnurekstrar, eða ef atvinnureksturinn er of lítill og þess vegna mjög ópraktískur, reynir hann að steypa sínu atvinnufyrirtæki saman við önnur atvinnufyrirtæki, til þess að heildarkostnaður við að reka þau verði minni. M.ö.o.: ef atvinnurekandinn hefur aðhald frá þjóðfélaginu, frá ríkinu og ríkisstj., bætir hann sinn atvinnurekstur, kemur á nýrri tækni, kemur á nýju skipulagi, stækkar hann eða annað slíkt, m.ö.o., hann lætur undan þessum kröfum verkalýðsins á þann hátt, að hann skapar framfarir í þjóðfélaginu, tæknilegar og skipulagslegar framfarir. Þetta gerir atvinnurekandinn og atvinnurekendastéttin í heild, svo framarlega sem ríkjandi stjórnarvöld ýta ekki undir hann að gera eitthvað annað. Ef ríkjandi stjórnarvöld hins vegar segja við atvinnurekandann: Heyrðu, góði, það gerir ekkert til, þótt þú hafir fallizt á einhverja kauphækkun, við skulum bara lofa þér að hækka verðið að sama skapi. Við skulum láta vöruna verða því dýrari, þannig að þitt helzt það sama, við sömu vitleysuna í rekstrinum, en reksturinn er jafnópraktískur, eða við lækkum bara gengið, ef útflutningsatvinnuvegurinn hefur sérstaklega mikla þýðingu, — þá sleppir þar með ríkisstj. aðhaldinu að atvinnurekstrinum eða atvinnurekendastéttinni um að endurbæta, og það er það, sem hér hefur verið gert í 20 ár. Þegar þessi ríkisstj. komst til valda, lýsti hún því yfir, að hún mundi hætta við þessa aðferð, og það var e.t.v. það eina jákvæða, sem ég sá í yfirlýsingum þessarar hæstv. ríkisstj., að hún lýsti því yfir, að hún mundi ekki láta atvinnurekendurna, ef þeir semdu við verkamenn um hækkað kaup, fá aðstöðu til þess að hækka verð á sinni vöru að sama skapi, fá útflutningsuppbætur, fá gengið lækkað eða annað slíkt.

M.ö.o.: þessi ríkisstj. lýsti því yfir, að atvinnurekendur yrðu að standa á eigin fótum, þeir yrðu sjálfir að bera ábyrgð sinna gerða. Og þetta var eitt langþýðingarmesta atriðið í yfirlýsingu ríkisstj. og stefnu hennar. Þetta gat þýtt, að atvinnurekendur á Íslandi yrðu að sýna einhverja ábyrgðartilfinningu, yrðu að vinna að því að knýja fram framfarir í þjóðfélaginu, yrðu að hætta sinni verðbólgupólitík. Þess vegna var það, að þegar atvinnurekendurnir féllust á 10% hækkun eða hvað við viljum telja, 10—11% eða 12%, í sumar, þá þýddi það, að nú urðu atvinnurekendur að gera verulega stórkostlegar breytingar á sínum atvinnurekstri, og var sannarlega tími til kominn. Þess vegna er það, að það, sem ríkisstj. gerði, og það ætla ég ekki að fara að ræða hér, að láta undan í sambandi við gengislækkunina og það í þessu efni, það var að bregðast allri sinni stefnu, það var að svipta þjóðarheildina þeim ávinningi, sem þjóðarheildin gat haft af kauphækkunarbaráttu verkamannanna í sumar. Það, sem við einmitt þurftum á að halda, var, að atvinnurekendur tækju sig til með að gera verulega stórar endurbætur á sínum atvinnurekstri. Hér er öðru hverju verið að tala um, að það eigi að vera eitthvert samstarf milli atvinnurekenda og verkamanna um það. Það getur verið ágætt út af fyrir sig að hafa samstarf um það. En atvinnurekendur hafa haft allt vald allan þann tíma, sem þeir hafa stjórnað atvinnurekstri hér á Íslandi, til að gera breytingar á sínum atvinnurekstri. Það hefur aldrei staðið á verkamönnum við það, enda hafa þeir ekki verið spurðir að því. Atvinnurekendastéttin hefur haft allt það vald, sem hún hefur viljað, í þessum efnum. Þeir hafa svo bara brugðizt þeirri skyldu, sem þeir áttu að rækja fyrir þjóðarheildina í þessu sambandi. Í staðinn fyrir að knýja atvinnurekendur í sífellu til þess að endurbæta og umskipuleggja sinn atvinnurekstur var látið undan í sumar með nýrri verðbólgu- og gengislækkunarpólitík. Þar með var þjóðfélagið svipt þeim árangri, sem einmitt gat orðið af þessum kauphækkunum, og svo náttúrlega verkalýðurinn sviptur þeim ávinningi. Það hafði ég þegar áður rætt um. Þetta held ég að hafi verið það seinasta, sem ég átti eftir í sambandi við þau orð, sem féllu milli mín og hv. 9. landsk., að segja við hann.

Þá ræddi hv. 11. þm. Reykv. hér nokkuð um þessi mál og fór, eins og okkur hefur öllum hætt við í þessum umr., nokkuð út í þessi mál almennt. Hann kom sérstaklega inn á það, hv. 11. þm. Reykv., að það hefði ekki farið hér fram á þessum 20 árum endurskipting þjóðarteknanna. Það snertir nú raunverulega einmitt það, sem ég var að segja hér áðan. Af hverju hefur þessi endurskipting ekki farið fram, þrátt fyrir þessa baráttu? Það er einmitt að kenna þessari svikamyllu verðbólgunnar. Í hvert skipti, sem launþegastéttirnar í landinu hafa knúið fram hækkun, hefur þessi svikamylla verðbólgunnar verið sett í gang. Þess vegna hefur ekki sú endurskipting farið fram á þann hátt, sem eðlilegastur væri, sem sé með því, að í sjálfum atvinnurekstrinum væru knúnar fram meiri framfarir, betri skipulagning, ný atvinnutæki og nýir .atvinnuvegir.

Hv. 11. þm. Reykv. kom í þessu sambandi inn á spursmálið um aukninguna á framleiðslunni, og ef ég man rétt, — það er nú vist orðið nokkuð langt um liðið síðan, — þá var hann að tala um eðlilega framleiðsluaukningu. Ég þori nú ekki alveg að fullyrða, hvaða tölur hann var með, af því að ég hef ekki skrifað það hjá mér, en mig minnir, að hann hafi minnzt eitthvað á milli 5 og 7%, og það eru tölur, sem líka hefur hjá hæstv. viðskmrh. alloft borið hér á góma, þegar við höfum verið að ræða þessi mát hér almennt. Nú verð ég að taka það fram, að þarna er ekki um neinar algildar tölur að ræða. Við skulum siður en svo slá því föstu, að aukning á þjóðarframleiðslu geti ekki verið meiri en t.d. 5—7% og þar í kring. Ég held, að síðasti áratugurinn í Evrópu sýni í auðvaldslöndunum í Evrópu frá 3 upp í 91/2 % aukningu á ári á þjóðarframleiðslunni. Ég held, að Bretland sé einna lægst þar með um 3% og Vestur-Þýzkaland hæst með upp í 91/2%, en í sósialístísku löndunum eru þessar sömu tölur yfirleitt 10—11% og allt upp í 28%, sem er í Kína, — ég býst við, að Sovétríkin séu eitthvað í kringum 13–14%. Það er náttúrlega dálítið ónormalt í þeim tölum, sem þarna eru hæstar í hvorri deildinni fyrir sig, ef við viljum taka það þannig. Vestur-Þýzkaland varð að reisa sig úr rústum styrjaldarinnar og Kína að byggja sig upp frá ákaflega frumstæðu bændaþjóðfélagi. En engu að síður er það alveg gefið með tiltölulega frumstætt land eins og okkar, að aukning þjóðarframleiðslu getur hæglega, ef hér er almennilega að unnið, verið yfir 10% á ári. Með nokkurn veginn viturlegri stjórn á íslenzkum þjóðarbúskap er það hægur vandi að auka framleiðsluna um 10% á ári. Þar kemur náttúrlega eitt inn í, sem alltaf skapar náttúrlega meiri gárur á okkar aukningu þannig, og það er okkar afli, vegna þess, hve mikið við byggjum á sjávarútveginum og fiskaflanum. En við verðum að gá að því, að líka því getum við stórkastlega breytt, bara með því að koma á miklu meiri fullvinnslu í landinu úr því, sem við öflum, miklu meiri iðnaði á grundvelli okkar sjávarútvegs. Þá mundu þær miklu sveiflur, sem stafa af því, að við höfum fyrst og fremst verið veiðiþjóð, sem flytur út aflann óunninn eða hálfunninn, — þá mundi það gerbreytast hjá okkur, þannig að við verðum að minnast þess, þegar við tölum um endurskiptingu þjóðarteknanna og aukningu þjóðarteknanna, að það er ekki hlutur, sem er eitthvað ákveðið frá náttúrunnar hálfu. Það er hlutur, sem þjóðfélagið sjálft ræður við að mjög miklu leyti, þó að við getum ekki stjórnað aflanum enn þá, þannig að alþýða manna í landinu, t.d. launþegarnir eiga það í þessu tilfelli undir stjórnarvöldunum og hvernig þau stjórna, hvort þjóðarframleiðslan eykst og hve mikið á ári, þannig að það er ekki hægt að svara launþegunum því, þegar þeir eru að koma með sínar kröfur um launahækkun: Þjóðfélagið ber ekki þetta og þetta, — ef þeir, sem þjóðfélaginu stjórna, hafa stjórnað því svo illa, að möguleikarnir til þess að láta þjóðarframleiðsluna vaxa hafa ekki verið hagnýttir.

Launþegastéttin í landinu á ekki að bera byrðarnar af því, ef yfirstéttin í landinu stjórnar svo illa og svo vitlaust og með svo lítilli fyrirhyggju, að þjóðarframleiðslan vex ekki eins og hún gæti vaxið. Það er þess vegna engin spurning um það, að heildarstjórnin á okkar þjóðarbúskag hlýtur alltaf að vera langsamlega þýðingarmesta atriðið í deilumálunum um alla þessa hluti, og það að ætla að fara blása út t.d. tjónið, sem er af einstökum verkföllum, þá sjaldan þau eru, til þess að reyna að gera það að einhverju aðalatriði í sambandi við afkomu þjóðarinnar og slíkt, það er algerlega rangt. Fyrsta spursmálið fyrir okkur var að skipuleggja okkar atvinnurekstur þannig, að þjóðartekjurnar yxu miklu meira og miklu hraðar en verið hefur á undanförnum árum, og þá var um leið miklu meiri grundvöllur til endurskiptingar þeirra. En meira að segja ef yfirstéttin vanrækir slíka stjórn á þjóðarbúskapnum, á meðan hún á annað borð ræður, á ekki verkalýðurinn eða alþýða manna að sætta sig við slíkt. Hann á ekki að sætta sig við slíka óstjórn yfirstéttarinnar. Þá verður hann að rísa upp og knýja fram sínar kauphækkanir og láta yfirstéttina þá standa frammi fyrir því, hvað hún gerir á eftir, hvort hún kýs heldur að reyna að halda áfram þessari verðbólgupólitík og gengislækkunarpólitík eða hvort hún kýs að lokum að reyna að stjórna þjóðfélaginu eitthvað betur, tæknilega, skipulagslega, stjórnmálalega. Hvernig sem við lítum á þetta, þá verður þess vegna alltaf kauphækkunarbarátta verkalýðsins, stéttabarátta verkalýðsins, það verður aflið, sem knýr fram þróunina í okkar þjóðfélagi. Án þess stendur hún kyrr.

Þetta var viðvíkjandi því, sem hv. 11. þm. Reykv. hafði sagt viðvíkjandi endurskiptingu þjóðarteknanna. Hins vegar ber það oft á góma og bar líka í þessum umr., að það hefði verið rætt um, að það hefði máske ekki orðið mikil breyting á afkomu manna vegna þess, hvað vísitalan um kaupgetu tímakaups sýndi litla breytingu til bóta og jafnvel oft enga. Við verðum að gera okkur það ljóst, að á þessum 20 árum hefur orðið frá því, sem var fyrir styrjöldina, mesta breyting, sem nokkurn tíma hefur orðið í Íslandssögunni á efnahag íslenzku þjóðarinnar og vinnandi stéttanna þar með líka. Og það hef ég nú þegar getið um í sambandi við það mikla stökk, sem gert var í þeim efnum 1942, og skal ekki fara frekar út í það. En breytingin, sem orðið hefur síðan, eftir að sú kaupgeta tímakaupsins náðist, sem varð 1942, stafar að ákaflega miklu leyti af því, hve mikil vinna hefur verið unnin. Við skulum gera okkur það ljóst, að okkar þjóð og okkar vinnandi stéttir sérstaklega hafa unnið meira og hafa unnið lengur en nokkrar launþegastéttir í Evrópu hafa gert á þessum 20 árum. Hjá a.m.k. öllum þorranum, sérstaklega verkalýð í Reykjavík, um mestallt þetta tímabil hefur verið 10–11 tíma vinnudagur, og þar að auki hefur verið unnið ákaflega oft allan þann tíma, sem menn hafa átt að hafa orlof, og ákaflega oft sunnudaga. Það liggur við, að svo að segja allt, sem bæði kristindómurinn og kommúnisminn hafa knúið fram á undanförnum öldum til endurhóta á lífskjörum verkalýðsins hvað hvíld snertir, sem sé það að halda sunnudaginn heilagan og það að fá orlof og annað þess háttar, það hafi verið þurrkað út á Íslandi á síðustu 20 árum. Menn hafa unnið eins og þrælar næstum því, og menn hafa líka unnið afrek, menn hafa unnið kraftaverk hér á þessum tíma. Það þarf ekki annað en að líta á, það er alveg nýtt Ísland, sem búið er að skapa hvað snertir íbúðarhús og mannvirki á Íslandi. Og það má heita, að svo og svo mikið af öllu þessu sé unnið utan 8 tíma vinnudags. Það hefur orðið gífurleg breyting á efnahag manna. Ég býst við t.d., að hér í Reykjavik eigi upp undir 50% af launþegum sínar eigin íbúðir nú sjálfir — upp undir það — eða eru a.m.k. að berjast við að eignast þær, sem var alveg gerólikt fyrir stríð, Það var draumur, sem fæstir gátu látið rætast þá. En ég vil um leið undirstrika, að það er hætta á, að þetta glatist, tapist meira eða minna nú, með þeirri pólitík, sem núv. hæstv. ríkisstj. rekur. Menn eru að missa sínar íbúðir nú vegna þess, hve menn fá lítið fyrir sitt tímakaup. Það er allt í hættu, sem áunnizt hefur á undanförnum áratugum í þessu efni. Og svo framarlega sem ekki verður hér breyting á, þannig að þegar verkamönnum tekst að hækka sitt kaup, fái kaupmátturinn að haldast, þannig að menn hafi meira afgangs en ella, þá er gefið, að okkur fer að hraka aftur í þessum efnum, — fyrir utan svo hitt, að við verðum að gá að því, að þessi gífurlega vinna, sem þjóðin framkvæmir, er til tjóns fyrir hana, heilsufarslega og menningarlega séð, eins ag við höfum minnzt á áður. Þetta vildi ég aðeins segja viðvíkjandi því, sem við höfðum verið að deila um, viðvíkjandi breytingunni á efnahag.

Þá kom hv. 11. þm. Reykv. nokkuð inn á, hvort það hefðu ekki vorið alveg þýðingarlaus þessi verkföll, sem háð hefðu verið, kjörin hefðu rýrnað hvort sem er. Við verðum þarna að gera okkur eitt ljóst. Hefðu þessi verkföll ekki verið háð, hefði þessi kauphækkunarbarátta ekki verið knúin fram, þá hefðu kjörin versnað miklu meira, þá hefðu þau farið hríðversnandi. Það er gefið mál, að þessi verkföll hafa, þegar þau gátu ekki orðið sóknarsigrar, þá urðu þau varnarsigrar, þá urðu þau þó til þess að hindra það, að kjörin væru enn þá meira rýrð.

Og svo held ég, að hv. 11. þm. Reykv. hafi lokið sinni ræðu með því að minnast nokkuð á þau stóru ríki úti í Evrópu, sem hefðu hlaðið um sig tollamúrum, kom nokkuð inn á það, sem ég hafði verið að ræða um í sambandi við auðhringana. En það var aðeins eitt, sem ég vildi leiðrétta hjá honum í því. Hann talaði um, að þessi ríki hefðu skapað mikinn gróða í skjóli tollamúranna. Það er misskilningur. Ef hv. þm. heldur, að þeir voldugu auðhringar, við skulum segja í Þýzkalandi, Englandi eða annars staðar, skapi sér eingöngu gróða í skjóli tollamúra, sem þeir hafa hlaðið í kringum sig, — og mér skildist næstum því á honum, að hann héldi, að ef þessir tollamúrar yrðu rifnir niður, ef t.d. Efnahagsbandalag Evrópu yrði myndað eða yrði stækkað, þá mundi þessi gróði hverfa. Og ég held, — það er að vísu orðið langt um liðið síðan, — ég held, að hann hafi rætt eitthvað um það, að innan þessara tollamúra hafi frjáls samkeppni verið afnumin og jafnvei auðhringar drottnað þar og náð sínum gróða í skjóli slikra tollamúra. Þetta mundi síður en svo verða afnumið, svo framarlega sem Efnahagsbandalag Evrópu næði yfir t.d. England líka. Það mundi aðeins þýða, að tollamúrarnir væru í kringum margfalt stærra svæði en áður og innan þessara tollamúra yrðu þeir voldugu auðhringar, hvort heldur það væru stál- og kolahringar Þýzkalands eða Unilever-hringur Bretlands, þá yrðu þeir jafnt ráðandi eftir sem áður, en enn þá voldugri einmitt við það, að það er stærra svæði, sem þeir þá ráða yfir. Gróðann hins vegar taka þessir voldugu hringar fyrst og fremst af þeim verkalýð, sem vinnur hjá þeim. Gróðinn skapast við það, að verkalýðurinn fær ekki greitt nema hluta af því raunverulega andvirði þess vinnuafls, sem hann lætur þessum auðmönnum í té, þannig að gróðinn mundi halda jafnt áfram að vaxa eða vera til, allt eftir því, hvernig gengi annars vegar um stéttabaráttu verkalýðsins til að ná hluta af honum til sin og hins vegar um sjálfa tækni- og skipulagsþróun þessara auðhringa í þá átt að geta skapað sér meiri gróða, jafnvel þó að þeir verði að láta verkalýðnum, sem við þá berst, meiri laun í té.

Við skulum þess vegna gera okkur ljóst, ekki sízt ef það væri fyrirhugað að fara að innlima Ísland í slíka efnahagssamsteypu, að þá mun ekki siður af veita, að íslenzkur verkalýður sé reiðubúinn til harðvitugrar baráttu fyrir bættum kjörum sínum. Þá býst ég við, að það mundi verða komið svo, að öll íslenzka þjóðin ætti það undir þeirri baráttu, hvernig henni vegnaði, því að ég býst ekki við, að það yrðu þá eftir skamman tíma margir atvinnurekendur eftir á Íslandi. Þegar erlendir auðhringar væru orðnir frjálsir um að eiga hér og stjórna atvinnurekstri, þá yrði þessi litla atvinnurekendastétt, sem við höfum haft hér og þjóðfélagið hefur verið að reyna að halda lífinu í og ýta undir á ýmsan máta, þó að hún hafi ekki staðið sig eins vel og hún hefði átt að gera, þá býst ég við; að það yrði ekki lengi verið að trampa hana niður undir hrosshófum þeirra auðmannahringa, sem þá héldu hér innreið sina, og þorri Íslendinga yrði þá eingöngu launþegafólk, sem ætti alla sina afkomu undir því, að launþegasamtökin væru nógu harðvítug í baráttu íslenzku þjóðarinnar við þessa auðhringa, til þess að reyna að knýja fram sem bezt lífskjör íslenzku þjóðinni til handa. Það leiðir okkur nú nokkuð frá þessu máli, sem hér var til umr. En það er náttúrlega ekki nema eðlilegt, að slíkt komi upp, þegar lögð er fyrir þingið till. um að reikna út tjón af völdum vinnustöðvana. Það hefði verið miklu nauðsynlegra að leggja fyrir þingið tillögur um það að reikna út, hvað vinnustöðvanirnar, þegar verkamenn hafa verið knúðir til þeirra, hafi þó leitt gott af sér fyrir íslenzkan verkalýð og fyrir íslenzka þjóð og hvernig hins vegar misvitrum stjórnarvöldum á hinum ýmsu skeiðum hafi tekizt að eyðileggja þann árangur, sem orðið hefur af kauphækkunarbaráttu íslenzks verkalýðs, með misvitrum stjórnmálalegum ráðstöfunum, — og þeirra síðust og verst er gengislækkunin.

Það er búið að gera till. um, að þessi till. fari til nefndar, og það er ekki nema eðlilegt. En ég vil mjög skjóta því til þeirrar nefndar að athuga um breytingu á þessari þáltill., ekki sízt ef við gætum komið okkur saman um að reyna nú einu sinni að fá það fram, sem oft hefur verið talað um hér á Alþingi og aldrei gert neitt í, að láta okkur í té og þar með líka þeim samtökum í landinu, samtökum hinna ýmsu stétta, sem deila sín á milli, óhlutdræga undiratöðu, óhlutdrægar rannsóknir á efnahag landsins og afkomu stéttanna, þannig að þegar við erum að deila um þessi mál, þá þurfum við ekki að vera með tómar tölur til ágizkunar allar saman, heldur getum sagt: Flettu upp í bókunum, — eins og hver einasta menningarþjóð Evrópu og Ameríku getur flett upp í bókunum ag sagt: Svona er mikill gróði á íslenzkum atvinnurekstri, í þessa hluti fer hann og svona og svona væri hægt að hafa þetta öðruvísi og greiða verkalýðnum þar með hærri laun. Ef þessi till. gæti orðið til þess, að við gætum komizt að niðurstöðu um að fara fram á við þær stofnanir í þjóðfélaginu, sem slíkt gætu rannsakað, að þær létu okkur slíkar skýrslur í té, þá væri kostur að því að hún hefði verið borin fram, þó að það hafi ekki að öllu leyti fylgt henni góður hugur frá hálfu flm., eins og þegar hefur verið rakið.