08.11.1961
Sameinað þing: 13. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í D-deild Alþingistíðinda. (3317)

31. mál, tjón af völdum vinnustöðvana

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að taka þátt í umr. um þessa till., en vegna ummæla, sem hv. frsm. lét falla hér, þegar till. var til umr. seinast í Sþ„ tel ég rétt að segja nokkur orð og víkja jafnframt að nokkrum fleiri atriðum í tilefni af því.

Hv. frsm. lét þan orð falla, að þeir kaupsamningar, sem hefðu verið gerðir milli samvinnufélaganna og verkalýðsfélaganna á Norðurlandi á s.l. sumri, hefðu verið ófrjálsir samningar, að samvinnufélögin hefðu ekki unnið að þessum samningum sem frjáls aðili, þeir hefðu verið undir fyrirmælum annars staðar að og látið óviðkomandi aðila stjórna sínum gerðum. Ég veit, að hv. frsm. þekkir það vel til þessara mála, að hann veit, að þetta er ósatt. Þeir aðilar, sem sömdu af hálfu samvinnufélaganna á Norðurlandi á s.l. sumri, voru ekki undir neinum áhrifum annars staðar að, eins og hann vildi vera láta. Þeir gerðu þessa samninga fullkomlega sem frjálsir aðilar. Og það sannast líka bezt á því, að þeir samningar, sem hér voru gerðir, voru eðlilegir og heilbrigðir samningar. Hér var eingöngu samið um það, sem sannanlega liggur nú fyrir að atvinanvegirnir gátu og geta vel risið undir. Það hefur sannazt síðar, og ég skal aðeins nefna nokkur dæmi þess, að atvinnuvegirnir höfðu fullkomlega getu til að standa undir þeim samningum og þess vegna voru þetta eðlilegir og heilbrigðir samningar, því að að sjálfsögðu eiga atvinnurekendur að láta launþega fá það, sem þeir eru færir um að greiða, í samræmi við getu atvinnuveganna. Það má t.d. strax nefna það, að þeir atvinnurekendur, sem unnu að síldarsöltun og síldarbræðslu á Norðurlandi á s.l. sumri, gátu ekki aðeins tekið á sig þessa kauphækkun, sem hér var nm að ræða, heldur líka hækkað bæði verðið á bræðslusíldinni og saltsíldinni. Það sýndi sig þess vegna vel, að síldarútvegurinn gat vel risið undir þessari kauphækkun og borið hana og greitt hærra verð eftir en áður þrátt fyrir það, að hann tæki á sig þessa kauphækkun. Það hefur líka sýnt sig hér hjá iðnaðarfyrirtækjunum í Reykjavík, að þan gátu vel risið undir þessari kauphækkun, vegna þess að þau hafa ekki að neinu leyti, nema kannske í örfáum tilfellum, fengið hana tekna til greina í sambandi við verðlagningu á vörum sínum. Iðnaðurinn gat þess vegna vel risið undir þessari kauphækkun, sem hér var samið um. Og það hefur líka verið sýnt fram á, að þan fyrirtæki, sem hafa verið talin standa einna höllustum fæti í landinu, þar sem eru frystihúsin, gátu vel risið undir þeirri hækkun, sem hér var um að ræða. Það hefur þegar verið gert hér í umr. á Alþingi að rekja þau rök, sem að því liggja, og sé ég þess vegna ekki ástæðu til að rifja það upp, nema frekara tilefni gefist til þess. Þannig má halda áfram að rekja dæmin, sem sanna það, að þeir kaupsamningar, sem samvinnufélögin á Norðurlandi gerðu við verkalýðsfélögin á s.1. sumri, voru eðlilegir og heilbrigðir samningar, vegna þess að það liggur sannanlega fyrir, að atvinnuvegirnir gátu vel risið undir þessum samningum og gátu greitt það kaup, sem samið var um. Þess vegna voru þetta eðlilegir og heilbrigðir samningar og ekki hægt að tala um það, að hér hafi atvinnurekendur verið undir neinni þvingun eða kúgun eða fyrirmælum, þegar þeir voru að ganga frá þessum samningum.

En það er annað í þessu sambandi, sem rétt er að vekja athygli á og er það langsamlega athyglisverðasta í sambandi við þessi mál, og það er, að það voru aðrir atvinnurekendur en samvinnufélögin, sem voru undir þvingun og fengu ekki að vinna — eins og þeir hefðu kannske helzt kosið. Strax á s.l. hausti, þegar verkalýðssamtökin byrjuðu að bera fram kröfur sinar, sneri ríkisstj, sér til þeirra gömlu manna, sem stjórna Vinnuveitendasambandi Íslands, og hvíslaði í eyra þeirra: Nú skuluð þið standa hart á móti öllum kaupkröfum. Nú skuluð þið nota tækifærið til að slá niður verkalýðshreyfinguna í landinu. Nú hafið þið einhuga ríkisstjórn á bak við ykkur. Nú hafið þið ríkisvaldið á bak við ykkur. Nú skuluð þið bara standa öfluglega á móti öllum kröfum og í eitt skipti fyrir öll slá niður verkalýðshreyfinguna í landinu. — Þetta var það, sem var hvíslað af hálfu ríkisstj. í eyru hinna gömlu atvinnurekenda, sem stjórna Vinnuveitendasambandi Íslands, á s.l. hausti. Í framhaldi af þessu gerðist það, að þessir gömlu atvinnurekendur, sem stjórna Vinnuveitendasambandi Íslands, sú litla klíka, sem ræður þar, hún sendi frá sér eitthvert hið einstæðasta plagg, sem til er í allri sögu verkalýðsmála á Íslandi, eitthvert hið mesta móðuharðindaplagg, ef svo mætti segja, sem þekkt er í íslenzkri sögu. Þar var sagt: Afkoma atvinnuveganna er þannig, að það er alveg útilokað, að þeir taki á sig hina minnstu kauphækkun. Það kemur ekki til mála að veita hina minnstu kauphækkun að þessu sinni. Við önzum ekki neinum kröfum um kauphækkun.

Þetta var það, sem þeir, sem stjórnuðu Vinnuveitendasambandi Íslands, gerðu á s.l. vetri að undirlagi hæstv. ríkisstj. Þannig var byrjað á því að taka á móti eðlilegum óskum verkalýðshreyfingarinnar um það, að nokkrar leiðréttingar yrðu gerðar á kjörum þeirra manna, sem hún er fulltrúi fyrir. Þessu var haldið áfram.

Þegar ekki var lengur hægt að standa á þessu móðuharðindaplaggi, var boðin 3% kauphækkun. Að sjálfsögðu litu verkalýðsfélögin ekki við því tilboði. Og svo kom 6% tilboðið. Þannig var þessu haldið áfram, þannig var þessu stefnt öllu saman í hreint óefni, með því fyrst að segja, að það væri ekki hægt að veita neina kauphækkun, síðan 3% og svo 6%, sem þó sannanlega var minna en það, sem atvinnuvegirnir gátu undir risið. Þetta var gert vegna þess, að þeir atvinnurekendur, sem stjórnuðu Vinnuveitendasambandi Íslands, voru raunverulega ófrjálsir, þeir létu stjórnast af fyrirmælum og undirlagi ríkisstj., og þetta var orsök þeirrar hörðu deilu, sem átti sér stað hér í Reykjavík og í Hafnarfirði á s.l. sumri. Ef atvinnurekendur hér sunnanlands hefðu tekið skynsamlega á þessum málum í upphafi, eins og atvinnurekendur eða samvinnufélög á Norðurlandi gerðu, hefði aldrei komið til þeirra átaka, hinna löngu verkfalla, sem hér urðu sunnanlands á s.l. sumri. Það var eingöngu vegna þess, að þessir atvinnurekendur létu stjórnast af öflum á bak við sig, létu stjórnast af ríkisstj., að þeir voru ófrjálsir í raun og veru og þvingaðir til að gera það, sem þeir gerðu, að hér urðu hin löngu verkföll, sem áttu sér stað á s.l. sumri. Þetta var orsök verkfallanna og ekkert annað. Það var þessi þvingun þeirra atvinnurekenda, sem réðu í Vinnuveitendasambandi Íslands, sem knúði þessi verkföll fram.

En það veit ég líka, hv. flm. veit það og sennilega allir þm. hér inni, að það var engan veginn, að atvinnurekendur væru á einu máli um þessa afstöðu. Ég þekki sjálfur persónulega marga atvinnurekendur, sem hafa látið það í ljós, að hér hafi verið fullkomlega farið rangt að af hálfu Vinnuveitendasambands Íslands, það hafi verið hin óheppilegustu vinnubrögð, sem hér hafi verið í frammi höfð. Það hafi verið hið sama og að slá verkalýðsfélögin og hvetja þau til mótspyrnu að segja í upphafi samninganna: Við getum enga kauphækkun veitt og við veitum enga kauphækkun, — þegar vitanlegt var, að það var hægt og það var ekki hægt að komast hjá því, að eitthvað slíkt yrði gert af hálfu vinnuveitenda.

Það er vissulega ástæða til þess að draga þetta fram hér í þessum umr. og sérstök ástæða til þess vegna þess, sem hv. frsm. sagði, að það var þetta ófrelsi nokkurra vinnuveitenda hér sunnanlands, sem réð því fyrst og fremst, að þessi miklu verkföll urðu hér á s.l. sumri.

En mér finnst rétt að minnast á það í framhaldi af þessu, sem kom hér að nokkru leyti fram í ræðu hv. flm. og kom þó betur fram í vantraustsumr., að hann hefur verið að harma það, að ríkisstj. skyldi ekki lögfesta 6% kauphækkun á s.l. sumri, eða það sáttatilboð, sem sáttasemjari ríkisins gerði að undirlagi ríkisstj. Hann hefur m.ö.o. verið að harma, að það skyldi ekki vera lögfest helmingi minni kauphækkun en sannanlegt er að atvinnuvegirnir gátu veitt og ég hef fært hér dæmi að og má færa fleiri. Hann hefur verið að harma það, þessi Alþýðuflokksmaður, að ríkisstj. skyldi ekki lögbinda helmingi minni kauphækkun en sannanlegt var, að atvinnuvegirnir gátu risið undir. Ég hygg, að þeir menn, sem þekkja til baráttu manna eins og Jóns Baldvinssonar, Héðins Valdimarssonar og Sigurjóns Á. Ólafssonar, mundu verða undrandi yfir því, að nú skuli vera ráðamenn í Alþfl., sem halda fram slíkum skoðunum eins og þessari, — menn, sem harma, að það skyldi ekki á s.l. sumri vera lögfest helmingi minni kauphækkun en sannanlegt var að atvinnuvegirnir gátu vel þolað.

Það er í framhaldi af þessu, sem hv. flm. og ýmsir flokksmenn hans eru nú að tala nm. að það þurfi að fara meira inn á þessa braut, og að það sé mikil spurning, hvort það sé ekki rétt að afnema verkfallsréttinn með öllu, eins og þeir vildu að gert væri á s.l. sumri, því að vitanlega vildu þeir ekkert annað þá en það, að kaupið væri lögfest, sem þýddi það, að verkfallsrétturinn væri afnuminn.

Það er í tilefni af þessu ekki úr vegi að rifja það upp með því að skírskota til erlendrar reynslu, hvort það gefist vel að afnema samningsrétt verkalýðssamtakanna, hafa verkalýðssamtökin ófrjáls og engan verkfallsrétt. Þetta er auðveldast að gera með því að bera saman framfarirnar og lífskjörin í þeim löndum, þar sem verkalýðsfélögin eru frjáls, þar sem verkfallsréttur er ríkjandi, og svo í hinum löndunum, þar sem verkalýðssamtökin eru ófrjáls og þar sem ekki er verkfallsréttur. Ef það er nú þannig, eins og hér er verið að gefa í skyn, að allt það, sem afvega fer í þjóðfélaginu, stafi raunverulega af því, að það sé til verkfallsréttur og að menn geri verkföll öðru hverju, — ef það er rétt, ættu lífskjörin og framfarirnar að vera miklu meiri í þeim löndum, þar sem verkalýðsfélögin eru ekki frjáls og þar sem verkfallsrétturinn er afnuminn, heldur en í hinum löndunum, þar sem verkalýðurinn er frjáls til að gera verkföll, þegar hann telur óhjákvæmilega nauðsyn til þess. Við getum í þessu sambandi t.d. borið saman Sovétríkin og Bandaríkin. Í Sovétríkjunum eru verkalýðssamtökin ekki frjáls og þar er ekki verkfallsréttur. Aftur á móti í Bandarfkjunum eru verkalýðssamtökin frjáls, og þar er verkfallsréttur. Hvað segir nú hv. flm., ef hann ber saman framfarirnar og lífskjörin í þessum löndum? Finnst honum, að niðurstaðan muni þá verða sú, að það sé eðlilegt og rétt stefna að berjast fyrir lögfestingu á kaupgjaldi, að berjast fyrir því, að verkfallsrétturinn sé afnuminn, eins og hann vildi að gert yrði á s.l. sumri? Ég hygg, að ef hann athugar þessi mál gaumgæfilega, þá muni hann komast að þeirri niðurstöðu, að sú stefna hans hafi verið algerlega röng að beita sér fyrir því á s.l. sumri, að hér yrði verkfallsrétturinn afnuminn og kaupið lögfest með brbl.

Og það má halda þessum samanburði áfram. Við skulum taka t.d. annars vegar lönd eins og Portúgal og Spán, þar sem verkalýðsfélögin eru ófrjáls og þar sem enginn verkfallsréttur er, og svo t.d. Norðurlönd, Svíþjóð, Danmörk og Noreg. Ef hans kenning væri rétt, að það sé rétt að lögfesta kaup og það sé rétt að afnema verkfallsréttinn, þá ættu lífskjörin að vera miklu betri á Spáni og í Portúgal heldur en á Norðurlöndum. Er það niðurstaðan? Vissulega ekki. Lífskjörin eru miklu betri á Norðurlöndum og framfarirnar miklu meiri þar. En nú kunna einhverjir að spyrja: Hafa hin frjálsu verkalýðssamtök og verkfallsrétturinn eitthvað að segja í þessu sambandi? Já, þau hafa mikið að segja í þessu sambandi, því að það var alveg rétt, sem kom fram hér hjá hv. síðasta ræðumanni, að hin frjálsu verkalýðssamtök og verkfallsrétturinn er ein mesta driffjöðrin í hinum kapítalistísku þjóðfélögum, þar sem þessi réttindi fá að njóta sín, og þess vegna er afkoma miklu betri þar en í hinum kapítalistísku löndunum, þar sem þessi réttindi eru ekki, og í kommúnistalöndunum, þar sem þessi réttindi eru ekki. Með samtökum sínum og verkfallsréttinum, þó að honum sé beitt hóflega, koma hinir mörgu einstaklingar, þeir sem standa að verkalýðsfélögunum, því til leiðar, að þeir fá miklu betri kjör en ella, og þetta skapar aukna veltu og auknar framkvæmdir. Þetta verður til þess, að það verða miklu fleiri einstaklingar en ella, sem geta notið framtaks síns og komið þannig á aukinni framþróun og framförum í þjóðfélögunum. Þess vegna er það engin tilviljun, að lífskjörin ern miklu betri, að framfarirnar eru miklu meiri og uppbyggingin er miklu lengra á veg komin í þeim löndum, sem búa við frjáls verkalýðsfélög og frjálsan verkfallsrétt, heldur en í þeim löndum, þar sem þessi réttur hefur verið afnuminn, eins og hv. þm. vildi að gert yrði hér á s.l. sumri.

Ég hygg, að það sé fullkomin ástæða til þess, að menn íhugi vel þessi sannindi, vegna þess að nú heyrist meira og meira nm það talað, að það, sem sé kannske eitthvað hið nauðsynlegasta í þessu þjóðfélagi, það sé að skerða verkfallsréttinn, það sé að draga úr frelsi verkalýðshreyfingarinnar og láta einhverjar þvinganir koma þar í staðinn. Það er vissulega ekki þetta, sem er að í okkar þjóðfélagi. Það er ekki að í okkar þjóðfélagi, að kaupgjald sé hér hærra en í öðrum löndum, því að sannanlegt er, að það er nú miklu lægra. Það er annað, sem er að hjá okkur. Það er það, að við þurfum að vinna betur að því að byggja upp atvinnuvegi okkar, bæta vinnubrögðin í þeim og auka tæknina. Það er það, sem stendur upp á atvinnurekendur um að standa sig, en ekki verkalýðinn, þó að sjálfsagt sé, að hann vinni að því að eiga þátt í slíkum framkvæmdum, eftir því sem auðið er.

Ég vil svo að síðustu víkja nokkrum orðum að því viðhorfi, sem nú er í þjóðfélagi okkar. Það viðhorf er að ýmsu leyti svipað og var á s.l. hausti, þegar verkalýðsfélögin byrjuðu að bera fram kröfur sínar. Nú hafa mörg verkalýðsfélög, síðan gengislækkunin átti sér stað, sagt upp kaupsamningum og búa sig undir það að bera fram nýjar kröfur til að mæta þeirri kjaraskerðingu, sem hlotizt hefur af gengislækkuninni. Seinast hygg ég, að það hafi verið Iðja, félag, sem sjálfstæðismenn stjórna, sem sagði upp kaupgjaldssamningum sínum hér í Reykjavík. Og nú er spurningin þessi: Hvernig ætlar hæstv. ríkisstj. að bregðast við? Ætlar hæstv. ríkisstj. að bregðast við á sama hátt og s.l. vetur, þegar hún hvíslaði því í eyru þeirra atvinnurekenda, sem stjórna Vinnuveitendasambandi Íslands: Bregðizt þið nú hart við, beitið þið bolabrögðum, gefið frá ykkur nýtt móðuharðindaplagg og reynið nú, fyrst það tókst ekki á þessu ári, að slá verkalýðshreyfinguna niður á næsta ári? — Ætlar ríkisstj, að hvetja til sundrungar og stéttastyrjaldar í þjóðfélaginu nú í annað sinn, eins og hún gerði á þessu ári? Eða kýs ríkisstj. að gera það, sem er miklu skynsamlegra, og það, sem er raunverulega hennar hlutverk, að vinna að því í tíma, að reynt sé að ná hóflegu samkomulagi á milli þessara aðila? Vissulega er það leiðin, sem hún ætti að fara.

Ég er ekki sömu skoðunar og hv. 3. þm. Reykv. um það, að ríkisstj. eigi að leiða sem mest hjá sér mál eins og þessi. Ég álít, að ríkisstj. eigi að hafa mikil afskipti af slíkum málum, ekki til þess að taka afstöðu með öðrum aðilanum, eins ag hún hefur gert að undanförnu, heldur til þess að vinna að því að koma á sáttum og samkomulagi á milli stéttanna í þjóðfélaginu. Við Íslendingar búum í fámennu þjóðfélagi og að mörgu leyti vanmegna, og þess vegna er það eitt af því, sem ríður allra mest á, að það sé unnið að því að fylkja þegnunum saman, að það sé unnið að því að fylkja stéttunum saman, en ekki að sundra þeim og magna stéttastyrjöld, eins og því miður var gert hér af hálfu hæstv. ríkisstj. á því ári, sem nú er að líða, með þeim afleiðingum, sem hv. flm. lýsti hér í framsöguræðu sinni, að hér hefðu orðið á þessu ári ekki færri en 15 stór verkföll. Ég álít, að ríkisstj. eigi að koma í veg fyrir það, ef hún mögulega getur, að slíkt eigi eftir að endurtaka sig á næsta ári. Ég álít, að hún eigi nú að vinna að því, að atvinnurekendur og fulltrúar atvinnurekenda og fulltrúar verkalýðsfélaganna setjist saman að samningaborðinu og reyni að leysa þessi mál í bróðerni, reyni með því að koma í veg fyrir það, að ný stéttastyrjöld og ný stéttaátök þurfi að eiga sér stað á næsta ári, eins og átt hafa sér stað á þessu ári. Og ég hef trú á því, að ef atvinnurekendur fara aðra leið en á s.l. ári, ef þeir koma ekki með nýtt móðuharðindaplagg og ef þeir þrjózkast ekki við, eins og þeir þá gerðu, heldur sýna sanngirni og bjóða fram af hálfu atvinnuveganna það, sem þeir geta hóflega risið undir, eins og samvinnumenn gerðu á Norðurlandi, þá megi enn leysa þessi mál farsællega, þrátt fyrir það að hin nýja gengislækkun hafi aukið nokkuð á erfiðleikana í þessu sambandi frá því, sem áður var. En þetta er hins vegar tvímælalaust leiðin, sem hæstv. ríkisstj. á að fara, leiðin, sem hv. stjórnarflokkar eiga að fara. Þeir eiga að hverfa frá sundrungarleiðinni, hverfa frá þeirri afstöðu sinni að fylkja stétt gegn stétt, eins og gert var nú á þessu ári og hefur leitt af sér 15 stór verkföll. Þeir eiga að vinna að því að jafna deilur í þjóðfélaginu með samkomulagi, með því að taka heilbrigt tillit til þeirra óska og krafna, sem launasamtökin bera fram. Ég er sannfærður um, að ef þannig yrði unnið af hæstv. ríkisstj., mundi ekki standa á verkalýðssamtökunum og samtökum launamanna að taka í þá framréttu hönd. En hins vegar ef ríkisstj. fer að á sama hátt og hún gerði á þessu ári, þá getur hún átt von á því að mæta samtökum launamanna og bænda og annarra, sem nú er þjarmað að, því þó að þessir menn vilji samkomulag fyrst af öllu og vilji leysa málin friðsamlega, þá gildir það um þá, er Davíð Stefánsson orðar í einu af kvæðum sínum, að „þeir, sem stríði vilja verjast, verða stundum fyrst að berjast”.