29.11.1961
Sameinað þing: 18. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 476 í D-deild Alþingistíðinda. (3349)

57. mál, heyverkunarmál

Flm. (Ágúst Þorvaldsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram till. þá, sem er til umr. á þskj. 74, ásamt sex öðrum hv. alþm. Till. þessi hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa sex manna nefnd til þess að gera tillögur um almennar ráðstafanir með lögum eða á annan hátt, er að því miði að gera heyverkun bænda sem öruggusta og ódýrasta. Nm. skulu skipaðir eftir tilnefningu Búnaðarfélags Íslands, Stéttarsambands bænda, tilraunastöðvar háskólans í meinafræði á Keldum, tilraunaráðs búfjárræktar, verkfæranefndar ríkisins og raforkumálaskrifstofunnar, einn tilnefndur af hverjum aðila. N. kýs sér sjálf formann. N. athugi sérstaklega, hvernig auka megi súgþurrkun og votheysgerð sem allra mest, t.d. með því að hækka ríkisframlag og veita lán til þess að koma upp súgþurrkunartækjum, lofthitun í sambandi við blástur, votheysgeymslum, færiböndum og saxblásurum. Enn fremur láti hún uppi, að fengnum sérfræðilegum upplýsingum, álit sitt á möguleikum til þess að koma í veg fyrir tjón á sauðfé vegna votheysgjafar. N, ljúki störfum svo fljótt sem frekast er unnt og skili tillögum um lánveitingar til ríkisstj. svo tímanlega, að unnt sé að taka tillit til þeirra á árinu 1962. Kostnaður við nefndarstörf, þ. á m. við fræðilega aðstoð, greiðist úr ríkissjóði:

Með till. er farið fram á, að sem fyrst verði athugað af sérfróðum mönnum, hvernig bezt og haganlegast verði að því unnið af hálfu ríkisins, að bændur geti almennt og sem allra fyrst aflað sér í fyrsta lagi véla til súgþurrkunar og í öðru lagi véla eða tækniútbúnaðar til þess að flýta og létta vinnu við votheysgerð, og í þriðja lagi, að hraðað verði sem mest rannsóknum til að koma í veg fyrir votheyseitrun í sauðfé.

Í grg. þeirri, er fylgir þessari till., er rakið og nokkuð rökstutt, hversu gífurlega þýðingarmikið það er fyrir landbúnað okkar að flýta sem mest tæknibúnaði þeim, sem reynslan hefur þegar sýnt að getur komið í veg fyrir, að hey skemmist eða eyðileggist í votviðrasumrum, eins og þráfaldlega hefur komið fyrir í heilum landshlutum. Þau ár eru færri, að ekki komi til vandræða af þessum sökum í einhverjum landshluta eða byggðarlagi.

Íslenzkir bændur eru nú farnir að byggja búskap sinn að mestu á ræktuðu landi. Ræktun landsins og áburður á það er hvort tveggja mjög dýrt. Þurrkun heyja af ræktuðu landi er, eins og allir vita, seinlegri en af óræktuðu landi, og ef ekki er gætt fyllstu varkárni og aðgæzlu, þá getur hiti af slíku heyi valdið bruna og stórskemmdum. Hrakin hey eru lítils virði, þótt hægt kunni að vera að láta skepnur halda lifi á slíkum heyjum, ef fóðurbætir er gefinn í stórum stíl.

Það þarf því varla að orðlengja um þá miklu þjóðhagslegu þýðingu, sem aukin tækni í sambandi við heyverkunina hefur, og ég veit, að hver maður skilur, hversu mikla þýðingu það hefur fyrir hvern þann bónda eða hvern þann mann, sem atvinnurekstur stundar, að tryggja afkomu hans sem mest fyrir áföllum af völdum veðráttunnar.

Það hefur sýnt sig á undanförnum árum, að þeir bændur, sem komið hafa upp hjá sér súgþurrkun og hafa samhliða einnig nokkra votheysgerð, þeir geta svo að segja viðstöðulaust haldið áfram að heyja, hvernig sem tíðin er, og þeirra hey eru í fullu gildi til fóðurs. Þeir bændur, sem svo langt eru komnir í tækni, eru hins vegar allt of fáir og er það eðlilegt, þegar á það er litið, að engin stofnun er til, sem lánar fé til slíkra framkvæmda, þ.e.a.s. til vélakaupa, sem nauðsynleg eru til þess að verka heyin í allstórum stíl með votheysgerð og súgþurrkun. Það er að því vikið í grg., sem fylgir þessari till., að súgþurrkunartæki í 1000–1200 hesta hlöðu muni með núverandi verðlagi kosta um 70 þús. kr. og sá tækniútbúnaður, sem er í raun og veru nauðsynlegur til þess, að auðvelt geti talizt að koma hinu þunga, óþurrkaða grasi í votheysturna, muni kosta eitthvað svipað, e.t.v. þó nokkru minna. En það er svo mikið fé, að mjög fáir bændur treysta sér til að eignast þessi mjög svo nauðsynlegu tæki. Væri hins vegar hægt að fá lánsfé til slíkra vélakaupa með viðráðanlegum kjörum, þá er alveg víst, að bændur mundu ráðast í að taka tæknina í sína þjónustu við heyverkunina, og þeim mundi fjölga óðfluga, sem yrðu óháðir tíðarfarinu að mestu um heyverkunina.

Ég er viss um, að í fáu mundi féð fjárhagslega séð renta sig betur. Þær þjóðir, sem ekki taka tæknina á öllum sviðum í þjónustu atvinnuveganna og framleiðslunnar, dragast fljótt aftur úr, og ókyrrð og óánægja í slíkum þjóðfélögum er sífellt vandamál. Við Íslendingar erum svo heppnir að eiga stórt land, þar sem enn má rækta og byggja og nema landið um ófyrirsjáanlegan tíma. Land okkar er að mörgu leyti vel fallið til kvikfjárræktar, en á henni hefur þjóðin lifað að mestu á umliðnum öldum. Undirstaða kvikfjárræktar hér á landi eru hin góðu skilyrði, sem landið hefur til grasræktar. Við Íslendingar getum áreiðanlega margfaldað landbúnaðarframleiðslu okkar á mjög skömmum tíma, ef við tökum tæknina við heyöflunina og heyverkunina í þjónustu okkar almennt. Ég álít, að í áætlunum um framkvæmdir í landbúnaði nú á næstunni ætti að vera númer eitt, að allír bændur á Íslandi væru eftir 5—6 ár búnir að fá þá tækni í hendur, að heyverkun þeirra væri ekki lengur undir tíðarfari og heppni komin, og ég held að þetta sé hægt, ef bændurnir og þjóðfélagið tækju höndum saman um það að láta slíkt takmark ganga fyrir öðru í tandbúnaðarmálum, því að ég tel, að ýmislegt mætti fremur bíða. Þetta er að mínum dómi það nauðsynlegasta.

Ef till. þessi verður samþ. og kemur til framkvæmda, sem ég vonast fastlega eftir, þá finnst mér það ætti að vera fyrsta verk n. að gera áætlun um það, hversu langan tíma þarf til að koma þeirri tækni til hvers bónda í landinu, sem tryggir heyverkunina, og hvað slíkt kosti og hvernig kostnaðarspursmálið verður leyst.

Ég fullyrði, að gætu bændur fengið lánsfé í þessu skyni með viðráðanlegum kjörum, þá er engin hætta fyrir þá að leggja í slíkar framkvæmdir sem hér er um rætt, því að þær munu áreiðanlega borga sig og það fljótlega. Og þótt hér verði vissulega um nokkuð stóra fjárhæð að ræða í heild, sem þyrfti, til þess að hægt væri að leysa þessa hlið málsins, þá sé hún þó ekki stærri en svo, að það muni vera mjög viðráðanlegt.

Herra forseti. Ég fjölyrði svo ekki á þessu stigi málsins meira um þetta, en leyfi mér að leggja til, að þessari till. verði nú vísað til síðari umr. og til hv. fjvn.