29.11.1961
Sameinað þing: 18. fundur, 82. löggjafarþing.
Sjá dálk 495 í D-deild Alþingistíðinda. (3391)

79. mál, endurskoðun girðingalaga

Gunnar Gíslason:

Herra forseti. Ég stend ekki upp til þess að andmæla þessari till. til þál. um endurskoðun girðingalaga. Ég er hv. flm. sammála um, að það sé þörf þessarar endurskoðunar og þá ef til vill alveg sérstaklega með tilliti til þeirra atriða, sem á er bent í tillgr. og grg. og fram komu í ræðu hv. frsm. Það er aðeins eitt atriði til viðbótar, sem ég vildi minnast á, þegar rætt er um endurskoðun þessara laga, og hv. 1. flm. minntist ekki á. Það mun vera tekið fram í lögunum, að það sé skylt að halda við öllum girðingum þannig, að búfé stafi ekki hætta af þeim. Nú vitum við, sem úti í sveitunum búum, og raunar allir, sem um landið fara, að á viðhaldi girðinganna er mjög mikill misbrestur og þessu viðhaldi er víða svo ábótavant, að af viðhaldsleysinu stafar einmitt stórhætta fyrir búpening landsmanna. Ég bendi ekki á þetta til þess að álasa bændum í þessum efnum, því að ég veit vel sjálfur, að kostnaður við viðhald girðinga er feikilega mikill, og þegar stefnir í þá átt, að flestir bændur landsins eru að verða einyrkjar og eiga þess varla kost að fá nokkra hjálp við bústörfin, þá hafa þeir svo mikið að starfa, að þeir komast alls ekki yfir þau verkefni, sem þeir þurfa að sinna og vilja gjarnan sinna. Hitt er sjálfsagt líka til, að hér sé um hirðuleysi að ræða, t.d. í því að fjarlægja ekki í burtu girðingaleifar eða leifar þeirra girðinga, sem ekki hefur verið haldið við eða þá lagðar niður, og það er einmitt í þessum girðingaleifum, sem mesta hættan liggur fyrir dýrin. Ég er ekki þess búinn að benda á úrræði þessu efni, það verður sjálfsagt eitt af verkefnum þeirrar endurskoðunar, sem hér er óskað eftir. En mér var að detta það í hug að ef til vill væri samt til bóta, að þau ákvæði væru sett inn í lögin, að sveitarstjórnum væri gert skylt að líta eftir þessu, hverri í sinni sveit. Á þetta vil ég benda þeirri nefnd, sem fær málið til meðferðar, en það hlýtur að koma mjög til álita, hvað á að gera í þessu, þegar girðingalögin eru endurskoðuð. Það er bæði óþrifnaður að þessum girðingaleifum í landinu, og það er eins og allir vita af þeim mikil hætta fyrir búpening.